Hoppa yfir valmynd

Grunngildi

Stefnumörkun í opinberum fjármálum grundvallast á fimm grunngildum: Sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi. Þessi grunngildi eru leiðarljós allra stefnumótunar og ákvarðana Alþingins og stjórnvalda í opinberum fjármálum og endurspeglast þau m.a. í fjármálastefnu og fjármálaáætlun.

Sjálfbærni 

Í fyrstu er horft til sjálfbærni, enda er talið mikilvægast að ná skuldum niður á sjálfbært stig eða eftir atvikum að viðhalda sjálfbæri skuldastöðu.

Varfærni 

Í annan stað skal gæta almennrar varfærni og komast hjá ákvörðunum eða aðstæðum sem geta haft ófyrirséðar eða neikvæðar afleiðingar. Með áherslu á varfærni er gerð krafa um að stjórnvöld leggi raunsætt og varlegt mat á þá þætti sem hafa áhrif á áætlanir og þau markmið sem sett eru fram í þeim.

Jafnvægi og stöðugleiki 

Í þriðja lagi er lögð áhersla á jafnvægi og stöðugleika í efnahagsmálum til lengri tíma, sem stuðlar að skynsamlegri nýtingu framleiðsluþátta og aukinni verðmætasköpun, ásamt því að draga úr skaðsemi og sóun sem leiðir af efnahags- og fjárhagslegri óvissu. Jafnvægi og stöðugleiki styðja við sjálfbærni opinberra fjármála.

Festa 

Í fjórða lagi er lögð áhersla á festu í fjármála- og efnahagsstjórn. Í því felst að þróun opinberra fjármála sé fyrirsjáanleg og breytingar markvissar og vel ígrundaðar. Frávik frá t.d. tekju- og útgjaldaáætlunum raska þannig forsendum gildandi stefnu og áætlana um þróun opinberra fjármála, en slíkt eykur á óvissu og dregur úr trausti og framleiðni hagkerfisins.

Gagnsæi 

Í fimmta og síðasta lagi er mikilvægt að tryggja gagnsæi með því að setja mælanleg markmið um þróun opinberra fjármála og að árangur sé metinn með skipulegum og markvissum hætti. Þetta felur í sér að gagnsæi er viðhaft við undirbúning fjárlaga, framkvæmd þeirra, upplýsingagjöf og eftirlit.

Síðast uppfært: 9.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum