Hoppa yfir valmynd
29.04.2025 Innviðaráðuneytið

Ný lög um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga tryggi markvissari og réttlátari úthlutun

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra - mynd

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi að nýjum heildarlögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Markmið með breytingum á regluverki Jöfnunarsjóðs er að stuðla að markvissari og réttlátari úthlutun úr sjóðnum, einfalda skipulag sjóðsins og stuðla að því að hann fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar.

„Það er nauðsynlegt að Jöfnunarsjóður þróist í takt við viðamiklar breytingar sem hafa orðið á sveitarstjórnarstiginu á liðnum árum. Sveitarfélögum hefur fækkað úr 204 í 62 frá árinu 1990 og á sama tíma hafa þau tekið við veigamiklum nýjum verkefnum, t.d. við yfirfærslu grunnskólans og málefna fatlaðs fólks. Þrátt fyrir þetta hefur regluverk sjóðsins lítið breyst. Skyldur sveitarfélaga gagnvart íbúum hvíla á sveitarfélögunum óháð stærð þeirra og staðsetningu. Markviss jöfnun er forsenda þess að öll sveitarfélög geti sinnt lögbundinni þjónustu við íbúa og skapar skilyrði fyrir að jafna lífsgæði um landið,“ segir Eyjólfur.

Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi hans. Þannig er stuðlað að því að sveitarfélögin standi á jafnari grunni, að teknu tilliti til land- og lýðfræðilegra þátta auk fjárhagslegs styrks, til að sinna lögbundnum verkefnum sínum.

„Ný löggjöf verður að styrkja mikilvægasta hlutverk sjóðsins sem er að stuðla að því að öll sveitarfélög geti sinnt lögbundinni þjónustu við íbúa sína. Jöfnunarsjóðurinn er í raun félagslegt millifærslukerfi sveitarfélaganna. Slíkt kerfi þarf að vera hlutlægt og byggja á traustum forsendum og mælikvörðum. Þá er mikilvægt að jöfnunarkerfið skerði ekki athafnafrelsi sveitarstjórna eða dragi úr hvötum til umbóta og framfara,“ segir Eyjólfur.

Helstu nýjungar

Veigamesta breytingin með frumvarpinu er að nýtt líkan Jöfnunarsjóðs mun leysa af hólmi núverandi tekjujöfnunar-, útgjaldajöfnunar- og fasteignaskattsframlög. Um er að ræða gagnsætt líkan sem sameinar ofangreind framlög í eitt framlag. Helstu nýjungar í frumvarpinu eru:

  • Málefni Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eru færð í sérstök ný heildarlög en áður var fjallað um málefni sjóðsins í lögum um tekjustofna sveitarfélaga.
  • Núverandi tekjujöfnunar-, útgjaldajöfnunar- og fasteignaskattsframlög verða sameinuð í eitt framlag til að tryggja að úthlutun sé í takt við markmið um sanngjarna jöfnun milli sveitarfélaga.
  • Framlög vegna nemenda með íslensku sem annað mál veitt öllum sveitarfélögum sem uppfylla skilyrði.
  • Reykjavíkurborg og Akureyrarbær fá sérstakt jöfnunarframlag vegna höfuðstaðarálags. Það er veitt til að koma til móts við mikilvæga þjónustu sem Reykjavík og Akureyri veita öllum íbúum landsins.

Nánar um aðdragandann

Fjallað hefur verið um breytingar á úthlutunarreglum Jöfnunarsjóðs í mörg ár. Frumvarpið var samið á grundvelli tillagna starfshóps sem ráðherra skipaði árið 2023 til að endurskoða regluverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Markmiðið var að bæta gæði jöfnunar, einfalda útreikninga og skipu¬lag sjóðsins og tryggja að sjóðurinn fylgi þróun sveitarfélagagerðar.

Frumvarpið hefur tvisvar verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og einnig komið til umfjöllunar á Alþingi þar sem leitað var eftir umsögnum sveitarfélaga og annarra hagaðila. Fjöldi kynningarfunda hefur verið haldinn og tillögurnar því fengið mikla kynningu.

Breytingar voru gerðar á frumvarpinu til að koma til móts við ýmsar ábendingar og athugasemdir. Frumvarp í núverandi mynd var kynnt í samráðsgátt í febrúar sl.

Breytingarnar er liður í því að ná fram markmiðum þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í mál¬efnum sveitarfélaga fyrir árin 2024–2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028. Markmið og áherslur þingsályktunarinnar eru m.a. að sveitarfélög á Íslandi verði öflugur og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi, sjálfstjórn og ábyrgð sveitarfélaga verði virt og að tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta