25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta
Umfang
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð heilbrigðisráðherra. Það skiptist í tvo málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2022–2024.

Framtíðarsýn og meginmarkmið
Framtíðarsýn málefnasviðsins er að einstaklingar í þörf fyrir hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu njóti öruggrar, aðgengilegrar og hagkvæmrar heilbrigðisþjónustu á réttu þjónustustigi. Tryggja skal virðingu fyrir mannlegri reisn þrátt fyrir skerðingu á getu og færni vegna heilsubrests. Endurhæfingarþjónusta grundvallast á þörfum notenda og kröfum um gæði, skilvirkni og árangur þar sem fylgt er lífsálfélagslegri hugmyndafræði um heilsu. Heilbrigðisþjónusta sem er veitt öldruðum styrkir getu þeirra til að búa sem lengst á eigin heimili.
Meginmarkmið málefnasviðsins er að tryggja stigskiptingu þjónustunnar þannig að lægra þjónustustig verði fullnýtt áður en farið er yfir í það næsta.
Fjármögnun
Stærsta verkefni málefnasviðsins er áframhaldandi fjölgun hjúkrunarrýma ásamt endurbættum hjúkrunarrýmum þar sem þörf er á. Á árunum 2025–2029 er gert ráð fyrir að tekin verði í notkun um 765 ný hjúkrunarrými og 222 endurbætt rými.
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Helstu áherslur 2025–2029
25.1 Hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrými
Verkefni
Undir málaflokkinn fellur starfsemi hjúkrunar- og dvalarrýma á hjúkrunarheimilum og á heilbrigðisstofnunum. Undir málaflokkinn fellur einnig dagdvöl, almenn og sérhæfð, og Framkvæmdasjóður aldraðra.
Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við rekstraraðila hjúkrunar- og dvalarrýma um rekstur þeirra og fá þeir greitt samkvæmt daggjaldi líkt og verið hefur. Hjúkrunar- og dvalarrými eru einnig rekin af heilbrigðisstofnunum heilbrigðisumdæma.
Framkvæmdasjóður aldraðra stuðlar að uppbyggingu og eflingu öldrunarþjónustu um land allt. Sjóðurinn fær tekjur af sérstöku gjaldi sem lagt er á þá sem eru á aldrinum 16–69 ára og greiða tekjuskatt.
Helstu lög sem gilda um málaflokkinn eru lög um málefni aldraða, nr. 125/1999, lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 með síðari breytingum, lög um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, og lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. Unnið er að breytingum á lögum um málefni aldraðra hvað varðar fyrirkomulag á færni- og heilsumati. Verkefnastjórn um heildarendurskoðun á þjónustu við aldraða (Gott að eldast) sem skipuð var af heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra vinnur nú að innleiðingu þeirra 19 aðgerða sem lagðar voru til í þingsályktun um samþættingu þjónustu við aldraða og samþykkt var á Alþingi 10. maí 2023. Meðal tillagnanna er endurskoðun laga sem lúta að þjónustuflokknum.
Helstu áskoranir
Helstu áskoranir málaflokksins í heild tengjast breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og fjölgun aldraðra. Þessar áskoranir tengjast beint vinnu við greiningu á langtímahorfum í efnahagsmálum og opinberum fjármálum, sbr. 9. og 33. gr. laga um opinber fjármál.
Hlutfall fólks 67 ára og eldra af mannfjölda var 13% árið 2023 og reiknað er með að það verði 16% árið 2040. Þá verða aldraðir orðnir um 78.500 í stað um 50.500 árið 2023. Með hækkandi aldri má gera ráð fyrir fjölgun í hópi þeirra sem glíma við aldurstengda sjúkdóma af einhverju tagi. Mikilvægt er að þjónusta hverju sinni taki mið af því markmiði að fólk sé stutt til sjálfsbjargar, vinnufærni og sjálfstæðrar búsetu heima sem lengst og að þjónustan sé veitt á réttum tíma og á réttu þjónustustigi.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að auðvelda eigi eldra fólki að búa sem lengst heima með viðeigandi stuðningi og þjónustu. Þar segir einnig: „Áfram verða þróaðar fjölbreyttari búsetu- og þjónustuleiðir til að auðvelda eldra fólki að búa sem lengst heima, svo sem með sveigjanlegri dagþjálfun ...“ Í samræmi við viðmið nágrannalanda er stefnt að því að a.m.k. 85% einstaklinga 80 ára og eldri geti búið á eigin heimili með viðeigandi aðstoð. Í ársbyrjun 2024 búa 84% einstaklinga 80 ára og eldri á eigin heimili.
Almenn hjúkrunarrými á landinu voru alls 2.829 í lok árs 2023 og hafði þeim fjölgað um 39 rými frá árslokum 2022. Ef miðað er við heildarfjölda íbúa 67 ára og eldri búa um 5,6% þess aldurshóps á hjúkrunarheimili á landinu öllu. Ef gert er ráð fyrir sambærilegri nýtingu hjúkrunarrýma og nú er þarf að fjölga hjúkrunarrýmum um 653 fram til ársins 2029. Í Framkvæmdaáætlun um byggingu hjúkrunarrýma er gert ráð fyrir 404 nýjum rýmum á landinu öllu sem opnuð verða á árabilinu 2025–2029. Framkvæmdaáætlunin var lögð fram áður en tillögur starfshóps um breytt fasteignafyrirkomulag hjúkrunarheimila lágu fyrir og mun hluti þeirra rýma sem gert var ráð fyrir í framkvæmdaáætluninni færast yfir í nýtt kerfi. Vegna uppsafnaðrar þarfar fyrir hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu er gert ráð fyrir leigu á fasteignum sem samanlagt munu rúma 200–300 hjúkrunarrými. Auk þess hefur umfang þegar umsaminna framkvæmda verið aukið sem leiðir til fleiri rýma en áður var áætlað.
Einnig er mikilvægt að vinna áfram með áhersluatriði í stefnu í geðheilbrigðismálum þar sem lögð er áhersla á að byggja upp aukna þekkingu og hæfni á hjúkrunarheimilum, heimahjúkrun og geðheilsuteymum til að veita öldruðu fólki geðheilbrigðisþjónustu. Sú stefna er í takt við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar um geðheilbrigði þar sem fjölbreytt geðheilbrigðisþjónusta og forvarnir eru í forgrunni.
Einnig felst áskorun í óskýrum skilum ábyrgðar milli ríkis og sveitarfélaga til að mæta þörfum íbúanna fyrir þjónustu á réttu þjónustustigi. Það getur dregið úr skilvirkni þjónustunnar og hagkvæmni í nýtingu fjár. Samþætting þjónustu í anda þess sem unnið er að í Gott að eldast miðar að því að auka skilvirkni og hagkvæmni.
Mönnun fagfólks og ófaglærðs fólks er og mun verða mikil áskorun á komandi árum vegna samkeppni um mannafla. Lögð er áhersla á aukna nýtingu velferðartækni í þjónustu í málaflokknum.
Ákvarðanir varðandi hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrými hafa mikil kynja- og jafnréttisáhrif og á það við um þau sem starfa við þessa þjónustu sem og þau sem eiga rétt á þjónustunni og aðstandendur þeirra. Skoðun á kynjamun hefur hingað til einskorðast við tvö kyn en mikilvægt er horfa til fleiri kynja í frekari rannsóknum. Konur eru oftar en karlar skráðar aðalumönnunaraðilar og einnig annast þær oftar aðstandendur sína en karlar. Karlar eru yngri þegar þeir flytja inn á hjúkrunarheimili og hjúkrunarþyngd þeirra er metin meiri. Nánast enginn munur er á biðtíma kynjanna eftir hjúkrunarrými. Þannig biðu 45,7% kvenna skemur en 90 daga eftir hjúkrunarrými en 45,1% karla. Konur eru í meiri hluta þeirra sem starfa við umönnun á hjúkrunarheimilum en þar eru karlar hlutfallslega fleiri í stjórnunarstöðum.
Tækifæri til umbóta
Helstu tækifæri til umbóta í málaflokknum og til betri nýtingar fjármuna í heilbrigðiskerfinu öllu eru annars vegar að stuðla að því að eldra fólk geti búið sem lengst á eigin heimili með viðeigandi aðstoð, s.s. heimaþjónustu, heimahjúkrun og dagdvöl, og hins vegar að fjölga hjúkrunarrýmum. Tækifærin felast í samþættingu heimaþjónustu, sbr. Gott að eldast, fjölgun dagdvalarrýma og auknu aðgengi að tímabundnum og varanlegum hjúkrunarrýmum, til að koma í veg fyrir langvarandi legu aldraðra í sjúkrarýmum. Í því sambandi má vísa til skýrslu starfshóps á vegum fjármála- og efnahagsráðherra, Þjónusta við aldraða: Árangur fjárveitinga, sem birt var á vef ráðuneytisins í maí 2022. Fyrir liggur að gerðar verða breytingar á fasteignafyrirkomulagi hjúkrunarheimila sem miða að því að auka hagkvæmni og framkvæmdahraða vegna fjárfestinga í hjúkrunarheimilum þannig að aðstaða sé til staðar í samræmi við þjónustuþörf hverju sinni. Núverandi fyrirkomulagi um sameiginlega ábyrgð ríkis og sveitarfélaga verður hætt og framvegis mun ríkissjóður einn bera ábyrgð á fjármögnun vegna uppbyggingar hjúkrunarrýma. Gert er ráð fyrir að tekið verði upp staðlað fyrirkomulag þar sem greidd er leiga í formi nýs húsnæðisgjalds fyrir afnot af rýmum undir eiginlega hjúkrunarstarfsemi. Í stað fjármögnunar húsnæðiskostnaðar hjúkrunarheimila með stofnframlögum og lágmarkshúsnæðisgjaldi verði staðið undir húsnæðiskostnaði með nýju húsnæðisgjaldi sem miðist við eðlilega leigu fyrir húsnæði af þessum toga. Sjá nánar rammagrein nr. 6.
Áhættuþættir
Breyting á aldurssamsetningu þjóðarinnar hefur bæði áhrif á forsendur til mönnunar þjónustunnar og tekjustofna til að standa undir henni. Því er ljóst að finna þarf leiðir til að seinka þörf fyrir hjúkrunarrými. Það er gert með heilsueflingu og öðrum forvörnum aldraðra, með aukinni þjónustu heim, fjölgun dagdvalarrýma og samþættingu þjónustu ríkis og sveitarfélaga.
Markmið og mælikvarðar
Markmið |
HM |
Mælikvarðar |
Staða 2023 |
Viðmið 2025 |
Viðmið 2029 |
---|---|---|---|---|---|
Biðtími eftir hjúkrunarrýmum verði undir 90 dögum. |
3.8 |
Hlutfall þeirra (öll kyn) sem biðu skemur en 90 daga eftir hjúkrunarrými. |
45,45% |
50% |
60% |
25.2 Endurhæfingarþjónusta
Verkefni
Undir málaflokkinn fellur endurhæfingarþjónusta sem er ætluð einstaklingum, óháð aldri, sem þarfnast þverfaglegrar endurhæfingar vegna færniskerðingar af völdum veikinda, slysa eða af öðrum ástæðum. Hér undir fellur endurhæfing ólíkra hópa, t.a.m. vegna krabbameins, verkja, hjarta- og lungnasjúkdóma, offitu og geðvanda. Þjónustan er m.a. veitt á Reykjalundi, Heilsustofnun NLFÍ og SÁÁ. Þjónusta málaflokksins er í flestum tilfellum rekin á grundvelli þjónustusamninga Sjúkratrygginga Íslands við rekstraraðila.
Í apríl 2020 kom út skýrsla með tillögum að endurhæfingarstefnu ráðuneytisins og í september 2021 gaf ráðuneytið út aðgerðaáætlun um heilbrigðistengda endurhæfingu. Árið 2023 var aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til 2027 samþykkt sem þingsályktunartillaga á Alþingi. Áætlunin felur í sér 27 aðgerðir til að hrinda í framkvæmd stefnu í geðheilbrigðismálum þar sem áhersla er á jafnt og greitt aðgengi að einfaldri, skilvirkri og notendamiðaðri geðheilbrigðisþjónustu, þ.m.t. endurhæfingu.
Helstu lög sem gilda um málaflokkinn eru lög um málefni aldraðra, nr. 125/1999, lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, lög um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, og lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.
Helstu áskoranir
Skortur er á samvinnu kerfa í endurhæfingarþjónustu almennt en hann byggist á því að þjónustuþarfir eru ekki nægilega vel skilgreindar sem veldur því að forgangsröðun í úrræði skortir sem hefur áhrif á samfellu og skilvirkni veittrar þjónustu. Þjónustuþarfir einstaklinga í endurhæfingu eru fjölbreyttar en skortur er á lágþröskuldarúrræðum fyrir einstaklinga með vægan vanda sem þarfnast endurhæfingar. Þá er samhæfingu og samþættingu í geðheilbrigðisþjónustu ábótavant og þjónustuframboð m.t.t. endurhæfingar takmarkað, sérstaklega fyrir fólk með alvarlegar og langvarandi geðrænar áskoranir. Viðvarandi skortur er á sérhæfðu fagfólki á öllum stigum endurhæfingarþjónustu.
Þá er hækkandi aldur þjóðarinnar, aukning langvinnra sjúkdóma og betri lifun vegna alvarlegra sjúkdóma allt stórar áskoranir sem endurhæfingarþjónusta framtíðarinnar stendur frammi fyrir, ásamt því að tryggja þarf að framboð á þjónustu endurspegli þarfir allra kynja. Í úttekt Sjúkratrygginga Íslands á gildandi samningum um endurhæfingarþjónustu árið 2023 kemur fram að mikilvægt sé að fara í þarfagreiningu fyrir endurhæfingarþjónustu og innihaldi hennar. Í kjölfarið sé æskilegt að skoða hvernig þær þarfir verði uppfylltar. Samkvæmt niðurstöðum úttektarinnar þarf að bæta árangursmælingar, gæðavísa og kostnaðargreiningu þjónustuþátta svo að hægt sé að meta gæði þjónustunnar og nýtingu fjármagns.
Tækifæri til umbóta
Endurhæfingarferlið þarf að vera heildstætt og byggjast á samvinnu ólíkra stofnana og þjónustuveitenda til að tryggja sem besta endurhæfingarþjónustu. Til staðar eru tækifæri til að hefja endurhæfingu fyrr, t.a.m. með því að leggja mat á endurhæfingarþarfir á öllum stigum heilbrigðisþjónustu og auka aðgengi að lágþröskuldarúrræðum í endurhæfingu. Þá mætti einnig auka eftirfylgd í kjölfar endurhæfingar, t.a.m. með fjarheilbrigðislausnum, til að viðhalda þeim árangri sem næst í endurhæfingu.
Árangur endurhæfingar, bæði líkamlegrar og geðendurhæfingar, er margvíslegur, þ.m.t. bætt lífsgæði og aukin þátttaka í samfélaginu. Endurhæfing getur einnig fyrirbyggt ótímabæra færniskerðingu og þannig seinkað dýrari inngripum á borð við sjúkrahúsdvöl og flutning á hjúkrunarheimili en tækifæri eru til staðar til að kortleggja betur þarfir samfélagsins fyrir endurhæfingu ásamt því að efla árangursmælingar.
Í aðgerðaáætlun um heilbrigðistengda endurhæfingu er lagt til að tekið verði upp staðlað matstæki til að greina endurhæfingarþarfir og að sett verði á fót samþætt kerfi tilvísana í endurhæfingu og úrræði innan félagslega kerfisins til að tryggja samfellu í endurhæfingarferlinu og lágmarka biðtíma einstaklinga eftir úrræðum.
Ein af velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar er andlegt heilbrigði. Endurhæfing sem stuðlar að því að ná hámarksfærni, hvort sem er andlegri eða líkamlegri, fellur því undir fyrstu velsældaráherslu ríkisstjórnarinnar.
Stefnt er að því að öll þjónustukaup á endurhæfingu verði með þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands.
Áhættuþættir
Helsta áhættan er að ekki takist að koma á fót samþættu tilvísanakerfi eða miðlægum biðlistum. Sama gildir um innleiðingu samþætts matstækis við upphaf endurhæfingar sem má nýta til forgangsröðunar og við mat á þjónustuþörfum einstaklinga. Án þessarar aðgerðar er hætt við að samfella í endurhæfingarþjónustu náist ekki og að bið eftir viðeigandi endurhæfingarúrræðum verði of löng.
Náist ekki samningar um öll úrræði getur það valdið ójafnræði í kröfum þjónustuveitenda og úthlutun fjármagns til ólíkra þjónustuveitenda.
Tryggja þarf fjármagn til að mæta áætlaðri aukningu eftirspurnar vegna fjölgunar í endurhæfingu samhliða öldrun þjóðarinnar svo hægt sé að veita öfluga endurhæfingarþjónustu til þeirra sem þurfa á henni að halda.
Markmið og mælikvarðar
Markmið |
HM |
Mælikvarðar |
Staða 2023 |
Viðmið 2025 |
Viðmið 2029 |
---|---|---|---|---|---|
Samfella í endurhæfingarþjónustu. |
3.8 |
Samþætt kerfi tilvísana í endurhæfingu. |
Nei |
Vinna hafin |
Já |
3.8 |
Fjöldi biðlista eftir endurhæfingarúrræðum. |
> 10 |
≤ 5 |
1 |
|
3.8 |
Samþætt mat á þjónustuþörf. |
Nei |
Innleiðing hafin |
Já |
|
Mörkun árangurs í endurhæfingarþjónustu. |
3.8 |
Lykilupplýsingar skilgreindar. |
Nei |
Já |
Já |
3.8 |
Reglubundin söfnun lykilupplýsinga. |
Nei |
Söfnun hafin |
Já |
|
3.8 |
Mæld ánægja með þjónustuveitendur í endurhæfingarþjónustu. |
Ekki mæld |
>4 |
> 4,5 |
|
Samningar við þjónustuveitendur. |
3.8 |
Fjöldi aðila sem veita endurhæfingarþjónustu en eru ekki með þjónustusamning við Sjúkratryggingar Íslands. |
3 |
2 |
1 |
Fyrra markmið um bætta þjónustu við notendur í síðustu fjármálaáætlun hefur verið umorðað í undirmarkmiði um samfellda endurhæfingarþjónustu. Einnig hefur viðmiði um fjölda biðlista á næstu árum verið breytt þar sem fækkun biðlista tengist einnig samþættingu milli heilbrigðiskerfis og félagslegs kerfis og þarf því lengri innleiðingartíma en áætlað var í síðustu fjármálaáætlun. Þá bætist við söfnun lykilupplýsinga og markmið um þjónustusamninga við veitendur endurhæfingarþjónustu ásamt mælingum á ánægju þjónustuþega með veitta endurhæfingarþjónustu. Söfnun upplýsinga um lykilþætti endurhæfingarþjónustu og ánægju notenda þjónustunnar er nauðsynleg til að greina þá þætti sem keyptir eru í gegnum þjónustusamninga og meta hvort keypt þjónusta uppfylli þarfir samfélagsins um framboð endurhæfingar. Þá er mikilvægt að allir veitendur endurhæfingarþjónustu séu með samning um veitingu þjónustunnar við Sjúkratryggingar Íslands til að tryggja jafnræði meðal ólíkra þjónustuveitenda.
Efnisyfirlit, fjármálaáætlun 2025-2029
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.