Hoppa yfir valmynd

Fyrsti ráðherrann

Hannes HafsteinRáðherraembættinu, sem varð til með heimastjórninni, fylgdu meiri völd og ábyrgð en nokkurri stöðu á Íslandi öldum saman. Í sérmálum Íslands tók ráðherrann við því valdi sem danska stjórnin hafði áður. Hann var að vísu háðari vilja Alþingis en danski Íslandsráðherrann hafði verið. Hins vegar var staða hans til þess fallin að gefa honum forystuhlutverk á þingi. Svo var það nýtt ábyrgðarhlutverk, og ekki vandaminnsti þáttur ráðherrastarfsins, að halda á málstað Íslands gagnvart Danmörku. 

Heimastjórnarflokkurinn hafði unnið þingmeirihluta í kosningum 1903 og gerði því tilkall til ráðherraembættisins, en lét konungi eftir að ákveða hvaða flokksmanni það yrði falið. Það var því í raun ráðherra Íslandsmála í dönsku stjórninni sem þurfti að ganga úr skugga um hvaða heimastjórnarmaður væri best til þess fallinn að halda trúnaði starfhæfs meirihluta á þingi og fara með hin vandasömu samskipti við konung og ríkisstjórn Dana. Fyrir valinu varð Hannes Hafstein, sýslumaður og bæjarfógeti á Ísafirði. Hann var af yngri kynslóð stjórnmálamanna, hafði aðeins setið á tveimur þingum, en naut þó mikils trausts í flokki sínum. Honum hafði verið falið, þegar stjórnarskipti urðu í Danmörku 1901, að fara og túlka sjónarmið meirihluta Alþingis fyrir hinum nýju valdhöfum. Sendiförin gaf honum tækifæri til að sanna, bæði fyrir Dönum og Íslendingum, hæfileika sína til að gegna hinum diplómatíska þætti ráðherrastarfsins.

Hannes Hafstein var fæddur 1861, sonur amtmannshjónanna á Möðruvöllum, en var barn að aldri þegar faðir hans missti embættið og ólst því ekki upp sem höfðingjasonur, en ættingjar studdu hann til mennta. Hannes vakti athygli í menntaskóla fyrir námsgáfur og forystuhæfileika, og var þá þegar byrjaður að yrkja. Á námsárum sínum við Kaupmannahafnarháskóla varð hann þjóðfrægur sem ungskáld: skáld lífsgleði, ásta og karlmannlegrar bjartsýni. Hannes kom heim sem lögfræðingur, stofnaði heimili og gerðist embættismaður, fyrst í Reykjavík en síðan bæjarfógeti og sýslumaður á Ísafirði. Sem sýslumaður Ísfirðinga varð hann frægur af mannskæðri svaðilför á hendur erlendum landhelgisbrjót á Dýrafirði. Hannes Hafstein var fyrst kjörinn á þing 1901 og var síðan stjórnmálamaður í fremstu röð meðan honum entist líf og heilsa. Hann var fyrsti ráðherra Íslands 1904-1909 og öðru sinni 1912-1914. Eins og allir stjórnmálamenn var hann umdeildur, en eignaðist marga einlæga aðdáendur. Hans er einnig minnst fyrir skáldskap sinn og fyrir fágæta glæsimennsku í sjón og framkomu.

Hannes Þórður Hafstein 1861–1922

Fjölskylda og frændgarður

Hannes Hafstein ungurHannes Þórður Hafstein var fæddur 4. desember 1861 að Möðruvöllum í Hörgárdal, hinu gamla amtmannssetri Norður- og Austuramtsins, sem þá var. Var hann elstur þeirra átta barna Péturs Jörgens Havstein amtmanns og Katrínar Kristjönu Gunnarsdóttur er til manns komust.

Að Hannesi stóð kjarnmikið fólk. Móðurforeldrar hans voru sr. Gunnar Gunnarsson í Laufási, fæddur 1781, og kona hans Jóhanna Gunnlaugsdóttir Briem. Sr. Gunnar var sonur sr. Gunnars Hallgrímssonar í Laufási, fæddur 1747, og konu hans Þórunnar Jónsdóttur, fædd 1753, en foreldrar Jóhönnu voru Gunnlaugur Briem sýslumaður á Grund í Eyjafirði, fæddur 1773, og kona hans Valgerður Árnadóttir, fædd 1779, en frá þeim er Briemsættin komin. Einn móðurbræðra Hannesar var Tryggvi Gunnarsson en hann var einn mesti athafnamaður landsins á síðari hluta nítjándu aldar, m.a. einn af stofnendum Gránufélagsins á Akureyri, bankastjóri Landsbanka Íslands og lengi alþingismaður. Annar móðurbróðir hans var Eggert Gunnarsson kaupmaður og alþingismaður.

Alþingisgarður Tryggvi GunnarssonFöðurforeldrar Hannesar voru Jakob Havsteen kaupmaður á Hofsósi og kona hans Maren Jóhannsdóttir Birch. Jakob var fæddur í Kaupmannahöfn 1774 en fluttist til Íslands ásamt bróður sínum Due 1787 en þá höfðu þeir misst báða foreldra sína með stuttu millibili það sama ár. Mun það hafa verið að tilstuðlan móðurbróður þeirra að bræðurnir komu til Íslands, en hann var Jóhann Hövisch undirkaupmaður við konunglegu dönsku verslunina á Hofsósi. Foreldrar bræðranna voru Sidse Katrine Hövisch, dóttir Bartholds Hövisch kertasteypara í Kristjánshöfn, og Niels Jacobsen Havsteen kaupmaður í Kaupmannahöfn. Maren Jóhannsdóttir Birch var einnig fædd í Kaupmannahöfn 1776 en fluttist tveggja ára til Íslands með foreldrum sínum.

HofsósTalið er að Havsteen/Hafstein-ættin sé kominn frá Noregi með viðdvöl í Færeyjum og séu afkomendur Heine Havreka og sona hans Jóns lögmanns Færeyinga og Magnúsar sjóliðsforingja í danska sjóhernum. Heine þessi var prestssonur frá Noregi sem hafði hrakið á litlum bát í óveðri frá Noregi til Færeyja. Eftir sjóferð þessa dvaldist Heine í Færeyjum og kynnist þar ungri stúlku sem hann gekk að eiga. Hún hét Herborg og eignuðust þau tvo syni, Jón og Magnús.

Hinn yngri Havsteen-bræðranna, Due, fór aftur til Kaupamannahafnar og gerðist kaupmaður þar, og síðar varð sonur hans Christian kaupmaður í Reykjavík um tíma á fyrri hluta nítjándu aldarinnar. Jakob settist aftur á móti að á Hofsósi, eignaðist verslunina sem hann starfaði þar við og varð umsvifamikill atvinnurekandi, í verslun, útgerð og ýmsu öðru sem hann tók sér fyrir hendur. Frá þeim Jakobi og Maren á Hofsósi er Hafsteinsættin á Íslandi kominn.

Rætur Hannesar Hafsteins má því rekja til þekktra embættismanna og öflugra atvinnurekenda sem höfðu mikil áhrif á samtímann. Ýmsir afkomendur bæði sr. Gunnars og Jóhönnu í Laufási og Jakobs og Marenar á Hofsósi urðu þekkt áhrifafólk í landinu og má þar t.d. nefna Eggert Briem sýslumann, Pál Briem sýslumann og síðar amtmann á Akureyri, Júlíus Havsteen síðasta amtmann landsins, Jóhann og Jakob Havsteen kaupmenn á Akureyri, en Jakob var faðir Júlíusar Havsteen sýslumanns Þingeyinga sem gi,ftist Þórunni systurdóttur Hannesar Hafstein og uppeldisdóttur þeirra Ragnheiðar og Hannesar.

Þá voru bræður Hannesar, Marinó sýslumaður í Strandasýslu og Gunnar bankastjóri Færeyjabanka, áhrifamenn, og síðast en ekki síst tveir mágar Hannesar, þeir Jón Þórarinsson, sonur sr. Þórarins Böðvarssonar prófasts og alþingismanns úr Görðum á Álftanesi, en Jón var skólastjóri Flensborgarskólans í Hafnarfirði, alþingismaður og síðar fyrsti fræðslustjóri landsins, – og Lárus H. Bjarnason sýslumaður, síðar prófessor, og atkvæðamikill alþingismaður. Frændgarðurinn var því bæði fjölmennur og öflugur, sem í flestum tilfellum var Hannesi mikill styrkur í stjórnmálabaráttunni.

Nafn sitt hafði Hannes frá tveimur bræðrum sínum sem höfðu dáið barnungir. Nafnið er komið frá sr. Hannesi Stephensen prófasti á Akranesi, sem var faðir fyrstu konu Péturs Havsteins amtmanns, Guðrúnar, en hún deyr 1851. Sagan segir að þegar sóknapresturinn, sr. Þórður Þórðarson, spyr amtmann hvað drengurinn eigi að heita svari Pétur án nokkurs hiks: Hannes. Við þetta svar bregður sr. Þórði nokkuð og segir við amtmann: „Ætlar þú, amtmaður, að storka guði?“ „Ekki er það ætlun mín,“ svarar amtmaður, „en Hannes skal hann heita.“ „Látum hann þá líka heita Þórð,“ svarar prestur og bætir við: „Vera má að nokkur gifta leggist til með því nafni.“ Var drengurinn þá skírður Hannes Þórður.

Royalistmálið. Aðför Hannesar Hafstein að breskum togara á Dýrafirði árið 1899.

„Héðan af veit ég nokkurn veginn hvernig er að drukkna.” Ummæli Hannesar Hafstein eftir aðför að breskum landhelgisbrjót í Dýrafirði árið 1899.

Inngangur

Árið 1889 reyndu breskir togarar fyrst að veiða með botnvörpu hér við land og innan fárra ára voru þeir farnir að sækja á Íslandsmið í stórum stíl.[1] Þrengdu þeir þá að Íslendingum sem enn voru aðeins í skaki á bátsskeljum sínum og skútum. Alþingi vildi verja fiskimiðin og setti um það lög, en Bretar sendu litla flotadeild í heimsóknir hingað til lands, 1896 og aftur ári síðar. Herskipin voru „bein ögrun við hafréttarstefnu dansk-íslenskra yfirvalda,” skrifaði Gísli Ágúst Gunnlaugsson sagnfræðingur í rannsókn sinni á flotakomunum.[2] Skipin gerðu sitt gagn; þau sýndu mátt Breta og megin á höfunum og leiddu til þess að Íslendingar urðu að láta undan síga í baráttunni gegn togveiðum Breta, allt upp í landsteina. Sumarið 1899 fullyrti skipstjóri á breska beitiskipinu HMS Galatea, sem fylgdist með fiskveiðum Breta hér við land, að togararnir sniðgengu allar reglur um landhelgi og veiddu þar sem þeim sýndist hvenær sem færi gæfist.[3]

Eitt sinn hafði íslenskt yfirvald þó betur í baráttunni við breska landhelgisbrjóta: sumarið 1897 reyndi togarinn Oregon frá Hull fyrir sér með veiðar í Skjálfandaflóa en sýslumaður Þingeyinga, Steingrímur Jónsson frá Gautlöndum, réðst til uppgöngu í hann í krafti embættis síns, færði til hafnar, gerði upptæk veiðarfæri og sektaði fyrir ólöglegar veiðar í íslenskri landhelgi. Þótti Íslendingum framganga Steingríms öll hin glæsilegasta.[4]

„Oyali” uppi við landsteina

Ensku togariSumarið 1899 munu enskir togarar fyrst hafa haldið á Vestfjarðamið.[5] Í október, líkast til sjötta dag mánaðarins, kom einn þeirra inn á Dýrafjörð og var þar að kolaveiðum í tvo daga. Fjörðurinn er þröngur og mynni hans aðeins um þriggja til fjögurra mílna vítt svo hann togaði lengst inni í landhelgi, jafnvel þótt miðað væri við hina þröngu þriggja mílna lögsögu sem Bretar aðhyltust. Ekki virtust skipsmenn þó óttast að vera sóttir til saka fyrir landhelgisbrot; að þessum veiðiskap loknum fór skipstjórinn í land á Þingeyri, keypti eitthvert smáræði í versluninni þar og pantaði tunnur undir vatn. Hann hét Carl August Nilsson (stundum nefndur Nilson eða Nielson í heimildum, en oftast Nilsson) og var sænskur að uppruna. Hann sýndi ekki skipsskjöl og greiddi ekki lögbundin gjöld, en kvaðst mundu gera það daginn eftir þegar vatnið yrði sótt. Þótti mönnum þetta grunsamlegt, og þá ekki síður nafn togarans og númer, „Oyali” 42. Hafði greinilega verið málað yfir hvort tveggja að hluta.[6] (Seinna kom í ljós að þetta var togarinn Royalist H 428, 183 rúmlesta stálskip í eigu útgerðarmannsins Georges Waltons í Hull. Það var smíðað þar ári fyrr, með 58 hestafla gufuvél og gekk tíu mílur.)[7] Næsta morgun var togarinn horfinn á braut.

Fyrr um sumarið hafði Nilsson áður leikið þann leik sunnar á Vestfjörðum að sýna ekki skjöl og svíkjast um að greiða það sem honum bar, og var „kunnur þar vestra að hverskonar þrjótshætti,” eins og síðar sagði.[8] Suður með sjó höfðu menn einnig komist í kynni við „hrakmennið Nielson” sem sveikst um að standa skil á lögbundnum gjöldum og fiskaði uppi í landsteinum.[9] Um vorið hafði danska varðskipið Heimdallur tekið annan togara, sem Svíinn stýrði, í landhelgi og hlaut hann sekt fyrir, að vísu mjög lága að margra mati.[10]

Líkt og gerðist og gekk um þetta leyti naut Nilsson liðsinnis Íslendinga í veiðiskap sínum. Fiskilóðs á „Oyali” var íslenskur maður, Valdimar (eða Valdemar) Rögnvaldsson úr Keflavík á Suðurnesjum.[11] Í Dýrafirði höfðu einhverjir bændur einnig átt kaup við Nilsson og félaga, þótt Dýrfirðingar bæru reyndar slíkt síðar af sínu fólki.[12] Einn hafði keypt af þeim dálítið af dægurgamalli ýsu, og var þar komið „tröllafiskiríið” svokallaða sem margir höfðu skömm á. Var þá átt við þau kaup þegar Íslendingar þágu við litlu sem engu verði þann fisk sem togaramenn hefðu ella hent.[13] Staðfest var að minnsta kosti einn annar bóndi við fjörðinn átti ýmis viðskipti við „botnverpinga”.[14] Eflaust réð sjálfsbargarviðleitni miklu um þetta og ber ekki að fordæma hana, svo mikil sem fátæktin gat verið á þessum tíma. Flestir Dýrfirðingar vildu þó sem minnst af togaranum vita og þótti súrt í broti þegar hann birtist aftur að morgni 9. október og hóf að toga inn og út fjörðinn. Þessi landhelgisbrjótur var greinilega óvenju óforskammaður og Jóhannesi Ólafssyni, hreppstjóra í Þingeyrarhreppi, var nóg boðið. Ekki var að sjá að skipstjórinn á „Oyali” hygðist standa í skilum með hafnargjöld og annað og yfirmenn dönsku varðskipanna höfðu hvatt fólk til þess að skrá þá útlendu togara sem stunduðu ólöglegar veiðar. Þannig væri unnt að kæra skipstjórana ef þeir næðust síðar. En svo virðist sem Jóhannes hafi ekki viljað láta þar við sitja; síðla þennan dag sendi hann mann, Guðjón Sólberg Friðriksson, með hraði norður yfir heiðar til Hannesar Hafsteins, sýslumanns á Ísafirði.[15]

Hannes var um þær mundir nafnkunnur um land allt, einkum fyrir skáldskap sinn, en eins var hann þekktur að skörungsskap í embætti sínu.[16] Þegar sendiboðinn kom til Ísafjarðar undir háttatíma um kvöldið ákvað hann strax að halda á vettvang og hafa hendur í hári landhelgisbrjótsins. Hannesi þótti auðvitað óþolandi að útlendingar væru að veiðum uppi við landsteina, og vel má vera að hann ekki viljað vera eftirbátur Steingríms sýslumanns á Húsavík sem hafði tekið Oregon tveimur árum fyrr. Hannes hafði einnig frétt af því að stuttu fyrr hefði umboðsmaður hans norður í Aðalvík freistað uppgöngu í breskan togara í landhelgi þar, til þess að komast að nafni skipsins og líta á skjöl þess. Ekki varð sú ferð til fjár, því togaramenn bjuggust til varnar með bareflum og sprautuðu heitu vatni yfir bát Íslendinganna.[17] Fannst mönnum talsverðar líkur til þess að þetta væru einn og sami togarinn, landhelgisbrjóturinn á Aðalvík og sá sem nú var að toga inni á Dýrafirði. (Síðar kom að vísu á daginn að svo var nær örugglega ekki).[18]

Kalt var í veðri um þessar mundir, frost og stinningskaldi. Utan yfir einkennisbúning sinn fór Hannes í þykkan vetrarfrakka. Þeir Guðjón lögðu svo af stað suður eftir, lögðu af stað á fjórða tímanum og voru komnir um tíuleytið til Jóhannesar hreppstjóra að Mýrum við norðanverðan Dýrafjörð.[19] Höfðu þeir þó þurft að brjótast yfir „bannsett fjöllin sem voru mjög ill yfirferðar vegna snjóþyngsla,” eins og Hannes sagði síðar frá, og sumar heimildir segja reyndar að þeir Hannes og Guðjón hafi komið að Mýrum um klukkan fjögur eftir hádegi.[20] Hvað sem því leið var „Oyali” enn að veiðum, á góðum skarkolamiðum fram af Haukadalsbót handan fjarðarins. Daginn áður hafði unglingspiltur, sem fór um borð í togarann, sagt Valdimar fiskilóðs frá því að ákveðið hefði verið að sækja sýslumann. Valdimar mun hafa látið sér frekar fátt um finnast og svarað því til að Hannes Hafstein „mundi vera seinn á fæti.”[21] Togaramenn hafa því líklega ekki gert ráð fyrir því hvað hann reyndist fljótur í ferðum og talið óhætt að toga fram eftir degi.

Um kvöldið og nóttina mun Hannes einmitt hafa haft einna mestar áhyggjur af því að togarinn væri á bak og burt morguninn eftir. Að því leyti varð hann glaður við að sjá hann enn inni á firðinum.[22] Hann mun hafa viljað halda út í togarann þegar í stað en hafði engin tök á því einn síns liðs. Engir karlmenn voru heima við að Mýrum eða á nágrannabæjum svo hann varð að bíða þess að bátar kæmu úr róðrum.[23]

Feigðarför

Einhvern tímann eftir hádegi lenti feræringur Kristjáns Ólafssonar, bónda í Meira-Garði, við Hrólfsnaust, nokkru utan við Mýrar. Formaður var Jóhannes Guðmundsson frá Bessastöðum, nýbýli í landi Mýra. Hásetar á Meiragarðsbátnum þennan róður voru Jón Þórðarson, mágur Jóhannesar, búsettur að Meira-Garði, Jón Gunnarsson, vinnumaður að Mýrum, og Guðmundur Jónsson, ungur piltur frá Lækjarósi í Dýrafirði.[24] Þegar þá bar að landi var Hannes sýslumaður þar fyrir og skipaði þeim að flytja sig út í togarann.

Seinna komst sú saga á kreik að einn bátsverji til viðbótar hefði verið í róðrinum en neitað með öllu að halda að togaranum því hann hefði dreymt illa og sæi fyrir að illt væri í vændum.[25] Ekki greina samtímaheimildir frá þessum fimmta manni og fyrirboða hans. Til dæmis segir Sighvatur Grímsson Borgfirðingur frá því í dagbók sinni – en hann var við ýmsa vinnu þar vestra um þessar mundir – að Hannes Hafstein hefði farið með „fimm menn á skipi út.”[26]

Hitt er ljóst að Jóhannes formaður og menn hans voru mjög tregir til fararinnar og í fregn Þjóðólfs af aðförinni að breska togaranum sagði að Hannes hefði ekki getað fengið fleiri en þá Jónana, Guðmund og Jóhannes formann með sér út.[27] Einhver eða einhverjir hafa því neitað að vera með í för, enda bar mönnum engin skylda til þess að hlýða kalli sýslumanns. Allir vissu sem var að útlensku landhelgisbrjótarnir gátu verið harðir í horn að taka, og höfðu kannski frétt af hátterni togaramanna á Aðalvík sem áður er getið. Þetta sama sumar höfðu Skagfirðingar líka freistað þess að sekta skipstjóra togara sem var að veiðum lengst inni á firðinum en urðu frá að hverfa. Fjórir bátar, mannaðir um fimmtíu mönnum, munu þó hafa haldið að togaranum en áhöfnin lét heitt vatn ganga yfir bátana og skipstjórinn hótaði að sigla þá niður.[28] Vissulega hafði tekist að taka Oregon á Skjálfandaflóa en þar hefði getað brugðið til beggja vona. Í frétt Fjallkonunnar af þeim atburði sagði að togaramenn hefðu borið sig illa, einkum yfir dómnum um upptöku veiðarfæra, og „kváðust halda að þeir hefðu kastað sýslumanni í sjóinn, ef þeir hefðu búizt við því auk sektanna.”[29]

Hefðu mennirnir á Meiragarðsbátnum haft sitt fram, hefðu þeir ekki lagt út árar aftur þennan dag. En Hannes Hafstein vildi ekki una því að hafa farið fýluferð, með togarann fyrir augum sér úti á firðinum. Matthías Ólafsson, samstarfsmaður hans í stjórnmálum, rak verslunina í Haukadal við Dýrafjörð og sagði síðar frá að sýslumaður hefði gengið „hart að Jóhannesi að flytja sig þangað út. Varð úr, að hann lét undan.”[30] Meiragarðsbátnum var því aftur ýtt úr vör þegar degi var tekið að halla. Auk bátsverjanna fjögurra var Guðjón Sólberg, sá sem sótt hafði Hannes til Ísafjarðar, um borð. Hannes vildi hafa hann með vegna þess að hann talaði nokkuð í ensku; hafði farið vestur til Ameríku en snúið aftur heim til Íslands.[31] (Nokkrum árum síðar fór Guðjón alfarinn aftur til Vesturheims og mun hafa látist í hárri elli, einhvern tímann á fyrsta áratugnum eftir seinni heimsstyrjöldina).[32]

Enn var vont í veðri, nokkuð sterkur vindur út fjörðinn og gekk á með kafaldsbyljum þegar Íslendingarnir héldu að togaranum. Guðjón geymdi kaskeiti sýslumanns svo lítið bar á og sjálfur klæddist Hannes Hafstein frakka sínum yfir einkennisbúninginn í þeirri von að togaramenn vissu ekki fyrir víst að þar væri yfirvaldið á ferð. Hannes hafði hugsað sér að komast á þennan hátt „óhindraður upp á skipið og síðan gjöra það sem hann áliti bezt henta til þess að fá lögunum framfylgt.”[33]

Á leiðinni út fannst Hannesi hann áfram verða var við beyg og óhug Jóhannesar og félaga hans. Í bréfi til vinar síns Georgs Brandes, rithöfundarins danska, skrifaði hann að Íslendingar kalli það feigð þegar menn finni á sér bráðan dauða. Hann hafi ekki trúað á slíkt áður en þarna úti á firðinum hafi hann séð það með eigin augum. Jóhannes formaður, sem þó þótti duglegur og frækinn sjómaður, hafi stýrt svo illa út fjörðinn að báturinn breytti sífellt um stefnu og fékk ágjöf hvað eftir annað. Ekki hafi betra tekið við eftir að segl voru felld og menn lögðust á árar. „Ég lét skammirnar dynja á honum,” skrifaði Hannes í bréfi sínu til Brandes, „og þá sáum við að hann var nábleikur í framan og skalf eins og lauf, en vildi ekki fara frá stýrinu, enda vorum við nú komnir að skipinu og leikurinn hafinn.”[34]

„Guð hjálpi mjer; þeir eru að sökkva bátnum”

Togaramenn voru búnir til varnar. Hannesi Hafstein hafði ekki tekist að leyna á sér heimildir og gat hann sér þess réttilega til að Íslendingurinn um borð hefði þekkt hann í sjón.[35] Eftir að Meiragarðsbáturinn var kominn í sjónmál við „Oyali”, út fyrir Mýrarfell, höfðu skipverjar raðað sér upp við borðstokkinn með ýmis konar barefli í höndum, prik, járnteina og annað. Létu þeir að sögn öllum illum látum þegar báturinn var kominn að hlið skipsins, stjórnborðsmegin. Hannes og Guðjón stóðu þá í honum en hinir lágu á árum. Mönnum talaðist svo til að reynt yrði að taka kaðalenda sem hékk út af stjórnborðshlið skipsins og freista þar uppgöngu. En þegar báturinn átti örskamma leið eftir að togaranum var honum skyndilega snúið svo skuturinn sneri að bátsverjum. Hannes Hafstein skipaði þeim þá að halda í þann togvírinn sem nær þeim var og staðnæmdist báturinn við skut skipsins, undir vírnum.[36]

Hannes krafðist nú uppgöngu og kallaði, fyrst á dönsku og svo ensku, til skipstjóra sem stikaði að sögn hans reiðilega fram og aftur um stýrishúsið.[37] Orðum sýslumanns var í engu sinnt. Þvert á móti urðu togaramenn enn viðskotaverri. Þjóðviljinn, blað Skúla Thoroddsens á Ísafirði, sagði svo frá:

„Á skipi botnverpinga tók nú að gjörast æ meiri og meiri ólæti; æptu þeir að þeim sýslumanni, og veifuðu að þeim bareflunum. Sýslumaður fletti þá frá sér yfirhöfn sinni, sýndi einkennisbúning sinn; og heimtaði enn á ný að hafa tal af skipstjóra, og fá að sjá skipsskjölin.”

Áfram höfðu köll Hannesar þó engin áhrif. Mennirnir skuku vopn sín sem aldrei fyrr. Einn þeirra skaut ár að Íslendingunum, en missti marks.[38] „Þeir ætla að gjöra gat á bátinn,” kallaði einhver fyrir aftan Hannes, sem stóð enn uppi í bátnum.[39]

Fyrst svona var komið virtist sýslumaður verða frá að hverfa. Ómögulegt var að brjótast um borð í togarann með áhöfnina í þessum ham. Þetta var augljóst og því verða næstu aðgerðir mannanna á „Oyali” enn óþokkalegri. Einn bátsverja, Jón Gunnarsson, sagði svo frá að hann hefði skyndilega fundið glöggt „þegar slakað var hastarlega á botnvörpustreng þeim sem haldið var í af bátshöfninni og einnig fann hann þegar strengt var á vírnum aptur.”[40] Togvírinn lagðist því með fullum þunga á bátinn áður en aftur strekktist á honum. Báturinn „þrýstist niður,” sagði í lýsingu Þjóðviljans, „og sökk á endann, og var þegar allur í kafi.”[41] Var nú feigðin að kalla að Íslendingunum? „Guð hjálpi mjer; þeir eru að sökkva bátnum,” var hrópað að baki Hannesar.[42] Andartaki síðar voru allir mennirnir lentir í sjónum. 

„Héðan af veit ég nokkurn veginn hvernig er að drukkna”

„Nú hefst langur og illur leikur í ísköldu vatninu,” skrifar Kristján Albertsson í ævisögu Hannesar Hafstein.[43] Meiragarðsbáturinn maraði í kafi eftir þetta fólskubragð togaramanna, og á hvolfi. Tveir mannanna, Guðjón Friðriksson og Jón Gunnarsson, komust upp á kjöl og tókst að halda sér dauðahaldi þar þótt báturinn muni hafa snúist þrisvar sinnum með þá. Hinir urðu hins vegar viðskila við hann. Allir voru mennirnir ósyndir nema Hannes. Hann þótti sundmaður góður á þeirra tíma mælikvarða.[44] Einum bátsverjanna tókst að ná í ár og fljóta á henni. Hinir tveir, sem svömluðu í sjónum, héldu sér um stund á floti með því að grípa í Hannes; annar náði taki á frakka hans og hinn tók um háls honum. Sýslumanni var auðvitað ofraun að halda þeim og sjálfum sér uppi. Þung stígvél og frakkinn þykki gerðu honum líka erfitt fyrir. Allir fóru þeir hvað eftir annað í kaf og Hannes var að verða örmagna. Eftir honum var skráð að þegar hann fann „að hann gat ekki haldið sjer uppi með allan þennan þunga og dróst dýpra og dýpra niður tók hann það ráð að stinga sjer beint niður og losnaði hann þannig frá þeim tveim er hjeldu í hann. Síðan synti hann upp, en þá var hann svo þjakaður og móður að hann gat varla haldið sjer uppúr sjónum.” [45]

Það varð Hannesi til happs á þessari stundu að hann náði í mastur úr bátnum og gat haldið sér uppi á því með því að leggjast á bakið og hafa annan handlegginn undir því.[46] Guðjón og Jón Gunnarsson voru enn á kili Meiragarðsbátsins en hinir drukknuðu, líka sá sem hafði flotið um stundarsakir á árinni. Og líkt og skrifað var í fregnum af þessum voðaatburði, þá biðu þeir bana „án þess þrælmennum þeim, er á botnvörpuskipinu voru, yrði að vegi að gera nokkra minnstu tilraun til bjargar.”[47] Þeir Guðjón og Jón lýstu því að þeir hefðu hvað eftir annað kallað til togaramanna „hvort þeir ætluðu ekki að bjarga, en þeir svöruðu, að þeir væru að búa sig til þess. Þó var skipsbáturinn aldrei losaður.”[48] Hins vegar var hafist handa við að draga inn vörpuna og var engu líkara en Nilsson skipstjóri hygðist hverfa í burtu að því verki loknu. Það má því vel vera að það hafi orðið þeim þremur, sem enn voru ofansjávar, til lífsbjargar að í landi sást hve illa hafði farið. 

„Lífgjafi Hannesar Hafstein”

Um þessar mundir var Ólafur Ólafsson 13 ára bóndasonur í Miðbæ, sem var í aldaraðir eitt þriggja helstu bændabýla í Haukadal, auk Hallar og Ystabæjar. Stóðu þeir þétt saman í röð, undir fjallsrótum. Rúmri hálfri öld síðar skráði Ólafur minningar sínar frá því sem nú gerðist, og fullyrti að þeir atburðir væru sér enn í fersku minni. Guðmundur Eggertsson var þá bóndi í Höll, kominn á sextugsaldur og tekinn að reskjast. Hann átti forláta sjónauka og beindi honum oft til dals og fjalla til að segja Ólafi og öðrum smalastrákum hvar fé væri að finna. Nú bar hins vegar svo við að Guðmundur starði út að togaranum á firðinum: „Hann færir sig úr einum stað í annan, beitir ítrustu athygli, eins og hann sé að taka einhverja ákvörðun, horfir enn eldsnöggt í kíkinn, svo sem til að fullvissa sig um að sér missýnist ekki, sveiflar síðan kíkinum undir vinstri handlegg sér og hleypur niður allan Veitugarð.”[49]

Garðurinn sá lá frá bæjunum þremur að verslunarhúsi Matthíasar Ólafssonar við fjörukambinn. Þar höfðu menn snör handtök. Tvö fjögurra manna för voru mönnuð, með sex manns undir árum, og lífróður róinn að „Royali”, um fimmtán mínútna leið.[50] Kíkir Guðmundar Eggertsssonar er nú varðveittur á Byggðasafni Vestfjarða á Ísafirði og nefndur „lífgjafi Hannesar Hafstein.” Er það líklega réttnefni því þá fyrst að togaramenn sáu til mannaferða úr landi reyndu þeir að rétta þeim hjálparhönd sem enn börðust fyrir lífi sínu við hlið skipsins.[51] Bjarghring var kastað til þeirra Guðjóns og Jóns, og kaðli til Hannesar. Hann kvaðst síðar rétt hafa megnað að vefja honum um hönd sér og var hann svo dreginn að borðstokknum. Þar munduðu menn krókstjaka, kræktu í frakka sýslumanns og drógu hann upp á dekk. Mun þá hafa verið liðinn nær hálftími síðan Íslendingarnir lentu í sjónum.[52]

Þegar hér var komið sögu var Hannes nákaldur og nær þrotinn kröftum. „Ég, sem langa hríð hafði strítt í ströngu við þá, sem voru að drukna og ekki náðu í bátinn, var að minnsta kosti nær dauða en lífi,” sagði hann stuttu seinna.[53] „Héðan af veit ég nokkurn veginn hvernig er að drukkna,” skrifaði hann sömuleiðis í bréfi sínu til Georgs Brandes um þessa lífsreynslu.[54] Uppi á þilfari togarans var hann nær meðvitundarlaus, og mun hafa verið lagður yfir tunnu sem þar lá.[55] Sjálfur mundi Hannes mest lítið af því sem gerðist eftir þetta; þó það að einn skipverja rændi hann hníf sem hékk við belti hans, mundaði hann „og sagði eitthvað á þá leið: að hjer skyldi hann hafa það.”[56] Frá því var reyndar einnig greint í blöðum að líklega hefðu þau orð verið látin falla „fremur af glettni eða til að ögra honum, en í alvöru.” Það breytir ekki því að hótfyndin er þá enn frekar til marks um illt innræti sumra skipverjanna á „Royali”.[57] Og sú saga var einnig sögð að einn þeirra, líkast til matsveinninn, hefði ætt að Hannesi með sveðju og gert sig líklegan til að ráðast á hann.[58]

„Hör, han takker os”

Nú kom þó jafnframt í ljós að ekki virtust allir skipverjar vera sáttir við það sem fram hafði farið. Einhverjir þeirra færðu sýslumann úr ystu flíkum, gerðar voru á honum lífgunartilraunir og hann mundi síðar eftir að honum var eitthvað hagrætt á þilfarinu. Þakkaði Hannes þá fyrir og heyrði sagt: „Hör, han takker os.” Einnig heyrði hann að einhver lagði til að hann yrði borinn niður í káetu og honum hjúkrað þar. En því var svarað, líkast til af Nilsson skipstjóra, að það kæmi ekki til mála, heldur skyldi hann settur út í annan þeirra báta sem nú voru aðvífandi.[59] Eftir á taldi Hannes að fimm menn úr áhöfn togarans, þeirra á meðal báðir vélstjórarnir, hefðu reynt að gera vel við Íslendingana og verið andvígir þeim lúalegu aðförum sem þegar höfðu átt sér stað.[60]

Þeir Guðjón Friðriksson og Jón Gunnarsson studdu þá frásögn Hannesar Hafstein. Að sögn Jóns hafði maður nokkur, „gildur og þreklega vaxinn,” spurt þegar þeir tveir voru komnir um borð í togarann hve margir hefðu verið í bátnum. Jón svaraði til að þeir hefðu verið sex og „hafði hinn sagt eitthvað á þá leið „að þá væru þrír dauðir” og gefið lítið út á það að öðru leyti.” Við réttarhöld vegna þessara atburða á Dýrafirði var Jóni sýnd mynd af Nilsson skipstjóra og staðfesti hann þá að það hefði verið hann sem lét þessi kaldranalegu orð falla.[61] Því næst bauð þó annar vélstjóri togarans þeim Jóni og Guðjóni að jafna sig á volkinu og hlýja sér í vélarúminu. „Er það ekki bara snara?” spurði Guðjón en vélstjórinn neitaði því og lýsti óánægju sinni með framgöngu skipstjóra og annnarra í áhöfninni. Tvímenningarnir þágu því boðið, en voru varir um sig.[62] Um borð komust þeir að réttu nafni og númeri togarans, Royalist H 428.[63]

Fáeinum mínútum eftir að Íslendingarnir þrír voru komnir um borð í togarann var annar bátanna úr landi kominn að honum. Þegar hann átt örfáa faðma eftir kallaði einn skipverja uppi á dekki, á norsku eða dönsku að því er virtist, að „sýslumaður lægi þar uppi dauðvona,” eða eitthvað í þá áttina.[64] Íslendingarnir lögðu að togaranum og tóku við löndum sínum, eftir að Nilsson skipstjóri hafði neitað beiðni um að sigla með þá til læknisins á Þingeyri. Hinn báturinn fann eitt lík á floti en lík hinna fundust aldrei.[65] Hermt var að einn Íslendinganna, sem fór um borð í Royalist, hafi þegar við uppgönguna þrifið stálkefli, sem lá á þilfarinu, gengið að tunnunni þar sem Hannes Hafstein lá nær dauða en lífi, sveiflað því yfir höfði sér og hrópað á íslensku: „Hver sem vogar sér að þjalla meira að Hannesi Hafstein en orðið er, skal fá þetta kefli í hausinn.” Ekki er líklegt að togarasjómennirnir hafi skilið orðtakið, en tilburðirnir voru ótvíræðir.[66]

Í landi hafði fólk beðið milli vonar og ótta. Í sérstökum fregnmiða Þjóðólfs um atburðina sagði: „Þá er báturinn kom með þá sýslumann og förunauta hans tvo, er eftir lifðu, að landi í Haukadal, hugðu sumir sýslumann örendan er þeir sáu hann liggja náfölan aftur í bátnum og setið undir höfði hans. En brátt sáu menn þó, að hann hafði opin augun og vissu að hann lifði.”[67] Þeir Guðjón Sólberg og Jón Gunnarsson voru betur haldnir og gátu gengið heim til sín óstuddir.[68] Í Stykkishólmi, þar sem Kristjana, móðir Hannesar, bjó hjá Elínu dóttur sinni og Lárusi H. Bjarnasyni, manni hennar, voru fyrstu fregnir af atburðunum á þann veg að honum væri ekki hugað líf. En svo bárust sannari tíðindi um að hann væri að braggast og varð þá glatt á hjalla. Kristjana skrifaði Hannesi að Lárus mágur hans hefði tárast af gleði yfir því að hann lifði þolraunina, „og lét strax sækja vínflösku sem við tæmdum sem þína lífsskál, og marghrópaði „lifi Hannes”.”[69]

Öll gleði yfir giftusamlegri björgun sýslumannsins hlaut þó að vera tregablandin. Þrír menn höfðu látið lífið við gæslu íslenskrar landhelgi. Á aldarártíð þessa voðaatburðar efndi Þjóðminjasafn Íslands til sýningar um hann og í myndatextum var í stuttu máli greint frá nánustu ættingjum þremenninganna sem létust og kröfu þeirra um bætur. Jón Þórðarson fórst 45 ára gamall og lét eftir sig eiginkonu, Guðnýju Jónsdóttur, sem var 14 árum eldri og farin að heilsu. Hún gerði kröfu um hundrað króna framfærslustyrk á ári fram til sjötugs og fékk þær bætur dæmdar sér til handa. Féð fékk hún þó ekki því það átti að koma í hlut Nilssons skipstjóra að reiða það af hendi.[70]

Guðmundur Jónsson var 18 ára þegar hann drukknaði. Hann hafði búið hjá öldruðum foreldrum sínum á Lækjarósi í Dýrafirði. Þeim voru ekki dæmdar bætur fyrir sonarmissinn. Formaður Meiragarðsbátsins, Jóhannes Guðmundsson, lést 37 ára gamall og var sá eini þeirra, sem fórust, sem átti afkomendur. Átta árum fyrr hafði hann kvænst Sólveigu Þórðardóttur frá Sjöundá á Rauðasandi og eignuðust þau saman þrjú börn, auk einnar fósturdóttur. Þau voru nær eignalaus, Sólveig mjög heilsutæp og um skeið leit út fyrir að hún yrði að láta tvö barnanna frá sér þótt henni væri það vitaskuld þvert um geð. En Kristján Ólafsson að Meira-Garði og Sigríður kona hans, systir Sólveigar, buðu henni að flytja til þeirra með börnin og ólust þau þar upp. Sólveig fór fram á 80 króna árlega framfærslu til sextugs og sama meðlag fyrir hvert barna sinna til 16 ára aldurs. Henni voru dæmdar bæturnar en það dugði ekki til að greiðslan væri innt af hendi. Á hinn bóginn veitti Alþingi henni árlegan styrk á fjárlögum frá árinu 1901, 50 krónur til hennar sjálfrar og aðrar 50 krónur fyrir hvert barn fram að fermingu.[71]

Auk þess létu ýmsir fé af hendi rakna til þeirra sem áttu um sárt að binda eftir atburðina á Dýrafirði. Stórtækastur var Norðmaðurinn Hans Ellefsen, sem rak hvalveiðistöð á Sólbakka við Önundarfjörð.[72] Hannesi Hafstein, Guðjóni Sólberg Friðrikssyni og Jóni Gunnarssyni voru einnig dæmdar skaðabætur en sennilega voru þær aldrei greiddar.[73]

„Óforsvaranlegt hirðuleysi”

 Hannes var rúmfastur í nokkra daga eftir hina misheppnuðu tilraun til að koma lögum og rétti yfir landhelgisbrjótana á Royalist (Sighvatur Borgfirðingur skráði í dagbók sína 13. október að hann hefði klæðst þann dag).[74] Sýslumanni var hjúkrað hjá Matthíasi Ólafssyni í Haukadal. Strax 12. október setti hann lögreglurétt þar, tók skýrslur af Jóni Gunnarssyni, Guðjóni Friðrikssyni og þeim, sem reru úr landi þeim til bjargar, og sendi upplýsingar um framferði skipstjórans og áhafnarinnar á Royalist til Reykjavíkur, meðal annars til Jóns Vídalíns, ræðismanns Breta.[75] Einar Benediktsson var seinna skipaður setudómari í málinu. Við vitnaleiðslur vestra, fyrst eftir atburðina og í febrúar árið 1900, bar öllum saman um að togaramönnum hefði verið í lófa lagið að koma Íslendingunum mun fyrr til aðstoðar. Hannes Hafstein fullyrti að hefði björgunarhringjum verið kastað útbyrðis um leið og Meiragarðsbáturinn fylltist af sjó mætti telja mjög líklegt að enginn hefði látið lífið. Jón Gunnarsson staðhæfði að hann teldi að „óforsvaranlegt hirðuleysi hafi átt sjér stað af hálfu skipverja í þá átt að gjöra tilraunir til björgunar.” Sömu sögu sagði Guðjón Friðriksson.[76]

Og hvað með það bragð að slaka togvírnum skyndilega á bát Íslendinganna? Jón kvaðst viðurkenna að ekki væri unnt að fullyrða að skipstjórinn Nilsson hefði vitað að báturinn lá undir strengnum. En bæði hann og Guðjón þekktu til vinnubragða á þilskipum og sögðu engan vafa leika á því að allir sjómenn hefðu mátt segja sér hvað gæti gerst með því að slaka vírnum þegar bátur var við skut togarans. Þetta gat ekki hafa verið slys.[77]

Í blöðum landsins var farið hörðum orðum um yfirgang togaramanna. Þjóðviljinn á Ísafirði hafði fyrstur fengið fréttir af því sem gerst hafði og skrifaði 14. október 1899: „Opt hefur nú vel verið, að því er ósvífni, yfirgang og lagabrot „trawlara” snertir, en þá kastar þó fyrst tólfunum, er þeir fara að gera sig bera að hreinum og beinum manndrápum, eða því sem næst, þegar yfirvöldin reyna, samkvæmt embættisskyldu sinni, að hafa höndur í hári þeirra. Hvar skyldi slíkt ætla að lenda?”[78]

Landsmálablöðin syðra fylgdu svo í kjölfarið. „En sannarlega fer vernd Dana að verða lítilsvirði,” sagði Þjóðólfur, „ef útlendir lögbrjótar og þorparar geta að ósekju traðkað hér öllum lögum og rétti, og framið þar að auki manndráp.”[79] Og Ísafold beindi reiði sinni að þeim mönnum hérlendis sem áttu viðskipti við togarana: „Framar öllu öðru ættu Íslendingar að láta sér þetta að kenningu verða. Þeir, sem ekki hafa látið sér skiljast það áður, ættu sannarlega að geta séð það nú, hvílík mannskemming í því er, að eiga mök við óþjóðalýð þann, sem á botnvörpuskipunum er.” [80]

Blaðið batt einnig vonir við að ytra ofbyði ráðamönnum ofbeldi óþjóðalýðsins á Royalist: „Sé veruleg gangskör að því gerð, að gera Englendingum það skiljanlegt, að brezkir þegnar leggi ekki að eins í vana sinn að brjóta lög fátækustu og fámennustu þjóðarinnar í hinum mentaða heimi, til þess að geta gjörspilt öðrum helzta bjargræðisvegi hennar, heldur og drepi menn hér við land óhikað, þegar þeim býður svo við að horfa – alt í trausti og skjóli þess feykilega mikla ríkisvalds, sem þeir hafa að bakhjalli – þá er lítt hugsandi annað en samvizkan og sómatilfinningin fari að vakna við vondan draum hjá mörgum góðum dreng.”[81] 

Makleg málagjöld?

Reiðialdan á Íslandi mundi þó tæpast duga til að koma lögum yfir Nilsson skipstjóra og áhöfn hans.

Togaramenn höfðu ekki fyrr losað sig við Íslendingana af skipi sínu en þeir sigldu út Dýrafjörð og hurfu á brott. Síðar var sagt að þegar hann hefði verið á útleið og fór fram hjá Sveinseyri, næsta bæ utan Haukadals, hefði heimilisfólk þar heyrt „háreysti mikla um borð, líkt og risin væri upp deila milli skipverja.” Einnig hefði stefna togarans verið mjög skrykkjótt og ferðin ójöfn. „Uppreisn eða hvað?” var spurt. „Um það liggja ekki frekari upplýsingar.”[82] Sé eitthvað til í þessari sögu má leiða getum að því að vélstjórar togarans hafi látið í ljós álit sitt á framferði Nilssons skipstjóra og annarra manna ofan þilja.

Daginn eftir gerði Royalist stuttan stans í Keflavík. Fregnir að vestan höfðu auðvitað ekki borist þangað og skipverjar þögðu þunnu hljóði um það sem gerst hafði. Valdimar Rögnvaldsson tók konu sína og börn um borð syðra og Þjóðólfur sagði svo frá að hann hefði sagt Dýrfirðingum það áður „að hann ætlaði að flytja sig búferlum til Englands í haust, og hefði lofað að gefa skipstjóra eitt barnið sitt (af þremur) því að hann væri barnlaus.”[83]

Heita má víst að Royalist hafi siglt heim á leið og selt þar hinn illa tekna afla af Íslandsmiðum. Síðan segir hins vegar frá togaranum að 7. nóvember þetta sama ár stóð danskt varðskip hann að verki við fiskveiðar í landhelgi undan Jótlandsskaga. Hermt var að allir hefðu skipverjar verið ölvaðir en það kom ekki í veg fyrir að Nilsson reyndi að beita klækjum til að sleppa undan réttvísinni. Þegar togarinn var færður til hafnar í Friðrikshöfn (Frederikshavn) við Kattegat fékk hann landa sinn Holmgren (eða Holmgreen), stýrimann á Royalist, til að ljúga því að hann, en ekki Nilsson, væri skipstjóri um borð. Holmgren játaði svo landhelgisbrotið fyrir rétti, líkast til daginn eftir. Hann hlaut sekt og afli og veiðarfæri togarans voru gerð upptæk. „Skipstjórinn” var síðan frjáls ferða sinna og skipverjar bjuggu sig undir að halda á ný til veiða.[84] En á síðustu stundu kom babb í bátinn.

Í raun réð tilviljun því að ráðabrugg Nilssons gekk ekki upp. Þegar verið var að taka togarann við Jótlandsskaga sigldi póstskipið Laura framhjá á leið sinni frá Íslandi og fylgdust farþegar með tökunni. Þeirra á meðal var Tryggvi Gunnarsson bankastjóri og daginn eftir las hann í Kaupmannahöfn þær fréttir frá Friðrikshöfn að togarinn héti Royalist. Heimildum ber ekki nákvæmlega saman um atburðarás næstu daga, en líklegast virðist að hún hafi verið á þann veg að Tryggvi hélt rakleiðis á fund embættismanna í Íslandsráðuneytinu ytra, tjáði þeim að þetta væri sami togari og hefði verið að verki í Dýrafirði, og væri skýrslu um það mál að finna í Lauru. Embættismennirnir höfðu snör handtök og sendu skeyti til Friðrikshafnar um að sleppa skipinu og skipstjóra þess ekki að svo stöddu.[85]

Holmgren var hnepptur í varðhald á nýjan leik, rétt áður en Royalist var að láta úr höfn. Nú var hann ásakaður um að bera ábyrgð á dauða þriggja manna og sagði því sem satt var; að hann væri aðeins stýrimaður togarans en skipstjórinn væri Carl August Nilsson. Hann hefði einnig verið það í Íslandsferðinni mánuðinn á undan og væri nú í felum í togaranum. „Fannst hann á þeim stað í skipinu sem stýrimaður vísaði á,” segir Steinar J. Lúðvíksson rithöfundur í frásögn sinni um þetta mál, „og var ekki hátt risið á honum er hann var leiddur í land og stungið í fangelsi.”[86] Holmgren var einnig handtekinn, auk þriggja Breta úr áhöfninni, dansks matsveins og íslensks háseta (væntanlega var það Valdimar Rögnvaldsson).[87]

Í skrifum Steinars J. Lúðvíkssonar kemur fram að eftir þessar handtökur hafi menn komist í vanda ytra. Enginn virtist þó hafa minnstu samúð með Nilsson og félögum. Sendiherra Svía í Kaupmannahöfn líkti þeim við sjóræningja og viðurkenndi að þeir landar hans, sem ynnu á erlendum togurum, væri margir hverjir ruddafengnir hrottar („of a rough and even brutal character”).[88] Vandinn var hins vegar sá að í lögum voru engin ákvæði að finna um það að unnt væri að rétta í máli Nilssons og áhafnar hans í Danmörku, og því þyrfti að senda þá til Íslands en það væri hægara sagt en gert eins og samgöngum milli landanna háttaði á þessum árum. Eftir að mennirnir höfðu setið í fangelsi í nokkra daga upp á vatn og brauð varð þrautalausnin sú að þeim var öllum sleppt úr haldi gegn tryggingu upp á sex þúsund danskar krónur, sem þá þótti gífurleg upphæð. Hinn 18. nóvember sigldi Royalist heim til Hull.[89]

Í frásögn Steinars J. Lúðvíkssonar, þeirri ítarlegustu sem til er um töku togarans við Jótlandsskaga, segir að Nilsson skipstjóri hafi haft í heitingum þegar hann sigldi úr höfn, „og sagt að fyrr eða síðar kæmi að því að hann gæti jafnað um Íslendinga svo um munaði.” Hann hafi svo forðast Íslandsmið um nokkurt skeið og vonað að yfir brot hans fyrntist.[90] Samkvæmt öðrum heimildum sat Nilsson hins vegar inni í dönsku betrunarhúsi þótt togaranum væri sleppt. Nilsson var vissulega dæmdur til slíkrar vistar, eins og einnig kemur fram hjá Steinari. Undirréttur í Danmörku dæmdi Nilsson í eins og hálfs árs fangelsi og Hæstiréttur Danmerkur lengdi þann dóm svo í tvö ár, gerði hann brottrækan úr danska ríkinu að afplánun lokinni, sektaði hann og dæmdi til greiðslu skaðabóta til ekkna Jóhannesar Guðmundssonar og Jóns Þórðarsonar.[91]

Líklegast verður að telja að Nilsson hafi komist undan dómi réttvísinnar og hafi aldrei afplánað dóm sinn. Því til stuðnings má benda á að í dönskum blöðum kom fram geysileg gremja vegna þess hve vel hann hefði sloppið, og fyrir því eru einnig heimildir að breski sendiherrann í Kaupmannahöfn hafa verið sama sinnis.[92] Loks er þess að geta að síðla árs 1901 bárust af því fregnir frá Englandi að Nilsson muni stýra einum þeirra togara sem séu að búast til veiða við strendur Íslands. Reyndist það rétt vera og snemma í janúar næsta ár hélt hann úr höfn í Hull á togaranum Anlaby. Sást til hans við veiða í landhelgi laust undan Grindavík, ásamt öðrum breskum togara. Örlögin höguðu því svo þannig að í fárviðri aðfaranótt 14. janúar 1902 strandaði Anlaby á skeri út af Jónsbásarklettum nálægt Grindavík. Skipið brotnaði í spón og fórst með allri áhöfn.[93]

Þótti mörgum nú að sök hefði bitað sekan. Skáldið Guðmundur Magnússon  (Jón Trausti) orti kvæði um þennan skipstapa sem hann nefndi Vendettu, eða blóðhefnd og þar er þessar ljóðlínur að finna: 

Því kveða við hræspár frá hafi til fjalls,
 Því hljóðið þið strá um grundir?
 Jú, ― það er hin válega Vendettu-nótt,
 sem vættirnir búa sig undir.[94]

Hermt var að lík Nilssons hefði rekið á land höfuðlaust og var sagt að sennilega hefði „hákarl klipt af honum hausinn, en almenningur lagði út sem „æðri stjórn”, og með rjettu.”[95] Oft má varast að taka undir þunga áfellisdóma samtímamanna í hitamálum en vart verður komist að annarri niðurstöðu en þeirri að Nilsson hafi í raun og sanni verið mjög kaldrifjaður og metið eigin hagsmuni meir en mannslíf annarra. Ekki mun þó vera rétt að lík Nilssons hafi rekið hauslaust á land því lík hans var það eina sem aldrei fannst eftir þennan skipstapa.[96] Því má einnig bæta við að Valdimar Rögnvaldsson sneri víst aftur til Íslands. Hann var hér á landi veturinn 1905-6, að minnsta kosti, og kynntist Eggert, sonur Guðmundar Eggertssonar í Höll, honum þá í Reykjavík.[97]

Niðurlag: Hannes Hafstein, landhelgin og heimastjórn

Atburðirnir á Dýrafirði 10.október 1899 urðu mörgum minnisstæðir. Sköpuðust um þá ýmsar sögur eins og hér hefur verið greint frá, til dæmis um „fimmta manninn” sem ekki vildi halda í feigðarförina að togaranum og hauslaust lík Nilssons skipstjóra.

Eins má nefna að stundum var svo frá sagt að „sannkölluð sjóorrusta” hefði átt sér stað á firðinum þar sem togaramenn hefðu beitt kylfum og sjóðandi vatni, og hefðu sumir Íslendingar þurft að synda til lands. Einnig var sagt að Hannes Hafstein hefði bjargað sjálfum sér og tveimur öðrum á sundi.[98] Þótt Hannes hafi gert það, sem í hans valdi stóð til að bjarga samferðamönnum sínum, er það ekki satt.

Loks ber annars traustum heimildum ekki alltaf saman um ýmsa þætti í atburðarásinni, eins og sést kannski best á þeim vafa sem virðist vera á því hvort Nilsson skipstjóri hafi afplánað dóm sinn eður ei.

Ekki verður sagt að atburðirnir á Dýrafirði hafi breytt miklu um fiskveiðar útlendinga og landhelgisgæslu hér við land. „Hafi þeir haft einhverja sögulega þýðingu á sínum tíma,” segir Jón Þ. Þór sagnfræðingur, „var hún helst sú, að augu margra opnuðust fyrir ójafnri aðstöðu Íslendinga og útlendu sjómannanna og fyrir nauðsyn þess að stórefla gæslu landhelginnar.”[99] Með landhelgissamningi Danmerkur og Bretlands árið 1901 var þriggja mílna landhelgi frá lægsta fjöruborði staðfest við Íslandsstrendur. Firðir voru þá einnig í landhelgi þar sem þeir voru þrengri en tíu mílur, og átti það við um Dýrafjörð allan. Þetta ár sáust togarar þó aftur á utanverðum firðinum, í fyrsta sinn frá því að Royalist var þar á ferð tveimur árum fyrr.[100]

Þrátt fyrir landhelgissamninginn veiddu útlendingar áfram innan línu hvenær sem færi gafst, og það var að öllu jöfnu því gæsla Dana var ónóg, strandlengjan löng og fiskimiðin víðfeðm. „Viðskipti Íslendinga og Englendinga um aldamótin 1900 hafa á sér svip nýlendustefnunnar,” skrifaði Heimir Þorleifsson í sögu íslenskrar togaraútgerðar:

„England, hið iðnvædda nýlenduveldi, nýtir miskunnarlaust auðsuppsprettur hinna „innfæddu”. ? Ef hugað er að ástandi sjávarútvegs á Íslandi árið 1900, er útlitið ekki bjart fyrir heimamenn. Þeir eru greinilega á bekk með vanþróuðum þjóðum, og það eru Englendingar, Norðmenn og fleiri þjóðir, sem nýta fiskimiðin.”[101]

Hannesi Hafstein var það vitaskuld raun að sjá svo komið fyrir ættjörð sinni. Ekki þarf að eyða mörgum orðum að því að hinir válegu atburðir á Dýrafirði settu mark sitt á hann og gerðu hann enn ákveðnari en ella að berjast gegn erlendum landhelgisbrjótum. Honum varð þó ekki tíðrætt um það sem gerðist. Sigurður Sigurðsson frá Arnarholti heyrði Hannes eitt sinn segja frá atburðarásinni, „svo óbrotið og látlaust eins og hann væri að segja sögu af einhverju, sem honum kæmi ekkert við sjálfum.”[102]

Við heimastjórnina 1904, þegar Hannes Hafstein varð fyrsti ráðherra Íslands, varð engin breyting á formi landhelgisgæslu hér við land. Hún var áfram í höndum Dana. Hins vegar tók öflugt beitiskip, Hekla, við gæslustörfum af Heimdalli vorið eftir og þá máttu landhelgisbrjótar vara sig. Skipherrann G. Schack gekk vasklega fram og fékk viðurnefnið „togaraskelfir”. Á fjórum mánuðum tók hann 22 togara í landhelgi og mun hafa stuggað 37 öðrum út fyrir línu. Hann var svo leystur frá störfum, vegna heilsubrests að sögn Dana, en á Íslandi var altalað að Bretar hefðu krafist þess að einhver minni bógur yrði fenginn í hans stað. Um það er ekki unnt að fullyrða, en eins og Björn Þorsteinsson komst að orði í riti sínu um landhelgisdeilur Íslendinga við erlendar þjóðir, þá stóðu „stórveldin” líklega „að einhverju leyti á bak við sum mannaskipti við íslensku landhelgisgæsluna á þessum árum.”[103]

MinnisvarðiHannesi Hafstein þótti án efa fengur í „togaraskelfinum” Schack á meðan hans naut við. Í fyrri ráðherratíð Hannesar, 1904-1909, var sérstakt skip, Islands Falk, svo smíðað til landhelgisgæslu og annarra starfa hér við land og gæslutíminn við landið var lengdur fram á haust. Eftir atganginn á Dýrafirði í október 1899 höfðu menn einmitt bent á nauðsyn slíkrar breytingar því togaramenn höfðu nær ekkert að óttast eftir að gæsluskip Dana var horfið að sumri loknu.[104] Í seinni ráðherratíð Hannesar Hafstein, 1912-1914, var landhelgissjóður stofnaður. Í hann runnu sektir fyrir landhelgisbrot, auk fasts framlags úr landssjóði, og var sjóðnum ætlað að efla gæslu við strendur landsins.[105] Þegar fullveldi fékkst frá Dönum árið 1918 varð Íslendingum loks kleift að taka landhelgisgæsluna í eigin hendur, og telst Landhelgisgæsla Íslands stofnuð átta árum síðar. Enn var þó langt í að Íslendingar einir réðu fiskimiðunum umhverfis landið. Um það snerust landhelgismál og þorskastríð eftir sjálfstæðisstofnun 1944. En það er önnur saga.

Hundrað árum eftir atburðina á Dýrafirði reistu afkomendur Jóhannesar Guðmundssonar minnisvarða við tóftir Bessastaða. Á þeim slóðum sér yfir Hrólfsnaust, þar sem Meiragarðsbátnum var ýtt úr vör, og Haukadalsbót úti á firðinum þar sem Jóhannes, Jón Þórðarson og Guðmundur Jónsson drukknuðu við hlið Royalist.

Er vel við hæfi að minningu þeirra, sem létu lífið við landhelgisgæslu Íslands, skuli sómi sýndur á þennan hátt.

Hannes Hafstein og kvenfrelsið

Bríet BjarnhéðinsdóttirHannes Hafstein var einn þeirra karla sem létu sig réttindi kvenna varða.

Hann las yfir fyrirlestur Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í desember 1887, hann átti heiðurinn af nýrri reglugerð um Lærða skólann árið 1904 sem veitti piltum og stúlkum jafnan aðgang að skólanum og hann lagði fram frumvarp á Alþingi árið 1911, að undirlagi Bríetar, sem veitti konum rétt til menntunar og embætta án nokkurra takmarkana.

Þrátt fyrir þetta hefur lítið verið ritað um hlutdeild hans í kvenfrelsismálinu að undanskilinni umfjöllun í sögu Kvenréttindafélags Íslands eftir Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðing og í ævisögu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur sem sonardóttir hennar, Bríet Héðinsdóttir leikkona, skráði. Hér er ekki rúm til þess að fjalla ítarlega um málið heldur verður aðeins tæpt á líklegum áhrifavöldum, ekki síst þeim merku konum sem voru í stórfjölskyldu Hannesar.

Kristjana HavsteinFyrsta ber að sjálfsögðu að nefna móður hans, Kristjönu Gunnarsdóttur Havstein, sem ung giftist sér miklu eldri manni Pétri Havstein amtmanni á Möðruvöllum. Hjónaband Kristjönu og Péturs var ekki dans á rósum, en Kristjana stóð erfiðleikana af sér. Hún varð ekkja 1875 og fluttist ári síðar að Syðra-Laugalandi í Eyjafirði þar sem hún vann að stofnun kvennaskóla ásamt Eggerti bróður sínum og fleira fólki, setti m.a. saman og lagði fram tillögu um skipulag og rekstur skólans. Skólinn tók til starfa 1877 og skólastýra varð Valgerður Þorsteinsdóttir, stjúpsystir Kristjönu og Eggerts, en hún var jafnframt ekkja eftir bróður þeirra, séra Gunnar Gunnarsson. Hér er nauðsynlegt að skýra stuttlega þessi fjölskyldutengsl. Þau eru til komin vegna þess að móðir Kristjönu, Jóhanna Gunnlaugsdóttir í Laufási, giftist árið 1854 séra Þorsteini Pálssyni á Hálsi í Fnjóskadal. Bæði höfðu misst fyrri maka sína árið áður. Jóhanna átti fimm börn (eina dóttur og fjóra syni) og Þorsteinn önnur fimm (fjórar dætur og einn son) og því var með hjónabandi þeirra steypt saman hópi hálffullorðinna og efnilegra ungmenna. Svo fór að tvær af dætrum Þorsteins á Hálsi giftust sonum Jóhönnu: Halldóra Þorsteinsdóttir giftist Tryggva Gunnarssyni, síðar bankastjóra, og áðurnefnd Valgerður Gunnari.

Þórunn HafsteinÖnnur kona sem vafalaust hefur haft áhrif á Hannes var Þórunn hálfsystir hans, en hún var dóttir Péturs Hafstein og fyrstu konu hans, Guðrúnar Stephensen. Þórunn var fædd 1850 og því ellefu árum eldri en Hannes. Hún var send til náms í Kaupmannahöfn fljótlega eftir fermingu þar sem hún gekk í skóla fröken Natalie Zahle. Skóli fröken Zahle var kvennaskóli þar sem áhersla var lögð á að mennta stúlkur til að takast á við hlutverk sitt sem mæður og húsmæður. Áhersla á bóklegt nám var mikil því fröken Zahle taldi mikilvægt að jafnræði væri með hjónum á andlega sviðinu og fáeinum árum áður en Þórunn fór utan hafði fröken Zahle komið á fót kennaradeild og útskrifaði þaðan kennslukonur. Í skóla Zahle var því rík áhersla lögð á að konur væru vel að sér bæði til munns og handa og gætu, ef á þyrfti að halda, séð fyrir sér sjálfar með t.d. kennslustörfum. Þórunn Hafstein giftist Jónasi Jónassen, síðar landlækni, árið 1871 og bar nafn hans eftir það.

Þórunn tilheyrði hópi heldri kvenna bæjarins og fór framarlega í flokki þegar Thorvaldsensfélagið var stofnað árið 1875, en konurnar sem að því stóðu vildu láta eitthvað gott af sér leiða. Þórunn var kjörin formaður og gengdi því starfi til æviloka 1922. Í fyrstu lögum Thorvaldsensfélagins sagði að markmið þess væri að efla menntun fátækra ungra stúlkna, sem ekki ættu auðvelt með að öðlast hana á annan hátt. Í samræmi við þetta bauð félagið fátækum stúlkum, 7-14 ára, upp á ókeypis kennslu í saumaskap og prjóni frá 1877. Þessi kennsla festi sig í sessi og naut mikilla vinsælda og var handavinnuskólinn starfræktur samfleytt til ársins 1903. Með þessari tilsögn var fátækum stúlkum auðveldað að sjá sér farborða með launavinnu. Jafnframt þessu gerðu félagskonur tilraun til þess að reka svokallaðan sunnudagaskóla fyrir konur þar sem kenna átti skrift, reikning og réttritun, dönsku ef þess yrði óskað og einnig dálítið í hannyrðum. Kennslan var ókeypis og aldurstakmark 14 ár. Heimildir benda til að skólinn hafi verið rekinn í febrúar og mars 1880 og 1881 en síðan lagst niður vegna lélegrar aðsóknar. Vinnukonur voru fjölmennastar í hópi þeirra sem sótti skólann.

Hannes Hafstein bjó hjá Þórunni systur sinni meðan hann var við nám í Lærða skólanum 1874-1880. Hann hefur því vitað af áhuga systur sinnar á menntun og framför kvenþjóðarinnar og þekkt starfsemi Thorvaldsensfélagsins.

Ekki verður gerð tilraun til þess hér að meta áhrif Kaupmannahafnaráranna á viðhorf Hannesar til kvenfrelsismálsins en ljóst er að ytra komst hann, eins og aðrir íslenskir stúdentar á þessum tíma, í kynni við nýja strauma og stefnur. Og í Kaupmannahöfn voru þá þegar starfrækt kvenréttindafélög og gefin út kvennablöð.

Kynni þeirra Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og Hannesar Hafstein má líklega rekja til þess er Bríet var í vist hjá frænda sínum Arnljóti Ólafssyni alþingismanni á Bægisá 1878-1880. Arnljótur var kvæntur Hólmfríði Þorsteinsdóttur, einni áðurnefndra stjúpsystra Kristjönu, móður Hannesar. Gera má ráð fyrir tíðum samskiptum milli heimilanna að Bægisá og Laugalandi þar sem Kristjana bjó til 1880. Óvíst er hvort Bríet hitti Hannes, sem var að mestu við nám í Reykjavík á þessum tíma, en næsta víst er að hún hefur haft kynni af Kristjönu Hafstein. Veturinn 1880-1881 var Bríet í Kvennaskólanum að Laugalandi þar sem Valgerður systir Hólmfríðar, og stjúpsystir Kristjönu, réði ríkjum.

Árið 1887 var Bríet sest að í Reykjavík og bjó í sama húsi og Kristjana Hafstein og börn hennar, þar á meðal Hannes. Það hefur líklega verið vegna kynna hennar af Kristjönu og tengslum við fjölskyldu hennar sem Bríet fékk Hannes til þess að lesa yfir fyrirlestur sinn um hagi og réttindi kvenna, aðeins nokkrum klukkustundum áður en hún átti að stíga í pontu í Góðtemplarahúsinu 30. desember. Hannes gerði engar athugasemdir við fyrirlesturinn.

Litlum sögum fer af afskiptum Hannesar af kvenréttindum næstu áratugi en konurnar í stórfjölskyldu hans héldu áfram að vinna að menntun og framför kvenna. Móðir hans var meðal þeirra kvenna í Hinu íslenska kvenfélagi sem skrifuðu undir áskorun til kvenna í apríl 1894 þess efnis að konur söfnuðu fé til styrktar stofnunar íslenskum háskóla. Í áskoruninni kemur jafnframt fram að þegar háskólamálinu sleppti myndi Hið íslenska kvenfélag beina kröftum sínum að því að lyfta kvenþjóðinni "á hærra stig andlegs þroska og menningar". Og Sigríður Þorsteinsdóttir, ein stjúpsystra móður Hannesar hóf útgáfu kvennablaðsins Framsóknar ásamt Ingibjörgu Skaftadóttur dóttur sinni árið 1895.

Konungsheimsóknin 1907Árið 1904, þá nýorðinn fyrsti ráðherra Íslands, setti Hannes fram nýja reglugerð fyrir Lærða skólann í Reykjavík (sem upp frá þessu nefndist menntaskóli). Þar er kveðið á um að skólinn skyldi vera opinn bæði piltum og stúlkum. Í ferð sem Bríet Bjarnhéðinsdóttir fór í til Norðurlanda þetta sama ár sagði hún að áður en hún fór utan hafi henni verið sýnt uppkast að breytingum sem gera átti á íslenska skólakerfinu þannig að skólarnir yrðu opnir báðum kynjum. Það virðist því ljóst að Hannes hefur sýnt henni, og ef til vill borið undir hana, þessa mikilvægu breytingu. Þá mætti jafnvel spyrja hvort Bríet hafi haft frumkvæðið að því að þessi breyting yrði gerð því Laufey Valdimarsdóttir, dóttir Bríetar, lauk barnaskólaprófi þetta sama vor og settist svo, fyrst kvenna, á skólabekk í Menntaskólanum haustið 1904. 

Árið 1911 lagði Hannes fram á Alþingi frumvarp til laga um rétt kvenna til menntunar og embætta. Miklar umræður urðu um það mál enda þótti sumum þingmönnum fulllangt gengið. Sá sem hæst hafði taldi Hannes þjóna eigin hagsmunum með því að leggja fram þetta frumvarp því hann ætti dóttur sem væri við nám í Menntaskólanum. Þingmaðurinn sagði að Hannes hefði ekkert gert í þágu menntunar kvenna í ráðherratíð sinni og minntist á "einstæðingsekkju" úti í bæ sem hefði stritað við að kosta dóttur sína til náms í Menntaskólanum án þess að fá nokkurn styrk frá stjórninni. Það fór ekki fram hjá neinum að hér var vísað til Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og Laufeyjar dóttur hennar. 

Það gustaði nokkuð af svari Hannesar sem sagðist ekki hirða um að svara því hvort hann hefði rankað við sér við það að dóttir hans hóf nám í menntaskólanum en hvað Bríeti og Laufeyju varðaði sagði hann: Stúlkan, sem hann talaði um, naut einmitt námsstyrks í Menntaskólanum, en þegar hún var orðin stúdent, sigldi hún til Kaupmannahafnarháskóla og þar hefir hún engan styrk fengið. Það er einmitt móðir þessarar ungu stúlku, sem hefir vakið mig til þess að flytja þetta frumvarp nú, og ég geri það í sambandi við þau pólitísku réttindi, sem ég býst við að þetta þing samþykki konum til handa.

Pólitísku réttindin sem Hannes nefndi er kosningaréttur kvenna til Alþingis, sem, þegar á reyndi, fékkst ekki staðfestur þetta árið. Af orðum Hannesar er ljóst að það var Bríet sem fékk hann til að flytja frumvarpið og það hefur hann gert með glöðu geði, kannski ekki síst vegna þess að ein dætra hans var komin í Menntaskólann. Fimm stúlkur átti hann til viðbótar þegar þarna var komið sögu og ein var ófædd. Það er varla furða að maður sem alinn var upp af og tengdur jafnmörgum baráttukonum, og margra dætra faðir, láti sig réttindi þeirra og framtíðarmöguleika nokkru varða. Og þess má geta hér að Þórunn dóttir Hannesar innritaðist í Háskóla Íslands árið 1915, í lagadeild fyrst kvenna eftir því sem best verður séð. Þórunn lét hins vegar þegar á reyndi nægja að ljúka prófi í forspjallsvísindum, eins og algengast var hjá konum fyrstu tvo áratugina sem skólinn starfaði.

Í áðurnefndri þingræðu sagði Hannes: En hitt viljum við koma í veg fyrir, að kona, sem sækir um embætti og bæði andans og líkamans burðum er hæfari en mótkandidatinn, sé útilokuð af þeirri ástæðu einni, að hún er kona. Slíkt er hið hróplegasta ranglæti, sem mér finst heilög skylda að nema úr lögum sem fyrst.

Bríet sat á þingpöllum og fylgdist með umræðunum. Hún skrifaði Laufeyju, sem þá var í Kaupmannahöfn, nákvæmar lýsingar á atburðarásinni. Og þegar málið var í höfn skrifaði hún: "Húrra fyrir okkur konum! Og dálítið húrra fyrir okkur Hannesi Hafstein! Mér sem átti upptökin og fékk hann til að flytja það og honum einkum sem gerði það svona vel." Kvenréttindafélagskonur sendu Hannesi þakkarávarp að launum og rósir sendi Bríet honum í nafni kvenna. Samskiptum Bríetar og Hannesar var ekki lokið. Hann átti heiðurinn af því að útvega henni fararstyrk á þing Alþjóðasamtaka kvenréttindafélaga í Búdapest árið 1913, og ráðlagði henni meira að segja hverju hún skyldi klæðast, eins og Bríet Héðinsdóttir lýsir skemmtilega í bók sinni um ömmu sína og nöfnu. Og árið 1916 braut Bríet þá meginreglu sína að fylgja engum stjórnmálaflokki að málum, sem hún hafði talið farsælast meðan konur væru að ná fram réttindum sínum, og settist í fjórða sæti á lista Heimastjórnarflokks Hannesar fyrir Alþingiskosningar.

Minningarsjóður Hannesar Hafstein

Þótt ekki væri full samstaða um það meðal kvenna var stofnaður sjóður til heiðurs Hannesi á fimmtugsafmæli hans í desember 1911 og var það gert í þakkarskyni fyrir framlag hans til menntunar kvenna. Sjóðnum skyldi "varið til styrktar íslenskum kvenmönnum, sem stunda nám við Háskóla Íslands". Minningarsjóður Hannesar Hafstein var afhentur Háskóla Íslands í febrúar 1912 en ekki mátti úthluta styrkjum úr honum fyrr en hann hafði náð ákveðinni upphæð og átti Háskólaráð að ákveða eftir hvaða reglum skyldi farið við úthlutun. Þá mátti, þætti ráðinu ekki þörf á úthlutun námsstyrkja, veita verðlaun "eða styðja vísindalega starfsemi íslenskra kvenna, er útskrifaðar sjeu frá Háskóla Íslands, eða styrkja þær til utanfarar í vísindalegu skyni".

Eftir því sem best verður séð var í fyrsta skipti veittur styrkur úr sjóði Hannesar Hafstein vorið 1930 og fengu þá læknanemarnir Jóhanna Guðmundsdóttir og María Hallgrímsdóttir kr. 380 hvor.

Minningarsjóður Hannesar Hafstein hefur án efa skipt stúdínur verulega máli meðan hann var við lýði en líkt og annar merkur sjóður sem styðja átti og styrkja konur til náms, Háskólasjóður Hins íslenska kvenfélags, rann hann saman við aðra smærri sjóði upp úr 1970 og er nú hluti af Sjóðasafni Háskóla Íslands.

Hannes Hafstein - Maðurinn

Hannes HafsteinHannes er, eins og fyrr er getið, fæddur að Möðruvöllum í Hörgárdal. Þar var embættissetur amtmannsins og þar ólst Hannes upp fram á tíunda árið, þegar faðir hans missti embættið og fjölskyldan flutti að Skjaldarvík skammt norðan Akureyrar. Þaðan lá leiðin í Lærða skólann í Reykjavík þar sem Hannes stóðst inntökupróf aðeins 12 ára gamall. Á skólaárum sínum átti hann athvarf hjá hálfsystur sinni Þórunni Jónassen, en maður hennar var Jónas Jónassen landlæknir. Þórunn var dóttir Guðrúnar Stephensen fyrstu konu Péturs Havstein. Þórunn varð síðar ein af þeim forustukonum í landinu sem börðust fyrir auknum réttindum kvenna og varð m.a. formaður Ragnheiður HafsteinThorvaldsensfélagsins í áratugi. 

Engar endurminningar eru til frá æskuárum Hannesar en allnokkrar frá skólaárum hans í Lærða skólanum. Um hann segir Jón Jacobson í 19. árgangi Óðins m.a.  svo: „Árið 1874 voru 11 nýsveinar teknir inn í fyrsta bekk. Allir voru þeir vorlömb eða sumrungar nema ég og þrír aðrir sem voru haustbornir skólasveinar. Hannes Hafstein var þá yngstur piltur í skóla aðeins 12 ára. Hann settist þegar ofarlega, varð 4. af nýsveinum, en síðan hækkaði hann smá saman og lét sér ekki minna nægja en efsta sæti á efsta borði. Á þeim árum eimdi enn eptir af harðhjósku efribekkinga við busana. Urðu busarnir, einkum þeir er minnstir voru, mest fyrir hnjóskinu. Tók ég þráfaldlega eftir því að Hannes vildi aldrei láta sig, kvarta, æja eða brynna músum í því tuski, heldur settist hann hljóður og alvarlegur niður eftir ósigurinn að loknum leiknum. Það var karlmennska í sálinni.“

Jón biskup Helgason segir m.a. í útfararræðu 22. desember 1922 um Hannes Hafstein: „Fullur hálfur fimmti tugur ára eða meira er nú liðinn síðan ég fyrst heyrði Hannesar Hafsteins getið. Það var á námsárum hans hér í Lærða skólanum þar sem hann var sambekkingur elsta bróður míns. Og þess minnist ég þá sérstaklega frá þessum árum hvert orð fór af þessum unga og tápmikla sveini, hversu jafnaldarar dáðust að honum sökum ágætra hæfileika hans til náms og sem mest gætti síðar í lífi hans sem fulltíða manns, enda var því spáð af flestum, að hans mundi bíða bjartir framtíðardagar ef heilsa og aldur entist. Og ánægjulegt er að minnast þess nú, hvern hug hann bar til ættjarðar sinnar þegar á þessum árum.“

Björn M. ÓlsenBjörn M. Ólsen segir um Hannes þegar hann er nýorðinn stúdent. „Rétt eftir burtfararprófið úr Latínuskólanum vorið 1880 var ég staddur á Þingvöllum ásamt Jóni Þorkelssyni rektor. Þá bar þar að Hannes Hafstein og nokkrir fleiri nýstúdentar á norðurleið. Mér stendur hann alltaf síðan fyrir hugskotssjónum eins og hann var þá, fullur af æskufjöri, hár vexti, þrekinn um herðar, fremur fölleitur á hörundslit, dökkur á brún og brá, augun snör en svipurinn þó hreinn og heiður, andlitið frítt og reglulegt eins og það væri mótað eftir rómverskum fegurðarlögum. Þá man ég eftir að mér datt í hug: Hér er mannsefni ef honum endist líf og heilsa.“

Það kom snemma í ljós að Hannes var skáldmæltur og orti hann talsvert á skólaárum sínum í Lærða skólanum, einkum kvæði og vísur sem prísuðu lífið og nautnir þess eða voru meinfyndnar í garð náungans.

Frásögn Einars H. Kvaran í 19. árgangi Óðins 1923 er á þessa leið.

„Ég kom til Kaupmannahafnar 1881. Þá var Hannes Hafstein þar. Var hann þá tvítugur að aldri. Ég veit ekki, hvort nokkrum er kunnugt um Íslending, sem hafi verið meir bráðþroska en Hannes Hafstein. Á þessum árum, 1881 til 1885, lét hann stundum dag eftir dag rigna yfir okkur vini sína ljóðum, sem okkur fundust merkilegir viðburðir í bókmenntum þjóðarinnar, og voru það líka.

Ljóð þessa tvítuga manns hafa orðið „klassísk“. Þau hafa verið á vörum hvers Íslendings sem nokkurn tíma hefur tekið sér ljóð í munn. Menn hafa vitnað til þeirra, að sínu leyti eins og til alþekktra málshátta. Börnin hafa lært þau í skólum og heimahúsum. Menn hafa lesið þau og sungið í ölteitum. Og prestarnir hafa farið með erindi úr þeim í prédikunarstólum.

Snilld hans hafði nokkuð lamandi áhrif á suma okkar. Hann orti svo vel, að þeir höfðu ekki lengur ánægju að yrkja sjálfir, af því að þeir fundu, hve miklu betur honum lét það. Svo var að minnsta kosti um þann, er þessar línur ritar.

Farandspákona náði einu sinni í hann á þessum árum. Hún vissi ekkert um hann, hver hann væri eða hvaðan hann væri. Hún sagði honum að það ætti fyrir honum að liggja að verða æðsti maður í sínu landi. Við höfðum enga ofsatrú á spádómum á þeim árum. En þessi spádómur þótti okkur, vinum hans, sennilegur. Hann var fríðastur sínum, gervilegastur og glæsilegastur Íslendingur sem við höfðum séð. Hann var eins og Snorri Sturluson kveður að um Ólaf Tryggvason, „allra manna glaðastur“.

Hann virtist fæddur til þess að vera gæfumaður. Og metorð og völd töldum við að sjálfsögðu gæfu. En hvað sem því leið, þurfum við ekki að fá neina spákonu til þessa að segja okkur það að hann mundi verða talinn með mestu skáldum Íslendinga. Við vorum ekki í neinum vafa um að hann var orðinn það.“

Það hefur oft verið sagt að það sem einkenni Hannes Hafstein sem skáld sé karlmennska og gleði. Í karlmennsku sinni orti hann kjark í íslensku þjóðina til að taka á öllum þeim miklu möguleikum sem landið hafði upp á að bjóða. Þannig var hann sjálfur. Þó yfirborðið virtist dálítið dulrænt, var hann glaðlegur, gekk að hverju verki með krafti en þó af yfirvegun og festu, og þegar á þurfti að taka bilaði kjarkurinn ekki, svo vitnað sé til hina miklu átaka við enska veiðiþjófa á Dýrafirði í lok nítjándu aldar.

Klemens JónssonKlemens Jónsson, sem varð landritari 1904 og kom til greina sem fyrsti ráðherrann, segir um Hannes Hafstein á þess leið. „Það var mikill vandi að koma hinu nýja fyrirkomulagi í framkvæmd og þurfti mikla lipurð til þess að leysa þar úr ýmsum vafningum og vafaspurningum. Hannesi tókst það furðu vel, enda var hann alla jafna liðlegur í samningum, en gætti þess þó jafnan að slaka aldrei til frá því sem hann áleit rétt. Hann var mjög aðlaðandi í öllu viðmóti og kurteis í orðum og hjálpaði það honum yfir mörg sker.“

Hannes Hafstein var ekki hinn harði stjórnmálaforingi sem knúði andstæðinga sína niður. Hann vildi undir öllum kringumstæðum ná sáttum og samstöðu með sem flestum um lausn mála. Þetta reyndi hann bæði á fyrri tíma sínum sem ráðherra Íslands og ekki síður í seinna skiptið. Hann óskaði eftir friði og samstarfi þegar hann tók við embætti en fékk hvorugt. Undarlegast af öllu var andstaðan við ritsímann, en þar fóru andstæðingar Hannesar offari á móti málinu. Er óskiljanlegt hvernig hægt var að standa á móti jafnmiklu framfaramáli eins og að tengja þjóðina saman innanlands og þar að auki við útlönd. Þegar þingmálafundir víða um land höfðu ályktað gegn símasamningnum á grundvelli lausafregna um önnur tilboð, var haft eftir Hannesi í þingveislu að þingmenn mættu ekki vera „málpípur goluþytsins utan af landsbyggðinni“, og léði hann aldrei máls á neinni töf eða hiki á þeirri framkvæmd.

Jón MagnússonJón Magnússon forsætisráðherra segir svo í 19. árgangi Óðins um símamálið: „Framkvæmd hans og aðgerðum í því máli er þannig háttað, að það orkar ekki tvímælis, að þó að hann hefði ekki neinu öðru til leiðar komið, þá ætti hann sæti meðal hinna allra fremstu og þörfustu stjórnmálamanna þessa lands.“

Jón Þorláksson segir um hann: „Hannes Hafstein var foringinn, sem kemur í framkvæmd hugsjónum þeim sem við hinir yngri Heimastjórnarmenn höfðum alið í brjósti, en ekki vonast eftir að mundu rætast um okkar daga. Hann var fyrst og fremst framkvæmda- og framfaramaðurinn, og í ljósi þeirrar stefnu verður að skoða starfsemi hans í sjálfstæðismálum þjóðarinnar, ef menn vilja skilja hann rétt.

Þá var honum ekki síður metnaðarmál að ná sem víðtækastri samstöðu um sambandið við Dani. Og hvernig sem á það er litið þá var uppkastið svonefnda frá 1908 grunnurinn að því sem síðar kom með fullveldinu 1918.

Líklega er þó fánamálið hans mesta „diplómatíska“ meistarastykki, þegar honum tókst að fá Kristján tíunda, sem oftast hafði allt á hornum sér gagnvart Íslandi og Íslendingum, til að samþykkja íslenskan fána.

Þegar Hannes baðst lausnar í síðara skiptið komust málefni Íslands í hálfgert öngþveiti í tæp tvö ár. Kristján tíundi boðaði þá Hannes á sinn fund, þó engir hefðu þeir vinir verið eins og Friðrik áttundi og Hannes. Eftir þá för Hannesar var Einar Arnórsson skipaður ráðherra. Hann var andstæðingur Hannesar. Þegar heim kom var við hann sagt að allar hans gerðir hefðu miðast að því að greiða götu andastæðinganna. Svar Hannesar, sem frægt var: „Þegar ég er kominn út fyrir landsteinana, er ég aldrei flokksmaður lengur; þá er ég aðeins Íslendingur.

Ef til vill segir þetta meira um manninn Hannes Hafstein en nokkuð annað. Hann vildi gera allt fyrir ættjörð sína, fórna öllu til, lífi og heilsu ef svo var að skipta, og gerði það svo um munaði. Trú hans á íslensku þjóðina og ást hans á landinu var það eldsneyti sem hann þurfti, hvort sem það var maðurinn, skáldið eða stjórnmálamaðurinn Hannes Hafstein. Andlegt og líkamlegt atgervi hans var þannig að hann skipar sér í flokk fremstu manna þjóðarinnar hvernig sem á hann er litið.“

Mest af því sem hér á undan er vitnað til er frá samtímamönnum. Mönnum sem þekktu hann og störfuðu með honum, bæði samherjar og andstæðingar. En það er sama hver talar, röddin er samhljóma. Einstakur afreksmaður sem fáa átti sína líka. Orð þessara mann gilda miklu meir um manninn Hannes Hafstein en síðari tíma sagnfræði.
Hannes Hafstein er einn íslenskra forustumanna um það, að nokkrum mánuðum eftir lát hans birtu forvígismenn af ýmsum stéttum og öllum flokkum áskorun til íslensku þjóðarinnar um að reisa honum minnismerki. Þar segir m.a.: „Með afburðar þreki og lagni hefur hann átt svo mikinn þátt í því hvorutveggja: að koma sjálfsforræðismáli þjóðarinnar fram og hrinda réttarbótum og framfaramálum hennar áfram, að fyrir það getur þjóðin aldrei sýnt þakklæti sitt meira en verðugt er.“ Jafnframt hafi hann verið „eitt af helstu ljóðskáldum þjóðarinnar“ og flestum eða öllum fremur reynt „að efla vilja og þrótt hennar til dáðríkra framkvæmda með ljóðum sínum“.

Hinn fyrsta desember 1931, á fullveldisdaginn, var standmynd Hannesar Hafstein afhjúpuð fyrir framan stjórnarráðshúsið í Reykjavík.

Sú þjóð, sem á engan skáldskap, er engin þjóð

Hannes HafsteinÁrið 1888 hélt Hannes Hafstein, þá 26 ára, opinberan fyrirlestur í Templarahúsinu í Reykjavík undir ofangreindri fyrirsögn. Þó að fyrirlesarinn væri þekktur maður og heiti fyrirlestrarins ögrandi var Hannes ekki vissari en svo um að fá áheyrendur í húsið að hann réð Nickolin tannlækni til að syngja nokkur lög á undan fyrirlestrinum. Húsið troðfylltist, hvort sem það var nú lögfræðingurinn eða tannlæknirinn sem trekkti, og fólk varð ekki fyrir vonbrigðum. Hannes las þjóð sinni eftirminnilegan reiðilestur þar sem hann skammaðist yfir deyfð bókmenntanna og grútmáttlausri bókaútgáfu. Þetta kenndi hann almennri pólitískri deyfð í þjóðfélaginu og hvatti bæði þjóðina til dáða svo að skáldin mættu yrkja dáðrík kvæði svo þjóðin mætti eflast.
 
Hannes hafði alveg efni á að tala djarflega. Sjálfur hafði hann birt fyrstu kvæði sín opinberlega aðeins 18 ára gamall og var rétt orðinn tvítugur þegar tímaritið Verðandi kom út með ljóðum eftir hann sem enn þann dag í dag halda ferskleika sínum og kynngimagni. Hannes vann því ekki síður að því sem skáld en embættismaður að gera íslenska þjóð að þjóð, bæði með ættjarðarljóðum sínum og gleðikvæðum.
 
StormurHannes gaf út Ýmisleg ljóðmæli 1893 og árið eftir kom út Söngbók hins íslenska stúdentafélags með tæplega 30 gleðikvæðum eftir hann. Ljóðasafn sitt gaf hann út 1916. Það var endurútgefið 1968 af Tómasi Guðmundssyni skáldi ásamt lausu máli af ýmsu tagi.

Meðal þess sem skilur skáldskap Hannesar frá því nær öllum öðrum íslenskum skáldskap er veðurfarið í kvæðunum. Þar er hvorki beðið um eilíft sólskin né lognmollu eins og tíðkast á okkar túristatímum. Fræg er upphafslína kvæðisins sem var eins konar stefnuskrá Verðandimanna: "Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund" og kvæðið "Undir Kaldadal" hefst á þessum hressilegu línum:
 
 Ég vildi óska' að það yrði nú regn
 eða þá bylur á Kaldadal,
 og ærlegur kaldsvali okkur í gegn
 ofan úr háreistum fjallasal.

 
Hann þráir loft og almennilegt bað til að þvo burtu dáðleysið, hann þrábiður um steypiregn og íslenskan storm til að kæta hjarta sitt. Vissulega kann hann að meta heita kossa sólarinnar því "Blessuð sólin elskar allt", eins og segir í þekktri vísu eftir hann, og himin kvikan af norðljósablossum eins og segir í "Landsýn", en þar kemur líka hret að vestan, haglél að austan og hreggbylur að sunnan! Eitt kvæðið heitir beinlínis "Óveður"!
 
SkarphéðinnHannes er myndvís, dregur til dæmis upp lifandi mynd af síðustu stund Skarphéðins Njálssonar í brennunni á Bergþórshvoli þannig að við sjáum bæði hetjuna á þessum örlagaríku mínútum áður en hún ferst og heyrum og finnum eldtungurnar:
 
 Skall yfir eldhafið, ólgandi, logandi,
 eldvargar runnu fram, hvæsandi, sogandi.
 Reykurinn glóðþrunginn gaus upp úr kafinu.
 Gaflhlaðið eitt stóð sem klettur úr hafinu.

Seinna sýnir hann logana í hundsgervi þar sem þeir leggjast að fótum hetjunnar og sleikja þá flakandi tungum.

Í þessu kvæði, "Skarphéðinn í brennunni", má líka sjá annað óvenjulegt einkenni á ljóðum Hannesar, nefnilega hvað þau geta verið leikræn í sviðsetningu. Sums staðar í kvæðum hans eru beinar ræður, jafnvel samtöl, og meira að segja leikur hann sér að mállýskumun í "Daginn eftir dansleik" þar sem fyllirafturinn er óttalega flámæltur. Það minnir á hvað Hannes getur verið fyndinn í kvæðum sínum.

Hannes var mestan hluta ævi sinnar óskabarn gæfunnar, fríður maður sem laðaði fólk að sér. Hann kunni líka vel að meta lystisemdir lífsins og heit lífsgleði skín úr kvæðum hans. Hann dásamaði drottin fyrir að láta vaxa ber í ljúffeng vín og var jafnhneykslaður á bindindismönnum og fyllibyttum fyrir að vanmeta þær góðu gjafir ("Guð lét fögur vínber vaxa"). Ástarkvæði hans eru mörg, heit og myndræn. Í "Sjóferð" sem hann orti tvítugur förum við í ferðalag á seglbát í fljúgandi byr með honum og stúlkunni hans, og í "Smalastúlkunni" segir hann afar skemmtilega frá því hvenær hann fann fyrst fyrir því að hann væri karlkyns. Hann leggur sig allan fram um að lýsa nákvæmlega áhrifum tilfinninganna á líkamsstarfsemina - eins og í þessu erindi úr kvæðinu "Nú hef ég fundið":

Nú hef ég fundið yndissára eldinn
 æðarnar fylla, streyma gegnum brjóstið, þrengjast sem
 eldregn út um kné og sköfnung,
 afl fara' úr kálfum.

 
Ástarljóð Hannesar þóttu vissulega býsna berorð fyrir hundrað árum, og reyndar er slík tjáning girndar sjaldgæf í ljóðum enn í dag.

Því miður dró verulega úr yrkingum Hannesar eftir að hann varð önnum kafinn embættismaður.

Í bréfi til skáldbróður síns Matthíasar Jochumssonar árið 1899 segist hann kveljast "af því að hafa mörg járn í eldinum" og bætir við: "Ég er orðinn púlsklár, kancellíbykkja, dómsmálatrunta, mæðin og meidd í miðju baki ." Frá þessum árum er þó eitt hans þekktasta kvæði, "Í hafísnum", þar sem hann segir sögu skipstjóra sem fórnar sér fyrir skipshöfn sína. Það hefur verið túlkað sem eftirmáli Hannesar við stjórnmálaafskipti sín.

Tilvísanir

[1] Jón Þ. Þór, Breskir togarar og Íslandsmið 1889-1916  (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1982), bls. 13-41.
[2] Gísli Ágúst Gunnlaugsson, „Fiskveiðideila Íslendinga og Breta 1896 og 1897,” Saga XVIII, 1980, bls. 83.
[3] The National Archives, London: FO22/555, skýrsla H. Cross, skipstjóra á HMS Galatea, um fiskveiðar undan Færeyjum og Íslandi, 19. júní 1899.
[4] „Sýslumaðr tekr botnverping,” Fjallkonan, 37. tbl. 1898.
[5] „Landhelgissýningin” (http://www.natmus.is/syningar/landhelgsyningin.htm), skoðað 15. október 2003.
[6] Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður F.R. Wendels, verslunarstjóra á Þingeyri, 22. febrúar 1900.
[7] „Landhelgissýningin” (http://www.natmus.is/syningar/landhelgsyningin.htm).
[8] Kristján Albertsson, Hannes Hafstein. Æfisaga I (Reykjavík: Almenna bókafélagið, önnur útgáfa endurskoðuð, 1985 (fyrsta útgáfa 1961)), bls. 185. Sjá einnig Steinar J. Lúðvíksson, Þrautgóðir á raunastund. Björgunar- og sjóslysasaga Íslands XIII (Reykjavík: Örn og Örlygur, 1981), bls. 116.
[9] „Illræðisverk botnverpils á Dýrafirði,” Þjóðólfur, 27. október 1899.
[10] The National Archives, London: FO22/555, ræðismannsskrifstofa Bretlands í Reykjavík til Salisburys lávarðar, utanríkisráðherra, 20. maí 1899.
[11] „Illræðisverk botnverpils á Dýrafirði,” Þjóðólfur, 27. október 1899.
[12] Ólafur Ólafsson, „Endurminningar úr heimahögum,” Ársrit Sögufélags Ísfirðinga, 4. árg. 1959, bls. 92.
[13] Ótitlað bréf Gísla Oddssonar, Þjóðviljinn, 30. nóvember 1899. Um „tröllafiskeríið”, sjá Jón Þ. Þór, Breskir togarar og Íslandsmið, bls. 196-212.
[14] „Aðfarir Botnverpinga. – Slysfarirnar á Dýrafirði,” Þjóðviljinn, 25. október 1899. Sjá einnig Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður Hannesar Hafstein, 17. febrúar 1900, og Kristjáns Andréssonar, 21. febrúar 1900.
[15] „Voðalegar „trawlara”-aðfarir – þrír menn drukknaðir,” Þjóðviljinn, 14. október 1899.
[16] Sigurður A. Magnússon, „Hannes Hafstein,” í Sigurður A. Magnússon (ritstjóri), Þeir settu svip á öldina. Íslenskir stjórnmálamenn (Reykjavík: Iðunn, 1983), bls. 40-42, og Kristján Albertsson, Hannes Hafstein I, bls. 177-181.
[17] Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður Hannesar Hafstein, 17. febrúar 1900.
[18] Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður F.R. Wendels, verslunarstjóra á Þingeyri, 22. febrúar 1900, og Hannesar Hafstein, 24. febrúar 1900.
[19] „Illræðisverk botnverpils á Dýrafirði,” Þjóðólfur, 27. október 1899.
[20] Kristján Albertsson, Hannes Hafstein I, bls. 185 og 188, og Ólafur Ólafsson, „Endurminningar úr heimahögum,” bls. 93.
[21] Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður Kristjáns Andréssonar, 21. febrúar 1900. Sjá einnig „Illræðisverk botnverpils á Dýrafirði,” Þjóðólfur, 27. október 1899.
[22] Kristján Albertsson, Hannes Hafstein I, bls. 188.
[23] The National Archives, London: FO22/556, Jón Vídalín, ræðismaður Breta í Reykjavík, til aðstoðardeildarstjóra fiskimáladeildar, Board of Trade, London, 24. október 1899. Bréfinu fylgdi útdráttur úr bréfi Hannesar Hafstein til Jóns frá 20. október 1899.
[24] „Landhelgissýningin” (http://www.natmus.is/syningar/landhelgsyningin.htm), og „Ef þjóðin mannast og efnast, verður henni ekki neitað um frelsið. Frásögn Matthíasar Ólafssonar fyrrv. alþingismanns af viðureign Hannesar Hafstein við brezka landhelgisbrjóta.” Valtýr Stefánsson, Myndir úr þjóðlífinu. Fimmtíu viðtöl (Reykjavík: Bókfellsútgáfan, 1958), bls. 10.
[25] Ólafur Ólafsson, „Endurminningar úr heimahögum,” bls. 92-93, og Jón Þ. Þór, „Atburðirnir á Dýrafirði 10. október 1899.” Erindi flutt í Sjóminjasafni Íslands, 1. desember 1999.
[26] Handritadeild Landsbókasafns Íslands: Lbs 2375 4to, dagbók Sighvatar Grímssonar Borgfirðings, 7. október 1899.
[27] „Illræðisverk botnverpils á Dýrafirði,” Þjóðólfur, 27. október 1899.
[28] The National Archives, London: FO22/556, H. Dare, skipstjóri HMS Blonde, til flotamálaráðuneytis, London, 23. september 1899.
[29] „Sýslumaðr tekr botnverping,” Fjallkonan, 37. tbl. 1898.
[30] „Ef þjóðin mannast og efnast,” bls. 10.
[31] „Landhelgissýningin” (http://www.natmus.is/syningar/landhelgsyningin.htm).
[32] Ólafur Ólafsson, „Endurminningar úr heimahögum,” bls. 100.
[33] Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður Hannesar Hafstein, 17. febrúar 1900.
[34] Kristján Albertsson, Hannes Hafstein I, bls. 188. Sjá einnig Steinar J. Lúðvíksson, Þrautgóðir á raunastund XIII, bls. 118-119.
[35] The National Archives, London: FO22/556, Jón Vídalín, ræðismaður Breta í Reykjavík, til aðstoðardeildarstjóra fiskimáladeildar, Board of Trade, London, 24. október 1899. Bréfinu fylgdi útdráttur úr bréfi Hannesar Hafstein til Jóns frá 20. október 1899.
[36] Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður Hannesar Hafstein, 17. febrúar 1900.
[37] Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður Hannesar Hafstein, 17. febrúar 1900.
[38] „Aðfarir Botnverpinga. – Slysfarirnar á Dýrafirði,” Þjóðviljinn, 25. október 1899.
[39] Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður Hannesar Hafstein, 17. febrúar 1900.
[40] Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður Jóns Gunnarssonar, 17. febrúar 1900.
[41] „Aðfarir Botnverpinga. – Slysfarirnar á Dýrafirði,” Þjóðviljinn, 25. október 1899.
[42] Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður Hannesar Hafstein, 17. febrúar 1900.
[43] Kristján Albertsson, Hannes Hafstein I, bls. 186.
[44] Sigurður Sigurðsson frá Arnarholti, „Menn, sem jeg man,” Lögrétta, 28. árg. 2. h. 1933, dálkur 167.
[45] Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður Hannesar Hafstein, 17. febrúar 1900.
[46] Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður Hannesar Hafstein, 17. febrúar 1900.
[47] „Voðalegar „trawlara”-aðfarir – þrír menn drukknaðir,” Þjóðviljinn, 14. október 1899.
[48] „Illræðisverk botnverpils á Dýrafirði,” Þjóðólfur, 27. október 1899.
[49] Ólafur Ólafsson, „Endurminningar úr heimahögum,” bls. 101.
[50] „Ef þjóðin mannast og efnast,” bls. 12, og Ólafur Ólafsson, „Endurminningar úr heimahögum,” bls. 101-102.
[51] „Í slóð Hannesar Hafstein – söguferð í Dýrafirði,” Bæjarins besta (http://www.bb.is/prentvaen.php?uid=11708).
[52] Kristján Albertsson, Hannes Hafstein I, bls. 186, og Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður Hannesar Hafstein, 17. febrúar 1900.
[53] Útdráttur úr bréfi Hannesar Hafstein til Hannesar Þorsteinssonar, ritstjóra Þjóðólfs, 20. október 1899. Sjá „Illræðisverk botnverpils á Dýrafirði,” Þjóðólfur, 27. október 1899.
[54] Kristján Albertsson, Hannes Hafstein I, bls. 187.
[55] „Ef þjóðin mannast og efnast,” bls. 12.
[56] Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður Hannesar Hafstein, 17. febrúar 1900.
[57] „Illræðisverk botnverpils á Dýrafirði,” Þjóðólfur, 27. október 1899.
[58] „Ef þjóðin mannast og efnast,” bls. 12.
[59] Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður Hannesar Hafstein, 17. febrúar 1900.
[60] The National Archives, London: FO22/556, Jón Vídalín, ræðismaður Breta í Reykjavík, til aðstoðardeildarstjóra fiskimáladeildar, Board of Trade, London, 24. október 1899. Bréfinu fylgdi útdráttur úr bréfi Hannesar Hafstein til Jóns frá 20. október 1899.
[61] Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður Jóns Gunnarssonar, 17. febrúar 1900.
[62] „Illræðisverk botnverpils á Dýrafirði,” Þjóðólfur, 27. október 1899.
[63] Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður Hannesar Hafstein, 17. febrúar 1900.
[64] Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður Guðbjarts Jónssonar, 20. febrúar 1900.
[65] Ólafur Ólafsson, „Endurminningar úr heimahögum,” bls. 96.
[66] Ólafur Ólafsson, „Endurminningar úr heimahögum,” bls. 102.
[67] Sjá Kristján Albertsson, Hannes Hafstein I, bls. 187.
[68] Eyjólfur Jónsson, Vestfirzkir slysadagar 1880-1940 (Ísafirði: Sögufélag Ísfirðinga, 1996), bls. 281.
[69] Kristján Albertsson, Hannes Hafstein I, bls. 187.
[70] „Landhelgissýningin” (http://www.natmus.is/syningar/landhelgsyningin.htm).
[71] „Landhelgissýningin” (http://www.natmus.is/syningar/landhelgsyningin.htm).
[72] „Hvalveiðimaður”, Þjóðviljinn, 30. desember 1899, og Eyjólfur Jónsson, Vestfirzkir slysadagar, bls. 282.
[73] „Landhelgissýningin” (http://www.natmus.is/syningar/landhelgsyningin.htm).
[74] Handritadeild Landsbókasafns Íslands: Lbs 2375 4to, dagbók Sighvatar Grímssonar Borgfirðings, 13. október 1899.
[75] Sjá The National Archives, London: FO22/556, Jón Vídalín, ræðismaður Breta í Reykjavík, til aðstoðardeildarstjóra fiskimáladeildar, Board of Trade, London, 24. október 1899. Bréfinu fylgdi útdráttur úr bréfi Hannesar Hafstein til Jóns frá 20. október 1899.
[76] Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður Hannesar Hafstein, 17. febrúar 1900, Jóns Gunnarssonar, 17. febrúar 1900, og Guðjóns Friðrikssonar, 21. febrúar 1900.
[77] Þjóðskjalasafn Íslands. Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál. Vitnisburður Jóns Gunnarssonar, 17. febrúar 1900, og Guðjóns Friðrikssonar, 21. febrúar 1900.
[78] „Voðalegar „trawlara”-aðfarir – þrír menn drukknaðir,” Þjóðviljinn, 14. október 1899.
[79] „Illræðisverk botnverpils á Dýrafirði,” Þjóðólfur, 27. október 1899.
[80] „Manndráp”, Ísafold, 28. október 1899.
[81] „Manndráp”, Ísafold, 28. október 1899.
[82] Ólafur Ólafsson, „Endurminningar úr heimahögum,” bls. 97-98.
[83] „Illræðisverk botnverpils á Dýrafirði,” Þjóðólfur, 27. október 1899.
[84] The National Archives, London: FO22/556, breska sendiráðið í Kaupmannahöfn til Salisburys lávarðar, utanríkisráðherra, 10. nóvember 1899, og „Nilsson handsamaður,” Þjóðólfur, 1. desember 1899.
[85] „Nilsson botnverpingur höndlaður,” Ísafold, 22. nóvember 1899.
[86] Steinar J. Lúðvíksson, Þrautgóðir á raunastund XIII, bls. 117.
[87] The National Archives, London: FO22/556, breska sendiráðið í Kaupmannahöfn til Salisburys lávarðar, utanríkisráðherra, 10. nóvember 1899.
[88] The National Archives, London: FO22/556, Sir Edmund Fane, sendiherra Breta í Kaupmannahöfn, til Salisburys lávarðar, utanríkisráðherra, 22. nóvember 1899. Sir Edmund hafði þetta eftir baróni Beck Friis, sendiherra Svía.
[89] Steinar J. Lúðvíksson, Þrautgóðir á raunastund XIII, bls. 117-118. Sjá einnig The National Archives, London: FO22/556, breska sendiráðið í Kaupmannahöfn til Salisburys lávarðar, utanríkisráðherra, 23. nóvember 1899.
[90] Steinar J. Lúðvíksson, Þrautgóðir á raunastund XIII, bls. 118.
[91] „Landhelgissýningin” (http://www.natmus.is/syningar/landhelgsyningin.htm), og Jón Þ. Þór, „Atburðirnir á Dýrafirði 10. október 1899.”
[92] Steinar J. Lúðvíksson, Þrautgóðir á raunastund XIII, bls. 118, og Jón Þ. Þór, Breskir togarar og Íslandsmið, bls. 191.
[93] Steinar J. Lúðvíksson, Þrautgóðir á raunastund XIII, bls. 112-114.
[94] Sjá Ólaf Ólafsson, „Endurminningar úr heimahögum,” bls. 107.
[95] Sigurður Sigurðsson frá Arnarholti, „Menn, sem jeg man,” dálkur 168.
[96] Steinar J. Lúðvíksson, Þrautgóðir á raunastund XIII, bls. 115-116.
[97] Ólafur Ólafsson, „Endurminningar úr heimahögum,” bls. 92.
[98] Vilhjálmur Finsen, „Skæruhernaður á friðartímum á Íslandsmiðum,” Morgunblaðið, 29. apríl 1958.
[99] Jón Þ. Þór, „Atburðirnir á Dýrafirði 10. október 1899.”
[100] Bjarni Sæmundsson, „Skýrsla um fiskirannsóknir árið 1901,” Andvari, nr. 26, 1901, bls. 104.
[101] Heimir Þorleifsson, Saga íslenzkrar togaraútgerðar fram til 1917. Sagnfræðirannsóknir. Studia Historica, 3. bindi (Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1974), bls. 20-21.
[102] Sigurður Sigurðsson frá Arnarholti, „Menn, sem jeg man,” dálkur 168.
[103] Björn Þorsteinsson, Tíu þorskastríð 1415-1976 (Reykjavík: Sögufélagið, 1976), bls. 203.
[104] Sjá t.d. „Manndráp”, Ísafold, 28. október 1899.
[105] Björn Þorsteinsson, Tíu þorskastríð, bls. 210.

Heimildaskrá

Bækur og tímaritsgreinar:

  • Bjarni Sæmundsson, „Skýrsla um fiskirannsóknir árið 1901,” Andvari, nr. 26, 1901, bls. 53-135.
  • Björn Þorsteinsson, Tíu þorskastríð 1415-1976 (Reykjavík: Sögufélagið, 1976).
  • „Ef þjóðin mannast og efnast, verður henni ekki neitað um frelsið. Frásögn Matthíasar Ólafssonar fyrrv. alþingismanns af viðureign Hannesar Hafstein við brezka landhelgisbrjóta.” Valtýr Stefánsson, Myndir úr þjóðlífinu. Fimmtíu viðtöl (Reykjavík: Bókfellsútgáfan, 1958), bls. 9-15.
  • Eyjólfur Jónsson, Vestfirzkir slysadagar 1880-1940 (Ísafirði: Sögufélag Ísfirðinga, 1996).
  • Heimir Þorleifsson, Saga íslenzkrar togaraútgerðar fram til 1917. Sagnfræðirannsóknir. Studia Historica, 3. bindi (Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1974).
  • Jón Þ. Þór, Breskir togarar og Íslandsmið 1889-1916 (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1982).
  • Kristján Albertsson, Hannes Hafstein. Æfisaga I (Reykjavík: Almenna bókafélagið, önnur útgáfa endurskoðuð, 1985 (fyrsta útgáfa 1961)).
  • Ólafur Ólafsson, „Endurminningar úr heimahögum,” Ársrit Sögufélags Ísfirðinga, 4. árg. 1959, bls. 85-107
  • Gísli Ágúst Gunnlaugsson, „Fiskveiðideila Íslendinga og Breta 1896 og 1897,” Saga XVIII, 1980, bls. 77-114.
  • Sigurður A. Magnússon, „Hannes Hafstein,” í Sigurður A. Magnússon (ritstjóri), Þeir settu svip á öldina. Íslenskir stjórnmálamenn (Reykjavík: Iðunn, 1983), bls. 37-51.
  • Sigurður Sigurðsson frá Arnarholti, „Menn, sem jeg man,” Lögrétta, 28. árg. 2. h. 1933, dálkar 165-169.
  • Steinar J. Lúðvíksson, Þrautgóðir á raunastund. Björgunar- og sjóslysasaga Íslands XIII (Reykjavík: Örn og Örlygur, 1981).

Blaðafregnir og greinar:

  • „Sýslumaðr tekr botnverping,” Fjallkonan, 37. tbl. 1898.
  • „Voðalegar „trawlara”-aðfarir – þrír menn drukknaðir,” Þjóðviljinn, 14. október 1899.
  • „Aðfarir Botnverpinga. – Slysfarirnar á Dýrafirði,” Þjóðviljinn, 25. október 1899. „Illræðisverk botnverpils á Dýrafirði,” Þjóðólfur, 27. október 1899.
  • „Manndráp”, Ísafold, 28. október 1899.
  • „Nilsson botnverpingur höndlaður,” Ísafold, 22. nóvember 1899.
  • Ótitlað bréf Gísla Oddssonar, Þjóðviljinn, 30. nóvember 1899.
  • „Hvalveiðimaður”, Þjóðviljinn, 30. desember 1899.
  • Vilhjálmur Finsen, „Skæruhernaður á friðartímum á Íslandsmiðum,” Morgunblaðið, 29. apríl 1958.

Óprentað erindi:

  • Jón Þ. Þór, „Atburðirnir á Dýrafirði 10. október 1899.” Erindi flutt í Sjóminjasafni Íslands, 1. desember 1999.

Heimildir á skjalasöfnum:

  • Handritadeild Landsbókasafns Íslands: Lbs 2375 4to, dagbók Sighvatar Grímssonar Borgfirðings, október 1899.
  • Þjóðskjalasafn Íslands: Ísafjarðarsýsla IV, 14b. Dómsmála- og lögregluréttarbók 1900. Royalistmál.
  • The National Archives, London: FO22/555-556.

Ítarefni

  • Hannes Hafstein: Reykjavík 1968. Inngangsorð eftir Tómas Guðmundsson.
  • Íslensk bókmenntasaga III. Ritstjóri: Halldór Guðmundsson. Reykjavík 1996. Fjallað er um Verðandimenn og Hannes Hafstein sérstaklega á bls. 653-673.
  • Kristján Albertsson: Hannes Hafstein. Ævisaga I-III. Reykjavík 1961-1964
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum