Hoppa yfir valmynd

Stjórnmálin á tímum heimastjórnarinnar

AlþingishúsiðStjórnmálalífið var einfalt í sniðum á heimastjórnartíma. Virkir stjórnmálamenn voru umfram allt alþingismennirnir, sem sátu á þingi fáa mánuði annað hvert ár (nema eitthvað sérstakt kallaði á aukaþing) og höfðu eitthvað allt annað að aðalstarfi. Ritstjórar blaðanna (sem oft voru á þingi líka) komust nær því að vera stjórnmálamenn að atvinnu, því að blöðin töldu það meginhlutverk sitt að miðla hinni pólitísku umræðu, hvort sem þau gerðu það sem málgögn flokka og flokksbrota eða sem einkamálgögn ritstjóranna.

Pólitísk umræða, bæði í blöðum og á þingi, var oft persónuleg og illskeytt. Kjósendur lærðu að dá sína menn, en tortryggja andstæðingana, ef ekki fyrirlíta. Stjórnmálunum sem slíkum gerðu menn hins vegar ekki lítið úr, enda duldist ekki að þar var tekist á um hin mikilvægustu framtíðarmál: uppbyggingu nútímaþjóðfélags á Íslandi og stöðu Íslands gagnvart Danmörku. Hið síðarnefnda, sjálfstæðisbaráttan, var allra mesta alvörumál stjórnmálanna, heilagur málstaður þjóðar og þjóðernis, og lítil takmörk fyrir því hve sárt fólki gat mislíkað ef það taldi illa haldið á þeim málum.

Með heimastjórninni varð myndun þingmeirihluta og val á ráðherra að nýjum brennipunkti stjórnmálanna, og samstarf þings og stjórnar varð lykilatriði í farsælli landstjórn. Í því efni reyndist Heimastjórnartíminn býsna stormasamur.

Úr þingsal

Þýðing þingræðisins

Eftir að einveldi lauk í Danmörku komst þar á þingbundin konungsstjórn: æðstu völd skiptust á milli löggjafarþings og konungs. Konungur bar þó ekki persónulega ábyrgð á stjórn landsins. Það gerði ríkisstjórnin eða ráðherrarnir. En það tilheyrði valdi konungs að velja ráðherrana, umfram allt forsætisráðherra sem síðan myndaði stjórn. Þingið gat reynt að hafa áhrif á ráðherraval konungs, en hann var ekki skyldugur til að fara eftir vilja þingsins í því efni. Þannig var Danmörk ekki þingræðisríki.

Samkvæmt stjórnarskránni 1874 hafði Ísland líka þingbundna konungsstjórn í sérmálum sínum. Alþingi hafði löggjafar- og fjárveitingarvald, en konungur valdi ráðherra. Valdi hann reyndar þannig að fela dómsmálaráðherra Dana jafnan Íslandsmálin.

Hannes Hafstein og Júlíus HavsteenÍ þessu fólust veruleg dönsk yfirráð yfir sérmálum Íslands. Ráðherrann var ekki aðeins danskur maður, sem ólíklegt var að hefði sérlega mikinn áhuga eða þekkingu á Íslandi, heldur var hann hluti af dönskum stjórnmálum, háður þingi og almenningsáliti í Danmörku miklu frekar en á Íslandi, og óhjákvæmilega fulltrúi Dana gagnvart Íslendingum ef hagsmunir rákust á. Sama mátti raunar segja um konunginn sjálfan, þó að ekki þætti kurteisi á Íslandi að gagnrýna konungsvaldið jafn opinskátt og yfirráð dönsku stjórnarinnar.

Þingræði komst á í Danmörku 1901 þegar konungur valdi forsætisráðherra úr þeim flokki sem hafði meirihluta á þingi. Eftir það gat þingmeirihluti gert tilkall til stjórnarmyndunar og valið sér forsætisráðherra að vild; konungi taldist skylt að hlíta því. Ríkisstjórnin, og þar með Íslandsráðherrann, var nú óháðari konungi en áður (það var t.d. ráðherra en ekki konungur sem ákvað að Hannes Hafstein yrði fyrsti ráðherra Íslands). En það breytti engu um sjálfstæði Íslands. Danska stjórnin sótti nú vald sitt til danska þingsins, en hún var engu háðari Alþingi en fyrri stjórn hafði verið.

Áður en þingræði komst á í Danmörku þýddi ekki fyrir Íslendinga að hugsa sér að þeir veldu sér sjálfir ráðherra. Það hlaut konungur að gera, eða kannski fulltrúi hans á Íslandi ef fyllstu sjálfstæðiskröfum fengist framgengt.

En þegar danska þingræðisstjórnin bauð Íslendingum heimastjórn, þá var sjálfsagt að þingræði gilti líka í sérmálum Íslands, þannig að ráðherraval og ráðherraskipti færu eftir vilja Alþingis – eins og verið hefur á Íslandi æ síðan. Þó kom það fyrir á heimastjórnartíma að fleiri en eitt ráðherraefni höfðu stuðning þingmeirihluta, og völdu Danir þá á milli, eins og þeir höfðu valið Hannes Hafstein á sínum tíma. En þegar Alþingi benti ákveðið á einn mann varð konungur að fara eftir því.

Það var ekki aðeins sérstakur ráðherra og stjórnarráð hans í Reykjavík sem færði Íslandi aukna sjálfstjórn 1904, heldur fólst í þingræðinu sjálfu mikilvægur sjálfstæðisáfangi: tilfærsla valds frá erlendum konungi til innlends þjóðþings. Löggjafarvald Alþingis hafði verið háð neitunarvaldi konungs, en með þingræðinu hvarf sú takmörkun. Ráðherranum, sem sat í umboði Alþingis, var ekki stætt á að beita konungi fyrir sig gegn þingviljanum, og konungur hlaut að staðfesta lög og stjórnarathafnir eftir tillögu þingræðisráðherra. Nema því aðeins að danska stjórnin teldi Ísland vera að ganga á rétt Danmerkur eða fara út fyrir mörk sérmálanna; þá gat hún beitt konungi fyrir sig gegn Íslandsráðherra, og þess vegna vildu Danir að það væri í danska ríkisráðinu sem konungur afgreiddi mál með ráðherra Íslands. Að öðru leyti fól heimastjórnin í sér fulla sjálfstjórn Íslendinga í sérmálum sínum. Ef dönsk yfirráð höfðu staðið í vegi fyrir framförum á Íslandi, þá var þeirri hindrun nú rutt úr vegi.

Átakamál

Nokkur stórmál settu svip á stjórnmálaumræðu og stjórnmálaátök heimastjórnartímans. Sum voru hrein átakamál stjórnar og stjórnarandstöðu þar sem stjórnarmeirihlutinn hlaut á endanum að ráða. Af slíkum deilum stóð hin fyrsta og ákafasta um símamálið 1906. Sumar illvígustu deilurnar klufu stjórnmálaflokka og felldu jafnvel ráðherra. Svo var um „bankafarganið“ 1909 og „fyrirvarann“ 1914. Þrálátustu átökin voru þó um sambandsmálið, þ.e. hvernig ætti að ná fram niðurstöðu um samband Íslands og Danmerkur sem færði Íslendingum fyllri og formlegri sjálfstjórn en stöðulögin frá 1871. Þær deilur risu hæst um uppkastið 1908 og „bræðinginn“ 1912. Lausn á sambandsmálinu fékkst með sambandslagasamningnum 1918, og var það vitanlega stórmál þess árs, en ráðið til lykta án stórátaka. Fánamálið 1913 varð ekki átakamál milli stjórnmálafylkinga, en hins vegar eitt mesta hitamál tímabilsins gagnvart almenningsáliti.

Símamálið

Um fá mál frá tíð heimastjórnar hefur ríkt jafn mikill misskilningur samtímans og símamálið. Þegar mikið liggur við, vitna menn gjarnan til reiðar bænda af Suðurlandi til Reykjavíkur til þess að mótmæla sæstrengnum sem dæmi um þröngsýni; baráttu gegn tækni og framþróun. Það er mikil einföldun. Símamálið var mikið deilumál þar sem tekist var á um sæstreng eða loftskeyti. Hannes Hafstein hélt fram sæstreng og bar málið fram til sigurs, Einar Benediktsson talaði fyrir loftskeytum.

Hannes Hafstein lét það verða eitt sitt fyrsta verk að hefja samninga um skeytasamband. Sjálfur ræddi hann við Marconi-félagið og fékk dönsku stjórnina til að reyna á ný samninga við Mikla norræna. Þegar báðir kostirnir lágu fyrir valdi Hannes danska samninginn, og kom þrennt til. Hann byggði á tækni sem öruggari reynsla var fengin af; honum fylgdi landsími frá Seyðisfirði til Reykjavíkur, að vísu á vegum Íslendinga en með framkvæmdastyrk frá Mikla norræna; og þótt hærri árlegan rekstrarstyrk þyrfti til sæsíma en loftskeyta, þá myndi ríkissjóður Dana bera mest af þeim bagga. Síðan samdi Hannes við Norðmenn um framkvæmdir við landsímann.

Ákvörðun ráðherra var skiljanleg en ekki óumdeilanleg. Þótt ritsímatæknin væri þrautreynd, þá hafði hún sína galla, einkum þegar viðgerða var þörf á sæstreng, og kynnu loftskeyti jafnvel að reynast öruggari. Ef tilboð Marconi var ekki nógu gott, hefði ráðherra þá ekki átt að tala við fleiri loftskeytafyrirtæki? Og þótt loftskeytastöð risi í Reykjavík, hvað bannaði þá Íslendingum að leggja síma innanlands eftir eigin þörfum? Mesta andúð vakti þó símasamningurinn fyrir það að vera of tengdur dönskum hagsmunum og dönskum yfirráðum. Með honum var dönsku fyrirtæki fengin einokunaraðstaða á Íslandi, dönsku stjórninni falið ákvörðunarvald um gjaldskrá, Ísland keypt fyrir danskan ríkisstyrk til að binda sig við danskan samningsaðila.

Hér voru sem sagt tvær hliðar á málinu, stjórnin, þ.e. ráðherra, búin að binda sig við annan málstaðinn, og þá hlaut hinn að koma í hlut stjórnarandstöðunnar. Hún fékk nú tækifæri til að beita þjóðlegum rökum gegn því að gera Ísland háð einkarétti Dana, rétt eins og heimastjórnarmenn höfðu gert þegar hlutafélagsbankinn var á döfinni.

Blöð og áhrifamenn reyndust yfirleitt líta á símasamninginn eins og flokkslínur sögðu til um, en hjá almenningi fékk málstaður valtýinga góðan hljómgrunn. Það kom ekki síst fram á þingmálafundum, sem að gömlum sið voru haldnir í kjördæmum fyrir þing til að gefa þingmönnum í vegarnesti ályktanir kjósenda um helstu dagskrármál. Á þinginu 1905 reyndist samt enginn bilbugur á fylgi heimastjórnarmanna við ráðherra sinn í símamálinu. Breytti þar engu þótt Marconifélagið hefði sett upp bráðabirgðastöð í Reykjavík sem náð gat fréttaskeytum utan úr heimi.

Stjórnarandstaðan brá nú á það óvenjulega ráð að efna til fjöldamótmæla gegn símasamningnum og stefna til Reykjavíkur tryggum stuðningsmönnum úr nálægum héruðum, allt frá Borgarfirði til Suðurlandsundirlendis. Yfir 200 bændur tókust þessa ferð á hendur um hásláttinn, og við þá hafa aðgerðirnar verið kenndar. Bændafundurinn, sem kallaður var, samþykkti ályktun gegn sæsímanum sem Hannes Hafstein hafnaði, og var þá efnt til mótmæla á Austurvelli, en lögregla varnaði andófsmönnum inngöngu í þinghúsið. Samningarnir voru staðfestir af Alþingi og kostnaður tekinn á fjárlög. Aðeins 13 mánuðum síðar, í september 1906, var verkinu lokið, og skiptust konungur og ráðherra á skeytum milli höfuðborga Danmerkur og Íslands.

Hin óvenjulegu mótmæli gegn símanum voru lengi í minnum höfð og oft túlkuð, þegar frá leið, sem skammsýn andstaða gegn tækni og framförum og bændum lagt til lasts að „hlaupa frá orfinu“ til að þjóna slíkum málstað. Í raun héldu þó andmælendur sæsímans fram enn nútímalegri tækni þar sem loftskeytin voru. Hvorugir drógu í efa að skeytasamband við útlönd væri hið mesta framfaramál fyrir Ísland, og vissulega gekk það eftir. Erlend fréttaskeyti fóru nú að setja svip á blöðin. Þegar íslensk mál komu til kasta konungs gátu þing og ráðherra haft við hann skeytasamband; ráðherraskipti var jafnvel hægt að afgreiða símleiðis. Langmestu máli skipti þó síminn fyrir alla þá sem önnuðust viðskipti milli Íslands og útlanda. Boðum, sem áður bárust á einni til þremur vikum eftir því hvernig stóð á skipaferðum, voru nú sendlar og símritarar ekki nema nokkra klukkutíma að koma til skila. Kaupsýslumenn fylgdust með verðlagi gegnum símann, skiptust á tilboðum og gerðu samninga með símskeytum, og greiðslur voru gerðar upp símleiðis gegnum bankana. Þetta var ekki aðeins hagræði fyrir alla aðila, heldur gerði það líka hægara að stjórna viðskiptum frá Íslandi í stað þess að hafa aðalstöðvar erlendis eða treysta á forsjá erlendra umboðsmanna. Þannig stuðlaði síminn að því að færa heildverslunina inn í landið. Þar lögðust á eitt áhrif símans og aukinnar bankaþjónustu sem fylgdi tilkomu Íslandsbanka tveim árum áður.

Uppkastið

Safnamynd af ráðamönnumÞegar Friðrik VIII Danakonungur kom til Íslands 1907 skipaði hann forsætisráðherra Dana og ráðherra Íslands ásamt fulltrúum þingflokkanna í samninganefnd um tengsl landanna (sambandsnefndin eða millilandanefndin), og var ætlunin að í stað stöðulaganna kæmu sambandslög, samþykkt af báðum þjóðþingunum. Nefndin starfaði í Kaupmannahöfn fyrri hluta árs 1908.

Þar þýddi ekki annað fyrir íslensku nefndarmennina en að standa saman um kröfur sem nokkurn veginn samsvöruðu harðnandi almenningsáliti á Íslandi. Heimastjórnarmenn kærðu sig ekki um að kalla yfir sig sams konar andóf og þeir höfðu sjálfir haldið uppi gegn valtýskunni. Í upphafi samninga bar mikið á milli, en Danir reyndust sveigjanlegir um margt, og síðasta bilið brúuðu Íslendingar með því að fallast á að hafa grundvallaratriði samningsins óuppsegjanleg: að Danmörk færi með utanríkismál og hervarnir Íslands og að Íslendingar og Danir nytu jafnréttis við heimamenn hvorir í annarra landi. Þessa tilslökun gat einn íslenski nefndarmaðurinn, Skúli Thoroddsen, ekki sætt sig við, en Dönum varð ekki þokað lengra, og ákvað meirihluti Íslendinganna að láta slag standa þrátt fyrir andstöðu Skúla.

Skúli ThoroddssenTillaga nefndarinnar, uppkastið, fól í sér stóraukið sjálfstæði Íslendinga og úrlausn á mörgu því sem þeir höfðu sett fyrir sig í sambandinu við Danmörku. Torséð var að Danir féllust á meira, jafnvel þótt skilnaður landanna lægi við. Samningurinn var að vísu til langs tíma og ekki uppsegjanlegur nema að hluta, en á endanum hefðu Íslendingar eftir sem áður þann möguleika að slíta sambandinu einhliða. Væri ekki fásinna að hafna slíkri réttarbót?

Hins vegar nutu Íslendingar þegar sjálfstjórnar í flestu því sem á reyndi, svo að réttarbætur uppkastsins voru ekki bráðaðkallandi. Óbreytt ástand hafði líka þann kost að um það höfðu Íslendingar aldrei samið og voru þá óbundnir að hafa uppi kröfur eftir því sem aðstæður breyttust og bolmagn þjóðarinnar yxi. Ef Danir féllust ekki á betri kosti, þá yrði Ísland bara að taka sér fullt sjálfstæði þeim mun fyrr. En væri uppkastið einu sinni samþykkt, þá yrði erfitt að koma fram nýjum kröfum og fullt sjálfstæði væri útilokað um margra áratuga skeið.

Þing var nú rofið, því að aldrei stóð til að ráða svo örlagaríku máli til lykta án nýs umboðs frá kjósendum. Nú var úr vöndu að ráða fyrir Þjóðræðisflokkinn (en það nafn höfðu valtýingar tekið sér eftir bændafundinn gegn símanum). Hann hafði átt þrjá menn í millilandanefndinni, og hvort átti nú að fylgja Skúla Thoroddsen eða hinum tveimur sem skrifuðu undir uppkastið? Niðurstaðan, sem Björn Jónsson í Ísafold réð mestu um, varð sú að flokkurinn tók upp málstað Skúla og bauð fram á móti eigin þingmönnum sem voru annars sinnis, t.d. Valtý Guðmundssyni sem vildi samþykkja uppkastið. Þjóðræðismenn gerðu hins vegar kosningabandalag við Landvarnarflokkinn, en hann var þjóðmálahreyfing utan þings sem umfram allt vildi standa á rétti Íslands gagnvart Danmörku og halda fram fyllstu kröfum. Nefndist þetta bandalag Sjálfstæðisflokkur, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn eldri.

„Uppkastskosningarnar“ haustið 1908 urðu sögulegar. Kosningabaráttan var harðari en dæmi voru til og kosningaþátttakan eftir því. Jafnvel í átakakosningunum um valtýsku og heimastjórn kaus aldrei nema u.þ.b. helmingur þeirra 8000 sem á kjörskrá voru. Nú varð þátttakan rúm 75%, enda var hægara um vik þegar ekki var lengur kosið „í heyranda hljóði“ á einum kjörfundi í hverju kjördæmi, heldur leynilega í hverjum hreppi. Kosningaréttur hafði líka verið rýmkaður svo að yfir 8000 kusu, meirihluti þeirra í fyrsta sinn. Nær 60% kusu frambjóðendur sem höfnuðu uppkastinu óbreyttu, og var það hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem íslenskir kjósendur völdu róttækari leiðina í sjálfstæðismálum landsins. Af 34 þjóðkjörnum þingmönnum höfðu aðeins 8 verið andvígir uppkastinu fyrir kosningar en 24 eftir. Þegar þing kom saman samþykktu þeir vantraust á Hannes Hafstein og völdu sinn eigin ráðherra, Björn Jónsson ritstjóra.

Landsbankafarganið

Björn JónssonMeðal áhyggjuefna Björns Jónssonar fyrsta ráðherraárið voru málefni Landsbankans. valtýingar höfðu löngum gagnrýnt bankastjórann, Tryggva Gunnarsson frænda og náinn stuðningsmann Hannesar Hafstein, fyrir pólitíska misbeitingu bankavaldsins. Nú var Tryggvi kominn á áttræðisaldur, og ákvað Björn að láta hann hætta störfum í árslok en ráða í hans stað tvo kaupsýslumenn úr eigin flokki. Jafnframt skipaði hann rannsóknarnefnd til að kanna fjárhagsstöðu bankans og starfshætti.

Fram til bankastjóraskipta skyldi Tryggvi starfa undir nánu eftirliti stjórnarráðsins. Þar braut á því að hann fékkst ekki til að færa til bókar hverjum hann synjaði um lán og með hvaða rökum. Í því naut hann stuðnings „gæslustjóranna“ tveggja, sem voru alþingismenn, kjörnir af þinginu sem eins konar aðstoðarbankastjórar í hlutastarfi. Fimm vikur voru til áramóta þegar Björn missti þolinmæðina og vék allri bankastjórninni – Tryggva og gæslustjórunum – fyrirvaralaust úr starfi.

Tryggvi GunnarssonÞessi framganga ráðherra vakti feykilega gremju sem náði inn í hans eigin flokk. Einnig var ljóst, hvernig sem á Landsbankamálið var litið, að heilsa Björns og einbeiting var að bila, og auk þess var landvarnarhlutinn af flokki hans ósáttur við hann fyrir linkind í málafylgju við Dani. Af öllu þessu var meirihluti þingmanna orðinn Birni andvígur, en hann hafnaði aukaþingi 1910, og á þingi 1911 gerði hann eins og Hannes Hafstein 1909 að sitja í embætti þar til vantraust var samþykkt.

Kristján JónssonEftirmaður Björns var Kristján Jónsson dómstjóri, annar gæslustjóranna sem hann hafði vikið úr starfi við Landsbankann. Heimastjórnarflokkurinn studdi Kristján til bráðabirgða gegn loforði um kosningar og aukaþing.

Bræðingurinn

Kosningarnar 1911 færðu Heimastjórnarflokki þingmeirihluta, og var Hannes Hafstein sjálfsagt ráðherraefni.  Kristján Jónsson sagði þó ekki af sér fyrr en þing kom saman 1912.

Þá tók Hannes við, þó ekki sem ráðherra Heimastjórnarflokksins, heldur safnaði hann um sig þorra þingheims í nýjan flokk: Sambandsflokkinn. Ætlun hans var að gera nýja tilraun til að koma uppkastinu í gegn með einhverjum lagfæringum. Sams konar tilraun hafði Hannes gert eftir kosningarnar 1908: fengið dönsku stjórnina til að bjóða vissar orðalagsbreytingar á uppkastinu, en sjálfstæðismenn gátu ekki, eftir kosningasigurinnDesign, látið sér svo lítið nægja. Nú var hugmyndin að reyna svipaða aðferð, en án flokkadeilna: mynda fyrirfram svo breiða fylkingu að hún gæti stýrt uppkastinu endurbættu gegnum nýjar kosningar.

Svo breið var fylkingin að um skeið voru aðeins Skúli Thoroddsen og tveir landvarnarmenn eftir í Sjálfstæðisflokknum, allir aðrir þingmenn komnir í Sambandsflokkinn, og komu þeir sér saman um hvaða umbóta þeir skyldu leita á uppkastinu; kölluðu andstæðingar hugmyndir þeirra „bræðinginn“. En málið strandaði á Dönum sem nú kærðu sig ekkert um uppkastið nema þeir fengju breytt nokkrum ákvæðum þess sér í hag.

Hannes Hafstein kom frá Kaupmannahöfn með óformlegt tilboð („grútinn“) sem hann treysti sér ekki til að mæla með við þingið 1913. Sambandsflokkurinn fór nú að riðlast þegar málið, sem hann var myndaður um, fékk engan framgang. Starfhæfur stjórnarmeirihluti var brátt úr sögunni, þótt ekki væri meirihluti fyrir vantrausti á Hannes. Hann gegndi því ráðherraembætti fram yfir kosningar sem efnt var til 1914.

Fánamálið

Einar Pétursson í ReykjavíkurhöfnBaráttan fyrir íslenskum fána var þáttur í sjálfstæðisbaráttunni. Nokkur ágreiningur ríkti um gerð fánans og lengi munu menn ekki hafa gert mikinn greinarmun á fána og skjaldarmerki.

Hugmynd Sigurðar Guðmundssonar málara var sú, að merki landsins, sjálfsagt bæði fáni og skjaldarmerki, væri hvítur fálki með þanda vængi á bláum grunni. Átti þessi fánagerð fylgi að fanga um skeið, t.d meðal latínuskólapilta og stúdenta.

Þingvallafundurinn 1885 ályktaði fyrir atbeina dr. Valtýs Guðmundssonar að Ísland ætti rétt á sérstökum verslunarfána. Sama sumar flutti stjórnskipunarlaganefnd í neðri deild Alþingis frumvarp til laga um þjóðfána fyrir Ísland.Var gert ráð fyrir að fánanum yrði skipt í fjóra ferhyrnda reiti með rauðum krossi, hvítjöðruðum. Skyldu þrír reitanna vera bláir og í hverjum þeirra hvítur fálki.  En fjórði reiturinn, stangarreiturinn efri, skyldi vera rauður með hvítum krossi, þ.e eins og danski fáninn. Jón Sigurðsson á Gautlöndum var formaður nefndarinnar og mælti fyrir frumvarpinu í þinginu. Frumvarpið varð ekki útrætt, en þarna er gerð tillaga um þá þrjá liti, sem síðar urðu í fánanum: blátt, hvítt og rautt.

Hinn 13. mars 1897 ritaði Einar skáld Benediktsson grein í blaði sitt Dagskrá, þar sem hann segir, að þjóðlitir Íslands séu blátt og hvítt og að krossinn sé hið algengasta og hentugasta flaggmerki. Leggur hann til að fáni Íslands  verði hvítur kross í bláum feldi.

Á fundi í Stúdentafélagi Reykjavíkur 27. september 1906 viðraði Matthías Þórðarson, síðar þjóðminjavörður, fánahugmyndir sína: hvítan kross í bláum feldi með rauðum krossi innan í hvíta krossinum. Áttu litirnir að tákna fjallablámann, ísinn og eldinn.

Í Statens Sjöhistoriska Museet í Stokkhólmi er mynd frá hafnar- og iðnaðarborginni Calicut (Kozhikode) í Kerala-fylki á Indlandi úr bók Mathias Gustaf Holmers skipstjóra hjá sænska Austur-Indíafélaginu frá því 1740-1750. Á myndinni sjást m.a. tveir fánar, hinn danski og fáni, sem að lögun og litum virðist eins og íslenski fáninn: hvítur kross í bláum feldi með rauðum krossi í hvíta krossinum. Þetta hefur e.t.v. verið sérfáni einhvers verslunarfélags. Ekki er vitað til að Matthias Þórðarson hafi þekkt þennan fána eða haft hann að fyrirmynd, þegar hann árið 1906 kom fram með hugmynd að sínu um gerð íslenska fánans. – Pétur Sigurðsson, forstjóri Landhelgisgæslunar, kom auga á þessa mynd í sænska safninu árið 1957.

Fánatillaga Matthíasar sigraði að lokum. En á þessu stigi málsins hölluðust menn miklu fremur á hugmynd Einars Benediktssonar, bláum fána með hvítum krossi. Varð sú fánagerð vinsæl víða, ekki síst eftir að danskt herskip gerði 1913 upptækan slíkan fána, sem var á kappróðrabáti á Reykjavíkurhöfn. Hleypti þetta atvik miklum hita í fánamálið.

Umræður um íslenskan fána fóru að sjálfsögðu fram á Alþingi, m.a. árið 1911, þegar borið var fram frumvarp um bláhvíta fánann, og árið 1913. Eftir þinglok 1913 bar Hannes Hafsteinn ráðherra fánamálið upp fyrir Kristjáni konungi X í ríkisráði 22. nóvember og gerði grein fyrir að afgreiða mætti fánamálið með konungsúrskurði, án löggjafar. Hér var einungis um að ræða sérfána fyrir Ísland, þ.e. fána, sem nota mætti á Íslandi og í íslenskri landhelgi. Féllst konungur á tillögu ráðherra og er konungsúrskurðurinn, sem út var gefinn, þannig:

“Fyrir Ísland skal löggildur vera sérstakur fáni. Gerð hans skal ákveðin með nýjum konungsúrskurði, þegar ráðherra Íslands hefur haft tök á að kynna sér óskir manna á Íslandi um það atriði. Þennan fána má draga á stöng hvarvetna á Íslandi og íslensk skip mega sigla undir honum í landhelgi Íslands. Þó er það vilji Vor að á húsi eða lóð Stjórnarráðs Íslands sé jafnframt dreginn upp hinn klofni Dannebrogsfáni á ekki óveglegri stað né rýrari að stærð heldur en íslenski fáninn. Þessi Vor allrahæsti úrskurður skerðir að engu rétt manna til að draga upp Dannebrogsfánann eins og að undanförnu. Eftir þessu eiga allir hluteigendur sér að hegða.”

Um leið og konungur gaf út þennan úrskurð, lét hann svo um mælt, að hann gengi að því vísu að fáninn yrði ekki eftirtakanlegur líkur fána neins annars lands. Lutu þessu ummmæli konungs að því að fram hafði komið í umræðum að fánamálið að bláhvíti fáninn líktist mjög gríska þjóðfánanum.

Fánanefndin 1913

Eftir heimkomu sína skipaði ráðherra hinn 30. desember 1913 nefnd “til þess að taka gerð fánans til rækilegrar íhugunar, kynna sér eftir föngum hvað fullnægja myndi óskum þjóðarinnar í þessu efni og koma fram með tillögur til stjórnarinnar um lögun og lit fánans svo snemma að stjórnin geti gert Alþingi, þá er það kemur saman næst, kost á að láta uppi skoðun sína um þær.”

Í nefndinni voru skipaðir Guðmundur Björnsson landlæknir formaður, Matthías Þórðarson þjóðminjavörður, Ólafur Björnsson ritstjóri, Jón Jónsson (Aðils) dósent og Þórarinn B. Þorláksson lismálari. Eins og áður er vikið að, var talið af sumum, að bláhvíti fáninn líktist svo mjög grískum fána, að konungur myndi eigi vilja á slíka fánagerð fallast fyrir Ísland. Leitaði ráðherra að beiðni fánanefndar álits konungs á því, hvort hann myndi vilja löggilda bláhvíta fánann. Svar konungs var neikvætt, þar að fáninn líktist um of grískum fána. Vegna þessara andstöðu konungs hætti nefndin við að gera tillögu um bláhvíta fánann. Einnig var álitið eftir athugun, sem skólastjóri Stýrimannaskólans gerði, að slíkur fáni kynni í miður góðu skyggni að reynast of líkur sænska fánanum, sem er gulur kross í bláum feldi, eins og kunnugt er.

Fánanefndin skilaði tveimur tillögum um liti fánans:

(1)   Fáninn skyldi vera heiðblár með hvítum krossi og hárauðum krossi innan í hvíta krossinum, eða

(2)   Hvítur með heiðbláum krossi og hvítri og blárri rönd utan með beggja vegna.

Segir nefndin í greinagerð sinni að vissa sé fyrir því eins og ráðherra sé kunnugt, að konungur muni staðfesta hvora sem sé af þessum tveimur fánagerðum. Á fyrsta degi Alþingis 1914, 1. júlí gerði ráðherra, Hannes Hafstein, grein fyrir hvað gerst hefði í fánamálinu og lét útbýta skýrslu fánanefndarinnar.

Lýsti ráðherra meinbugum, er á því væru að fá bláhvíta fánann staðfestan, en á eindæmi hefði hann ekki talið fært að gera tillögu til konungs um aðra gerð. Hefði hann því skipað áðurgreinda nefnd í málið. Ætlaðist ráðherra til að málið yrði rætt í sameinuðu þingi og a.m.k fyrst fyrir luktum dyrum, en Skúli Thoroddsen, Bjarni Jónsson og Sigurður Eggerz báru hinn 3. júlí fram í neðri deild Alþingis tillögu til þingsályktunar um að deildin kysi sjö manna nefnd til þess að íhuga fánamálið og koma fram með tillögur er að því lytu. Taldi framsögumaður, Skúli Thoroddsen, að fánamálið væri íslenskt löggjafarmál og hefði síðasta þing ætlast til þess að ráðherra legði fram lagafrumvarp um fánann, en eigi að viðhöfð yrði sú aðferð, sem raun væri á orðin. Hannes Hafsteinn lagðist fast gegn tillögunni. Hún var eigi að síður samþykkt með miklum meirihluta atkvæða og nefndin kjörin. Málið var þó rætt á lokuðum fundi í sameinuðu þingi eins og ráðherra ætlaðist til. En í efri deild var einnig kosin nefnd í málið, fimm manna, og sameinuðust nefndirnar og komu sameiginlega fram með nefndarálit og tillögur í sameinuðu þingi. Nefndarmenn vildu nota konungsúrskurðinn frá 22. nóvember 1913 til þess að fá sérfána. Með því væri nokkuð unnið en engu tapað. Skúli Thoroddsen og Bjarna frá Vogi fannst þó of skammt gengið. Kynni sérfáni að draga úr áhuga manna á fullgildum fána. Einnig virtist  þeim og fleirum að málið hefði átt að afgreiðast sem löggjafarmál eins og Alþingi hefði ætlast til, en ekki með konungsúrskurði. Um liti fánans voru menn ekki sammála. Sumir vildu bláhvíta fánann að viðbættum stórri hvítri stjörnu í efri stangarreit og loks vildu sumir fána þann sem fánanefndin gerði að aðaltillögu sinni, hvítan kross í bláum feldi með rauðan kross í miðju.

Í sameiginlegri tillögu nefnda efri og neðri deilda til þingsályktunar um gerð fánans var í fyrsta lagi mælt með bláhvíta fánanum óbreyttum. Í öðru lagi með þeim fána að viðbættri stórri hvítri fimmblaða stjörnu í efra stangarreit og í þriðja lagi með þrílita fánanum. Sjö nefndarmenn rituðu þó undir nefndarálitið með fyrirvara og einn (Guðmundur Björnsson) lýsti sig samþykkan öllu, sem ekki bryti í bága við álit hinnar stjórnskipuðu fánanefndar. Síðan báru fjórir þingmenn,Guðmundur Hannesson, Sigurður Gunnarson, Sigurður Stefánsson og Pétur Jónsson, fram breytingartillögu, er fól í sér að hverfa frá að mæla með stjörnufánanum. Var sú breytingartillaga samþykkt með 20 atkvæðum gegn 18, og þar með ákveðið að mæla einungis með bláhvíta fánanum og þrílita fánanum. Þess má geta að nokkrar umræður urðu um kostnaðinn við hina stjórnskipuðu fánanefnd, sem mun hafa verið fyrsta milliþinganefndin, sem skipuð var hér á landi. Gerði Einar Arnórsson fyrirspurn á þingi 1915 um kostnaðinn, ekki til að hneykslast á honum, heldur til að eyða kviksögum, sem um hann gengju. Sagði fyrirspyrjandi að þess hefði jafnvel verið getið í blöðum að greiddar hefðu verið til nefndarinnar sex þúsund krónur og ógreiddar væru tvö þúsund krónur. Upplýsti ráðherra að allur kostnaður við nefndina hefði orðið 6.640,26 krónur.

Neitun konungs

Ráðherraskipti urðu á þingtímanum. Hannes Hafsteinn lét af embætti, en Sigurður Eggerz tók við. Á ríkisráðsfundi í Kaupmannahöfn 30. nóvember 1914 skýrði ráðherra konungi frá gangi fánamálsins og lagði til að konungur staðfesi þrílita fánann. En konungur neitaði að svo komnu að gefa út úrskurð um gerð fánans, þrátt fyrir gefið fyrirheit. Stafaði þetta af því að deila var á milli þings og ráðherra annarsvegar og konungs hinsvegar um uppburð íslenskra sérmála í ríkisráði og neitaði konungur að staðfesta stjórnarskrárfrumvarp, er Alþingi hafði samþykkt og ráðherra lagt fyrir með ákveðnum fyrirvara um uppburð íslenskra sérmála fyrir konungi. Hafði ráðherra fyrst lagt stjórnarskrárfrumvarpið fyrir konung til staðfestingar, og er konungur synjaði, lýsti ráðherra því yfir að hann bæðist lausnar. Konungur neitaði einnig að gefa út úrskurð um gerð íslenska sérfánans, þótt hann hefði áður sagt, eins og í skýrslu fánanefndar greinir, að hann myndi staðfesta hvora þá fánagerð, sem nefndin hefði bent á. Ráðherra tók þá fram, að neitun konungs um að gefa út fánaúrskurðinn styrkti sig enn betur í þeirri fyrirætlun að segja af sér ráðherraembætti og gerði hann það á þessum ríkisráðsfundi.

Sérfáni

Nokkru síðar tók Einar Arnórsson við ráðherraembætti og 19. júní 1915 var gefinn út konungsúrskurður, sem með tilvísun til konungsúrskurðar frá 22. nóvember 1913 ákvað gerð fánans svo:”Heiðblár (ultramarineblár) með hvítum krossi og hárauðum krossi innan í hvíta krossinum. Armar krossana skulu ná alveg út í jaðra fánans á alla fjóra vegu. Breidd krossmarksins skal vera 2/9 af breidd fánans, en rauði krossinn helmingi mjórri, 1/9 af breidd fánans. Reitirnir við stöngina skulu vera rétthyrndir ferhyrningar og alla hliðar þeirra jafnstórar; ytri reitirnir skulu vera jafnbreiðir stangarreitunum, en helmingi lengri. Hlutfallið milli breiddar fánans og lengdar hans verður18:25.” Þetta er hin sama fánagerð og konungur neitaði að staðfesta 30. nóvember 1914. Þessi fáni var einungis sérfáni, en ekki hið þráða fullveldistákn.

Siglingafáni

Það leið þó ekki á löngu áður en fánamálið bar aftur á góma. Bændaflokkurinn hafði á stefnuskrá sinni 1915 að fá sem fyrst viðurkenndan íslenskan siglingafána. Stjórnarskipti urðu 1917. Einar Arnórsson fékk lausn, Jón Magnússon myndaði ráðuneyti með Birni Kristjánssyni og Sigurði Jónssyni, en síðar á árinu kom Sigurður Eggerz í stað Björns. Að ósk sjálfstæðisfélagsins í Reykjavík þreifaði forsætisráðherra fyrir sér vorið 1917 hjá dönsku stjórninni um möguleika á því að fá siglingafána, en C.Th. Zahle, sem þá var forsætisráðherra, kvaðst ekki hafa búist við að því máli yrði hreyft svo fljótt eftir afgreiðslu sérfánamálsins 1915 og minnti á ummæli sín í ríkisráði 22 . nóvember 1913, að breytingar á hinum almenna danska siglingafána yrði að bera undir Ríkisþingið. Gæti hann ekki sætt sig við að Íslendingar tækju slíkt mál upp eitt sér.

En ef fara ætti að breyta sambandinu milli Íslands og Danmerkur væri réttara að taka sambandsmálið upp í heild. Óráðlegt var og talið af hálfu sumra í Danmörku að taka málið fyrir, einkum siglingafánamálið, meðan á heimsstyrjöldinni stæði. Þegar Alþingi kom saman í byrjun júlí 1917 skýrði forsætisráðherra alþingismönnum frá þessum viðræðum. Tíu þingmenn báru fram tillögu um kosningu sjö manna nefndar til þess að íhuga og koma fram með tillögur um ráðstafanir til að “ná sem fyrst öllum vorum málum í vorar hendur og fá viðurkenning fullveldis vors.” Var tillagan samþykkt í einu hljóði og nefndin kjörin. Nefndin bar síðan fram svofellda tillögu: ”Alþingi ályktar að skora á ríkistjórnina að sjá um, að Íslandi verði þegar ákveðinn fullkominn siglingafáni með konungsúrskurði og ályktar að veita heimild til þess að svo sé með málið.”

Bjarni frá Vogi mælti fyrir tillögunni og taldi höfuðnauðsyn að Íslendingar eignuðust eigin siglingafána, þar sem enginn vissi hvenær þeim kynni að verða meinað að sigla undir danska fánanum og kynnu flutningar til landsins að stöðvast. Forsætisráðherra lýsti því yfir að stjórnin myndi leggja fram alla sína krafta til að fá málinu framgengt. Var tillagan síðan samþykkt einróma í neðri deild. Í efri deild kom fram frumvarp um fána, flutt af Magnúsi Torfasyni og Karli Einarssyni, en niðurstaðan varð sú, að fánatillagan frá neðri deild var einnig borin fram í efri deild og afgreidd einróma og í fullu samráði við flutningsmenn fánafrumvarpsins um fána eða þingsályktun um konungsúrskurð um fullkominn siglingafána. Að lokum sameinuðust allir um þingsályktunarleiðina, því að aðalatriðið væri vilji þingsins, en ekki formið sem hann birtist í.

Forsætisráðherra Jón Magnússon bar fram tillögu um siglingafána upp fyrir konungi í ríkisráði 22. nóvember 1917, en konungur synjaði, enda lagðist Zahle, forsætisráðherra Dana, eindregið gegn málinu. Jón Magnússon gerði ekki synjun konungs að fráfaratriði og baðst ekki lausnar en sagði að Danir mættu ekki skilja svo, að Íslendingar legðu ekki ríka áherslu á málið enda vitað með vissu að Alþingi myndi ekki láta málið niður falla.

Sambandsmálið og fáninn

Síðan varð rás viðburðanna sú að á næsta ári var skipuð nefnd af hálfu Dana og Íslendinga til þess að fjalla um sambandsmál landanna. Hóf nefndin störf í Reykjavík sumarið 1918. Sambandslög Íslands og Danmerkur voru samþykkt á Alþingi og Ríkisþinginu í Kaupmannahöfn og staðfest af konungi 30. nóvember 1918. Þann dag voru einnig gefin út bráðabirgðalög um að ekkert íslenskt skip mætti frá 1. desember hafa annan þjóðfána uppi en hinn íslenska. Þá var gefinn út nýr konungsúrskurður um fánann. Var þar í engu breytt lögun og lit fánans frá því sem ákveðið var 1915, en bætt við ákvæði um að stjórnin og opinberar stofnanir skuli nota fána klofinn að framan og skuli nánari ákvæði um notkun klofna fánans sett með sérstökum konungsúrskurði.

Til þess að fullnægja því ákvæði fánaúrskurðarins frá 1915 “að á húsi eða lóð Stjórnarráðs Íslands sé jafnframt dreginn upp hinn klofni Dannesbrogsfáni á ekki óveglegri stað né rýrari að stærð heldur en íslenski fáninn” voru sumarið 1915 reistar tvær fánastengur á baklóð Stjórnarráðshússins, önnur fyrir íslenska fánann, hin fyrir Dannebrogsfánann. Fyrir 1. desember 1918 var svo fánastöng reist yfir dyrum Stjórnarráðshússins svo sem enn er, en hinar stengurnar voru auðar 1. desember.

Fullveldisfáni

Á hádegi sunnudaginn 1. desember 1918 var klofinn fáni dreginn að húni á fánastöng Stjórnarráðshússins er sambandslögin gengu í gildi. Sigurður Eggerz fjármálaráðherra,  er gegndi störfum forsætisráðherra í fjarveru Jóns Magnússonar sem var í Kaupmannahöfn, flutti ræðu af þrepum Stjórnaráðshússins og sagði m.a.: “Og í gær hefur konungurinn gefið út úrskurð um þjóðfána Íslands, sem blaktir frá því í dag yfir íslensku ríki ... Fáninn er tákn fullveldis vors. Fáninn er ímynd þeirra hugsjóna, sem vor á fegurstar, hvert stórverk, sem unnið er af oss, eykur veg fánans, hvort sem það er unnið á höfunum, í baráttunni við brim og úfnar öldur eða á svæði framkvæmdanna eða vísindum og fögrum listum. Því göfugri sem þjóð vor er, þess göfugri verður fáni vor. Vegur hans og frami er frægð þjóðar vorrar ... Vér biðjum alföður að styrka oss til að lyfta fánanum til frægðar og frama ...”

Um leið og fáni hins fullvalda íslenska ríkis var dreginn að húni, kvað við tuttugu og eitt fallbyssuskot frá varðskipinu “Islands Falk”. Skipherra varðskipsins, Victor Lorenz Lorck, flutti ávarp, og einnig forseti sameinaðs Alþingis, Jóhannes Jóhannesson. Loks var leikinn konungssöngurinn og danski og íslenski þjóðsöngurinn.

Klofinn fáni (tjúgufáni) var notaður 1. desember 1918 á Stjórnaráðshúsinu, þótt ekki hefði þá verið gengið frá ákvæðum um gerð hans, og var það ekki gert fyrr en 12. febrúar 1919. Endanleg gerð tjúgufánans var að því er hlutföll varðar, dálítið frábrugðin fánanum, sem notaður var 1. desember. Sá fáni er nú varðveittur í Þjóðminjasafni Íslands (nr. 7961).

Fyrirvarinn

Stjórnarskrá heimastjórnarinnar, sem í flestu var óbreytt frá því sem valtýingar höfðu samþykkt á þingi 1901, þótti brátt bagalega úrelt. Konungkjör sex þingmanna átti t.d. illa við í þingræðisskipulagi, svo og atkvæðislausir þingforsetar. Þinghald á tveggja ára fresti var orðið of strjált. Og kosningarétturinn, sem að vísu var rýmri en á 19. öld en náði þó hvorki til kvenna né vinnuhjúa, samrýmdist ekki nýjum hugmyndum um lýðræði og jafnrétti.

Þegar Alþingi hafði von um skjóta niðurstöðu í sambandsmálinu sætti það sig við að bíða með stjórnarskrárbreytingu, enda myndu sambandslög gefa ný tilefni til að lagfæra stjórnarskrána.

Þegar ekki sá fram á neina lausn á sambandsmálinu, eins og bæði 1911 og 1913, vildu menn stjórnarskrárbreytingu fremur en ekkert. Þar þurfti þó að leysa viðkvæmt deilumál við Dani, kennt við ríkisráðsákvæðið, þ.e. ákvæði í stjórnarskránni frá 1903 sem tiltekur að ráðherra Íslands skuli bera mál upp fyrir konungi í ríkisráði þar sem dönsku ráðherrarnir áttu líka sæti. Þetta var skilyrði Dana fyrir tilboðinu um heimastjórn, og höfðu flestir sætt sig við það á sínum tíma (allir þingmenn nema einn), þó að það væri að skilningi Íslendinga ekki rétt form. En nú hafði gagnrýni á þessa skipan harðnað svo mjög að útilokað var fyrir Alþingi að fjalla um stjórnarskrána án þess að breyta þessu ákvæði, þó að Danir teldu það enn sem fyrr nauðsynlegt. Alþingi fann þá lausn 1913 að leggja það í vald konungs hvar hann léti bera upp fyrir sig málefni Íslands, og var reyndar ljóst að það yrði þá í ríkisráðinu.

Í kosningunum til aukaþings 1914 voru flokkslínur býsna óljósar, en þegar á þing kom myndaðist nýr meirihluti, kenndur við Sjálfstæðisflokkinn „og samverkamenn hans“, og valdi sem ráðherraefni Sigurð Eggerz sýslumann.

ÓnefndStjórnarskráin var nú afgreidd frá Alþingi. Fyrir lá að konungur myndi staðfesta hana, en um leið yrði Íslandsráðherra að úrskurða með honum að halda íslenskum málum í ríkisráðinu þar til sambandslög yrðu sett. Þessi væntanlegi konungsúrskurður hafði verið helsta hitamál kosningabaráttunnar. Ekki þó efni hans, heldur hvernig að honum skyldi staðið svo að í því fælist örugglega ekkert fráhvarf Íslendinga frá þeim skilningi sínum að „uppburður sérmálanna“ væri íslenskt sérmál. Til að árétta þann skilning samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu, „fyrirvarann“.  Þegar Sigurður ráðherra hugðist leggja stjórnarskrána fram til staðfestingar hófust erfiðir samningar um hvernig orðaskipti í ríkisráði gætu í senn fullnægt fyrirvara Alþingis og kröfum konungs – eða í reynd dönsku stjórnarinnar. Lausn fannst ekki. Sigurður lagði stjórnarskrána fram í ríkisráðinu, en tók hana til baka þegar hann taldi undirtektir konungs ekki fullnægja fyrirvara Alþingis.

Einar Arnórsson 1880-1955Stjórnarandstaðan, sem nú hafði sameinast undir nafni Heimastjórnarflokksins og forustu Hannesar Hafstein, taldi málalokin klúður sem snarlega þyrfti að leiðrétta. Hannes hélt til Kaupmannahafnar og samdi um það við Dani að freista þess að mynda meirihluta um ráðherra úr Sjálfstæðisflokki sem heimastjórnarmenn styddu – líkt og Kristján Jónsson á sínum tíma. Úr því varð varanlegur klofningur Sjálfstæðisflokksins og ráðherradómur Einars Arnórssonar sem bar stjórnarskrána fram til staðfestingar í ríkisráði 19. júní 1915.

Löggjafarstarf

Eitt af því sem hvatti Íslendinga til að berjast fyrir innlendum ráðherra var sú trú að athafnasamari stjórn í nánari tengslum við Alþingi myndi stuðla að virkara löggjafarstarfi. Það gekk eftir. Fyrstu þingum heimastjórnartímans tókst að koma í lög óvenjulegum fjölda stórmála. Sum voru undirbúin á vegum þingsins sjálfs, annaðhvort af milliþinganefndum eða einstökum mönnum, þó að ráðherra legði þau svo fram á þingi. En hið nýja stjórnarráð í Reykjavík var líka afkastamikið við að búa mál til þings.

Á þremur þingum, 1905, 1907 og 1909, voru 96 stjórnarfrumvörp afgreidd sem lög. Þar á meðal var ný heildarlöggjöf um nokkur grundvallarsvið samfélagsgerðarinnar: um fátækraframfæri og um sveitarstjórnir 1905 ásamt margvíslegri löggjöf um landbúnað; fræðslulög og vegalög 1907 ásamt syrpu af lögum um málefni presta og safnaða; og 1909 lög um almennan ellistyrk.

KleppspítaliFyrsta þing heimastjórnarinnar ákvað að reisa geðveikrahælið á Kleppi sem tók til starfa 1907. Það var fyrsta sjúkrastofnunin sem reist var og rekin alfarið af landsjóði, til þess ætluð að létta brýnum vanda af heimilum geðsjúklinga og búa þeim mannsæmandi gæslu, fremur en í von um eiginlegar lækningar. Sama þing setti lög um byggingu Safnahússins í Reykjavík sem var fullbúið 1909, veglegasta skrauthýsi Reykjavíkur. Sú framkvæmd er táknræn fyrir þann metnað sem Íslendingar tengdu við bókmenningu sína og fræðistörf. Þessi þing settu líka lög um stofnun einstakra skóla, þar á meðal Háskóla Íslands 1909, en hann tók til starfa tveim árum síðar.

Einhver róttækasta löggjöf þingsins 1909, sett í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu árið áður, bannaði áfengi í landinu. Bannið kom að fullu til framkvæmda 1915 og stóð sjö ár án tilslakana, en sterkir drykkir voru bannaðir í 20 ár.

Stjórnarfrumvörp hafa jafnan átt greiðari leið gegnum þingið en þingmannafrumvörp. Það fer þó mjög eftir því hve traustur meirihluti stendur að stjórninni. Þannig áttu frumvörp Hannesar Hafstein næsta erfitt uppdráttar á þinginu 1913, alls ólíkt fyrstu stjórnarárum hans. En jafnvel þegar best lét áttu sum þingmál hans litlu fylgi að fagna. Það á ekki síst við um frumvarp til nýrrar kjördæmaskipunar sem hann flutti tvívegis og stefndi að afnámi ein- og tvímenningskjördæma, en í staðinn kæmu stærri kjördæmi með nokkra þingmenn hvert. Meira en hálf öld leið áður en slík skipan komst á með kjördæmabreytingunni 1958.

Flokkar og ráðherrar

Stjórnmálaflokkar heimastjórnartímans voru fyrst og fremst þingflokkar, en í lauslegum tengslum við áhrifamenn utan þings, ekki síst eigendur og ritstjóra blaðanna. Frambjóðendur til þings treystu á persónufylgi í kjördæmum sínum ekki síður en flokksfylgi, og stundum var óljóst hvaða flokki þeir myndu fylgja að kosningum loknum.

Hannes HafsteinKjörtímabilið 1903–1908 var flokkaskiptingin skýr: meirihluti Heimastjórnarflokksins að baki Hannesar ráðherra, en í stjórnarandstöðu minnihluti Valtýinga, sem fyrst höfðu nefnt sig Stjórnarbótarflokk, þá Framfaraflokk, Framsóknarflokk fyrstu ár heimastjórnar, en tóku sér nafnið Þjóðræðisflokkur eftir bændafundinn gegn símanum 1906. Í kosningunum 1908 breytti Þjóðræðisflokkurinn enn um nafn og kallaði sig Sjálfstæðisflokk. Þá hafði runnið inn í hann svonefndur Landvarnarflokkur, þjóðmálahreyfing ungra þjóðernissinna.

Með uppkastskosningunum 1908 hófst umbrotaskeið í íslenskum stjórnmálum sem stóð til 1916. Þing var rofið á þriggja ára fresti, og hverjar kosningar færðu stjórnarandstöðunni meirihluta: Sjálfstæðisflokki 1908 og 1914, Heimastjórnarflokki 1911. Sigurvegararnir völdu ráðherra á næsta þingi: Björn Jónsson 1909, Hannes Hafstein 1912, Sigurð Eggerz 1914. Enginn þeirra hafði setið heilt ár í embætti þegar þingmeirihlutinn klofnaði. Hannes náði að þrauka fram yfir næstu kosningar, en Björn og Sigurður hlutu að víkja fyrir flokksbræðrum sínum, Kristjáni Jónssyni 1911 og Einari Arnórssyni 1915, sem báðir stjórnuðu til bráðabirgða með stuðningi Heimastjórnarflokksins.

Eftir ósigur Heimastjórnarflokks 1908 sat Hannes Hafstein áfram á ráðherrasstóli þar til þingmeirihlutinn 1909 samþykkti vantraust á hann og valdi sem ráðherra Björn Jónsson ritstjóra.

Valtýr GuðmundssonÁ næsta þingi, 1911, var Sjálfstæðisflokkurinn sundraður. Hluti hans, „sparkliðið“, stóð að vantrausti á Björn. Nýtt ráðherraefni flokksins var Skúli Thoroddsen sem flestir flokksmenn studdu eða hétu honum a.m.k. hlutleysi. Nokkrir vildu hins vegar frekar styðja Kristján Jónsson, sjálfstæðismann sem nú hafði Heimastjórnarflokkinn líka á bak við sig. Frá tveim þingmönnum höfðu Kristján og Skúli báðir hlutleysisloforð og gátu þar með báðir talið sér meirihluta á þingi. Töldu Danir sér þá heimilt að sniðganga þann sem líklegri væri til að lenda í hörðum deilum um sambúð landanna og völdu Kristján. Í þessari rimmu varð hann viðskila við Sjálfstæðisflokkinn og taldist utan flokka meðan hann var ráðherra.

Á aukaþingi 1912 tók Hannes Hafstein við ráðherradómi öðru sinni, nú í nafni Sambandsflokksins. Að þeim flokki stóðu í fyrstu allir þingmenn nema þrír, en þeim fækkaði brátt og voru í minnihluta á þingi 1913. Hannes stjórnaði þá án eiginlegs meirihluta, en meirihluti þingmanna varði hann vantrausti, m.a. hluti af svonefndum Bændaflokki, en það voru lauslega samtök þingbænda sem urðu ekki að eiginlegum flokki fyrr en 1915.

Sigurður EggerzÍ kosningum 1914 var flokkaskipting á mikilli ringulreið, en á þingi endurrisu gömlu flokkarnir tveir: Heimastjórnarflokkur með Hannes Hafstein sem leiðtoga minnihlutans; Sjálfstæðisflokkur sem studdi til valda nýjan ráðherra, Sigurð Eggerz. Eftir nokkurra vikna valdaferil baðst Sigurður lausnar vegna ágreinings við konung í ríkisráðinu, en stjórnaði áfram til bráðabirgða til vors 1915. Þá hafði sú lausn fundist að Einar Arnórsson tæki við ráðherradómi, sjálfstæðismaður eins og Sigurður, en sótti stuðning mest til Heimastjórnarflokksins, rétt eins og Kristján Jónsson 1911. Á þingi um sumarið klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn endanlega í tvo hluta. Minnihlutinn, sem studdi Einar ráðherra, var kallaður „langsum“ en meirihlutinn, sem fylgdi Sigurði Eggerz, „þversum“. Auk þess kom Bændaflokkurinn fram á þessu þingi sem sjálfstæður þingflokkur, fyrirrennari Framsóknarflokksins sem var stofnaður 1916. Sama ár varð Alþýðuflokkurinn til, ekki þó sem þingflokkur, heldur stjórnmálaarmur Alþýðusambands Íslands sem þá var nýstofnað.

ÓnefndÞar sem stjórnarskrárbreytingarnar 1915 breyttu miklu um kosningarrétt og um skipan Alþingis var þing rofið og efnt til kosninga 1916 þar sem Heimastjórnarflokkurinn reyndist sterkastur, þá Sjálfstæðisflokkur „þversum“ og hinn nýi Framsóknarflokkur. Þessir þrír flokkar mynduðu 1917 fyrstu samsteypustjórnina, með þremur ráðherrum. Forsætið kom í hlut Heimastjórnarflokks, en sökum heilsubrests Hannesar Hafstein var Jón Magnússon bæjarfógeti valinn forsætisráðherra. Það var stjórn Jóns Magnússonar sem kom fram sambandslagasamningnum við Dani 1918. Eftir 10 ára harðar sviptingar var sambandsmál Íslendinga og Dana leyst með þeim hætti sem gerði Ísland að fullvalda ríki.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum