Hoppa yfir valmynd
30. júní 2020 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Nýsamþykkt samgönguáætlun boðar miklar framkvæmdir um land allt og fjölmörg ný störf

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. - mynd

Samgönguáætlun til fimmtán ára 2020-2034 og aðgerðaáætlun til fimm ára 2020-2024 voru samþykktar samhljóða á Alþingi í gær. Um er að ræða uppfærða og endurskoðaða samgönguáætlun á grunni þeirrar sem samþykkt var á Alþingi í febrúar 2019. Nýsamþykkt samgönguáætlun er ein sú umfangsmesta sem samþykkt hefur verið og felur í sér mikilvæga framtíðarsýn og víðtæk áform um nýframkvæmdir og viðhald á vegum, höfnum og flugvöllum um land allt. Bein framlög til samgöngumála nema um 640 milljörðum króna á fimmtán ára tímabili samgönguáætlunar. Sérstök 6,5 milljarða aukafjárveiting fyrir samgönguframkvæmdir árið 2020 úr fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar í vor vegna Covid-19 hefur verið felld inn í áætlunina.

Grunntónn samgönguáætlunar er að auka öryggi í samgöngum, stytta vegalengdir milli byggða, efla atvinnusvæði á landinu öllu og markvissar aðgerðir til draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í áætluninni er einnig kappkostað að fjölga og flýta samgönguframkvæmdum frá fyrri áætlun en við það skapast fjölmörg ný störf þegar í ár og næstu ár. Alls er áætlað að 8.700 störf verði til á næstu árum vegna framkvæmda vegna samgönguáætlunar.

Stórt stökk í samgöngum á Íslandi

„Nýsamþykkt samgönguáætlun er stórt stökk í samgöngum á Íslandi. Þetta er ein mikilvægasta áætlun sem ríkið stendur að enda er samgöngukerfið, vegakerfið, flugvellir og hafnir, líklega stærsta eign íslenska ríkisins, metið á tæpa 900 milljarða króna. Aldrei áður hefur jafnmiklum fjármunum verið varið til samgangna og gert er í þessari áætlun sem á eftir að skila sér í öruggari og greiðari umferð um allt land,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Fjölmörgum framkvæmdum um land allt er flýtt á tímabili áætlunarinnar með sérstakri áherslu á að bæta umferðaröryggi og tengingar milli byggða. Sérstök áhersla verður lögð á að aðskilja akstursstefnur á umferðarþungum vegum frá höfuðborgarsvæðinu að Borgarnesi, austur fyrir Hellu og að Leifsstöð. Einnig verður einbreiðum brúm fækkað á þjóðveginum.

Lög um samvinnuverkefni samþykkt

Í gær voru einnig samþykkt ný lög um samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum (PPP) en þau heimila samstarf hins opinbera og einkaaðila um tilteknar framkvæmdir við samgöngumannvirki og gjaldtöku vegna þeirra. Markmið laganna er að flýta uppbyggingu mikilvægra samgönguinnviða enn frekar, stytta vegalengdir og auka umferðaröryggi. Í öllum framkvæmdunum munu vegfarendur hafa val um aðra leið og greiða ekki gjald á þeirri leið. Í lok samningstíma teljast mannvirki eign ríkisins án sérstaks endurgjalds.

„Þau verkefni sem falla undir löggjöfina eru ný brú yfir Ölfusá ofan Selfoss, láglendisvegur og göng í gegnum Reynisfjall, ný brú yfir Hornafjarðarfljót, nýr vegur yfir Öxi, önnur göng undir Hvalfjörð og hin langþráða Sundabraut. Allt eru þetta verkefni sem fela í sér verulega styttingu leiða og aukið öryggi en þeir sem vilja ekki nýta sér þessi mannvirki geta áfram farið aðra leið en munu þá verða af þeim ávinningi, fjárhagslegum og varðandi öryggi,“ segir ráðherra.

Stórt skref í uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu

Þá voru í gær samþykkt lög sem heimila stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu en framkvæmdir munu byggjast á samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem undirritaður var í fyrra.

„Með samgönguáætlun og stofnun hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðisins er stigið stærsta skref sem stigið hefur verið í uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu. Með honum var höggvið á þann hnút sem hefur verið í samskiptum ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og komið hafði í veg fyrir alvöru uppbyggingu á svæðinu,“ segir ráðherra.

Sérstök jarðgangaáætlun í fyrsta sinn

Sérstök jarðgangaáætlun er kynnt í fyrsta sinn í samgönguáætlun. Miðað er við að jafnaði sé unnið í einum göngum á landinu á hverjum tíma. Þar er gert ráð fyrir að framkvæmdum við Dýrafjarðargöng ljúki árið 2020. Þá er miðað við það að flýta upphafi framkvæmda við Fjarðarheiðargöng þannig að þær hefjist árið 2022 eða talsvert fyrr en áður hefur verið ráðgert. Í kjölfarið hefjast framkvæmdir á göngum milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar og síðan frá Mjóafirði til Norðfjarðar og þannig verði komið á hringtengingu á svæðinu.

Ný flugstefna og skoska leiðin

Með samgönguáætlun er kynnt fyrsta flugstefna Íslands. Markmið flugstefnunnar er m.a. að efla innanlandsflug sem hefur átt undir högg að sækja á síðustu árum. Innanlandsflugið verður nú hluti af almenningssamgangnakerfi landsins. Eitt af því sem flugstefnan felur í sér er skilvirkt kerfi alþjóðaflugvalla hér á landi sem er samþætt og á einni hendi og að stutt verði við möguleika á fleiri hliðum inn til landsins til að fjölga svæðum sem geta notið góðs af ferðaþjónustu.

Annað sem flugstefnan felur í sér er niðurgreiðsla á flugi íbúa á landsbyggðinni til höfuðborgarinnar þar sem mjög stór hluti allrar þjónustu ríkisins hefur verið byggður upp. Þetta hefur í daglegu tali verið nefnt „skoska leiðin“ en stefnt er að niðurgreiðslur hefjist í haust. „Það er mikið réttlætismál að þeir sem búa fjarri höfuðborginni og vilja og þurfa að sækja þjónustu þangað fái niðurgreiðslur á ferðum sínum með flugi. Þetta er mikilvægt skref í því að jafna aðstöðumun þeirra sem búa annar staðar en á suðvesturhorninu,“ segir ráðherra.

Ný heildarstefna um almenningssamgöngur milli byggða

Innan samgönguáætlunar er einnig ný heildarstefna um almenningssamgöngur milli byggða. Þar er gert ráð fyrir að almenningssamgöngur með flugi, ferjum og almenningsvögnum myndi eina sterka heild og boðið verði upp á eitt leiðarkerfi fyrir allt landið með bættu aðgengi. Í stefnunni er mikil áhersla á uppbyggingu göngu- og hjólastíga og reiðvega.

„Sterkt almenningssamgöngukerfi um land allt, sem tengir saman byggðakjarna landsins og höfuðborgarsvæðið við landsbyggðina, er forsenda þess að jafna stöðu landsmanna og færa okkur nær hvert öðru. Nýrri stefnu ríkisins um almenningssamgöngur sem mótuð hefur verið í fyrsta sinn er ætlað að tryggja að þær verði raunhæfur valkostur fyrir alla landsmenn.“

Skýr markmið um loftslagsmál

Í samgönguáætlun eru skýr markmið um umhverfismál, m.a. í takti við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um að draga úr losun koltvísýrings. Þar vega þyngst orkuskipti í samgöngum – hvort heldur sem er í fólksbílum, þungaflutningum eða ferjum. Einnig hefur áhersla á fjölbreytta ferðamáta verið stóraukin og fjárframlög meiri í takt við það, m.a. í að efla almenningssamgöngur milli byggða og við gerða göngu- og hjólastíga.

Eitt af meginmarkmiðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna umferðar m.a. með því að efla almenningssamgöngur og virka samgöngumáta. Horft er til orkuskipta í stefnumótun fyrir almenningssamgöngur og flug á Íslandi. Loks hefur verið ákveðið að stefnt að því að greina efnahagslega hvata til að efla ræktun orkujurta á Íslandi.

Stórt skref var stigið í þá átt þegar ný Vestmannaeyjaferja hóf siglingar en hún er knúin rafmagni, svokölluð tvinnferja. „Áfram verður hlúð að almenningssamgöngum með ferjum. Mikil fjárfesting verður í höfnum víða um land og áhersla lögð á að búa þær búnaði til að skip geti tengst rafmagni til að vinna gegn óþarfa útblæstri,“ segir ráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira