Hoppa yfir valmynd

Samgönguáætlun 2020-2034 (gildandi)

Samgönguáætlun til fimmtán ára 2020-2034 og aðgerðaáætlun til fimm ára 2020-2024 voru samþykktar samhljóða á Alþingi 29. júní 2020. Um er að ræða uppfærða og endurskoðaða samgönguáætlun á grunni þeirrar sem samþykkt var á Alþingi í febrúar 2019. Nýsamþykkt samgönguáætlun er ein sú umfangsmesta sem samþykkt hefur verið og felur í sér mikilvæga framtíðarsýn og víðtæk áform um nýframkvæmdir og viðhald á vegum, höfnum og flugvöllum um land allt. 

Bein framlög til samgöngumála nema um 640 milljörðum króna á fimmtán ára tímabili samgönguáætlunar. Sérstök 6,5 milljarða aukafjárveiting fyrir samgönguframkvæmdir árið 2020 úr fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar í vor vegna Covid-19 hefur verið felld inn í áætlunina.

Kynningarmyndband um samgönguáætlun 2020-2034

Kynningarmyndband um samgöngusáttmálann

Grunntónn samgönguáætlunar er að auka öryggi í samgöngum, stytta vegalengdir milli byggða, efla atvinnusvæði á landinu öllu og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í áætluninni er einnig kappkostað að fjölga og flýta samgönguframkvæmdum frá fyrri áætlun en við það skapast fjölmörg ný störf þegar í ár og næstu ár. Alls er áætlað að 8.700 störf verði til á næstu árum vegna framkvæmda vegna samgönguáætlunar.

Stórt stökk í samgöngum á Íslandi

„Nýsamþykkt samgönguáætlun er stórt stökk í samgöngum á Íslandi. Þetta er ein mikilvægasta áætlun sem ríkið stendur að enda er samgöngukerfið, vegakerfið, flugvellir og hafnir, líklega stærsta eign íslenska ríkisins, metið á tæpa 900 milljarða króna. Aldrei áður hefur jafnmiklum fjármunum verið varið til samgangna og gert er í þessari áætlun sem á eftir að skila sér í öruggari og greiðari umferð um allt land,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Fjölmörgum framkvæmdum um land allt er flýtt á tímabili áætlunarinnar með sérstakri áherslu á að bæta umferðaröryggi og tengingar milli byggða. Sérstök áhersla verður lögð á að aðskilja akstursstefnur á umferðarþungum vegum frá höfuðborgarsvæðinu að Borgarnesi, austur fyrir Hellu og að Leifsstöð. Einnig verður átak gert í að fækka einbreiðum brúm á vegum landsins.

Lög um samvinnuverkefni samþykkt

Ný lög um samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum (PPP) voru einnig samþykkt á Alþingi 29. júní 2020 en þau heimila samstarf hins opinbera og einkaaðila um tilteknar framkvæmdir við samgöngumannvirki og gjaldtöku vegna þeirra. Markmið laganna er að flýta uppbyggingu mikilvægra samgönguinnviða enn frekar, stytta vegalengdir og auka umferðaröryggi. Í öllum framkvæmdunum munu vegfarendur hafa val um aðra leið og greiða ekki gjald á þeirri leið. Í lok samningstíma teljast mannvirki eign ríkisins án sérstaks endurgjalds.

Þær framkvæmdir sem áætlað er að unnar verði sem samvinnuverkefni eru eftirfarandi:

  • Hringvegur norðaustan Selfoss, brú á Ölfusá.
  • Hringvegur um Hornafjarðarfljót.
  • Axarvegur.
  • Tvöföldun Hvalfjarðarganga.
  • Hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli.
  • Sundabraut.

Stórt skref í uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu

Þá voru einnig samþykkt lög sem heimila stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu en framkvæmdir munu byggjast á samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem undirritaður var í fyrra.

Með samgönguáætlun og stofnun hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðisins er stigið stórt skref í uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu.

Sérstök jarðgangaáætlun í fyrsta sinn

Sérstök jarðgangaáætlun er kynnt í fyrsta sinn í samgönguáætlun. Miðað er við að jafnaði sé unnið í einum göngum á landinu á hverjum tíma. Þar er gert ráð fyrir að framkvæmdum við Dýrafjarðargöng ljúki árið 2020. Þá er miðað við það að flýta upphafi framkvæmda við Fjarðarheiðargöng þannig að þær hefjist árið 2022 eða talsvert fyrr en áður hefur verið ráðgert. Í kjölfarið hefjast framkvæmdir á göngum milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar og síðan frá Mjóafirði til Norðfjarðar og þannig verði komið á hringtengingu á svæðinu.

Gert er ráð fyrir því að framlög af samgönguáætlun standi undir helmingi framkvæmdakostnaðar jarðganga. Þá er stefnt að því að gjaldtaka af umferð í jarðgöngum á Íslandi standi undir hinum helmingi kostnaðar við framkvæmdir en einnig að sú innheimta muni fjármagna rekstur og viðhald ganganna að framkvæmdum loknum.

Ný flugstefna og skoska leiðin

Samhliða samgönguáætluninni er kynnt fyrsta flugstefna Íslands. Tilgangur með mótun flugstefnu er að skapa umhverfi sem viðheldur grunni fyrir flugrekstur og flugtengda starfsemi á Íslandi og styður vöxt hennar. Markmið stefnunnar er m.a. að efla innanlandsflug sem hefur átt undir högg að sækja á síðustu árum. Innanlandsflugið er nú hluti af almenningssamgangnakerfi landsins. Eitt af því sem flugstefnan felur í sér er skilvirkt kerfi alþjóðaflugvalla hér á landi sem er samþætt og á einni hendi og að stutt verði við möguleika á fleiri hliðum inn til landsins til að fjölga svæðum sem geta notið góðs af ferðaþjónustu.

Flugstefnan felur í sér niðurgreiðslu á flugi íbúa á landsbyggðinni til höfuðborgarinnar þar sem mjög stór hluti allrar þjónustu ríkisins hefur verið byggður upp. Hefur þessi leið verið nefnd skoska leiðin þar sem hún á fyrirmynd í vel heppnuðu kerfi sem Skotar hafa byggt upp í samstarfi ríkis og flugfélaga. Skoska leiðin hefur formlega göngu sína í september 2020 en síðustu mánuði ársins fá íbúar landsbyggðarinnar sem búa í meira en 275 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni endurgreiddan hluta fargjalds af ferð til og frá Reykjavík eða af tveimur leggjum.

Ný heildarstefna um almenningssamgöngur milli byggða

Innan samgönguáætlunar er kynnt ný heildarstefna um almenningssamgöngur milli byggða. Þar er gert ráð fyrir að almenningssamgöngur með flugi, ferjum og almenningsvögnum myndi eina sterka heild og boðið verði upp á eitt leiðarkerfi fyrir allt landið með bættu aðgengi. Í stefnunni er mikil áhersla á uppbyggingu göngu- og hjólastíga og reiðvega.

Markmiðið er auka hlutdeild almenningssamgangna í ferðum milli byggða á Íslandi og stuðla þannig að umhverfisvænni, öruggari og þjóðhagslega hagkvæmari umferð um allt land.

Skýr markmið um loftslagsmál

Í samgönguáætlun eru skýr markmið um umhverfismál, m.a. í takti við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um að draga úr losun koltvísýrings. Þar vega þyngst orkuskipti í samgöngum – hvort heldur sem er í fólksbílum, þungaflutningum eða ferjum. Einnig hefur áhersla á fjölbreytta ferðamáta verið stóraukin og fjárframlög meiri í takt við það, m.a. í að efla almenningssamgöngur milli byggða og við gerða göngu- og hjólastíga.

Eitt af meginmarkmiðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna umferðar m.a. með því að efla almenningssamgöngur og virka samgöngumáta. Horft er til orkuskipta í stefnumótun fyrir almenningssamgöngur og flug á Íslandi. Loks hefur verið ákveðið að stefnt að því að greina efnahagslega hvata til að efla ræktun orkujurta á Íslandi.

Stórt skref var stigið í þá átt þegar ný Vestmannaeyjaferja hóf siglingar en hún er knúin rafmagni, svokölluð tvinnferja. „Áfram verður hlúð að almenningssamgöngum með ferjum. Mikil fjárfesting verður í höfnum víða um land og áhersla lögð á að búa þær búnaði til að skip geti tengst rafmagni til að vinna gegn óþarfa útblæstri,“ segir ráðherra.

Helstu atriði í uppfærðri samgönguáætlun:

  • Bein framlög til samgöngumála nema alls tæpum 633 milljörðum króna á fimmtán ára tímabili samgönguáætlunar. Til vegagerðar falla tæp 560 milljarðar, um 37 milljarðar til flugvalla og flugleiðsögu, rúmir 14 milljarðar til hafnamála, rúmir 19 milljarðar í stjórnsýslu, öryggi og eftirlit og rúmir 2,5 milljarðar til Rannsóknarnefndar samgönguslysa. 
  • Með fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19, sem kynnt var í maí, voru 6,5 milljarða kr. settir aukalega í samgönguframkvæmdir árið 2020. Undir það féllu ýmsar nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni í samgönguinnviðum þar sem undirbúningur var vel á veg kominn og hægt að ráðast í strax. Þessi verkefni voru felld inn í samgönguáætlun.
  • Við endurskoðun fjármálaáætlunar vorið 2019 var samþykkt að auka framlög til vegagerðar umtalsvert. Þeim fjármunum er m.a. ráðstafað í aukin framlög til nýframkvæmda, viðhalds vega og þjónustu. Framlögin hækka um 4 milljarða á ári á tímabilinu 2020-2024 frá því sem áður var, eða alls um 20 milljarða kr.
  • Fjölmörgum framkvæmdum er flýtt á tímabili áætlunarinnar með sérstakri áherslu á að bæta umferðaröryggi og tengingar milli byggða. Á tímabilinu verður framkvæmdum, sem í heild eru metnar á um 214,3 milljarða króna, flýtt. Þar af eru framkvæmdir fyrir um 125,5 milljarða króna utan höfuðborgarsvæðisins og 88,8 milljarða króna í samræmi við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. 
  • Kynnt eru áform um sex afmörkuð verkefni sem henta vel fyrir samvinnuverkefni (PPP) ríkis og opinberra aðila. Þau eru ný brú yfir Ölfusá, brú yfir Hornafjarðarfljót, Axarvegur, tvöföldun Hvalfjarðarganga, vegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli og Sundabraut. 
  • Unnið verður að framkvæmdum til að aðskilja akstursstefnur frá höfuðborgarsvæðinu að Borgarnesi, austur fyrir Hellu og að Leifsstöð.
  • Bein fjármögnun ríkisins í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er staðfest í samgönguáætluninni. Sáttmálinn staðfestir sameiginlega sýn og heildarhugsun ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir fjölbreyttar samgöngur.
  • Sérstök jarðgangaáætlun er kynnt en þar er gert ráð fyrir að framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng hefjist þegar á árinu 2022.
  • Fyrsta flugstefna Íslands er lögð fram í áætluninni með tólf lykilviðfangsefnum.
  • Fyrsta heildarstefna um almenningssamgöngur milli byggða er lögð fram í áætluninni með sex lykilviðgangsefnum.
  • Í samgönguáætluninni er grunnnet allra samgangna skilgreint en í því eru um 5.000 km vegakerfi, 38 hafnir, 13 flugvellir og nokkrar ferju-, skipa- og flugleiðir.

Samfélagsmál

Í samgönguáætluninni er í fyrsta sinn fjallað sérstaklega um að gera átak í að jafna stöðu kynja í atvinnugreinum tengdum samgöngum. Einnig er fjallað um mikilvægi þess að í stefnumótun um málaflokkinn verði tekið tillit til þarfa barna og ungmenna sem eru virkir þátttakendur í samgöngum. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið stóð fyrir ráðstefnu um konur og siglingar í september sl. þar sem fjallað var um mikilvægi þess að gera störf til sjávar eftirsóknarverð fyrir konur. Þá var haldin var ráðstefna um börn og samgöngur í nóvember sl.

Samhæfð stefnumótun

Samgönguáætlun til fimmtán ára er mikilvægur hluti af samhæfðri stefnu í samgöngu-, fjarskipta- og byggðamálum og málefnum sveitarfélaga. Auk hennar eru byggðaáætlun, stefna í fjarskiptum og stefna í sveitarstjórnarmálum. Sú síðastnefnda er nýjust af nálinni og var samþykkt á Alþingi í vetur. Löng hefð er fyrir stefnumótun á þessu sviði en samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið vinnur nú að samræmingu áætlana sinna þannig að til framtíðar verði áætlanir samhæfðar í eina stefnu og eina aðgerðaráætlun.

Uppfærð og endurskoðuð áætlun

Um er að ræða uppfærða og endurskoðaða samgönguáætlun til fimmtán ára á grunni þeirrar sem samþykkt var á Alþingi 2019. Þegar samgönguáætlun 2019-2033 og aðgerðaáætlun 2019-2023 voru samþykktar á Alþingi síðasta vetur var ljóst að endurskoða yrði áætlunina fyrr en lög gera ráð fyrir. Var það byggt á brýnni þörf á samgöngubótum um land allt, endurskoðun á fjármögnun samgangna til framtíðar og vegna vinnu við að útfæra samkomulag um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

Fimm markmið í samgönguáætlun

Við gerð samgönguáætlunar er unnið í takt við fimm markmið að samgöngur séu öruggar, greiðar, hagkvæmar og umhverfislega sjálfbærar og að þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun.


Fimm meginmarkmið samgönguáætlunar 2020-2034


Öruggar samgöngur

Í samgönguáætlun er lögð rík áhersla á öryggi í samgöngum. Meginmarkmiðið er að öryggi verði haft til hliðsjónar við allar ákvarðanir, áherslur og aðgerðir í samgöngumálum óháð ferðamáta. Helstu áherslur til að ná þessu markmiði eru:

  • Öryggisáætlanir fyrir allar samgöngugreinar samræmdar og aðgerðaáætlanir gerðar til fimm ára fyrir hverja samgöngugrein með mælanlegum markmiðum og árangursmælikvörðum.
  • Eftirlit með leyfishöfum og tíðni þess taki mið af áhættu og frammistöðu í öryggismálum.
  • Trúverðugleiki Íslands tryggður með því að landið standist allar úttektir alþjóðlegra stofnana á öryggi í samgöngum.
  • Að Ísland verði í fremstu röð í Evrópu að takmarka fjölda látinna og alvarlega slasaðra í umferðinni á hverja 100 þúsund íbúa.

Greiðar samgöngur

Meginmarkmiðið með greiðum samgöngum er að stefnt verði að því að samgöngukerfi landsins myndi eina samþætta heild sem þjóni íbúum og atvinnulífi sem best. Helstu áherslur til að ná þessu markmiði eru:

  • Allar helstu stofnleiðir og tenging við þéttbýli með fleiri en 100 íbúa verði með bundnu slitlagi og viðunandi burðarþoli.
  • Samgöngukerfið lagað að umfangi ferðaþjónustu og dreifingu ferðamanna um landið. Sérstaklega hugað að vetrarþjónustu á vegakerfinu.
  • Unnið að þróun stofnvegakerfis höfuðborgarsvæðis til að auka öryggi og bæta umferðarflæði.
  • Viðhald stofnvega á hálendi auki öryggi og komi í veg fyrir akstur utan vega.
  • Einbreiðum brúm fækkað á umferðarþyngstu vegum landsins.

Hagkvæmar samgöngur

Meginmarkmiðið með hagkvæmum samgöngum er staðið verði að framkvæmdum, viðhaldi og þjónustu með skilvirkum hætti og fjármunir nýttir með eins hagkvæmum hætti og unnt er. Helstu áherslur til að ná þessu markmiði eru:

  • Fjölbreyttar leiðir skoðaðar til fjármögnunar stórra framkvæmda, m.a. í samstarfi við einkaaðila og með innheimtu veggjalda.
  • Leiðir kannaðar að breyttu fyrirkomulagi gjaldtöku vegna notkunar á vegum og endurspegli þannig að hluta til ekna vegalengd, óháð orkugjafa. Gjöld taki mið af álagi og umhverfisáhrifum sem ökutækið veldur.
  • Rafræn þjónusta efld og innleidd í stjórnsýslu samgöngustofnana.
  • Litið verði á samgöngukerfið sem eina heild. Nýir innviðir skipulagðir og þeim forgangsraðað með hliðsjón af niðurstöðum faglegra greininga.

Umhverfisvænar samgöngur

Ríkisstjórnin hefur sett fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem miðar að því að standa við skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Þar má finna margar aðgerðir sem snúa að samgöngumálum og orkuskiptum en samgönguáætlun tekur mið af aðgerðaáætluninni. Meginmarkmiðið með umhverfisvænum samgöngum er að þær verði umhverfislega sjálfbærar og stefnt verði að því að draga úr hnattrænum, svæðisbundnum og staðbundnum umhverfisáhrifum. Helstu áherslur til að ná þessu markmiði eru: 

  • Dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum.
  • Tillit tekið til umhverfissjónarmiða við hönnun mannvirkja.
  • Áframhaldandi stuðningur við uppbyggingu og rekstur almenningssamgöngukerfis á landsvísu.
  • Allar nýjar ferjur verði knúnar umhverfisvænum orkugjöfum.
  • Stuðlað að því að skip verði tengd rafmagni í höfnum.
  • Leitað verði leiða til að bæta staðbundin loftgæði og hljóðvist við þjóðvegi í þéttbýli í samstarfi við sveitarfélög.

Jákvæð byggðaþróun

Meginmarkmiðið er að auka lífsgæði í byggðum um allt land með bættum samgöngum. Helstu áherslur til að ná þessu markmiði eru:

  • Leitast við að styrkja samgöngur þannig að sem flestum landsmönnum verði kleift að nálgast nauðsynlega opinbera þjónustu á sem stystum tíma.
  • Unnið að því að stytta ferðatíma innan skóla- og vinnusóknarsvæða.
  • Framkvæmdir og þjónusta samgöngukerfisins miði að því að auka öryggi og efla skóla- og vinnusóknarsvæði.

Bein framlög til samgöngumála nema alls tæpum 633 milljörðum króna á fimmtán ára tímabili samgönguáætlunar. Til vegagerðar falla tæp 560 milljarðar, um 37 milljarðar til flugvalla og flugleiðsögu, rúmir 14 milljarðar til hafnamála, rúmir 19 milljarðar í stjórnsýslu, öryggi og eftirlit og rúmir 2,5 milljarðar til Rannsóknarnefndar samgönguslysa.

 

Hér að neðan er listi með helstu framkvæmdum sem flýtt verður á tímabili samgönguáætlunar 2020-2034. Lista allra framkvæmda er að finna í tillögu að samgönguáætlun 2020-2034.

 

Samhliða samgönguáætluninni er kynnt fyrsta flugstefna Íslands. Tilgangur með mótun flugstefnu er að skapa umhverfi sem viðheldur grunni fyrir flugrekstur og flugtengda starfsemi á Íslandi og styður vöxt hennar.

Markmið stefnunnar er m.a. að efla innanlandsflug sem hefur átt undir högg að sækja á síðustu árum. Innanlandsflugið er nú hluti af almenningssamgangnakerfi landsins. Eitt af því sem flugstefnan felur í sér er skilvirkt kerfi alþjóðaflugvalla hér á landi sem er samþætt og á einni hendi og að stutt verði við möguleika á fleiri hliðum inn til landsins til að fjölga svæðum sem geta notið góðs af ferðaþjónustu.

Lykilviðfangsefni nýrrar flugstefnu

  1. Viðhalda og styrkja grundvöll fyrir sterkan íslenskan flugrekstur þar sem skilvirkni, þjónusta, hagkvæmni og öryggi eru meginstef.
  2. Veita áfram flugleiðsöguþjónustu í fremstu röð á Norður-Atlantshafi og vinna að aukinni skilvirkni þjónustunnar.
  3. Byggja á þeim árangri sem náðst hefur í flugöryggismálum og nýta allar leiðir til að stuðla áfram að auknu flugöryggi.
  4. Draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum flugs og flugtengds rekstrar. Greiða fyrir orkuskiptum á sviði flugsamgangna samfara tækniþróun og stuðla að uppbyggingu nauðsynlegra innviða vegna þeirra.
  5. Keflavíkurflugvöllur verði áfram megin alþjóðaflugvöllur landsins. Innviðir þar greiði fyrir öflugu millilandaflugi, þar með talið alþjóðlegu tengiflugi.
  6. Skilvirkt kerfi alþjóðaflugvalla hér á landi sem er samþætt og á einni hendi. Stutt við möguleika á fleiri hliðum inn til landsins til að fjölga svæðum sem geta notið góðs af ferðaþjónustu.
  7. Byggja upp innviði alþjóðaflugvalla landsins með áherslu á að þeir mæti sem best þörfum flugrekenda fyrir varaflugvelli. Egilsstaðaflugvöllur sé í forgangi að því leyti. 
  8. Tryggja einfaldar, auðveldar og þægilegar tengingar milli allra þátta almennings-samgöngukerfisins með áherslu á að tengja innanlandsflug við aðra hluta samgöngukerfisins, þ.m.t. millilandaflugið. 
  9. Íbúum á landsbyggðinni auðveldaður aðgangur að miðlægri þjónustu á höfuðborgarsvæðinu í innanlandsflugi með hagkvæmari hætti.
  10. Vinna að því að menntun í flugi og flugtengdum greinum verði hluti af opinberu menntakerfi. Stuðla að frekari rannsóknum háskólasamfélagsins í þágu flugs og flugtengdrar starfsemi. Bæta söfnun tölfræðiupplýsinga á sviði flugs og flugrekstrar hérlendis.
  11. Vinna að undirbúningi og uppbyggingu aðstöðu fyrir einka- og kennsluflug utan höfuðborgarsvæðisins. Metin þörf á lendingarstöðum með hliðsjón af öryggishlutverki þeirra.
  12. Flugvernd verði áfram tryggð hér á landi.

Stefnuskjöl

Innan samgönguáætlunar er kynnt ný heildarstefna um almenningssamgöngur milli byggða. Þar er gert ráð fyrir að almenningssamgöngur með flugi, ferjum og almenningsvögnum myndi eina sterka heild og boðið verði upp á eitt leiðarkerfi fyrir allt landið með bættu aðgengi. Í stefnunni er mikil áhersla á uppbyggingu göngu- og hjólastíga og reiðvega.

Markmiðið er auka hlutdeild almenningssamgangna í ferðum milli byggða á Íslandi og stuðla þannig að umhverfisvænni, öruggari og þjóðhagslega hagkvæmari umferð um allt land.

Í nýju stefnumótuninni er miðað við að þróa eitt samtengt leiðarkerfi á landi, láði og legi. Skilgreindar eru fimm stærri skiptistöðvar á landinu þar sem huga þarf að því að skipuleggja samgöngumiðstöðvar. Þær eru á höfuðborgarsvæðinu, Borgarnesi, Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi. Sjö minni skiptistöðvar yrðu einnig í kerfinu fyrir afmarkaðri svæði.

Stefnt er að því að öllum upplýsingum um áfangastaði og tímasetningar í leiðarkerfi almenningssamgangna verði á einni sameiginlegri upplýsingagátt. Á þeim vef verði hægt að fá ferðatillögur í rauntíma, sem tengir saman mismunandi leiðir og ferðamáta og bjóði upp á kaup á farmiðum alla leið.

Lykilviðfangsefni nýrrar stefnu

  1. Heildstætt leiðarkerfi á landi, láði og legi og boðið upp á samþættar leiðir milli staða.
  2. Gott aðgengi að upplýsingum um leiðir milli áfangastaða og kaup notenda á farmiðum auðvelduð.
  3. Að tryggja að ferðamátinn sé samkeppnishæfur.
  4. Öryggi farþega á ferðalögum og á biðstöðvum, flugstöðum og ferjuhöfnum tryggt.
  5. Aðgengi allra að þjónustunni, þar með talið fatlaðs fólks og hreyfihamlaðra, verði eins og best verður á kosið.
  6. Að tryggja samræmt skipulag ferðamátanna og örugga framkvæmd þjónustu.

Stefnuskjöl

Sérstök jarðgangaáætlun birtist nú í samgönguáætlun. Miðað er við að jafnaði sé unnið í einum göngum á landinu á hverjum tíma. Þar er gert ráð fyrir að framkvæmdum við Dýrafjarðargöng ljúki árið 2020. Þá er miðað við að flýta upphafi framkvæmda við Fjarðarheiðargöng þannig að þær hefjist árið 2022 eða talsvert fyrr en áður hefur verið ráðgert. Fjarðarheiðargöng eru sett í forgang, í samræmi við niðurstöðu verkefnishóps um jarðgangakosti á Austurlandi. Gert er ráð fyrir að verkefnið muni klárast á gildistíma áætlunarinnar.

Í kjölfarið hefjast framkvæmdir á göngum milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar og síðan frá Mjóafirði til Norðfjarðar og þannig verði komið á hringtengingu á svæðinu.

Gert er ráð fyrir því að framlög af samgönguáætlun standi undir helmingi framkvæmdakostnaðar jarðganga. Þá er stefnt að því að gjaldtaka af umferð í jarðgöngum á Íslandi standi undir hinum helmingi kostnaðar við framkvæmdir en einnig að sú innheimta muni fjármagna rekstur og viðhald ganganna að framkvæmdum loknum.

Í umferðaröryggisáætlun fyrir árin 2020-2034 er mörkuð stefna um umferðaröryggi á Íslandi til 15 ára. Markmið eru sett og áherslur skilgreindar sem miða að því að ná settum markmiðum. Framkvæmd áætlunarinnar er á forræði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis en ábyrgð verkefna liggur hjá ráðuneytinu ásamt Vegagerðinni, Samgöngustofu og Ríkislögreglustjóra. Árlegur samfélagslegur kostnaður af umferðarslysum er af stærðargráðunni 40-60 milljarðar króna og er því til mikils að vinna að auka umferðaröryggi með öllum tiltækum ráðum. Flest slysin verða vegna mannlegra mistaka og er það því á ábyrgð okkar allra að hegðun okkar í umferðinni sé í samræmi við reglur og aðstæður hverju sinni til þess að allir komist heilir heim.

Stefna stjórnvalda í umferðaröryggismálum
Banaslys og alvarleg slys í umferðinni eru óásættanleg. Mannslíf og heilsa skulu vera í öndvegi og öryggi framar í forgangsröðun en ferðatími, þægindi eða önnur markmið framkvæmda og aðgerða í umferðarmálum. Við skipulag, hönnun og gerð umferðarmannvirkja skal taka mið af því að mannleg mistök eru óhjákvæmileg. Stjórnvöld og stofnanir skulu eiga í góðu samstarfi við alla vegfarendahópa til að ná sátt um aðgerðir sem auka öryggi allra vegfarenda.

Yfirmarkmið umferðaröryggisáætlunar

  1. Ísland verði í hópi fimm bestu Evrópuþjóða hvað varðar fjölda látinna í umferðinni á hverja 100.000 íbúa.
  2. Látnum og alvarlega slösuðum fækki að jafnaði um 5% á ári til ársins 2034.

Markmið umferðaráætlunar eru þrenns konar. Yfirmarkmið eru almenns eðlis og skulu allar aðgerðir á umferðaröryggisáætlun stuðla að því að ná þeim. Undirmarkmið ná yfir afmarkaðan hluta af heildinni og styðja öll við yfirmarkmiðin. Hegðunarmarkmið stuðla að því að bæta umferðarmenningu sem svo aftur stuðlar að fækkun slysa og styðja þau þannig við yfirmarkmiðin.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum