Siglingar og hafnir
Siglingar eru ein helsta lífæð íslensks samfélags og í samgönguáætlun koma fram markmið stjórnvalda um öruggar, greiðar, hagkvæmar og umhverfisvænar samgöngur. Það felur m.a. í sér að tryggja öryggi áhafna, farþega og íslenskra skipa og efla varnir gegn mengun sjávar.
Á grundvelli laga um Samgöngustofu fer hún með daglega stjórnsýslu á sviði siglingamála. Stofnunin annast m.a. eftirlit með skipum, mælingu þeirra og skráningu, eftirlit með skipsbúnaði ásamt því að annast skírteinaútgáfu sjómanna og fleira.
Landhelgisgæsla Íslands ber ábyrgð á stjórn leitar- og björgunaraðgerða á hafinu umhverfis Ísland. Hlutverk hennar er einnig á sviði kortagerðar og sjómælinga og skal stofnunin sjá sjófarendum við strendur Íslands fyrir sjókortum og öðrum sjóferðagögnum sem stuðla að öruggri siglingu.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa ber ábyrgð á rannsóknum á slysum og atvikum er verða í siglingum. Nefndin á í öflugu alþjóðlegu samstarfi og skipar mikilvægt hlutverk þegar kemur að því að draga lærdóm af alvarlegum atvikum eða slysum sem eiga sér stað og stuðlar því að auknu öryggi í samgöngum.
Íslensk stjórnvöld taka þátt í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi á sviði siglingamála. Ísland er aðili að Alþjóðasiglingamálastofnuninni, tekur þátt í þeirri vinnu sem fram fer innan hennar og innleiðir alþjóðasamninga á sviði siglinga í íslenskan rétt. Jafnframt er Ísland virkur þátttakandi á vettvangi Siglingaöryggisstofnunar Evrópu og eru innleiddar hér á landi margvíslegar skuldbindingar sem leiða af EES-samningnum sem snertir flest svið siglingamála.
Sjá einnig:
Lög og reglugerðir
Stofnanir og nefndir
Gagnlegir tenglar
Fréttir
- Innviðaráðuneytið, UtanríkisráðuneytiðÍsland undirritar stofnsáttmála nýrrar alþjóðastofnunar um leiðsögu á sviði siglinga27. 01. 2022
Siglingar
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.