Hoppa yfir valmynd

Siglingar og hafnir

Siglingar eru ein helsta lífæð íslensks samfélags og í samgönguáætlun koma fram markmið stjórnvalda um öruggar, greiðar, hagkvæmar og umhverfisvænar samgöngur. Það felur m.a. í sér að tryggja öryggi áhafna, farþega og íslenskra skipa og efla varnir gegn mengun sjávar.

Á grundvelli laga um Samgöngustofu fer hún með daglega stjórnsýslu á sviði siglingamála. Stofnunin annast m.a. eftirlit með skipum, mælingu þeirra og skráningu, eftirlit með skipsbúnaði ásamt því að annast skírteinaútgáfu sjómanna og fleira.

Hlutverk Vegagerðarinnar að tryggja greiðar og öruggar samgöngur á sjó og landi. Vegagerðina ber  ábyrgð á innviðum siglinga þ.e. höfnum, vitum og siglingamerkjum, auk þess að annast rannsóknir sem snúa að öryggi innviða þ.m.t sjávarflóðum sem og að miðla upplýsingum um sjávarföll, sjólag og ölduspá.  Vegagerðin ber einnig ábyrgð á rekstri vaktstöðvar siglinga í samstarfi við Landhelgisgæslu og Neyðarlínu. 

Landhelgisgæsla Íslands ber ábyrgð á stjórn leitar- og björgunaraðgerða á hafinu umhverfis Ísland. Hlutverk hennar er einnig á sviði kortagerðar og sjómælinga og skal stofnunin sjá sjófarendum við strendur Íslands fyrir sjókortum og öðrum sjóferðagögnum sem stuðla að öruggri siglingu.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa ber ábyrgð á rannsóknum á slysum og atvikum er verða í siglingum. Nefndin á í öflugu alþjóðlegu samstarfi og skipar mikilvægt hlutverk þegar kemur að því að draga lærdóm af alvarlegum atvikum eða slysum sem eiga sér stað og stuðlar því að auknu öryggi í samgöngum.

Íslensk stjórnvöld taka þátt í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi á sviði siglingamála.

  • Ísland er aðili að Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO), tekur þátt í þeirri vinnu sem fram fer innan hennar og innleiðir alþjóðasamninga á sviði siglinga í íslenskan rétt.
  • Ísland er aðili að Siglingaöryggisstofnun Evrópu (EMSA) og sér Samgöngustofa um samskipti við stofnunina fyrir hönd Íslands. Stofnunin er til Evrópulöndum til ráðgjafar um útfærslur á reglum og öðrum úrræðum til siglingaöryggis og varna gegn mengun frá skipum. Siglingaöryggisstofnunin tekur út reglulega siglingahluta Samgöngustofu, þ.e. skipaeftirlit, skírteinisútgáfu og hafnarríkiseftirlit.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 21.9.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum