Hoppa yfir valmynd

Hafnir og sjóvarnir

Yfirstjórn og málefni hafna og sjóvarna byggjast á hafnalögum og lögum um sjóvarnir. Samgöngustofa og Vegagerðin annast þátt ríkisins samkvæmt hafnalögum og hafa eftirlit með framkvæmd þeirra. Vegagerðin fer með framkvæmdahlutann en Samgöngustofa með stjórnsýsluhlutann. Þá fer Vegagerðin einnig með framkvæmd sjóvarna. Vegagerðin skal samkvæmt hafnalögum og lögum um sjóvarnir vinna tillögu að áætlun um hafnarframkvæmdir og sjóvarnir með kostnaðarþátttöku ríkissjóðs í samræmi við lög um samgönguáætlun.

Hafnagerð

Heimilt er að veita framlög úr ríkissjóði til hafnargerðar þeim hafnasjóðum/höfnum sem uppfylla skilyrði hafnalaga, þ.m.t. skilyrði reglugerðar um hafnir. Hafnargerðarverkefni sem heimilt er að styrkja eru talin upp í 24. gr. hafnalaganna. Þar er um að ræða verkefni eins og endurbætur á skjólgörðum, viðhaldsdýpkun, endurbætur á bryggjum auk tiltekinna nýframkvæmda. Verkefnin eru nánar skilgreind í reglugerð um hafnamál. Lýsa skal hverju einstöku verkefni og gefa upp helstu kennistærðir. Leggja skal fram viðskiptaáætlun fyrir viðkomandi verk þar sem fram koma áætlaðar tekjur og annar ávinningur af framkvæmd auk rekstrarkostnaðar fyrir hafnarsjóð og sveitarfélagið í heild. Þar skal einnig lýsa áætlun heimamanna um fjármögnun heimahluta og gefa upplýsingar sem sýna fram á að hafnarsjóðurinn hafi nýtt alla kosti sína til tekjuöflunar svo að ríkisframlag raski ekki samkeppni við aðrar hafnir.

Sjóvarnir

Gefinn er kostur á að sækja um framlag til sjóvarna vegna flóðahættu eða landbrots af völdum ágangs sjávar. Byggð svæði og svæði þar sem eru mannvirki eða menningarminjar njóta forgangs. Í sjóvarnalögum er kveðið á um að landsvæði sem verja á, svo og varnarmannvirkin sjálf, hafi fengið meðferð samkvæmt skipulagslögum. Sveitarfélög skulu koma á framfæri við Vegagerðina óskum eða ábendingum um staði þar sem mannvirki eða önnur verðmæti eru í hættu af völdum sjávarflóða og landbrots. Verða slíkir staðir skoðaðir, mat lagt á framkvæmdir og kostnað og verkefnum síðan forgangsraðað.

Hafnasamband Íslands

Alls eru 32 hafnarsjóðir með aðild að Hafnasambandi Íslands. Í sumum tilfellum rekur einn aðili fleiri en eina höfn en nú er einungis eitt hafnasamlag við lýði, Hafnasamlag Norðurlands. Faxaflóahafnir eru á hinn bóginn sameignarfélag. Alls eru 70 hafnir innan vébanda hafnasjóðanna og uppfylla skilyrði hafnalaga til að teljast hafnir með aðild að hafnasambandinu. Til að uppfylla skilyrði laganna þarf m.a. að setja reglugerð fyrir höfn eða hafnir eftir því sem við á auk þess að uppfylla skilyrði reglugerðar um hafnir. Í henni er fjallað um öryggismál og ýmsar aðstæður í höfnum.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 15.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum