Hoppa yfir valmynd
17. desember 2020 Utanríkisráðuneytið

Tollasamningur Íslands og ESB um landbúnaðarvörur verði endurskoðaður

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, hefur óskað eftir því við Evrópusambandið að tollasamningur Íslands og ESB um landbúnaðarvörur verði endurskoðaður. Úttekt sýnir að forsendur samingsins hafa breyst og ójafnvægi er á milli samningsaðila, íslenskum útflytjendum í óhag.  

Markmið tollasamningsins frá 2015 er að skapa tækifæri til aukinna viðskipta milli Íslands og ESB en hann hvílir á þeirri forsendu að jafnvægi sé á milli samningsaðila. Fyrr á þessu ári samþykkti ríkisstjórnin að utanríkisráðuneytið og atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið skyldu gera úttekt á hagsmunum Íslands af óbreyttum samningi með hliðsjón af þeim breytingum sem orðið hafa frá gildistöku hans. Úttektin var unnin í nánu samráði við hagsmunaaðila, forsvarsmenn bænda og afurðastöðva, verslunar og þjónustu, verkalýðshreyfinguna og samtök neytenda.

Niðurstaða úttektarinnar er að verulegt ójafnvægi ríkir í samninginum. Nýting íslenskra útflytjenda á kvótum til ESB er í flestum tilfellum lítil eða engin á meðan tollkvótar til innflutnings frá ESB hafa nær allir verið fullnýttir og umtalsvert magn flutt inn utan kvóta. Efnahagslegt mat utanaðkomandi ráðgjafa frá síðastliðnu vori og vitnað er til í úttektinni staðfestir þetta.

 

Nokkrar skýringar eru á þessu ójafnvægi í samningnum. Þannig hafa markaðsaðstæður fyrir íslenska vöru á borð við skyr gjörbreyst því talið er heppilegra að flytja mjólkurduft frá Íslandi til framleiðslu á skyri fyrir nærmarkað í Evrópu en að flytja það fullunnið frá Íslandi. Þá mun yfirvofandi brotthvarf Bretlands af innri markaðinum hafa umtalsverð áhrif en Bretland hefur verið einn helsti útflutningsmarkaður fyrir íslenskt lambakjöt um árabil. 

„Samningurinn var gerður til þess að þjóna bæði hagsmunum landbúnaðarins, sem og alls almennings, með því að skapa möguleika til útflutnings og auka vöruúrval til neytenda á hagstæðara verði. Á þessu hef ég ítrekað vakið athygli í samtölum mínum við yfirmenn viðskiptamála í framkvæmdastjórn ESB undanfarin misseri. Það jafnvægi sem lá til grundvallar samningum hefur hins vegar raskast og á því viljum við ráða bót með því að óska eftir viðræðum við Evrópusambandið um endurskoðun. Ég er sannfærður að slík endurskoðun leiði til betra jafnvægis á milli samningsaðila og hann þjóni þannig betur hagsmunum Íslands,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

 

Evrópusambandinu hefur verið tilkynnt um þessa ákvörðun og verður allt kapp lagt á að hefja og ljúka viðræðum eins fljótt og kostur er. Slíkar viðræður munu ekki hafa áhrif á núgildandi samning sem heldur gildi sínu þar til nýr samningur tekur við. 

Úttektin í heild sinni

Umsagnir hagsmunaaðila:
Alþýðusamband Íslands
Bændasamtök Íslands
Félag atvinnurekenda
Neytendasamtökin
Samtök iðnaðarins
Samtök verslunar og þjónustu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum