Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ákveðið að hefja sölumeðferð á hlutum í Íslandsbanka

Merki Íslandsbanka - mynd

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur ákveðið að hefja sölumeðferð á hlutum í Íslandsbanka í samræmi við tillögu Bankasýslu ríkisins þann 17. desember sl. Þetta kemur fram í bréfi sem ráðherra sendi  Bankasýslunni í dag.

Greinargerð fjármála- og efnahagsráðuneytisins um söluna var lögð fyrir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og einnig send Seðlabanka Íslands til umsagnar í samræmi við ákvæði laga.

Í greinargerðinni komu fram upplýsingar um helstu markmið með sölu eignarhlutarins, hvaða söluaðferð yrði beitt og hvernig sölumeðferð yrði háttað að öðru leyti.

Báðar nefndirnar mæltu með því að hafist yrði handa við undirbúning útboðs á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka og skráningu hlutanna á markað. Einnig veitti Seðlabanki Íslands umsögn, dags. 15. janúar sl. þar sem fram kemur að talið sé að jafnræði bjóðenda verði tryggt, auk þess sem fyrirhuguð sala er talin hafa takmörkuð áhrif á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða bankans og laust fé í umferð.

Með bréfi ráðherra er Bankasýslu ríkisins falið, í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið, að tryggja að útfærslur á útboðs- og úthlutunarskilmálum verði í samræmi við eftirfarandi ábendingar sem fram koma í umsögnum þingnefndanna eins og kostur er og að færð verði viðunandi rök fyrir því ef víkja þurfi frá þeim að verulegu leyti:

  1. Að stuðlað verði að aukinni samkeppni á fjármálamarkaði.
  2. Að lagður verði grunnur að dreifðu eignarhaldi og fjölbreytileika í eigendahópi Íslandsbanka.
  3. Að tryggt verði að tilboðsgjafar í hluti undir ákveðinni krónutölu (a.m.k. einni milljón króna að markaðsvirði) verði ekki fyrir skerðingu ef umframeftirspurn verður í útboðinu.
  4. Að sett verði hámark á hlut hvers tilboðsgjafa, t.d. 2,5–3,0% af heildarhlutafé bankans.
  5. Að sett verði lágmark og hámark á þann hlut í bankanum sem ríkið býður til kaups í útboðinu, t.d. þannig að lágmark verði 25% og hámark 35%.

Einnig er Bankasýslunni falið að skoða hvort það samræmist markmiðum ríkisins um hámörkun ábata af eignarhaldi og sölu á hlutum í Íslandsbanka að hann greiði út arð fyrir útboðið umfram 3-4 ma.kr. og ef það teljist ekki ráðlegt að færð séu viðunandi rök fyrir því áliti.

Þá mun ráðuneytið, í samstarfi við Bankasýslu ríkisins, leggja fram tillögu að áætlun um reglubundna upplýsingamiðlun til þingnefndanna um framvindu og undirbúning útboðsins, ekki síst varðandi markaðsaðstæður. Lögð er áhersla á að slík upplýsingagjöf þurfi hverju sinni að taka mið af undirliggjandi hagsmunum ríkisins og því regluumhverfi sem gildir um skráningu hlutabréfa á skipulegan verðbréfamarkað, sölu hlutabréfa almennt og um upplýsingar félags með skráð skuldabréf á markaði.

Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar

Fyrirhuguð sölumeðferð er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki og ákvæði laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Með sölunni er stefnt að eftirfarandi markmiðum:

  •  að minnka áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu;
  • að efla virka samkeppni á fjármálamarkaði;
  • að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldinu og sölu á hlutum;
  • að stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma;
  • að auka fjárfestingarmöguleika fyrir innlenda einstaklinga og fagfjárfesta; og ekki síst
  • að minnka skuldsetningu eða auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra fjárfestinga.

Hlekkir á efni sem tengist fyrirhugaðri sölumeðferð: 

Fréttatilkynningar af vef ráðuneytisins: 

Stefnt að sölu eignarhluta í Íslandsbanka á vormánuðum (18. 12.2020)

Greinargerð um ráðgerða sölumeðferð á hlutum ríkisins í Íslandsbanka (22.12.2020)

Mæla með að hefja sölumeðferð og skráningu (21.01.2021).

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum