Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2021 Utanríkisráðuneytið

Fríverslunarsamningur við Bretland undirritaður í London

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra undirritar samninginn fyrir Íslands hönd - myndUK Department for International Trade

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra undirritaði fyrir Íslands hönd nýjan fríverslunarsamning við Bretland í London í dag. Samningurinn markar nýtt upphaf í samskiptum ríkjanna að sögn Guðlaugs Þórs og hefur verið forgangsmál í ráðherratíð hans. Formlegar samningaviðræður höfðu staðið yfir frá september 2020 en lauk í byrjun júní síðastliðnum.

Auk Guðlaugs Þórs undirrituðu samninginn Dominique Hasler, utanríkisráðherra Liechtenstein, Iselin Nybø, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs og Ranil Jayawardena, ráðherra utanríkisviðskipta í Bretlandi.

„Þessi fríverslunarsamningur sem við undirrituðum í dag markar þáttaskil í samskiptum þjóðanna og er sögulegur í orðsins fyllstu merkingu. Ég er afar ánægður með niðurstöðuna og sannfærður um að okkar sterku viðskiptatengsl muni eflast enn frekar með þessum samningi,“ sagði Guðlaugur Þór eftir undirritunina.

Fríverslunarsamningurinn er yfirgripsmikill. Hann nær til flestra sviða viðskipta á milli ríkjanna og reglna sem hafa áhrif á þau og felur í sér gagnkvæmni samkvæmt nánari skilyrðum þegar kemur að vöruviðskiptum, þjónustuviðskiptum og opinberum innkaupum.

„Gott framtíðarsamband við Bretland eftir útgönguna úr Evrópusambandinu hefur verið forgangsmál í ráðherratíð minni enda er Bretland einn mikilvægasti útflutningsmarkaður Íslands. Náin bönd ríkjanna gerðu það einnig að verkum að afar brýnt var að sigla þessum fríverslunarsamningi í höfn á þessum tímapunkti,“  sagði Guðlaugur Þór enn fremur.

Í samningnum er einnig að finna í fyrsta skipti sérstakan kafla um jafnréttismál og valdeflingu kvenna í viðskiptum. Þá inniheldur samningurinn jafnframt metnaðarfullar skuldbindingar á sviði umhverfisverndar og baráttu gegn hlýnun jarðar auk skuldbindinga á sviði vinnuréttar.

Formlegar samningaviðræður EFTA-ríkjanna innan EES við Bretland hófust formlega í september á síðasta ári í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Útgangan hafði umtalsverð áhrif á samband Íslands og Bretlands og krafðist þess að endurgera þurfti marga samninga á milli ríkjanna. Bráðabirgðasamningur um vöruviðskipti tók gildi um síðustu áramót sem nýi fríverslunarsamningurinn leysir nú af hólmi. Þá var loftferðasamningur Íslands og Bretlands undirritaður í desember síðastliðnum.

Vefsíða með samantekt á helstu þáttum samningsins

 

  • Ráðherrarnir fjórir ásamt Liz Truss viðskiptaráðherra Bretlands (t.v.) - mynd
  • Ráðherrarnir glaðir í bragði með undirritun samningsins - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum