Hoppa yfir valmynd
9. mars 2022 Utanríkisráðuneytið

Hlé gert á samstarfi við Rússa á vettvangi Barentsráðsins og Norðlægu víddarinnar

Aðildarríki Barentsráðsins (e. Barents Euro-Arctic Council, BEAC), að Rússlandi frátöldu, hafa birt sameiginlega yfirlýsingu þar sem innrás Rússlands í Úkraínu er harðlega fordæmd. Gert verður tímabundið hlé á samstarfi við Rússland á vettvangi ráðsins þar til annað verður ákveðið. Þá hafa Evrópusambandið, Noregur og Ísland birt sameiginlega yfirlýsingu á vettvangi samstarfsins um Norðlægu víddina (Northern Dimension) þar sem innrás Rússlands í Úkraínu er harðlega fordæmd. Ákvörðun er tekin um að meina Rússlandi þátttöku í starfsemi Norðlægu víddarinnar þar til annað verður ákveðið.

Barentsráðið var stofnað árið 1993 og er samstarfsvettvangur Norðurlandanna, Rússlands og Evrópusambandsins. Á vettvangi ráðsins er hugað að margvíslegu hagnýtu samstarfi um sameiginleg hagsmunamál á svæðinu, svo sem umhverfismál og ábyrga nýtingu auðlinda, ekki síst með hag frumbyggja að leiðarljósi.  

Norðlæga víddin er samráðsvettvangur Evrópusambandsins, Íslands, Noregs og Rússlands um málefni Norðvestur-Evrópu. Innan Norðlægu víddarinnar eru fjögur meginmálefnasvið: lýðheilsa og félagsleg velferð, samgöngur og flutningar, menning og loks umhverfismál.

Í síðustu viku samþykktu utanríkisráðherrar aðildarríkja Eystrasaltsráðsins (e. Council of the Baltic Sea States, CBSS) og háttsettur fulltrúi ESB á sviði utanríkismála sameiginlega yfirlýsingu um að meina Rússlandi þátttöku í allri starfsemi ráðsins uns annað verður ákveðið. Þá hafa aðildarríki Norðurskautsráðsins, utan Rússlands, gert tímabundið hlé á þátttöku í öllum fundum ráðsins og undirstofnana þess í mótmælaskyni við innrásina í Úkraínu. Jafnframt hefur Norræna ráðherranefndin ákveðið að stöðva tafarlaust allt samstarf við Rússland og Belarús af sömu ástæðu. 

Yfirlýsing aðildarríkja Barentsráðsins að Rússlandi undanskildu [PDF]
Yfirlýsing Íslands, Noregs og ESB á vettvangi Norðlægu víddarinnar [PDF]

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum