Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ný tækifæri fyrir fólk með stutta skólagöngu

Hugmyndir ræddar og flokkaðar á vinnustofu um framhaldsfræðslu sem fram fór með þjóðfundarsniði. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, gengur milli borða og fylgist með.  - mynd

Fullur salur af fólki var á Hilton Reykjavík Nordica nú í morgun þar sem fram fór vinnustofa með þjóðfundarformi um stefnumótun í framhaldsfræðslu. Framhaldsfræðslu er ætlað að veita fólki með stutta skólagöngu ný tækifæri til náms og starfa. Það var Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem bauð til vinnustofunnar.

„Framhaldsfræðslan snýst um að gefa fólki tækin og tólin til að lifa og starfa í lýðræðissamfélagi sem er á fleygiferð inn í framtíðina,“ sagði Guðmundur Ingi í opnunarávarpi sínu. „Við þurfum að vera hugmyndarík og djörf og ræða hvernig framhaldsfræðslan nær best til fólks og fyrirtækja og hvernig hún tekur þátt í að auka velferð og lífsgæði.“

Framhaldsfræðsla er hvers konar nám, úrræði og ráðgjöf sem ætlað er að mæta þörfum fólks með stutta skólagöngu og er ekki skipulagt á grundvelli laga um framhaldsskóla eða háskóla. Innan framhaldsfræðslunnar er einnig leitast við að efla starfshæfni fólks og að bæta stöðu þeirra sem standa ekki jafnfætis öðrum á vinnumarkaði, svo sem vegna skorts á íslenskukunnáttu. 

Á vinnustofuna voru boðaðir fulltrúar þeirra sem koma að framhaldsfræðslu hér á landi og má þar nefna félög, stjórnvöld, fræðsluaðila, atvinnulíf og nemendur. Þátttakendur ræddu saman í smærri hópum undir stjórn borðstjóra, skráðu niður hugmyndir og fluttu sig síðan á ný borð með nýju fólki þar sem unnið var áfram með tillögurnar. Undir lok vinnustofunnar var síðan kosið um hugmyndirnar.

Niðurstöður dagsins verða nú rýndar af starfshópi um heildarendurskoðun framhaldsfræðslunnar sem verið er að skipa. Guðmundur Ingi mun fela hópnum að meta stöðuna og móta drög að nýrri stefnu í málaflokknum sem felur meðal annars í sér heildarendurskoðun á lögum um framhaldsfræðslu.

  • Ný tækifæri fyrir fólk með stutta skólagöngu - mynd úr myndasafni númer 1
  • Ný tækifæri fyrir fólk með stutta skólagöngu - mynd úr myndasafni númer 2
  • Ný tækifæri fyrir fólk með stutta skólagöngu - mynd úr myndasafni númer 3
  • Ný tækifæri fyrir fólk með stutta skólagöngu - mynd úr myndasafni númer 4

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum