Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Sex samstarfsverkefni háskólanna styðja við aukna áherslu á heilbrigðis- og menntavísindi

Fjölgun nemenda í heilbrigðisvísindum með nýjum færnibúðum, þverfaglegt meistaranám í heilbrigðislausnum og í svefni og fjölgun fagmenntaðs leikskólastarfsfólks eru meðal verkefna sem hljóta styrk úr Samstarfi háskólanna og hafa það að markmiði að efla mannauð í heilbrigðis- og menntavísindum.

Efling mannauðs í heilbrigðismálum og fjölgun í menntavísindum eru tvö áherslumál sem sérstaklega var litið til við mat umsókna m.t.t. meginmarkmiðs um samvinnu háskólanna í þágu samfélagsins. Sex verkefni af 25 sem hljóta styrk tilheyra þessum áhersluflokkum, en flest verkefnanna styðja við tvö eða fleiri markmið. 

Færnibúðir stórt skref fyrir kennslu heilbrigðisvísinda á Íslandi

Stærsta einstaka úthlutunin, 165 m.kr., er samstarf Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háskólans í Reykjavík, Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri um að setja á laggir sérhönnuð færni- og hermisetur til að unnt verði að fjölga nemendum í klínísku námi. Slík hermikennsla felst í að herma með tæknibúnaði eða leiknum sjúklingum eftir raunverulegum aðstæðum, aðgerðum eða inngripum í öruggu umhverfi, með leiðbeinanda, án þess að heilsu sjúklings sé stefnt í hættu. Sambærilegt framlag kemur einnig frá heilbrigðisráðuneytinu til verkefnisins en háskólaráðherra og heilbrigðisráðherra hafa unnið saman að ýmsum hugmyndum um hvernig megi efla heilbrigðismenntun. 

Samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands, auk Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, um sameiginlegt meistaranám í heilsugæsluhjúkrun fær styrk að upphæð 9 m.kr. Námið verður opið hjúkrunarfræðingum alls staðar af landinu með áherslu á fjarheilbrigðisþjónustu. 

,,Í samvinnu við heilbrigðisráðherra hef ég látið greina hver er helsta hindrunin í okkar kerfi og niðurstaðan var sú að helsta hindrunin er klíníska námið, starfsnámið á sjúkrahúsum, vegna þess að sjúkrahúsin hafa hvorki aðstöðu né mannskap til að taka á móti nemendum í heilbrigðisvísindum,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. ,,Þessi einfalda en nútímalega lausn mun leiða til þess að við getum ekki aðeins fjölgað nemendum í læknis- og hjúkrunarfræði, heldur einnig í sjúkraþjálfun og fleiri tengdum greinum.”

Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands hyggjast einnig taka höndum saman með undirbúningi þverfaglegs meistaranáms í heilbrigðislausnum og í svefni, og hljóta til þess 64 m.kr. styrk. Þessi nýja, sameiginlega námsbraut leggur annars vegar áherslu á stafrænar heilbrigðislausnir og hins vegar áherslu á svefn. Þá skapar verkefnið tækifæri til nýsköpunar í stafrænni heilbrigðistækni, en auk háskólanna koma Nox Medical, Landspítalinn og Betri svefn að verkefninu. 

Innra starf leikskóla eflt með hagnýtu fagnámi í leikskólafræði

Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri fá saman 48 m.kr. til að vinna að tveggja ára hagnýtu námi í leikskólafræði sem er skipulagt samhliða starfi. Sérstök áhersla er lögð á fjarnámsmöguleika. Með náminu er ætlunin að fjölga menntuðum leikskólakennurum og efla innra starf leikskólanna með því að bjóða starfsfólki þeirra, sem ekki lauk framhaldsskólanámi, sérsniðið nám sem getur orðið brú yfir í háskólanám. Gert er ráð fyrir að námið verði í boði frá og með hausti 2023, en viljayfirlýsing um verkefnið var undirrituð haustið 2022. Þá verður framboð sérhæfðra sálfræðigreina á meistarastigi breikkað með samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri með nýrri sameiginlegri námsbraut skólanna í íþróttasálfræði, sem hlýtur 8 m.kr. styrk. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur úthlutað yfir milljarði króna til aukins samstarfs háskóla með það að markmiði að auka gæði námsins og samkeppnishæfni skólanna. Hugmyndin var kynnt í haust og brugðust allir 7 háskólarnir við ásamt 37 öðrum samstarfsaðilum. 48 umsóknir bárust og sótt var um styrki fyrir samtals 2,8 milljarða króna. Verkefnið er þegar fjármagnað af safnlið háskólastigsins en með því að ráðstafa framlögum af safnliðnum í gegnum Samstarfið verður fjármögnun á háskólastigi gagnsærri en áður.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum