Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Aukið framboð fjarnáms í háskólum landsins

Meðal áherslna háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, er fjölgun tækifæra og efling atvinnulífs um land allt með góðu aðgengi fólks að háskólanámi í sinni heimabyggð. Við mat umsókna í verkefninu Samstarf háskóla var sérstaklega litið til möguleika á námi óháð staðsetningu og alls fengu 18 verkefni styrk með það að markmiði að auka framboð fjarnáms. Þar á meðal eru sameiginlegt átak í íslenskukennslu, fjölgun fagmenntaðs leikskólastarfsfólks með eflingu fjarnáms og öflugra tækninám á Norðurlandi.

Tæknilausnir nýttar til eflingar fjarnáms í íslensku

Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Bifröst taka höndum saman í verkefni sem snýr að átaki í íslensku, m.a. með fjarnámi, sem ætlað er að styrkja stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu. Unnið verður að þróun og innleiðingu lausna til að efla íslenskukennslu fyrir innflytjendur og tæknilausnir verða nýttar til að stórefla fjarnám í íslensku. Þá er ætlunin að auka markvissa málörvun barna í skólakerfinu.

Innra starf leikskóla aukið með fjarnámi í leikskólafræðum

Sérstök áhersla er lögð á fjarnámsmöguleika í tveggja ára hagnýtu námi í leikskólafræði sem skipulagt er samhliða starfi en verkefnið er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Markmið námsins er að fjölga menntuðum leikskólakennurum og efla þannig innra starf leikskólanna með því að bjóða starfsfólki sem ekki hefur lokið framhaldsskólanámi sérsniðið nám sem getur orðið brú yfir í háskólanám. Gert er ráð fyrir að námið verði í boði frá og með hausti 2023 en viljayfirlýsing um verkefnið var undirrituð haustið 2022.

Öflugt tækninám á Norðurlandi

Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Akureyri hyggjast setja á laggir grunnnám í iðnaðar- og orkutæknifræði fyrir tæknifræðinga á Akureyri og hefst námið strax næsta haust. Námið styður við atvinnulíf á Norðurlandi og með því gefst nemendum tækifæri til að stunda nám í tæknifræði í heimabyggð en fullgilt tæknifræðinám er nú þegar kennt við Háskólann í Reykjavík.

Meðal annarra samstarfsverkefna háskólanna sem styðja við nám óháð staðsetningu eru t.a.m. nýtt meistaranám í netöryggi, möguleiki á að taka námskeið á meistarastigi við fleiri en einn háskóla samtímis, sameiginlegt meistaranám í heilsugæsluhjúkrun og uppsetning aðstöðu til rannsókna og nýsköpunar á sviði næstu kynslóða matvæla- og fóðurpróteina ásamt samhliða uppbyggingu náms á því sviði.

 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur ráðstafað yfir milljarði króna til aukins samstarfs háskóla með það að markmiði að auka gæði námsins og samkeppnishæfni skólanna. Hugmyndin var kynnt í haust og brugðust allir 7 háskólarnir við ásamt 37 öðrum samstarfsaðilum. 48 umsóknir bárust og sótt var um styrki fyrir samtals 2,8 milljarða króna. Verkefnið er þegar fjármagnað af safnlið háskólastigsins en með því að ráðstafa framlögum af safnliðnum í gegnum Samstarfið verður fjármögnun á háskólastigi gagnsærri en áður.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum