Hoppa yfir valmynd
22. maí 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Samningar um samstarfsverkefni háskólanna undirritaðir

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ásamt fulltrúum háskólanna við undirritun samninga um samstarfsverkefni í júní 2023. - myndLjósmynd: Birgir Ísleifur

Samningar um samstarfsverkefni sem hlutu styrk við úthlutun úr verkefninu Samstarf háskóla snemma á árinu voru formlega undirritaðir í dag. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra undirritaði samningana ásamt rektorum og/eða fulltrúum allra háskóla landsins.

Yfir milljarði króna var úthlutað til Samstarfs háskóla og alls hlutu 25 mismunandi verkefni styrk. Allir háskólar landsins sýndu verkefninu mikinn áhuga og er hver og einn skóli var aðili að 6-20 samstarfsverkefnum.

„Um leið og hugmyndin að Samstarfi háskóla var kynnt fór af stað mikið samtal á milli allra háskólanna sem skilaði sér ekki einungis í miklum fjölda umsókna heldur eru gæði verkefna slík að ég trúi því að þau geti haft mikil og jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Verkefnin sýna að með Samstarfi háskóla erum við að leysa úr læðingi krafta og hugmyndir sem hafa verið í gerjun um langt árabil, en geta nú loks orðið að veruleika,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskólaráðherra, þegar tilkynnt var um hvaða verkefnum var boðið til samninga um stuðning úr Samstarfi háskóla.

Aukin gæði náms með öflugu samstarfi

Samstarf háskóla var upphaflega kynnt í september sl. þar sem fram kom að ráðherra myndi veita alls tveimur milljörðum króna til aukins samstarfs íslenskra háskóla á tveimur árum. Um helmingi þeirrar upphæðar hefur nú verið útdeilt og verður sambærilegri upphæð veitt til verkefna síðar á árinu. Mikil ánægja ríkir um aukið samstarf háskólanna, bæði þeirra á meðal og hjá stjórnvöldum. Við undirritunina í dag tilkynnti ráðherra að undirbúningsvinna vegna næstu úthlutunar sé hafin. Stefnt er að því að opnað verði fyrir umsóknir í sumar.

Samstarfið er liður í eflingu háskóla og nýsköpunar hér á landi, en að sögn Áslaugar Örnu er öflugt samstarf forsenda aukinna gæða háskólanáms á Íslandi.

,,Við erum fámenn þjóð með marga háskóla. En það gefur okkur líka tækifæri til sérstöðu í stærð, rekstrarformi og staðsetningu. Í okkar litla samfélagi er samstarf forsenda þess að við getum boðið upp á háskólanám á heimsmælikvarða. Samstarf háskóla er vettvangur til að gera hugmyndir sem kvikna innan háskólasamfélagsins að veruleika, auka gæði náms hér á landi sem og samkeppnishæfni skólanna."

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum