Hoppa yfir valmynd
28. júlí 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ráðherra heimsótti Háskólann á Hólum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ásamt Eddu Matthíasdóttur, framkvæmdastjóra Háskólans á Hólum. - mynd

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, heimsótti Háskólann á Hólum í vikunni ásamt ráðuneytisstjóra og kynnti sér starfsemina. Mikil og ánægjuleg aukning á fjölda nemenda hefur orðið við háskólann, þá sérstaklega við fiskeldis- og fiskalíffræðideild, sem kallar á frekari uppbyggingu á aðstöðu fyrir það nám.

Ráðherra fundaði einnig með Eddu Matthíasdóttur, framkvæmdastjóra Háskólans á Hólum, og öðru forsvarsfólki skólans, um tækifæri sem gætu falist í samstarfi skólans við aðra háskóla á Íslandi og með hvaða hætti mætti styrkja starfsemi skólans í gegnum slíkt samstarf. Háskólinn á Hólum hefur sýnt ríkan áhuga á auknu samstarfi háskóla í takt við áherslur ráðherra og er t.a.m. aðili að átta samstarfsverkefnum háskólanna sem kynntar voru í upphafi árs. Meðal þessara verkefna er öflugt háskólanám í þágu fiskeldis sem Háskólinn á Hólum, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Landbúnaðarháskóli Íslands standa að. Um er að ræða nám á grunn- og framhaldsstigi í eldi, ræktun og nýtingu sjávar- og vatnalífvera, samhliða samræmdum rannsóknum og rannsóknainnviðum sem stuðlar að forystuhlutverki Íslands í sjálfbæru lagareldi.

Rannsóknir, iðnaður og nýsköpun í Skagafirði

Áslaug Arna heimsótti jafnframt Vesturfarasafnið á Hofsósi. Heimsóknin er liður í undirbúningi ráðherra fyrir heimsókn til Vesturheims á næstu dögum þar sem ráðherra mun m.a. taka þátt í Íslendingadeginum í Gimli í Kanada. Valgeir Þorvaldsson á Vesturfarasafninu kynnti uppbyggingu safnsins og sögu þess mikla fjölda Íslendinga sem hélt vestur um haf í leit að betra lífi á ofanverðri 19. öld.

Þá sótti ráðherra Mjólkursamlag Kaupfélags Skagfirðinga heim þar sem henni var kynnt sú vöruþróun sem þar hefur átt sér stað undanfarin ár og rannsóknir, iðnaður og nýsköpun hafa fléttast saman á áhugaverðan hátt. Þessi þróun hefur m.a. falist í því að fundnar hafa verið leiðir til að tryggja að lítill sem enginn úrgangur fari frá fyrirtækinu og leiðir til að nýta allt hráefni til vöruframleiðslu fundnar þess í stað.

„Skagafjörður er dæmi um áhugavert samfélag þar sem öll málefnasvið ráðuneytisins fléttast saman með áhugaverðum hætti. Þar tvinnast saman þekking, rannsóknir, nýsköpun og iðnaður með árangursríkum hætti og myndar kjarnann í efnahagslífi svæðisins,“ sagði Áslaug Arna eftir vel heppnaða heimsókn í fjörðinn og nágrenni.

  • Á Vesturfarasetrinu í góðu veðri. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum