Hoppa yfir valmynd
29. september 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Geðráð, samráðsvettvangur um geðheilbrigðismál sett á fót

Áherslur þátttakenda á geðheilbrigðisþingi 2020  - myndHeilbrigðisráðuneytið

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað Geðráð í samræmi við aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til ársins 2027. Í Geðráði eiga sæti fulltrúar stjórnvalda, notenda geðheilbrigðisþjónustu, aðstandenda og fagfólks sem fjalla um málaflokkinn. Með þessu er tryggð aðkoma helstu haghafa að stefnumótun, umbótum og þróun á sviði geðheilbrigðismála og geðheilbrigðisþjónustu. Formaður ráðsins er Páll Matthíasson.

„Stofnun Geðráðs markar tímamót. Það er almennur vilji til þess að geðheilbrigðisþjónusta verði í vaxandi mæli notendamiðuð og valdeflandi og ég tel að með öflugu geðráði sé ýtt undir frekari þróun í þá átt“ segir heilbrigðisráðherra.

Þingsályktun heilbrigðisráðherra um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi 15. júní 2022. Við mótun hennar var rík áhersla lögð á víðtækt samráð og var til að mynda efnt til sérstaks geðheilbrigðisþings árið 2020. Stefnan byggir m.a. á niðurstöðum þingsins, auk margvíslegra skýrslna og greininga, alþjóðlegra og íslenskra um geðheilbrigðismál. 

Áhersla á notendasamráð og notendamiðaða þjónustu

Ein af megináherslum stefnu í geðheilbrigðismálum lýtur að notendasamráði og notendamiðaðri þjónustu á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu. Þetta samráð var formgert í aðgerðaáætlun um framkvæmd geðheilbrigðisstefnu til ársins 2027 sem samþykkt var á Alþingi í júní síðastliðnum. Ein aðgerðanna felst í stofnun Geðráðs sem nú hefur verið sett á fót.

Geðráð, hlutverk þess og skipan

Geðráð skal vera heilbrigðisráðherra til ráðgjafar við faglega stefnumörkun í geðheilbrigðismálum. Það skal fylgjast með þróun og áherslum geðheilbrigðisþjónustu hér á landi og á alþjóðavísu og hafa yfirsýn yfir stöðu geðheilbrigðismála á Íslandi og í samanburði við önnur lönd. Enn fremur skal það fylgjast með framgangi gildandi aðgerðaáætlunar í geðheilbrigðismálum. Heilbrigðisráðherra getur falið geðráði verkefni sem snúa að greiningu, þróun eða útfærslu geðheilbrigðisþjónustu sem auka virði og gæði hennar fyrir notendur og aðstandendur.

Geðráð er skipað til tveggja ára í senn. Í því eiga sæti 17 einstaklingar að formanni meðtöldum. Sjö þeirra eru fulltrúar notenda, notendasamtaka eða félagasamtaka, þrír eru tilnefndir af háskólasamfélaginu, fimm eru fulltrúar þjónustuveitenda, auk fulltrúa embættis landlæknis og fulltrúa sveitarfélaga.

Geðráðið skal setja sér starfsreglur sem heilbrigðisráðherra samþykkir. Það skal funda reglulega og eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Í desember ár hvert á Geðráð að skila ráðherra skýrslu með tillögum um áherslur verkefna næsta ár.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum