Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fléttan: Þrjú nýsköpunarfyrirtæki fá áframhaldandi styrk til innleiðingar nýrra heilbrigðislausna

Úthlutanir styrkja úr Fléttunni - styrkja til innleiðingar nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu voru kynntar á dögunum. Að þessu sinni hefur tólf íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum verið boðið að ganga til samninga en alls verður um 104 milljónum króna dreift til innleiðingar nýrrar tækni og lausna í heilbrigðiskerfinu. 

Styrkir úr Fléttunni eru háðir því skilyrði að nýsköpunarfyrirtækin eigi í nánu samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem skuldbinda sig til að innleiða þá nýsköpun sem styrkur er veittur til. Þannig er Fléttan brú á milli einkaframtaksins og heilbrigðiskerfisins.

Fléttan var kynnt til leiks árið 2022 og er þetta því í annað sinn sem styrkjum er úthlutað. Þrír styrkhafar fengu einnig styrk til innleiðingar heilbrigðistengdra tæknilausna í fyrra. Þetta eru Sidekick Health, Kara Connect of Fleygiferð ehf.

Sidekick Health fær í ár styrk til stafræns stuðnings við brjóstakrabbameinssjúklinga í samstarfi við Landspítalann og Ljósið, en fékk í fyrra styrk til annars verkefnis sem fólst í fjarvöktun og fjarstuðningi við sjúklinga á hjartadeild Landspítalans. Kara Connect hlýtur í ár styrk til innleiðingar velferðartorgs starfsmanna Landspítalans, líkt og fyrra ár.

Leviosa ehf. hlýtur nú styrk til innleiðingar á skráningarviðmóti Leviosa á Heilbrigðisstofnun Suðurlands en árið 2022 fékk fyrirtækið styrk úr Fléttunni til innleiðingar Leviosa á Reykjalundi sem gefið hefur góða raun. Hluti af hugbúnaðarlausn Leviosa er öflugt skráningarviðmót sem minnkar skráningarvinnu og eykur afköst heilbrigðisstarfsfólks. Kerfið einfaldar gerð meðferðaráætlunar, skráningu sjúklinga og meðferðaraðila í viðtöl og meðferðir ásamt eftirfylgni. Með samþættingu við undirliggjandi kerfi næst fram hagræðing fremur en að skipta út sjúkraskrárkerfi. Leviosa kerfið, sem þróað hefur verið í nánu samstarfi við heilbrigðisstarfsfólk, hámarkar þann tíma sem fer í að veita sjúklingum meðferðir og lágmarkar tíma sem eytt er í skriffinsku og skráningar. Þannig gerir kerfið heilbrigðisstarfsfólki kleift að veita betri og persónulegri þjónustu til sjúklinga samhliða aukinni skilvirkni í rekstri.  

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum