Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fléttan: Ljósmæður, hjúkrunarheimili og Ljósið bæta þjónustu með nýsköpun

Fléttan: Ljósmæður, hjúkrunarheimili og Ljósið bæta þjónustu með nýsköpun - myndUnsplash / National Cancer Institute

Úthlutanir styrkja úr Fléttunni - styrkja til innleiðingar nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu voru kynntar á dögunum. Að þessu sinni hefur tólf íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum verið boðið að ganga til samninga en alls verður um 104 milljónum króna dreift til innleiðingar nýrrar tækni og lausna í heilbrigðiskerfinu. 

Styrkir úr Fléttunni eru háðir því skilyrði að nýsköpunarfyrirtækin eigi í nánu samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem skuldbinda sig til að innleiða þá nýsköpun sem styrkur er veittur til. Þannig er Fléttan brú á milli einkaframtaksins og heilbrigðiskerfisins. Í ár er Landspítalinn samstarfsaðili að fimm styrktum verkefnum og heilsugæslur að þremur. Önnur verkefni eru í samstarfi við fyrirtæki og heilbrigðisstofnanir af ýmsum toga, bæði opinber og einkarekin.

Dala.care hefur þróað hugbúnaðarlausn á sviði utanumhalds á vaktaskipulagi og umönnunaráætlun heimaþjónustu. Hugbúnaður fyrirtækisins sérsníður umönnunaráætlun, bætir samskipti við fjölskyldur og heldur utan um skráningu gagna, en það var upphaflega hannað fyrir heimaþjónustu almennt, með áherslu á þjónustu við aldraða. Lausnin nýtist einnig í annarskonar heimaþjónustu og hefur Dala.care komið af stað samstarfi við Fæðingarheimili Reykjavíkur sem hlýtur nú styrk til að aðlaga hugbúnaðarlausnina að heimaþjónustu ljósmæðra. Með þessu fæst betri árangur í þjónustu ljósmæðra sem leiðir til betri heilsu móður og barns.

Hrafnista hlýtur styrk til verkefnis sem snýr að innleiðingu og þróun smáforrits fyrir hjúkrunarheimili í samstarfi við Origo. Smáforritið, sem ber nafnið Iðunn, er nú þegar í notkun á einni deild á Hrafnistu Sléttuvegi og samhliða notkun þess er unnið að frekari þróun. Lausninni er ætlað að auka öryggi og gæði heilbrigðisþjónustu á hjúkrunarheimilum en með Iðunni er starfsfólki hjúkrunarheimila gert kleift að skrá í rauntíma þá umönnun og þjónustu sem veitt er skjólstæðingum. Við aukið aðgengi að nauðsynlegum upplýsingum og skráningu dreifist álag á starfsfólk ásamt því að skráning í sjúkraskrá og yfirsýn yfir verkefnastöðu verður betri.  

Ljósið fær styrk til innleiðingar á matstækinu WHODAS sem hefur það að markmiði að meta þjónustuþörf, bera saman þarfir fólks, skilgreina þjónustuframboð og fylgjast með áhrifum læknisfræðilegs inngrip á færni. Með þessu má útbúa skilvirkari og markvissari meðferðaráætlanir fyrir sjúklinga og vega upp á móti færniskerðingu eins og kostur er. Verkefnið er unnið í samstarfi við Origo.

Sjá einnig:

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum