Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Vinnum gullið – staða og réttindi afreksíþróttafólks

Afreksíþróttafólk á Íslandi hefur í gegnum tíðina náð góðum árangri og búið til ógleymanleg augnablik í hjörtum landsmanna. Það skapar jákvæða fyrirmynd og hvetur til árangurs. Hvernig er hægt að ná slíkum árangri og hvernig þarf umhverfi sem íþróttafólk okkar býr við að vera til þess að árangur náist í alþjóðlegri keppni. Aðstaða, lýðréttindi og aðgengi að sérfræðingum á ýmsum sviðum íþrótta verður til umræðu á ráðstefnunni Vinnum gullið – ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi mánudaginn 20. nóvember í Hörpu.

Öll óvissa er varðar framfærslu og áunnin vinnumarkaðsréttindi á borð við rétt til heilbrigðisþjónustu, trygginga, fæðingarorlofs og atvinnuleysisbóta getur komið í veg fyrir árangur og ástundun afreksíþróttafólks. Jafnframt getur staðsetning á landinu haft neikvæð áhrif á íþróttaiðkun og aukið kostnað íþróttafólks og aðstandenda. Jafna þarf tækifærin og stuðla að því að afreksíþróttafólk hafi greiðan aðgang að faglærðum sérfræðingum s.s. þjálfurum, sjúkraliðum, læknum, næringarfræðingum, sálfræðingum og ráðgjöfum. Þá þarf afreksíþróttafólk að geta stundað nám samhliða íþróttaiðkun með þar til bærum sveigjanleika. Þetta er meðal viðfangsefna starfshóps mennta- og barnamálaráðherra um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks.

„Það er fullt starf að ná árangri á heimsmælikvarða í íþróttum. Í slíku starf á ekki að búa við óöryggi um tekjur og réttindi, frekar en í öðrum störfum. Sömuleiðis má það ekki vera refsing gagnvart foreldrum að börn þeirra skari fram úr í íþróttum vegna kostnaðar við þátttöku á stórmótum og í landsliðsstarfi,“ segir Ásmundur Einar Daðason, ráðherra íþróttamála. „Breið samstaða er um að styðja við afreksíþróttafólk og viljum við fá fram sem flest sjónarmið inn í vinnuna til að finna bestu umgjörðina.“

Ráðstefnan er öllum opin og er skráningarfrestur til og með 16. nóvember.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum