Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2024 Utanríkisráðuneytið

Langtímastuðningur Íslands við Úkraínu

Þingsályktunartillaga að stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024 til 2028 var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í gær. Með henni verður fest í sessi áætlun um áframhaldandi kraftmikinn stuðning Íslands við úkraínsku þjóðina í baráttu sinni við innrásarlið Rússa auk endurreisnar og uppbyggingar innviða í landinu. Þingsályktunin verður nánar unnin í samráði við utanríkismálanefnd og kynnt í framhaldinu, en gert er ráð fyrir að framlög ársins 2024 verði aukin frá fyrra ári og heildarframlög íslenskra stjórnvalda vegna Úkraínu verði sambærileg stuðningi Norðurlandanna. Þá verði tekin ákvörðun um heildarframlög til Úkraínu í tengslum við fjárlög ár hvert, en lágmarksfjárhæð tryggð til næstu ára. 

„Í dag eru liðin tvö ár frá upphafi ólöglegrar og tilefnislausrar allsherjarinnrásar Rússa í Úkraínu. Innrásarstríðið er ein alvarlegasta öryggisógn sem steðjað hefur að Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Langtímaáætlun í þessum efnum mun marka tímamót sem sýna svo ekki verður um villst að okkur er alvara með að styðja baráttu úkraínsku þjóðarinnar eins lengi og þarf,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. 

Þingsályktunartillagan verður kynnt í þingflokkum og utanríkismálanefnd á næstu dögum. Sterk þverpólitísk samstaða hefur ríkt á Alþingi um öflugan stuðning við Úkraínu. Í stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024-2028, sem samþykkt var á Alþingi í desember síðastliðnum, er kveðið á um að sérstök áætlun  um stuðning við Úkraínu til næstu fimm ára, skuli lögð fram á Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi. Stuðningur við baráttu Úkraínu er enn fremur í samræmi við grunngildi þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland

„Úkraínumenn hafa nú í tvö ár barist fyrir þessum grundvallargildum, sem fullveldi Ísland byggist meðal annars á. Því má með sanni segja að langtímastuðningur okkar við öryggi og sjálfstæði Úkraínu sé sömuleiðis langtímastuðningur við öryggi og sjálfstæði Íslands,“ segir Bjarni.

Upphafi innrásar minnst á alþjóðavettvangi

Í gær ávarpaði utanríkisráðherra sérstakan fund fastaráðs Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Vín sem haldinn var að því tilefni að tvö ár eru liðin frá upphafi allsherjarinnrásar Rússlands í Úkraínu. Þar lagði hann áherslu á að Rússland léti umsvifalaust af stríðsrekstri sínum og virti skuldbindingar að alþjóðalögum, sérstaklega í samræmi við stofnsáttmála ÖSE sem kveður á um virðingu fyrir sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti ríkja, landamærum og friðsamlegri lausn deilumála.

Ísland tók sömuleiðis undir sameiginlega yfirlýsingu líkt þenkjandi ríkja sem flutt var af Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í gær. Í yfirlýsingunni var innrás Rússlands harðlega fordæmd sem og hernaðarleg aðstoð sem ríki á borð við Belarús, Norður-Kóreu og Íran veita Rússlandi. Þjáning óbreyttra borgara í Úkraínu var jafnframt hörmuð og fullum áframhaldandi stuðningi við Úkraínu lofað.

Á vettvangi Atlantshafsbandalagsins sendi NATO-Úkraínuráðið frá sér yfirlýsingu í dag þar sem árásir Rússa á borgir Úkraínu eru fordæmdar, sem og árásir á borgaraleg, orku- og hafnarmannvirki sem sumar hverjar hafa einnig haft áhrif á landssvæði bandalagsríkja. Þá eru ríki sem styðja árásarstríð Rússa og ýta undir upplýsingaóreiðu þeirra sömuleiðis fordæmd. 

Af tilefni þessara sorglegu tímamóta er fána Úkraínu flaggað við hlið þess íslenska við utanríkisráðuneytið í dag. 

Hér má lesa grein utanríkisráðherra sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Nánar má lesa um stuðning íslenskra stjórnvalda við Úkraínu hér.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum