Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2024 Utanríkisráðuneytið

Traustur bandamaður

Í dag eru tvö ár liðin frá upphafi allsherjar innrásar Rússlands í Úkraínu. Hún sýndi svo ekki varð um villst að nú dygðu engin vettlingatök til að mæta útþenslustefnu Rússa, sem þeir höfðu fylgt allt frá innrásinni í Georgíu 2008 og innlimun Krímskaga 2014.

Í gær voru drög að tillögu um langtímastuðning Íslands við Úkraínu samþykkt í ríkisstjórn. Það eru tímamót sem sýna svo ekki verður um villst að okkur er alvara með að styðja baráttu úkraínsku þjóðarinnar eins lengi og þarf. Við höfum staðið með Úkraínu allt frá upphafi með efnahagslegum jafnt sem pólitískum stuðningi og tekið vel á móti úkraínsku flóttafólki, sem hefur auðgað íslenskt samfélag. Stuðningur Íslands undanfarin tvö ár nemur tæplega sex milljörðum króna, auk kostnaðar við móttöku flóttafólks.

Það hefur reynst okkur styrkur í þessu verkefni að geta tekið ákvarðanir hratt og örugglega og náð saman þvert á pólitískar línur þegar á reynir. Nefna má birgðaflutninga og kaup á olíuflutningabílum, að auki við færanlegt neyðarsjúkrahús sem Íslendingar afhentu Úkraínu um mitt ár í fyrra. Sjúkrahúsið, sem var tekið í notkun undir lok síðasta árs, var gefið með sameiginlegri yfirlýsingu allra flokka á Alþingi. 

Atlantshafsbandalagið stækkar og styrkist

Þvert á væntingar Rússa reyndist Úkraína síður en svo auðveld bráð. Úkraína hefur varist hetjulega, unnið aftur helming þess landsvæðis sem tapaðist í upphafi og sökkt fjölda skipa Svartahafsflota Rússlands. Hafi ætlun Rússa verið að veikja Atlantshafsbandalagið og valda sundrungu meðal aðildarríkja má segja að innrásin hafi verið ein allsherjar sneypuför. 

Aðildarríkjum hefur fjölgað og framlög til varnarmála ríkjanna stóraukist, en þau standa þétt við bakið á Úkraínu og munu gera það áfram. Það voru söguleg tímamót þegar vinaþjóðir okkar Finnar og Svíar sóttust eftir aðild vegna þessarar þróunar eftir að hafa verið afhuga því alla tíð. Finnar eru þegar orðnir fullgildir aðilar og senn verður Svíþjóð komin í hópinn. 

Þessi samstaða skiptir sköpum enda er Rússland, hvað sem öðru líður, öflugt herveldi. Við víglínuna geysar grimmilegt stríð og virðist ákveðin pattstaða einkenna ástandið. Rússland hefur umturnað hagkerfi sínu í þjónustu við hernað Pútíns í Úkraínu og vopnaframleiðsla hefur verið stóraukin. 

Við eigum mikið undir

Geta Rússlands til að bæta við liðsafla sinn og búnað með beinum stuðningi Írans og Norður-Kóreu, og óbeinum stuðningi annarra ríkja, er slík að án kraftmikils stuðnings bandamanna eru engar líkur á að Úkraína geti varist. Mikið liggur því við að Vesturlönd sýni stuðning sinn í verki sem aldrei fyrr.

Innrásarstríðið er alvarlegasta öryggisógn sem steðjað hefur að Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar og skýr atlaga að alþjóðakerfinu sem byggist á virðingu fyrir alþjóðalögum, friðhelgi landamæra og landhelgi ríkja. Vina- og bandalagsþjóðir okkar hafa því ekki aðeins stóraukið útgjöld sín til varnarmála, heldur samhliða mótað og kynnt metnaðarfullar langtímaáætlanir um stuðning við Úkraínu. Áframhaldandi íslenskur stuðningur við öryggi og sjálfstæði Úkraínu tryggir varðstöðu um beina öryggishagsmuni Íslands og þær stoðir sem fullveldi okkar byggist á. 

Skilaboðin eru skýr

Á Alþingi hefur ríkt einhugur um að standa með Úkraínu og sú skoðun á sér samhljóm hjá miklum meirihluta þjóðarinnar. Við erum framúrskarandi ríki á heimsvísu í öllum samanburði, á rödd okkar er hlustað á alþjóðavettvangi og við höfum getu jafnt sem burði til að styðja Úkraínu af sama krafti og norrænir nágrannar okkar.

Öflug tvíhliða samskipti við Úkraínu, sterk málafylgja á alþjóðavettvangi og þátttaka í samstöðuaðgerðum gagnvart Rússlandi og Belarús verða áfram lykilþáttur í pólitískum stuðningi við baráttuna. Við ætlum sömuleiðis áfram að hreyfa okkur hratt í krafti smæðarinnar hvar sem tækifæri gefst.

Langtímastefnan er hins vegar grundvallaratriði í að geta horft til lengri tíma í allri áætlanagerð, ekki síst þegar kemur að fjármögnun. Þannig festum við meginatriðin kyrfilega í sessi, bæði gagnvart okkur sjálfum og út á við. 

Skilaboðin eru skýr; Ísland er og verður áfram traustur bandamaður.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. febrúar 2024.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum