Hoppa yfir valmynd

Hlutverk

Ýmsar mikilvægar framfarir á Íslandi tengjast alþjóðlegri viðurkenningu og þróun í samvinnu ríkja. Fullveldi var náð vegna alþjóðlegrar viðurkenningar á sjálfsákvörðunarrétti þjóða, útfærsla landhelginnar var viðurkennd vegna þróunar alþjóðlegs hafréttar, viðskiptafrelsi innleitt með aðild að alþjóðasamningum og tækniframfarir tryggðar með samskiptum við útlönd.

Nýjar alþjóðareglur eða ný stefna sem mótuð er með viðskiptasamningum eða á vettvangi Evrópusamruna, hjá Alþjóðastofnunum eða meðal Norðurlandaþjóða hafa bein áhrif á Íslandi, á íslenskar fjölskyldur og á íslensk fyrirtæki.

Utanríkisráðuneytið tekur þátt í alþjóðastarfi með ýmsum hætti. Viðskiptasvið utanríkisráðuneytisins gætir til dæmis hagsmuna íslenskra ríkisborgara, íslenskra fyrirtækja og neytenda með því að tryggja þeim aðgang að alþjóða mörkuðum og efla fríverslun. Auk þess styður viðskiptasviðið við íslensk fyrirtæki sem vilja hasla sér völl erlendis og kynnir menningu og listir um víða veröld. Alþjóðasvið utanríkisráðuneytisins sinnir pólitískum samskiptum Íslands við erlend ríki og innan alþjóðastofnana. Alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands er ætlað að skila mælanlegum árangri til að uppræta fátækt, bæta lífsskilyrði og skapa jafnrétti, frelsi og hagsæld í heiminum. Þá gætir borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hagsmuna og öryggis íslenskra ríkisborgara erlendis árið um kring og veitir þeim ýmis konar aðstoð s.s. þegar slys, veikindi eða andlát ber að höndum á erlendri grundu.

Utanríkisráðuneyti fer með mál er varða:

1. Skipulag utanríkisráðuneytisins og starfsmannahald.

2. Utanríkismál, þar á meðal:

  • Samskipti forseta Íslands og annarra þjóðhöfðingja.
  • Sendiráð, fastanefndir og ræðisskrifstofur Íslands erlendis.
  • Sendiráð og ræðisskrifstofur erlendra ríkja á Íslandi.
  • Skipti við erlend ríki, þ.m.t. norræna samvinnu.
  • Réttindi Íslendinga og íslenska hagsmuni erlendis.
  • Samninga við önnur ríki og gerð þeirra og framkvæmd tiltekinna samninga, sbr. m.a. lög nr. 90/1994, 57/2000, 93/2008 og 58/2010.
  • Aðild Íslands að alþjóðlegum samtökum, stofnunum, ráðstefnum og fundum er varða opinbera hagsmuni og eigi ber undir annað ráðuneyti samkvæmt ákvæðum þessa úrskurðar eða eðli máls. Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana.
  • Diplómatísk vegabréf, þjónustuvegabréf og áritun vegabréfa.
  • Kynningu Íslands og íslenskra efna með öðrum þjóðum nema slík mál séu lögð til annars ráðuneytis.
  • Íslandsstofu.
  • Varnarmál, aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO), varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna, samskipti og samstarf við erlend ríki, hermálayfirvöld og alþjóðastofnanir á sviði öryggis- og varnarmála, varnarsvæði, öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli og önnur öryggissvæði, þ.m.t. skipulags- og mannvirkjamál, rekstur mannvirkja og eigna Atlantshafsbandalagsins á Íslandi, þ.m.t. íslenska ratsjár- og loftvarnakerfið (IADS).
  • Útflutningsverslun.
  • Undirbúning og framkvæmd viðskiptasamninga.
  • Samskipti Íslands við alþjóðleg viðskiptasamtök.
  • Vörusýningar erlendis.
  • Þróunarsamvinnu, friðargæslu og neyðarhjálp.
  • Hafréttarmál.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum