Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Netöryggiskeppni Íslands haldin í fimmta sinn

Netöryggiskeppni Íslands haldin í fimmta sinn - myndUnsplash / Christian Wiediger

Netöryggiskeppni Íslands, Gagnaglíman, er nú haldin í fimmta sinn sem hluti af samsvarandi árlegum netöryggiskeppnum annarra ríkja Evrópu. Keppnin hefur heppnast vel undanfarin ár og stefnt er að því að senda íslenskt lið í Netöryggiskeppni Evrópu (European Cyber Security Challenge, ECSC) haldin verður í Tórínó á Ítalíu í október.

Í ár hefur Gagnaglímufélag Íslands opnað Hakkaraskólann, æfingavettvang þar sem nemendur geta kynnt sér grunnatriði netöryggis. Á þessum vettvangi leysa nemendur gagnvirk verkefni, sem öll tengjast netöryggi, og mörg hver líkja eftir raunverulegum öryggisgöllum sem upp hafa komið í gegnum tíðina. Verkefnin reyna jafnt á skapandi hugsun sem og rökhugsun, en lögð er sérstök áhersla á að framsetning efnisins sé skemmtileg. Æfingavettvangurinn er opin öllum en þátttakendur 25 ára og yngri sem hafa náð 1.000 stigum fyrir 11. maí verður boðið að taka þátt í Landskeppni Gagnaglímunnar, sem haldin verður laugardaginn 25. maí. Að landskeppni lokinni verður valið úr hópi þeirra sem stóðu sig best í sérstakan keppnishóp til frekari þjálfunar og úr þeim hópi verða 10 manns valin í landslið Íslands til þátttöku í netöryggiskeppninni á Ítalíu.

Netöryggiskeppnin er haldin að frumkvæði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins en Gagnaglímufélag Íslands sér um framkvæmd keppninnar. Markmið keppninnar er að efla áhuga ungmenna á netöryggi og þeim spennandi möguleikum sem þar er að finna.

Nánari upplýsingar er að finna á vef Gagnaglímufélagsins, gagnagliman.is.

Sjá einnig:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum