Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 11. nóvember 2022

Heil og sæl.

Framundan í þessari yfirferð er það helsta úr störfum utanríkisþjónustunnar síðustu vikuna. Hún hefur verið annasöm.

Formennska Íslands í Evrópuráðinu bar óneitanlega hæst. Ísland tók formlega við formennsku í Evrópuráðinu af Írum á fundi ráðherraráðsins í Strassborg á miðvikudag. Þá stýrði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ráðherraráðsfundi Evrópuráðsins sem nýr forseti ráðherranefndarinnar og kynnti um leið formennskuáætlun Íslands.

„Ísland fær það ábyrgðarmikla verkefni að leiða Evrópuráðið á tímum sem fela í sér miklar áskoranir. Grundvallargildi ráðsins - lýðræði, réttarríkið og mannréttindi – eiga undir högg að sækja eins og hörmulegt árásarstríð Rússlands gegn Úkraínu sýnir svo glöggt. Helsta markmiðið í formennskutíð Íslands verður því að efla þessi grundvallargildi og styrkja ráðið sem málsvara þeirra. Ísland tekur forystuhlutverki sínu alvarlega á þessum krefjandi tímum,” sagði Þórdís Kolbrún.

Í heimsókn sinni til Strassborgar átti utanríkisráðherra fundi með framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, Mariju Pejčinović Burić, og forseta Evrópuráðsþingsins, Tiny Kox. Þá stýrði utanríkisráðherra óformlegum umræðum með sendiherra Úkraínu og sendiherrum nokkurra líkt þenkjandi ríkja um hvernig styðja megi við Úkraínu á formennskutímabilinu. Í ferð sinni sótti utanríkisráðherra einnig lýðræðisráðstefnu Evrópuráðsins, World Forum for Democracy.

Í vikunni var svo tilkynnt um það að leiðtogafundur Evrópuráðsins fari fram í Reykjavík í maí næstkomandi. Verður það aðeins í fjórða skipti í 73 ára sögu ráðsins sem leiðtogafundur var haldinn. Síðast fór slíkur fundur fram í Varsjá árið 2005.

Í tilefni af formennsku Íslands í Evrópuráðinu skrifaði utanríkisráðherra sameiginlega grein með Katrínu Jakobsdóttur foræstisráðherra sem birtist í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni „Ísland í forystu Evrópuráðsins“.

Þórdís Kolbrún fundaði með Sima Bahous, framkvæmdastýru Stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) í gær. Samstarf Íslands og UN Women, jafnréttisáherslur Íslands í formennsku í Evrópuráðinu og staða kvenna í Íran og Afganistan voru helstu umfjöllunarefnin á fundi þeirra.

Þá tók hún þátt í Heimsþingi kvenleiðtoga, Reykjavík Global Forum, í gegnum fjarfundarbúnað frá Strassborg.

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP27, í Egyptalandi, hófst á dögunum. Formleg sendinefnd Íslands er skipuð 17 fulltrúum frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, matvælaráðuneytinu, Umhverfisstofnun og Orkustofnun. Áætlað er að rúmlega 20 þúsund manns  taki þátt í loftslagsráðstefnunni og tengdum viðburðum í Sharm El Sheikh.

Að endingu, af vettvangi ráðuneytisins, sögðum við frá fundi varnarmálaráðherra sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (Joint Expeditionary Force, JEF) í Edinborg í vikunni. Ráðherrarnir ræddu öryggisástandið í Evrópu, stuðning ríkjanna við Úkraínu og hvernig þau geta í sameiningu mætt nýjum öryggisáskorunum til framtíðar. Ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, Martin Eyjólfsson, sótti varnarmálaráðherrafundinn fyrir hönd utanríkisráðherra.

En þá að sendiskrifstofum okkar.

Í Helsinki tók Harald Aspelund sendiherra þátt í viðburði Nordic Women Mediators’ network þar sem sjónum var beint að friði og öryggi.

Þá var Harald heiðursgestur á hádegisverðarfundi sem Jukka Salovaara ráðuneytisstjóri finnska utanríkisráðuneytisins bauð til á dögunum.

Starfsfólk sendiráðs okkar í Osló tók saman greinargott yfirlit yfir heimsóknir til þeirra í októbermánuði. Nóg að gerast þar á bæ.

Í Caen í Frakklandi var Una Jóhannsdóttir fulltrúi sendiráðs Íslands í París viðstödd afhjúpun nýs listaverks.

Á vettvangi ÖSE hélt Kristín Árnadóttir sendiherra uppi málstað Íslands gagnvart árásarstríði Rússa á Úkraínu.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var kosið um umdeilda ályktun gegn upphafningu á nasisma sem Rússland ber upp á ári hverju. Ísland og líktþenkjandi ríki sitja vanalega hjá við afgreiðslu ályktunarinnar en sökum innrásarinnar í Úkraínu var ákveðið að greiða atkvæði gegn ályktuninni í þetta sinn og þess í stað borin upp breytingartillaga þar sem Rússland, sem frummælandi, var kallað til ábyrgðar á innrásinni. Bent var á öfugmælin og hræsnina sem fælust í framlagningu ályktunarinnar á sama tíma og Rússland réttlætti stríðsrekstur sinn í Úkraínu í nafni „af-nasistavæðingar“. Var breytingatillagan samþykkt.

Í Washington er Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands í heimsókn. Sótti hann viðburð í Cornell háskóla ásamt Bergdísi Ellertsdóttur sendiherra í Washington. Þar ræddi hann m.a. um hlutverk smáríkja í heiminum.

Þá fundaði María Mjöll Jónsdóttir skrifstofustjóri ásamt starfssystkinum sínum frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum með Victoria Nuland, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Nýtt hlaðvarp úr smiðju aðalræðisskrifstofu Íslands í New York kom út í vikunni. Rætt er við Torfa Frans Ólafsson hjá Minecraft tölvuleiknum.

Þá sótti aðalræðismaðurinn Nikulás Hannigan sýningu Georgs Óskars í Chelsea á Manhattan.

Síðastliðinn sunnudag var Hlynur Guðjónsson sendiherra í Kanada fulltrúi utanríkisráðuneytisins í samstöðuhlaupi í Ottawa fyrir Úkraínu.

Sendiherrar Norðurlanda í Kanada hafa svo sótt fundi í Montreal upp á síðkastið.

 

Fastanefnd Íslands gagnvart Atlantshafsbandalaginu fór að minnisvarðinum við Flanders Fields og vottaði þar þeim Íslendingum sem börðust í síðari heimsstyrjöldinni undir flaggi Kanada, virðingu sína.

Okkar fólk í sendiráði Íslands í Peking hefur haft í nógu að snúast að undanförnu og sótti m.a. viðskiptaráðstefnu í Shanghai, sem nánar má lesa um í þessari frétt. Bás Íslands hlaut sérstök verðlaun á ráðstefnunni.

Sendiráð okkar á Indlandi sagði svo frá heimsókn forseta Nepal, Bidya Devi Bhandari, sem sótti heimsþing kvenleiðtoga í vikunni, en hún sótti einnig fund með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Þann 1. nóvember voru byggingar með salernis- og sturtuaðstöðu afhentar á fjórum stöðum í Namayingo og eru þrjár þeirra fyrir almenning en ein fyrir Siabone grunnskólann. Hinar þrjár byggingarnar eru staðsettar við markaði í Lutoro, Bujwanga og Tanganyika. Sendifulltrúi sendiráðsins í Kampala, embættismenn Namayingo héraðsins og skólastjórnendur voru viðstaddir afhendinguna. Þessar endurbætur eru hluti af menntunar- og hreinlætisverkefni héraðsins sem njóta stuðnings frá Íslandi.

Við minnum að endingu á Heimsljós!

Fleira var það ekki að sinni.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum