Hoppa yfir valmynd
14. september 2023 Innviðaráðuneytið

Fjárlög 2024: Verulegur stuðningur við byggingu nýrra íbúða fyrir tekju- og eignaminni er áherslumál innviðaráðherra

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024 hefur verið lagt fram á Alþingi. Framlög til verkefna innviðaráðuneytis nema 111,6 milljörðum króna. Verulegur stuðningur við byggingu nýrra íbúða fyrir tekju- og eignaminni er áherslumál innviðaráðherra 2024. Framlög til húsnæðis- og skipulagsmála nema um 25 milljörðum kr. Þrátt fyrir að afkomubati ríkissjóðs sé umfram áætlanir vinnur ríkisstjórnin áfram gegn verðbólguþrýstingi með auknu aðhaldi í útgjöldum og endurskoðaðri forgangsröðun. 

Áfram stuðlað að tryggu framboði húsnæðis og bættri yfirsýn og samþættingu í húsnæðis- og skipulagsmálum

  • 24.313 milljónum króna verður veitt til húsnæðismála sem er aukning um 6.243 m.kr. eða 35%. 
  • 710 milljónum króna verður veitt til skipulagsmála.

Stuðningur við fjölgun nýrra íbúða um 1000

Áframhaldandi uppbygging húsnæðis fyrir tekju- og efnaminni er forgangsmál næstu ára. Stjórnvöld hafa stutt við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög með það að markmiði að auka framboð leiguíbúða á viðráðanlegu verði fyrir tekjulægri heimili. Stjórnvöld munu styðja við byggingu þúsund íbúða á næsta ári.

 
 

Aukið verður við stuðning við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög með 7,4 ma.kr. stofnframlögum, en það er aukning um 5,7 ma.kr. frá fjárlögum yfirstandandi árs. Auk þess verða áfram veitt hlutdeildarlán úr húsnæðissjóði til kaupa á fyrstu íbúð.

Fyrirkomulag hlut­deildarlána verður endurskoðað svo þau nái betur markmiðum sínum fyrir fyrstu kaupendur og tekjulága. Þá verður 9 ma.kr. veitt til húsnæðisbóta og 2,8 ma.kr. til vaxtabóta.

Endurskoðun húsaleigulaga og miðlæg leiguskrá

Endurskoðun húsaleigulaga stendur nú yfir á vegum starfshóps innviðaráðherra. Markmiðið er að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda í samræmi við áherslur sem fram koma í ríkisstjórnarsáttmálanum.

Stafrænar lausnir, rauntímaupplýsingar

Áhersla er á að vinna að fjölbreyttum stafrænum lausnum til að veita góða þjónustu, bæta skilvirkni og auka rauntímaupplýsingar. Má þar nefna landeignaskrá en markmiðið er að auka yfirsýn og styrkja stýritæki stjórnvalda varðandi eignarráð yfir landi. Þá verður unnið að því að nýta stafræna tækni og þjónustu einkarekinna skoðunarstofa til að auka skilvirkni.

Einnig verður unnið að næsta fasa í stafvæðingu skipulags sem felur í sér að deiliskipulagsáætlanir verði unnar á stafrænu formi. Stafvæðing skipulags og skipulagsgatt.is mun þannig einnig stuðla að bættri þjónustu við almenning og auka gegnsæi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum