Hoppa yfir valmynd
4. maí 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Afrakstur nýsköpunarstofu um þjónustu við aldraða á höfuðborgarsvæðinu

Höfði - myndVelferðarráðuneytið

Fjórar ýtarlegar tillögur um aðgerðir til að bæta þjónustu við aldraða eru afrakstur nýsköpunarstofu um þessi mál sem haldinn var í Höfða í lok apríl. Aðstandendur nýsköpunarstofunnar hafa ákveðið að efna til formlegs samstarfs til að vinna nánar úr tillögunum og hrinda þeim í framkvæmd. (Neðst í þessari umfjöllun eru glærur með kynningu tillagnanna og myndir frá vinnustofunni).

Vinnustofan fór fram í Höfða dagana 25. – 27. apríl og var haldin í samvinnu velferðarráðuneytisins Reykjavíkurborgar, Landspítalans og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Til þátttöku og samráðs voru boðaðir fulltrúar Landsambands eldri borgara, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Alzheimersamtakanna.

Stjórn vinnustofunnar var í höndum Landspítalans og var byggt á aðferðafræði straumlínustjórnunar (lean-hugmyndafræði) sem hefur verið beitt með góðum árangri í ýmsum verkefnum innan spítalans. Vinnuna leiddi Gunnhildur Peiser, verkefnastjóri MPM á Landspítalanum.

Unnið var sérstaklega með áherslu á mikilvægi samfellu í þjónustu við aldraða frá einu þjónustustigi til annars miðað við ólíkar þarfir og heilsufarsaðstæður og hvernig megi tryggja stuðning í samræmi við óskir aldraðra, þarfir þeirra og lögbundin réttindi.

Eftirfarandi er samantekt Gunnhildar Peiser um helstu áherslur sem fram komu hjá vinnuhópunum við hugmyndavinnuna ásamt fjórum megintillögum þeirra. Jafnframt fylgja glærur með kynningu á tillögunum.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, hlýddu á kynningu vinnuhópanna þegar fulltrúar þeirra kynntu niðurstöður sínar og tillögur í lok nýsköpunarvinnustofunnar og lýstu vilja til að setja á fót formlegt samstarf um leiðir til að vinna áfram að tillögunum og hrinda þeim í framkvæmd.

Samantekt um helstu áherslur og megintillögurnar fjórar

Í hugmyndaþróunarvinnunni komu sterkt fram meginþemu í vinnu hópanna sem taka má saman í eftirfarandi áherslur:

  • Nær ógerlegt er fyrir einstaklinga sem þurfa á þjónustu að halda að hafa yfirsýn yfir það hvaða þjónusta stendur til boða og hvaða þjónustu þeir eiga rétt á.
    • Flókið stjórnskipulag þjónustu í heimahúsi í Reykjavík og áskoranir sem tengjast mismunandi þjónustuframboði á milli heilsugæslustöðva eftir hverfum eru bæði almenningi og fagfólki til trafala. Skortur á yfirsýn á það hvaða þjónusta er í boði, hvernig þjónustuúrræði passa saman og skortur á skýrum ábyrgðaraðila þeirra þjónustu er hindrandi og vinnur gegn því að unnt sé að veita jafn góða þjónustu og þátttakendur vinnuhópanna hefðu viljað sjá.
    • Dregið hefur úr áskorunum tengdum samfellu í þjónustu við sjúklinga í sveitafélögunum í kringum Reykjavík eftir að heimaþjónusta, heimahjúkrun og heilsugæsla var sameinuð í þeim sveitafélögum.
    • Skortur á upplýsingaflæði á milli skráningarkerfa er stór hluti þess vanda að ná samfellu í meðferð sjúklinga bæði hvað varðar að gera breytingar á meðferðarúrræðum, hafa umsjón með lyfjameðferð og fylgjast markvisst með meðferðarplani. Vinna verður að lausn hið fyrsta sem brúar upplýsingar milli mismunandi kerfa svo að fagfólk sem sinnir öldruðum geti haft réttar upplýsingar í rauntíma á hverjum stað í þjónustukeðjunni.

Fjórar hugmyndir sem hópurinn telur brýnt að ráðist sé í strax:

1. Ein gátt- vegvísir

Það er öllum ljóst sem að vinnustofunni stóðu að gagngerar breytingar þarf að gera á því hvernig mismunandi heilbrigðisþjónustuúrræði eru nýtt og hvernig best megi tryggja nauðsynlegt og viðeigandi aðgengi á mismunandi þjónustustigum. Hópurinn leggur til símaþjónustu- ráðgjafarþjónustu í ætt við neyðarsímann 112 að danskri fyrirmynd þar sem sérþjálfað starfsfólk greinir í gegnum síma hvar erindið á best heima og hvar sé næsti lausi tími í viðeigandi meðferðarúrræði í samræmi við bráðleika og áhættur. Þetta er leið sem hefur reynst mjög vel í Kaupmannahöfn og leið sem afar brýnt er að ráðast strax í að gera tilraunainnleiðingu á þar sem þetta leysir úr mörgum að okkar flóknustu vandamálum í heilbrigðisþjónustunni, þ.e. ofnotkun dýrustu meðferðarúrræðanna. Með slíku forvali mætti eins og í Kaupmannahöfn bæta ánægju sjúklinga á öllum aldri og bæta nýtingu þjónustuúrræða þar á meðal að skapa aukið svigrúm til að veita betri þjónustu til aldraða.

2. Heilsuvernd aldraðra og forvarnir

Brýnt er að styðja til muna heilsuvernd aldraða og sinna þarf öflugu forvarnarstarfi. Síðasti þriðjungur ævinnar einkennist hjá mörgum af röð breytinga í hlutverkum og forsendum til sjálfsönnunar. Brýnt er að fólk sem nálgast eftirlaunaaldur fái stuðning til að undirbúa sig fyrir þetta æviskeið og þekki þau úrræði sem hægt er að leita í snemma. Dæmi um atriði sem taka mætti fyrir í heilsuvernd aldraðra:

  • Mikilvægi virkni og hreyfingar við hæfi
  • Sálfélagslegt heilbrigði
  • Næringarskóli
  • Ástvinaskólinn
  • Stuðningur við andlát og makamissi
  • Búsetuúrræði
  • Úrræði vegna  hrumleika og heilsubrest og vangetu við eigin umönnun
  • Lífsok með reisn

3. Þjónusturáðgjafi aldraðra innan heilsugæslunnar

Brýnt er að koma á laggirnar hlutverki þjónusturáðgjafa aldraðra innan heilsugæslunnar. Slíkir ráðgjafar væru málsvarar hins aldraða, gætu leiðbeint og liðsinnt varðandi þjónustu og úrræði, stutt við aðstandendur og verið ,,kjölfestan“ í meðferð þeirra. Slík hlutverk hafa verið sett á laggirnar í þjónustu við sjúklinga með flókin, langvinn, geðræn vandamál með afar góðum árangri og ljóst að hið sama ætti við um mikilvægi þess fyrir marga aldraða sem eru í mikilli þjónustuþörf og væri styrkur í slíkum málsvara. Var þetta ein þeirra hugmynda sem þátttakendum fannst mikilvægast að verði að veruleika.

4. Samræmd sjúkraskrárkerfi

Samræmda yfirsýn skortir í sjúkraskrárkerfum sem veldur því að þjónustuþegar upplifa sig ekki virta, né að í þeim heyrist þar sem ítrekað þarf að segja frá sömu atriðum aftur og aftur og var t.a.m. færni og heilsumatsferlið nefnt í því dæmi. Til að unnt sé að hafa yfirsýn og nýta þjónustuúrræði sem eru í boð verða rafræn kerfi að styðja þau mun betur en nú gerist. Hættur eru á alvarlegum mistökum t.a.m. í lyfjameðferð þar sem rafræn lyfjakort eru ekki til staðar og margir meðferðaraðilar geta verið að ávísa lyfjameðferð án þess að vita hver af öðrum sem er mjög hættulegt fyrir sjúklinga. Að sama skapi valda einangruð og lokuð kerfi því að ekki er hægt að sjá hver fær þjónustu hvenær, hjá hverjum og hvernig - sem almennt er ekki í samræmi við gagnreynda þekkingu í heilbrigðisþjónustu. Fulltrúar vinnustofunnar álykta þar að hefjast verði handa tafarlaust við að leysa úr og sameina sjúkraskrá einstaklinga undir einn hatt og að hún sé þannig eign sjúklingsins sjálfs- uppfærð og aðgengileg honum og meðferðaraðilum hans öllum í rauntíma.

Að lokum kom fram skýr umræða um nauðsynlegar breytingar og aðhald á fasteignamarkaði sem miðað er að öldruðum og bættur stuðningur við sjálfstæða búsetu:

  1. Setja þarf skýrari ákvæði í lög og reglugerðir um hvað má teljast þjónustuíbúð og hvað sé öryggisíbúð o.sv.frv. Mýmörg dæmi eru um að eldri borgarar telji sig hafa verið svikna í slíkum fasteignaviðskipum eða leigusamningum og þetta verður að leiðrétta.
  2. Bjóða þarf eldra fólki hagstæðar leiðir t.d. framkvæmdalán á góðum kjörum til að breyta t.d. baðherbergjum og öðrum atriðum í samræmi við öryggisþarfir aldraða. Slíkt væri án efa þjóðhagslega hagstætt og myndi draga úr ótímabærri visturnarþörf eða færnitapi vegna slysa, hrörnunar og annars sem á rætur sínar að rekja til þess að aðbúnaður á heimili hins aldraða vinnur gegn þörfum hans, húsnæði er t.d.  of þröngt eða dimmt til að hann geti nýtt göngugrind, séð til við athafnir daglegs lífs, farið sjálfur í bað og sinnt eigin umhirðu, eldað mat á öruggan hátt o.sv.frv.
  3. Öllum standi til boða öryggisúttekt fyrir eldri árin á heimili sínu frá fagfólki svo sem iðju- og eða sjúkrajálfara þar sem heimili eru metin með tilliti til slysahættu varðandi birtu, gólfefni, hjálpatæki osv.frv.
  4. Setja þarf reglugerð um nokkurskonar kerfi stjörnugjafar eða aðra stöðlun á því hvað felist í þeim þjónustu- og öryggisþáttum sem þeir sem selja og leigja slíkar íbúðir til aldraða þurfa að standa skil á.

Þá lögðu þátttakendum mikla áherslu að haldið yrði áfram og innleitt til frambúðar verkefni velferðarráðuneytisins frá síðasta voru um sérhæfða heimaþjónustu við veika aldraða samanber verkefnisáætlun og skilmat sem ráðuneytinu var skilað síðastliðið vor en verkefnið náði framúrskarandi árangri  við að veita heildræna heilbrigðisþjónustu til mikið veikra aldraðra sem vildu búa heima og um leið koma í veg fyrir þörf fyrir ítrekaðar innlögn á sjúkrahús.

 

  • Afrakstur nýsköpunarstofu um þjónustu við aldraða á höfuðborgarsvæðinu - mynd úr myndasafni númer 1
  • Afrakstur nýsköpunarstofu um þjónustu við aldraða á höfuðborgarsvæðinu - mynd úr myndasafni númer 2
  • Afrakstur nýsköpunarstofu um þjónustu við aldraða á höfuðborgarsvæðinu - mynd úr myndasafni númer 3
  • Afrakstur nýsköpunarstofu um þjónustu við aldraða á höfuðborgarsvæðinu - mynd úr myndasafni númer 4
  • Afrakstur nýsköpunarstofu um þjónustu við aldraða á höfuðborgarsvæðinu - mynd úr myndasafni númer 5
  • Afrakstur nýsköpunarstofu um þjónustu við aldraða á höfuðborgarsvæðinu - mynd úr myndasafni númer 6
  • Afrakstur nýsköpunarstofu um þjónustu við aldraða á höfuðborgarsvæðinu - mynd úr myndasafni númer 7
  • Gunnhildur Peiser - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum