Hoppa yfir valmynd
5. janúar 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 5. janúar 2024

Heil og sæl, 

Þennan fyrsta föstudagspóst ársins 2024 byrjum við á að óska öllum velfarnaðar og gæfu á komandi ári og þökkum af heilum hug allar samverstundir á árinu sem leið.

Í dag eru 150 ár liðin frá því Kristján IX konungur undirritaði í Kaupmannahöfn fyrstu stjórnarskrá Íslands, árið 1874. Hún tók gildi 1. ágúst það sama ár. Þótt þessu merka skjali hafi ekki verið fagnað að ráði, því margir vildu enn meiri réttindi, var þarna samt um að ræða mikilvægt skref í átt til sjálfsstjórnar og seinna fullveldis.

Við kvöddum árið 2023 með, pompi og prakt, sprengjum og ofáti en flytjum því miður með okkur sömu áskoranir alþjóðlega og við glímdum við á gamla árinu yfir á það nýja. Við sem eigum allt okkar undir friðsælli samvinnu alþjóðasamfélagsins höldum áfram að tala fyrir þeim gildum og verkfærum sem gerir það að verkum að við getum yfir höfuð talað um alþjóðasamfélag; viðskipta- og menningartengsl, virðingu og jafnrétti, alþjóðlegan samræðugrundvöll og -dómstóla þar sem við getum borið upp ágreiningsefni, myndað bandalög og tekið saman höndum til að leysa verkefni sem allir jarðarbúar standa sameiginlega frammi fyrir. Í utanríkisþjónustunni höldum við áfram að leggja okkar lóð á vogarskálarnar og nú lítum við yfir verkefni vikunnar sem öll miðuðu að því sama: að gæta hagsmuna Íslendinga í samfélagi þjóðanna. 

Ísland tók nýverið þátt í árlegri netvarnaræfingu Atlantshafsbandalagsins. Þetta mun vera í fyrsta skiptið sem Ísland tekur þátt í æfingunni en markmið hennar er að láta reyna á sameiginlega varnargetu og samhæfingu netvarnarsveita ríkjanna við meiriháttar netárás. Æfingar sem þessar eru lykilþáttur í undirbúningi og þjálfun þeirra sem verja íslenskt netumdæmi þegar til netárása kemur og hafa nú þegar, eins og vonir stóðu til, skilað árangri og bættu samstarfi við vina- og bandalagsþjóðir.  

Samningur Íslands, Liechtenstein og Noregs við Bretland um samræmingu almannatrygginga sem undirritaður var í sumar, tók formlega gildi um áramótin eða 1. janúar síðastliðinn. Þetta eru mikilvæg tíðindi fyrir þau sem hyggja á ferðalög eða búferlaflutninga til Bretlands en hann kveður á um framtíðarfyrirkomulag réttinda á sviði almannatrygginga, aðallega hvað varðar lífeyrisréttindi og sjúkratryggingar þeirra sem ferðast eða flytjast milli landanna. Nánar má lesa um breytingarnar sem gildistakan hefur í för með sér hér.  

Á nýársdag voru 30 ár síðan EES-samningurinn tók gildi. Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra hélt upp á daginn ásamt kollegum með sérstakri yfirlýsingu sem lesa má hér. Fyrirhugað er að halda upp á tímamótin með marvíslegum hætti á árinu, í sendiráði Íslands í Brussel og víðar. 

Íslendingar í Ishikawa og á nærliggjandi svæðum á vesturströnd Honshu eyju voru hvött til að láta aðstandendur vita að það væri í lagi með þau í kjölfar gríðarstórs jarðskjálfta sem varð á svæðinu. Í þessum hamförum sem öðrum minnir borgaraþjónustan á neyðarnúmerið +354 545 0112 sem svarað er í allan sólarhringinn. 

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra vottaði þeim sem áttu um sárt að binda vegna hörmunganna samúð.

Baráttan um þau gildi sem viljum halda í heiðri í alþjóðasamfélaginu birtist þessi misserin mjög skýrt í árásarstríði Rússlands á Úkraínu. Snemma á árinu sótti Rússland í sig veðrið með árás á höfuðborg Úkraínu Kænugarð, sem Ísland fordæmdi.

Starfsfólk sendiráðs Berlínar auglýsir síðustu daga sýningarinnar Hliðstæðar víddir II. Nú fer hver að verða síðastur að njóta listarinnar þar.

Í Kaupmannahöfn fóru Árni Þór Sigurðsson sendiherra og eiginkona hans Sigurbjörg Þorsteinsdóttir í hina hefðbundnu nýársmóttöku Margrétar Danadrottningar, þeirrar síðustu í hennar valdatíð, sem haldin er fyrir sendiherra erlendra ríkja í landinu. Fengu hjónin sérstaka áheyrn drottningar sem bað fyrir bestu kveðjur til Íslands. 

Í sendiráði Íslands í Lilongwe, Malaví, var litið yfir farinn veg á árinu og kastljósi beint að verkefnum sem unnið var að, til mikilla hagsbóta fyrir íbúa á svæðinu, einkum í samstarfshéraðinu Mangochi. 

Sendiráð Íslands í Osló fékk góða heimsókn frá fyrrverandi stríðssagnfræðingi hjá norska flughernum Cato Guhnfeldt og Rolf Mangseth fyrrverandi orrustuflugmanni flughersins. Viðfangsefni fundarins var umfangsmikið verkefni um útgáfu bókar um sögu herdeildar 330 norsku flugsveitarinnar sem var staðsett á Íslandi á árunum 1941 til 1943. 

Sendiráðið fékk aðra góða heimsókn í vikunni frá blaðamanninum og rithöfundinum Ottar Fyllingsnes sem vildi ræða um þann mikla áhuga sem hann finnur fyrir í Noregi um Ísland. Ottar gaf út bókina Island: Eit varmt portrett av ein fargerik kultur fyrir nokkrum misserum og hefur á síðasta ári haldið fjölda kynninga og fyrirlestra um Ísland um land allt við góðar undirtektir. 

Sem fyrr blómstra listir og menning í París, oft með stuðningi íslenska sendiráðsins. Ísland er umfjöllunarefni myndlistarsýningarinnar Islande sur le dos du dragon (lausleg þýðing: Ísland á baki drekans). Sýningin er eftir Philippe Lefebvre. 

Íslenskar bókmenntir rata víða um veröld. Sendiráðið okkar í París tilkynnir útgáfu tveggja íslenskra bóka á frönsku, Mon sous-marin jaune eða Guli kafbáturinn eftir Jón Kalmann Stefánsson og Eruptions Amour - et autres cataclysmes eða Deus eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og rithöfundur kynnti bók sína og Ragnars Jónassonar 'Reykjavík' í viðtali við Marie Claire. 

Sendiráð Íslands í Póllandi bauð til ljósmyndasýningarinnar Watercolor Rivers eftir Maciek Malinowski. Sýningin fer fram í Kraká og stendur uppi fram í febrúar. 

ADD ME verkefnið var kynnt til sögunnar hjá sendiráði Íslands í Varsjá. 

Þar á bæ var árinu slúttað með fróðleik um áramótavenjur Íslendinga og lagalista sem Íslendingar og fleiri geta dillað sér við. 

Þá kveðjum við í bili.

Góða helgi! 

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum