Hoppa yfir valmynd
8. mars 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 8. mars 2024

Upp er runninn 8. mars, alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Eins og alþjóð veit er það hlutverk utanríkisþjónustunnar að huga að hagsmunum Íslendinga hér heima og að heiman. Eitt af lykiláherslumálunum í þeirri vinnu er að vinna jafnréttismálum brautargengi í alþjóðlegu samstarfi og á degi eins og þessum liggjum við að sjálfsögðu ekki á liði okkar.

Ekki er vanþörf á því að breiða út boðskapinn um kynjajafnrétti, því samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðabankans sem greint var frá í Heimsljósi, fréttaveitu okkar um þróunar- og mannúðarmál er munur á stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði mun meiri en áður hefur verið talið og auðvitað er jafnfrétti ekki bara ábótavant á vinnumarkaði heldur á fleiri sviðum.  Ávinningurinn af því að uppræta það er öllum til hagsbóta, þetta vitum við Íslendingar og þessvegna höldum við ótrauð baráttunni áfram.

Vanalega byrjum við föstudagspóstana á því að fjalla um það sem utanríkisráðherra hefur fengist við í vikunni. Nú bregðum við út af vananum og skoðum fyrst þær margvíslegu birtingarmyndir sem málsvarastarf sendiskrifstofa okkar um kynjajafnrétti tók í tilefni þessa merkilega dags.

Byrjum í Malaví.

Kynjajafnrétti er veigamikill þáttur í þróunarsamvinnu Íslands, meðal annars í sendiráði okkar í Lilongwe, Malaví, sem í tilefni dagsins greindi frá mörgum mikilvægum verkefnum sem Íslands kemur að eða stendur fyrir á svæðinu. 

Fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York stóð fyrir rakarastofuviðburði í samvinnu við forseta allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í tilefni dagsins. Tilgangur hinna séríslensku rakarastofuviðburða er að veita þátttakendum af öllum kynjum, en þó sérstaklega karlmönnum, vettvang og tól til að ræða kynjamisrétti og stuðla að kynjajafnrétti í sínu nærumhverfi. 

Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í Frakklandi tók þátt í viðburði þar sem sendiherrar ræddu við ungar konur um hvað það þýðir að vera í kona í diplómasíu og hvernig hægt sé að styðja við bakið á stúlkum til þátttöku í slíku starfi. 

Þá sótti sendiherra einnig verðlaunaafhendingu Simone Veil þar sem Miriam Djangala-Fall voru veitt verðlaun fyrir framlag sitt til baráttunnar gegn kynferðisofbeldi á átakasvæðum.

Unnur Orradóttir Ramette gegnir ekki bara hlutverki sendiherra Íslands í Frakklandi heldur einnig fastafulltrúa Íslands gagnvart efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). Á þeim vettvangi voru jafnréttismálin líka rædd í vikunni í tilefni dagsins.

Una Jóhannsdóttir, staðgengill sendiherra Íslands í Frakklandi deildi hugmyndum og reynslu Íslands af jafnréttisstarfi með nemendum í UN SciencesPo.

Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra Íslands í Japan tók þátt í viðburði um konur í vísindum og hvernig hægt sé að hvetja þær enn frekar til dáða á þeim sviðum þar sem þátttaka þeirra hefur til þessa verið minni en karla.

Sendiherra Íslands í Washington D.C. Bergdís Ellertsdóttir var gestur á viðburði í Hvíta húsinu í vikunni „International Women of Courage Award“ þar sem tólf konur fengu sérstaka viðurkenningu fyrir óeigingjörn störf í þágu baráttu fyrir auknu jafnrétti og mannréttindum. Forsetafrú Bandaríkjanna, Jill Biden flutti ávarp ásamt Antony Blinken utanríkisráðherra.

Í Brussel var dagurinn haldin hátíðlegur með morgunverðarviðburði norrænu sendiráðana þar í borg. Þar voru kraftmiklir og ástríðufullir einstaklingar fengnir til að ræða þema fundarins: Jafnrétti í fóbolta.

Í bæði sendiráði okkar í Helsinki...

og í Osló var vakin athygli á upplýsingum um það umfangamikla starf sem Ísland vinnur að á sviði jafnréttismála sem finna má á vef forsætirsáðuneytisins

Í sendiráði Íslands í Svíþjóð var vakin athygli á merkilegum konum í Íslandssögunni.

Í Kaupmannahöfn var dagurinn haldinn hátíðlegur í Jónshúsi undir stjórn félags kvenna í atvinnulífinu í Danmörku. 

Jóhanna Jónsdóttir, staðgengill sendiherra Íslands í Bretlandi sótti í tilefni dagsins málstofu á vegum sendiskrifstofu Kanada í London þar sem hin þekkta kanadíska fjölmiðlakona Lisa LaFlamme og sendiherra Zambiu í London, Macenje Mazoka ræddu stöðu kynjajafnréttis í heiminum.

Hlynur Guðjónsson sendiherra Íslands í Kanada sótti fund þar sem meðal annars þátttaka kvenna í íþróttum var til umræðu. Meðal frummælenda var Carla MacLeod, yfirþjálfari kvennaliðs Ottawa í íshokkí. 

Í sendiráði Íslands í Varsjá voru teknar saman staðreyndir um jafnréttisbaráttuna á Íslandi, hverju hún hefur skilað og af hverju við teljum mikilvægt að kynjajafnrétti nái fótfestu sem víðast.

Winnipeg Jazz Orchestra hélt daginn hátíðlegan með glæsilegri tónlistardagskrá. Meðal þátttakenda var okkar eigin söngkona og lagahöfundur Sigurdís. 

Þá sendi Jörundur Valtýsson fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York sérstakar baráttukveðjur til allra kvenna í tilefni dagsins.

Það bar hæst í störfum utanríkisráðherra og starfsfólk ráðuneytisins hér heima í vikunni að hreyfing komst á flutning dvalarleyfishafa á Gaza til Íslands72 einstaklingar komu yfir landamærin til Kaíró og var í kjölfarið komið heim til fjölskyldna sinna á Íslandi. Starfi sendinefndar utanríkisráðuneytisins er nú lokið á svæðinu í bili en áfram verður grannt fylgst með stöðu mála

Bjarni Benediktsson flutti opnunarávarp á fundi smáríkjaseturs Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og sendiráðs Litáen gagnvart Íslandi um viðbrögð við innrás Rússlands í Úkraínu. 

„Réttu viðbrögðin við auknum ógnum felast í því að efla fælingarmátt og viðbragðsgetu,“ sagði utanríkisráðherra meðal annars en ávarpið í heild sinni má lesa hér.

Þá mælti utanríkisráðherra fyrir árlegri skýrslu um framkvæmd EES-samningsins sem var til umræðu á Alþingi í vikunni. Þetta mun vera í fjórða skipti sem skýrsla af þessu tagi er gefin út. Mikill samhljómur var í umræðunni um mikilvægi EES-samstarfsins en í ár eru 30 ár líðin frá því að samningurinn tók gildi. 

Þá fagnaði hann formlegri aðild Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu sem loks, eftir langa bið, varð að veruleika í vikunni. 

Í sendiráði Íslands í Svíþjóð var þeim tímamótum að sjálfsögðu einnig fagnað.

Fulltrúar sendiráðs Íslands í Kampala fóru í eftirlitsferð í vikunni með starfsfólki UNICEF í Adjumani og Terego héraði. Heimsótti sendinefndin fjóra skóla og þrjár heilsugæslustöðvar og ræddi við haghafa um það sem vel hefur gengið og hvað betur mætti fara. Þá var grunnskólanum Aria og heilsugæslustöðinni Tuku afhentar sólknúnar vatnsveitur, handþvottaaðstöður og salerni.

Sendiherra Íslands í Bandaríkjunum Bergdís Ellertsdóttir var viðstödd stefnuræðu Bandaríkjaforseta í Bandaríkjaþingi á fimmtudagskvöld.  

Sendiherrar Norðurlandanna í Bandaríkjunum áttu fund með Mike Pompeo fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. 

Þá átti sendiherra fund með fulltrúadeildarþingkonunni Mary Peltola frá Alaska þar sem málefni norðurslóða og samstarf Íslands og Alaska voru ofarlega á baugi. 

Starfsfólk sendiráðs Íslands í Washington D.C. tók á móti hópi nemenda úr 6., 7. og 8. bekk í St. Patrick’s Episcopal Day School sem er fara í skólaferðalag til Íslands í sumar. Nemendurnir fengu kynningu um Ísland og íslenska menningu. 

Þá tók Bergdís Ellertsdóttir sendiherra einnig á móti meðlimum Harvard Club Washington

Yfir til Berlínar. Í tilefni af stærstu ferðamálarástefnu heims, ITB 2024 sem fram fór þar í borg dagana 5.-7. mars buðu Visit Reykjavik, Visit Iceland og sendiráð Íslands í Berlín þýskum blaðamönnum í sendiráðsbústaðinn. María Erla Marelsdóttur sendiherra Íslands í Þýskalandi bauð gesti velkomna og Eliza Ried forsetafrú og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarráðs Reykjavíkur kynntu hvað Ísland hefur upp á að bjóða á sviði ferðaþjónustu og framtíðarmöguleika sjálfbærrar ferðaþjónustu á Íslandi. Alls voru 22 blaðamenn viðstaddir, einnig voru markaðsstofur Austurlands og Norðurlands á staðnum.

Guðni Th. Jóhannesson heimsótti München í byrjun vikunnar á leið sinni til Georgíu og tók hús á Glódísi Perlu Viggósdóttur og stöllum hennar hjá Bayern München

auk þess að heimsækja handritasafn ríkisbókasafns Bæjaralands.

Harald Aspelund, sendiherra Íslands í Finnlandi heimsótti Tallinn í vikunni þar sem hann fundaði með eistneska varnarmálaráðherranum Hanno Pevkur.

Lífið í sendiráðunum er ekki eintómir menningarviðburðir og fundir með ráðamönnum. Stjórnsýsla ýmis sem snertir borgaraþjónustu er mikill hluti starfsins og þar gegna sendiráðin okkar hlutverki tengiliðar Íslendinga sem búsettir eru erlendis við stjórnvöld á staðnum. 

og við stjórnvöld heima á Íslandi.

Til að mynda verða umsóknir um ný íslensk nafnskírteini í höndum sendiráða og aðalræðisskrifstofa okkar fyrir Íslendinga erlendis. 

Í utanríkisþjónustu Íslands viljum við spegla þau gildi sem Íslendingar vilja standa fyrir á alþjóðavettvangi. Það er okkur því bæði ljúft og skylt að berjast gegn hverskonar mismunun og ójafnrétti, hvernig sem birtingarmyndirnar eru. Starfsfólk sendiráðs okkar í Kaupmannahöfn auglýsti í vikunni að opnað hefði verið fyrir tilnefningar til verðlauna sem veitt eru af samtökunum Nordic Safe Cities til norrænna ungmenna sem hafa á einhvern hátt unnið gegn félagslegri útskúfun og hatri. 

Annað veigamikið hlutverk sendiráða okkar er að vekja athygli á menningarviðburðum sem Íslendingar standa fyrir erlendis. Það gerði sendiráðsstarfsfólk okkar í Kaupmannahöfn sem í vikunni sem vakti athygli á myndinni "Adam" í leikstjórn Maríu Sólrúnar Sigurðardóttur sem sýnd verður 22. mars í Husets Biograf. 

Starfsfólk sendiráðs Íslands í Ottawa hvatti gesti og gangandi til að sjá mynd Hilmars Oddssonar Á ferð með mömmu sem sýnd verður á alþjóðlegri kvikmyndahátíð þar í borg um miðjan mánuðinn.

Sömuleiðis myndir eftir Rúnar Rúnarsson sem sýndar verða í Montréal í næstu viku.

Starfsfólk sendiráðs Íslands í Osló vakti athygli á útgáfu bókar Auðar Övu Ólafsdóttur Eden á norsku í þýðingu Tone Myklebost hjá forlaginu Pax. 

Starfsfólk sendiráðs okkar í París hvatti þau fáu sem enn hafa ekki uppgötvað okkar stórkostlegu tónlistarkonu Laufeyju til að kynnast henni.

Þá greindi aðalræðisskrifstofa Íslands í Winnipeg frá vel heppnuðum tónleikum listakonunnar Sigurdísar sem haldnir voru í Gimli í vikunni við góðan róm viðstaddra.

Í sendiráði Íslands í Tókýó var sagt frá sýningu á myndum Áslaugar Jónsdóttur, höfundi bókarinnar um litla skrímslið og stóra skrímslið í borginni Tama í Japan.

Norrænt lýðræði verður til umfjöllunar á lýðræðishátíð unga fólksins sem haldin verður í Yokohama Olympic Park þann 23. mars næstkomandi. Þar deilir fulltrúi okkar úr sendiráði Íslands í Tókýó Ragnar Þorvarðarson reynslu Íslands. 

Íslendingar í útlöndum eru dugleg að rækta tengslin og enn eitt hlutverk sendiráða okkar er að hvetja til þess að þau verði sem ríkulegust og best enda vitum við sem er að það er gott að eiga bakland í frændum og frænkum sem dúkka upp á ólíklegustu stöðum. Til dæmis í páskabingói Íslendingafélags í London.

Í þarsíðustu viku tók sendiráðsstarfsfólk okkar í London á móti forsetahjónunum Guðna Th. Jóhannessyni og Elizu Reid. Dagskráin var fjölbreytt, meðal dagskrárliða voru ávörp forseta í hugveitunni RUSI og í Oxford háskóla, auk þess sem forsetafrúin okkar fundaði með Olenu Zelensku, forsetafrúar Úkraínu. 

Skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu Jónas G. Allansson átti líka erindi til London og leit í leiðinni við í sendiráðinu. Tilgangur ferðarinnar var að fylgjast með starfsemi Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar og ræða þátttöku Íslands í viðburðum hennar í náinni framtíð. 

Enn eitt veigamikið hlutverk sendiráðanna okkar er að stuðla að virkum og árangsríkum viðskiptatengslum Íslendinga á alþjóðasviðinu. Í sendiráði Íslands í París var vakin athygli á spennandi heimsókn viðskiptasendinefndar til Sophia Antipolis á frönsku rivierunni og til Monte Carlo í Mónakó á vegum fransk-íslenska viðskiptaráðsins.

Á samfélagsmiðlum sendiráðs Íslands í Stokkhólmi var vakin athygli á því að Ísland er öruggur staður til að heimsækja, þrátt fyrir jarðhræringar undanfarið og þótt líklegt sé að þær muni koma til með að halda áfram næstu misseri og ár. 

Ísland í allri sinni ókyrrð og náttúrufegurð reynist listafólki oft innblástur í verkum þeirra. Gott dæmi um þetta er ljósmyndasýning listakonunnar Susanne Walström, Black Lava Fairy Tale sem sendiherra Íslands í Stokkhólmi Bryndís Kjartansdóttir opnaði í Galleri Glas í vikunni.

Það á einnig við um sýninguna Watercolor Rivers eftir Maciej Malinowski sem sendiráð Íslands í Varsjá stendur fyrir í gallerí Targowa2 í Kraká. Sýningin verður opin fram í miðjan mars.

Ísland hefur margt að segja um vistvænar leiðir í orkumálum og deilir reynslu sinni gjarnan á alþjóðavettvangi. Í sendiráði Íslands í Tókýó var vel tekið á móti forstjóra Orkustofnunar Höllu Hrund Logadóttur sem átti marga góða fundi með fulltrúum orkumála þar í landi auk þess sem hún tók þátt í fyrrnefndum jafnréttisviðburði um konur í vísindum í tilefni af alþjóðabaráttudegi kvenna. 

Í Reykjavík fer um þessar mundir fram hin geysivinsæla og skemmtilega hátíð "Food and Fun" þar sem heimsfrægt matreiðslufólk spreytir sig á matargerð með íslenskum hráefnum. Sendiskrifstofur okkar hvöttu fólk í sínu nærumhverfi til þátttöku í hátíðinni með ýmsum hætti: 

Þá verður föstudagspósturinn ekki lengri að sinni. 

Góða helgi!

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum