Hoppa yfir valmynd
11. desember 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 11. desember 2020

Heil og sæl.

Bókakynningar, kökuskreytingarnámskeið og stálheiðarlegur íslenskur jólamatur á Facebook-síðu utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra gerir það að verkum að fólkið í utanríkisþjónustunni er komið í ansi mikið jólaskap. 

 

Himneskt

Posted by Guðlaugur Þór Þórðarson on Thursday, 10 December 2020

Vindum okkur nú beint í yfirferð á því helsta sem fór fram í utanríkisþjónustunni í vikunni. Hæst bar bráðabirgðafríverslunarsamningur sem íslensk og bresk stjórnvöld undirrituðu á þriðjudag sem tryggir óbreytt tollkjör vegna vöruviðskipta við Bretland. Samningurinn mun taka gildi um áramót þegar aðlögunartímabili vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu lýkur. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis og þróunarsamvinnuráðherra, segir fagnaðarefni að kjarnahagsmunir íslenskra fyrirtækja hafi nú verið tryggðir. 

🤝🇮🇸🇳🇴🇬🇧Frábær tíðindi frá Lundúnum í dag – undirritun bráðabirgðasamnings sem tryggir óbreytt tollkjör vegna...

Posted by Guðlaugur Þór Þórðarson on Tuesday, 8 December 2020

 

Sama dag sögðum við frá því að Ísland hefði sett 90 milljónir í Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna en þetta tilkynnti Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu fyrir hönd ráðherra á framlagaráðstefnu sjóðsins.

Á miðvikudag ávarpaði Guðlaugur Þór ráðherrafund um öryggi blaðamanna og refsileysi glæpa gegn fjölmiðlafólki. Fundurinn, sem var haldinn í gegnum fjarfundabúnað, var haldinn samhliða ráðstefnu hollenskra stjórnvalda og UNESCO í tilefni af alþjóðlegum degi fjölmiðlafrelsis. „Í óvissunni sem hefur orðið í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins hefur hlutverk fjölmiðla aldrei verið jafn mikilvægt,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í erindi sínu. „Það er átakanlegt að sjá hvernig stjórnvöld í sumum ríkjum hafa notað faraldurinn til að koma höggi á fjölmiðla, frjáls félagasamtök og opna umræðu.“

Ráðherra ávarpaði svo opinn fjarfund í gær sem fór fram í tilefni  af alþjóðamannréttindadeginum sem haldinn er hátíðlegur 10. desember ár hvert. Í ávarpinu lagði Guðlaugur Þór áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um hinar Sameinuðu þjóðir. COVID-19 heimsfaraldurinn hefði sýnt rækilega hve miklu máli skipti að ríki heims geti átt samstarf um brýn úrlausnarefni, svo sem fjármögnun og dreifingu á bóluefni, og hversu mikilvægt það er að gott alþjóðastofnanakerfi sé til staðar til byggja það samstarf á.

Þá stakk ráðherra niður penna í vikunni og fjallaði um arðbær kreppuúrræði í Fréttablaðinu. Greinin er holl aflestrar og minnir á að dýpstu kreppur geta reynst driftkraftur framfara.

Sendiherrar eru eðli máls samkvæmt vinsælir viðmælendur fjölmiðla þegar fjallað er um lífið utan landsteinanna. Fjórir sendiherrar Íslands voru til viðtals á útvarpsrásum RÚV í vikunni og þar var kórónuveiran ofarlega á baugi

Helga Hauksdóttir, sendiherra Íslands í Danmörku, var í Síðdegisútvarpi Rásar 2 á mánudag en þar í landi hefur kórónuveirfaraldurinn færst í mikinn vöxt. Helga ræddi meðal annars um hertar aðgerðir danskra stjórnvalda og hvernig þau hafa tekist á við faraldurinn hingað til.

Á þriðjudag var komið að sendiherra Íslands í London, Sturlu Sigurjónssyni, að ræða málin á þessum sögulega degi í Bretlandi þar þar sem fyrsta bólusetningin gegn kórónuveirunni fór fram. Hin níræða Margaret Keenan frá Coventry var sú fyrsta sem var bólusett en annar í röðinni var 81 árs gamall maður að nafni William Shakespeare, eins og fram kom í máli Sturlu.

Á miðvikudag ræddi Auðunn Atlason, sendiherra Íslands í Finnlandi, við Morgunvaktina á Rás 1 um lífið og tilveruna í Finnlandi, bæði almennt og á tímum kórónuveirunnar.

Aukning kórónuveirusmita í Þýskalandi var svo til umræðu í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í gær þar sem María Erla Marelsdóttir, sendiherra Íslands í Berlín, var til viðtals. María Erla sagði meðal annars frá þeim aðgerðum sem þýsk stjórnvöld hyggjast grípa til í þeirri von að stemma stigu við faraldrinum.

Við höldum okkur við Þýskaland, sem er mikilvægur útflutningsmarkaður fyrir íslenskar menningarafurðir, og þá ekki síst bækur. Árlega eru gefnar út þónokkuð margar bækur íslenskra höfunda á þýsku og til að vekja athygli á þeim og hinu séríslenska „jólabókaflóði“ stóð sendiráðið sl. mánudagskvöld, í samstarfi við Íslandsstofu og Bókmenntamiðstöð fyrir stafrænu bókakvöldi. Átta rithöfundar sem hafa verið gefnir út á þýsku á síðastliðnu ári kynntu verk sín frá Íslandi, en samtalinu var stýrt frá Berlín. Þegar hafa á þriðja þúsund horft á viðburðinn, sem sjá má hér.

Í Kaupmannahöfn hefur sendiráðið haft í nógu að snúast í vikunni en í gær kom út sérstakt sérblað um Ísland sem fylgdi með blaðinu CPH Post sem gefið er út á ensku. Tilefni sérblaðsins var 100 ára afmæli sendiráðsins í Kaupmannahöfn en í blaðinu má m.a. finna inngang eftir sendiherra,  og fjölmargar greinar um íslenska menningu, ferðamál, nýsköpun og nýstofnaðan Grænvang. Blaðið má lesa í vefútgáfu hér:

Jólasveinarnir íslensku voru svo ofarlega í huga hjá starfsfólki fjölmargra sendiskrifstofa okkar í vikunni, enda kemur sá fyrsti til byggða í kvöld. Sendiráð Íslands í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Washington og aðalræðisskrifstofa Íslands í Nuuk minntu öll á þau stórtíðindi í vikunni.

Árni Þór Sigurðsson sendiherra Íslands í Rússlandi flutti í gær erindi um formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og stýrði málstofu um alþjóðlegt samstarf á norðurslóðum ásamt Anton Vasilev fyrrverandi sendiherra Rússlands á Íslandi, á Arctic Forum í Pétursborg.

Í Vín í síðustu viku lauk formennsku Íslands í NATO-samráðshópnum innan ÖSE í nóvember. Guðni Bragason fastafulltrúi stjórnaði 14 fjarfundum í hópi fastafulltrúa og hermálafulltrúa, með dyggri aðstoð Samönthu Frueauff, ritara fastanefndarinnar. Formennskan gekk vel, þrátt fyrir erfiðar aðstæður vegna heimsfaraldursins og miklar annir fyrir ráðherrafund ÖSE, sem lauk á föstudaginn var. Á ráðherrafundinum var flutt ávarp af hálfu NATO-hópsins, sem fastafulltrúi ritstýrði, en til þurfti um 25 klukkustunda vinnu að drögunum. Norræn samvinna kom sér vel, því starfsmaður norsku fastanefndarinnar, Unni Mortensen, aðstoðaði á fjarfundunum.

Á meðal þess sem fór fram í Genf í vikunni var viðskiptarýni um Indónesíu sem Harald Aspelund fastafulltrúi Íslands í Genf stýrði en varaviðskiptaráðherra Indónesíu, Jerry Sambuaga, kom til Genfar til að taka þátt í rýninni. Talsverð umræða var um viðskiptahindranir og mögulegt afnám þeirra, m.a. í fríverslunarsamningum og þar bar á góma nýgerður samningur við EFTA ríkin, þ.á m. Ísland. Að venju notaði varafastafulltrúi Íslands, Katrín Einarsdóttir, tækifærið til að koma að áherslum Íslands hvað varðar jafnrétti kynjanna í viðskiptum. Í gær náðist svo mikilvægur áfangi í baráttunni fyrir jafnréttismál í Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) þegar nýr vinnuhópur um viðskipti og jafnrétti tók til starfa. Vinnuhópurinn var stofnaður í kjölfar sérstaks átaks sem, Ísland, Botswana og Alþjóðaviðskiptamiðstöðin (International Trade Center) leiddu til að efla stöðu kvenna í alþjóðaviðskiptum. Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands og Athaliah Molokomme, fastafulltrúi Botswana eru formenn nýja vinnuhópsins.

Sendiráð Íslands í Kanada kynnti til leiks á dögunum nýjan kjörræðismann Íslands í Panama, en þar er um að ræða Sigrid Simons de Muller, sem lesa má nánar um hér.

Á dagskrá ráðherra í næstu viku er meðal annars ráðherrafundur NB8-ríkjanna.

Við segjum þetta gott í bili.

Góða helgi!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum