Hoppa yfir valmynd
25. júní 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 25. júní 2021

Við heilsum ykkur héðan af Rauðarárstígnum í dúndrandi stemningu enda tilkynnti ríkisstjórnin um afléttingu allra takmarkana á samkomum innanlands frá og með morgundeginum. Þar sem enginn föstudagspóstur kom út fyrir viku síðan förum við nú yfir það helsta sem hefur átt sér stað síðastliðnar tvær vikur í utanríkisþjónustunni.

Við hefjum leik á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins sem fór fram í Brussel á dögunum. Fundinn sóttu bæði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Til umfjöllunar á fundinum voru m.a. tillögur Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, sem miða að því að gera bandalagið enn betur í stakk búið til að takast á við öryggisáskoranir og -ógnir á næstu árum. 

„Mikil samstaða er um að ríkin þétti raðirnar og mæti þeim öryggisáskorunum sem við stöndum frammi fyrir í sameiningu. Þessi samstaða og eindregin skilaboð frá nýjum stjórnvöldum vestanhafs um stuðning þeirra við Atlantshafstengslin eru að mínu mati mikilvægustu skilaboðin af fundinum,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fundinn.

Í síðustu viku sótti Guðlaugur Þór einnig fjarfund þróunarmálaráðherra aðildarríkja þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD DAC) og ávarpaði alþjóðamálaráðstefnu sem Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytið og Norræna húsið, í samstarfi við Félag stjórnmálafræðinga, Stofnun Stjórnsýslufræða og stjórnmála og Vestnorræna ráðið, stóðu fyrir. Fjallað var um ávarp Guðlaugs Þórs á vef mbl.is.

Í lok síðustu viku greindi ráðuneytið frá niðurstöðum úr nýrri viðhorfskönnun um utanríkismál og alþjóðasamstarf sem Maskína vann fyrir utanríkisráðuneytið. Í henni kom m.a. fram að tvöfalt fleiri segjast þekkja vel til borgaraþjónustu utanríkisþjónustunnar nú en á fyrstu stigum heimsfaraldursins og allur þorri fólks segist mundu leita til hennar ef það lenti í vanda erlendis.

Af þessu tilefni stakk ráðherra niður penna og birtist grein hans, „Jákvæð alþjóðasamvinna“, í Fréttablaðinu á miðvikudag.

Guðlaugur Þór hóf vikuna sem nú er að klárast á því að framlengja stuðning Íslands við héraðsþróun í Mangochi-héraði í Malaví til næstu tveggja ára. Um er að ræða framlengingu á verkefnastoðinni „Mangochi Basic Services Programme II 2017-2021“ að upphæð sjö milljónum bandaríkjadala frá 1. júlí 2021 til loka mars 2023.

Í gær undirrituðu Guðlaugur Þór og Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands samstarfssamning um kynningu á íslenskri myndlist erlendis. Samningurinn er liður í því að efla menningarstarf á erlendri grundu og vekja athygli á íslenskri myndlist og menningararfi. Ráðherra fékk kynningu á starfsemi safnsins og helstu verkum sem þar eru til sýnis, einkum vídeoinnsetningu Ragnars Kjartanssonar sem ber heitið Sumarnótt.



Þá flutti ráðherra einnig ávarp á ráðherrafundi Sameinuðu þjóðanna um eflingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í tengslum við orkuskipti með jafnræði að leiðarljósi.

En þá út í heim.

Sendiskrifstofur okkar birtu að sjálfsögðu fjölmargar færslur á þjóðhátíðardaginn. Sendiráðið í Helsinki vakti athygli á „Takk Island!“-deginum sem haldinn er árlega í Litháen þar sem Ísland var fyrst ríkja til þess að viðurkenna sjálfstæði landsins. 

Í Kaupmannahöfn heimsóttu fjórðu bekkingar og kennarar þeirra úr skóla í Kaupmannahöfn sendiráðið. Stefanía Bjarnadóttir, menningar- og viðskiptafulltrúi sendiráðsins, sagði þeim frá starfi sendiráðins og húsinu sjálfu sem á sér merkilega sögu. 

Í Nuuk fundaði Þorbjörn Jónsson aðalræðismaður Íslands með starfsfólki NAPA um framtíðarsamstarfsmöguleika - þar á meðal hvernig hægt sé að vinna saman að vestnorræna deginum í september næstkomandi.

Í Osló hefur verið nóg um að vera. Í dag birti sendiráðið nýja og ítarlega viðskiptaáætlun. Fyrr í vikunni tók Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra svo á móti sendiherra Brasilíu þar sem henni var afhent afrit trúnaðarbréfs Enio Cordeiro sem sendiherra Brasilíu gagnvart Íslandi, með aðsetur í Osló. Þá bauð sendiráðið ræðismönnum Íslands í Noregi til samráðsfundar á Teams til að fara yfir málefni sendiráðsins, ræðisskrifstofanna, dagskrá haustsins, nýlega viðskiptahandbók, borgaraþjónustuverkefni, væntanlegar kosningar og margt annað er varðar hagsmunagæslu fyrir Ísland og Íslendinga í Noregi.

Í París afhenti Unnur Orradóttir-Ramette sendiherra Íslands trúnaðarbréf sitt sem sendiherra gagnvart Ítalíu, með aðsetur í París. Unnur afhenti Sergio Mattarella, forseta ítalska lýðveldisins, trúnaðarbréf sitt í Róm. Afhendingunni voru gerð góð skil á Instagram-reikningi ráðuneytisins.


Þá dró einnig til tíðinda á þeim vettvangi þar sem Lexía, ný íslensk-frönsk veforðabók, var tekin í gagnið á dögunum. Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands opnaði bókina og Roselyne Bachelot menningar- og samskiptamálaráðherra Frakklands og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fluttu ávörp við opnunina. Gerð orðabókarinnar á sér aðdraganda aftur til ársins 1983 þegar íslensk og frönsk stjórnvöld undirrituðu samkomulag um að efla samvinnu landanna á sviði menningar og vísinda m.a. með stuðningi við gerð fransk-íslenskrar og íslensk-franskrar orðabókar.

Í Brussel tók Kristján Andri Stefánsson sendiherra þátt í málstofu á European Research and Innovation Days í dag. Ráðstefnan er ein hin stærsta í Evrópu á sviði stefnumótunar í rannsóknum og nýsköpun.

Í færslu sendiráðs okkar í Malaví segir frá Mörthu nokkurri sem býr í sveitarfélaginu Lulanga, einu því afskekktasta í Mangochi-héraði, sem er samstarfshérað Íslands þar í landi. Martha fjárfesti nýlega í bættri salernisaðstöðu fyrir fjölskyldu sína en heilbrigðisfulltrúi í þorpinu hennar benti henni á hvar hægt væri að fá betri salerni á viðráðanlegu verði. Aðgangur að öruggi vatni og bætt hreinlætis- og salernisaðstaða er eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Í Tókýó óskaði Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra Íslands starfsbróður sínum Ryotaro Suzuki velgengni í starfi sendiherra Japans á Íslandi. Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson tók á móti Suzuki á dögunum og fékk afhent trúnaðarbréf. Sendiherrann kom einnig í utanríkisráðuneytið. 

Sendiráð okkar í Washington vakti svo athygli á jazzhátíð sem sendiráð Norðurlandanna standa að árlega. Hátíðin fer fram rafrænt í ár og á henni leikur tónlistarfólk frá Norðurlöndunum listir sínar.

Á dagskrá ráðherra í næstu viku er meðal annars fundur varnarmálaráðherra í norræna varnarsamstarfinu NORDEFCO. Fundurinn fer fram í Tuusula í Finnlandi.

Ekki var það fleira í bili. Góða helgi og njótið lífsins!

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum