Hoppa yfir valmynd
29. júní 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur á mánudegi 29. júní 2020

Heil og sæl.

Við heilsum í þetta sinn á fallegum og heitum mánudegi. Miklar annir síðustu viku kröfðust þess að hliðra þurfti föstudagspóstinum yfir helgi en hér birtist hann í öllu sínu veldi.

Við byrjum á því að óska Guðna Th. Jóhannessyni til hamingju með endurkjör sitt sem forseti Íslands. Kjördagur var á laugardag og hafa sendiskrifstofur okkar margar hverjar haft í nógu að snúast í kringum utankjörfundaratkvæðagreiðslu á síðustu vikum.

Dagskráin var þétt á föstudag en við hefjum leik á starfshópi utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um stuðning utanríkisþjónustunnar við útflutningsgreinar sem skilaði þá skýrslu sinni: Saman á útvelli – Framkvæmd utanríkisstefnu Íslands í kjölfar COVID-19. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, afhenti skýrsluna fulltrúum Samtaka atvinnulífsins, Viðskiptaráði Íslands og Íslandsstofu.

Ráðherra skipaði starfshópinn í byrjun maí til þess að móta tillögur að því hvernig utanríkisþjónustan geti betur stutt við atvinnulífið vegna efnahagslegra afleiðinga COVID-19 heimsfaraldursins. Starfshópurinn var skipaður þeim Auðunni Atlasyni sendiherra, Diljá Mist Einarsdóttur, aðstoðarmanni ráðherra, og Einari Gunnarssyni sendiherra. 
Samandregið kemst starfshópurinn að þeirri niðurstöðu að beita megi utanríkisþjónustunni með afgerandi hætti til aukins stuðnings íslenskum útflutningshagsmunum en um leið að leggja verði áframhaldandi rækt við aðkallandi úrlausnarefni á sviði alþjóðamála sem ætla má að muni magnast upp vegna COVID-19. Áhugasamir geta nálgast skýrsluna hér.

Sama dag var 75 ára afmæli stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna fagnað og af því tilefni fór fram hátíðarfundur í höfuðstöðvum samtakanna í New York. 
Fastafulltrúi Íslands, Jörundur Valtýsson, ávarpaði fundinn fyrir hönd Vesturlandahópsins, en Ísland gegnir formennsku í hópnum í júní.

Ávarpið má sjá hér að neðan.


Af sama tilefni sendi utanríkisráðherra afmæliskveðju sem sjá má hér.

Á föstudaginn tók ráðherra einnig þátt í fjarfundi bandalags ríkja til eflingar fjölþjóðakerfinu. Á fundinum ræddu utanríkisráðherrar fleiri en 50 ríkja, auk framkvæmdastjóra Alþjóðheilbrigðisstofnunarinnar og forseta samtakanna Blaðamenn án landamæra, leiðir til að efla fjölþjóðlega heilbrigðiskerfið og aðgerðir gegn upplýsingaóreiðu í tengslum við heimsfaraldur kórónaveiru. 

Fyrr í vikunni hittust svo utanríkisráðherrar Norðurlandanna á fjarfundi þar sem þeir byrjuðu á því að fagna kjöri Noregs til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Á fundinum var lögð áhersla á mikilvægi þess að Norðurlöndin hefðu þar setu til að geta stuðlað að framgangi þeirra grunngilda sem löndin standa fyrir eins og mannréttindamál. Á fundinum var vitanlega einnig rætt um COVID-19 en frá því að ráðherrarnir fimm hittust síðast hefur náðst umtalsverður árangur og veigamikil skref verið stigin til að lyfta takmörkunum á samskiptum fólks og opna landamæri ríkja fyrir ferðamönnum.

Í vikunni dró einnig til tíðinda hvað landamæraskimanir varðar en þann 1. júlí hefst gjaldtaka af komufarþegum vegna skimunar fyrir COVID-19 á landamærum. Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að gjaldið verði 11.000 kr. ef greitt er á staðnum en 9.000 kr. ef greitt er fyrirfram sem er nokkru lægra gjald en upphaflega var áætlað samkvæmt kostnaðarmati. Nýtt mat byggt á fenginni reynslu og breyttum forsendum leiðir í ljós að kostnaður við hvert sýni er að jafnaði lægri en ætlað var.

Í upphafi vikunnar var ferðaráðum íslenskra stjórnvalda breytt. Ekki er lengur talin ástæða til þess að vara við ónauðsynlegum ferðum til þeirra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins sem Íslendingar geta ferðast til án sérstakra skilyrða, þ.e.a.s. á þeim grundvelli að Íslendingar kunni að verða strandaglópar þar eða verða fyrir öðrum óþægindum vegna aðgerða stjórnvalda. Áfram er þó vísað á skilgreiningu sóttvarnarlæknis um áhættusvæði vegna smithættu. Þá er Íslendingum áfram ráðið frá ónauðsynlegum ferðum utan Evrópu vegna ferðatakmarkana og sóttvarnarákvæða sem þar kunna að vera í gildi.

Í síðustu viku var svo tilkynnt um að kafbátaeftirlitsæfingin Dynamic Mongoose 2020 yrði haldin hér á landi. Hefst hún í dag og mun standa yfir til 10. júlí en æfingin er haldin á vegum Atlantshafsbandalagsins.

Ef við færum okkur út fyrir landsteinana þá fór fram upphafsfundar árlegrar endurskoðunarráðstefnu ÖSE um öryggismál (ASRC). Þar ítrekaði Guðni Bragason fastafulltrúi Íslands gagnvart ÖSE stuðning Íslands við traustvekjandi aðgerðir á hernaðarsviðinu (CSBMs) og hvatti aðildarríki, til að framkvæma ákvæði samningsins um takmörkun hefðbundinna vopna í Evrópu (CFE) og fara að ákvæðum Samningsins um opna lofthelgi (OST).

Í Genf er lífið að færast í fyrra horf en á fimmtudaginn var þar haldinn fyrsti fundur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um ríkisstyrki í sjávarútvegi eftir COVID-19. Viðræðurnar hafa legið niðri síðan í febrúar vegna heimsfaraldursins en markmiðið er að ná samkomulagi fyrir lok árs þar sem tilteknar niðurgreiðslur í sjávarútvegi, sem stuðla að ofveiði verði bannaðar sem og niðurgreiðslur sem stuðla að ólöglegum, óskráðum og stjórnlausum fiskveiðum. Þá var í síðustu viku opnuð listasýning í Sameinuðu þjóðunum í Genf þar sem verk íslensku listakonunnar Gerðar Helgudóttur, Óþekkti pólitíski fanginn, er eitt lykilverka.

Sendiráðið í London lét ekki bilbug á sér finna þó Pride göngunni þar í borg hefði verið frestað vegna Covid. Norrænu sendiráðin tóku sig saman líkt og fyrri ár og vöktu athygli á réttindum LGBTQ+ fólks  í stuttu myndbandi á samfélagsmiðlum. 

Í frétt frá sendiskrifstofu okkar í Tókýó segir svo frá því að norræna nýsköpunarsetrið Nordic Innovation House Tokyo hafi tekið starfa í Japan. Nordic Innovation House er samstarfsverkefni Norðurlandanna og Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar (Nordic Innovation) – en stofnunin heyrir undir norrænu ráðherranefndina og hefur það hlutverk að auka samvinnu Norðurlanda á sviði nýsköpunar og viðskiptaþróunar. 
Nordic Innovation House Tokyo er ætlað að vera stökkpallur fyrir norræn sprota- og vaxtarfyrirtæki inn á markað í Japan. Í setrinu býðst fyrirtækjum og einstaklingum vinnuaðstaða, ráðgjöf og aðgangur að öflugu norrænu tengslaneti en það er Íslandsstofa sem fer með stjórn þátttöku Íslands í verkefninu.

Síðastliðin fjórtán ár hafa norrænu sendiráðin í Washington haldið hina svokölluðu Nordic Jazz hátíð þar sem fram koma allir helstu jazz-listamenn frá Íslandi, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Danmörku. Á því var engin breyting í ár ef frá er talin sú staðreynd að hátíðin fór fram með rafrænum hætti eins og svo margir aðrir viðburðir á tímum kórónaveirunnar. Píanóleikarinn Ingi Bjarni og kvintett hans var framlag Íslands á hátíðinni í ár og geta áhugasamir séð það sem fram fór hér. Í Washington hélt Bergdís Ellertsdóttir sendiherra einnig erindi um fyrir samtök Íslendingafélaga í Bandaríkjunum þar sem hún fjallaði um hlutverk sitt sem sendiherra Íslands í Bandaríkjunum.

Að lokum rifjum við upp frétt úr Heimsljósi í vikunni þar sem við sögðum frá þremur ungum læknanemum, Eygló Dögg Ólafsdóttur, Ingunni Haraldsdóttur og Snædísi Ólafsdóttur, sem kynntu þriðja árs verkefni sín í utanríkisráðuneytinu en þær dvöldu í Malaví yfir fjögurra vikna tímabil á fyrri hluta þessa árs. Verkefni þeirra sneru að því að skoða gæði ferla og heilbrigðisþjónustu á fæðingardeild við héraðssjúkrahúsið í Mangochi, samstarfshéraði Íslands í Malaví. Heilbrigðisyfirvöld í Mangochi héraði tóku vel í aðkomu nemanna þar sem ljóst var að gagnaöflun og rannsóknir á þessu sviði gætu nýst heilbrigðisyfirvöldum til að auka skilvirkni og bæta gæði heilbrigðisþjónustu sem veitt er á fæðingardeildinni og í ungbarnaverndinni.

Vikan fer af stað með krafti en í dag átti ráðherra samráðsfund með forystufólki úr atvinnulífinu þar sem rætt var um fríverslunarviðræður Íslands, Noregs og Liechtenstein við Bretland sem nú eru að hefjast. Samtök atvinnulífsins boðuðu til málstofunnar að ósk utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Þá hitti ráðherrann utanríkisráðherra Færeyja sem staddur er hér á landi í einkaheimsókn. Hins vegar eru rólegheit framundan þar sem ráðherrann og stór hluti starfsfólks ætlar sér að vera í fríi í júlí og verður þetta því síðasti föstudagspóstur fyrir sumarfrí.

Sólskinskveðjur,

upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum