Hoppa yfir valmynd
1. mars 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 1. mars 2024

Heil og sæl, 

Marsmánuður hefst á föstudegi þetta árið. Síðasta vika febrúarmánaðar var viðburðarrík. Við höfðum aukadag upp á að hlaupa og nýttum hann vel. 

Síðastliðinn laugardag voru liðin tvö ár frá innrás Rússlands í Úkraínu. Á þessum tímamótum var samþykkt þingsályktunartillaga að stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu til næstu fimm ára. 

„Í dag eru liðin tvö ár frá upphafi ólöglegrar og tilefnislausrar allsherjarinnrásar Rússa í Úkraínu. Innrásarstríðið er ein alvarlegasta öryggisógn sem steðjað hefur að Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Langtímaáætlun í þessum efnum mun marka tímamót sem sýna svo ekki verður um villst að okkur er alvara með að styðja baráttu úkraínsku þjóðarinnar eins lengi og þarf,“ sagði Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra af tilefninu. 

Úkraínska fánanum var flaggað víða af tilefninu. Meðal annars hjá aðalræðisskrifstofu okkar í Winnipeg.

Fulltrúar sendiráðs Íslands í Washington D.C. mættu á fjölmennan samstöðufund sem haldinn var til stuðnings Úkraínu í tilefni tímamótanna.

Ráðherravika 55. lotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna fór fram í Genf í vikunni. Aðalframkvæmdastjóri og mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna ávörpuðu ráðið við upphaf lotunnar í vikunni. Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra flutti ræðu Íslands í gegnum fjarfundarbúnað.

Málefni dvalarleyfishafa á Gaza voru til umræðu á símafundi sem Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra átti með Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels, síðdegis á miðvikudag. Þar óskaði utanríkisráðherra liðsinnis um afgreiðslu á lista yfir dvalarleyfishafa á Gaza, en erindinu var vel tekið af hálfu ísraelska ráðherrans. Í símtalinu ítrekaði ráðherra afstöðu Íslands um nauðsyn vopnahlés af mannúðarástæðum, virðingu við alþjóðalög, lausn gísla og óheft aðgengi mannúðaraðstoðar til óbreyttra borgara.

Upplýsingum um framvindu málsins verður áfram deilt á vef utanríkisráðuneytisins.

Utanríkisráðuneytið hélt í vikunni upplýsingafund með Almannavörnum fyrir erlend sendiráð á Íslandi vegna eldvirkninnar á Reykjanesskaga. Oftar en ekki leita erlendir ferðmenn á náðir sinna sendiráða til að fá svör í óvissuástandi og því er mikilvægt að þau séu vel upplýst.

Á þriðjudag undirrituðu íslensk stjórnvöld nýjan samstarfssamning um stuðning Íslands við Alþjóðaráð Rauða krossins (International Committee of the Red Cross, ICRC) til næstu þriggja ára. Anna Jóhannsdóttir, staðgengill ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, undirritaði samninginn fyrir hönd Íslands ásamt Robert Mardini, framkvæmdastjóra ICRC. Samkvæmt samningnum munu framlög íslenskra stjórnvalda til ICRC nema 30 milljónum króna árlega á tímabilinu 2024-2026.

Í Berlín heillaði tónlistarkonan Laufey alla upp úr skónum. María Erla Marelsdóttir sendiherra Íslands í Þýskalandi sótti tónleikana og nýtti tækifærið til að heilsa upp á þessa góðu tónlistarkonu sem ber hróður Íslands víða og óska henni til hamingju með velgengnina sem hún hefur notið undanfarið. 

Í sendiráðsbústaðnum í Berlín var myndlistarsýning Önnu Rúnar Tryggvadóttur "Chromatic" opnuð með pompi og prakt. María Erla Marelsdóttir sendiherra tók vel á móti gestum og listamanninum sjálfum að sjálfsögðu. 

Ásmundur Einar Daðason, ráðherra mennta- og barnamála heimsótti Vilníus í vikunni þar sem hann ræddi við kollega um forvarnir gegn ofbeldi gagnvart börnum. Harald Aspelund sendiherra Íslands í Helsinki fylgdi honum og sendiskrifstofa Íslands í Helsinki aðstoðaði við skipulag heimsóknarinnar.

Tvær listsýningar voru opnaðar í sendiráðsbústaðnum í Helsinki. Þær báru yfirskriftina DEATH DISCO og 1,11111% PART eftir íslensku listamennina Louise Harris and Gunndísi Ýr Finnbogadótturr.

Harald Aspelund sendiherra Íslands í Finnlandi þakkaði fráfarandi forseta Sauli Niinistö fyrir farsælt samstarf við Ísland í gegnum árin

og óskaði nýjum forseta, þeim þrettánda í sögu finnska lýðveldisins, Alexander Stubb velfarnaðar í embættinu. 

Flaggstöng sem tengist upphafi okkar góða lýðveldis rataði inn til umhverfissamtakanna Green Ways í Reading í Bretlandi. Sjálfboðaliði í samtökunum lagðist í smá rannsóknarvinnu og komst að uppruna stangarinnar. Starfsfólk sendiráðs Íslands í London tók fagnandi á móti stönginni sem fær nú sinn sess í sendiráðinu. 

Órofa tengsl landafræði og öryggismála fyrr og síðar voru umfjöllunarefni málstofu sem sendiráð Íslands í London bauð til í RUSI (Royal Services United Institute) sem er ein virtasta hugveita í Bretlandi á sviði öryggis- og varnarmála. Um sjötíu sérfræðingar komu saman í húsakynnum RUSI við Whitehall í miðborg London og hlýddu á íslenska og breska frummælendur sem gerðu grein fyrir hernaðarlegu mikilvægi Íslands í síðari heimsstyrjöld og kalda stríðinu og settu söguna í samhengi við núverandi ástand og horfur á norðurslóðum. Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson setti málstofuna. 

Jóhanna Jónsdóttir, staðgengill sendiherra í London var viðstödd árlega verðlaunahafhendingu á Fish and Chips Awards. Seafood from Iceland var meðal styrktaraðila hátíðarinnar og veittu Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, og Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, verðlaun fyrir besta Fish and Chips veitingastaðinn í Bretlandi þar sem heppnir vinningshafar fengu ferð til Íslands. Þá var íslenski Fish and Chips vagninn tilnefndur til verðlauna sem besti erlendi Fish and Chips staðurinn. 

Í tengslum við Raisina Dialogue sem fór fram í Indlandi og greint var frá í síðasta föstudagspósti tók Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri þátt í pallborðsumræðu og átti fjölmarga hliðarfundi. Raisina Dialogue er stærsta ráðstefna Indlands á sviði alþjóðastjórnmála og var hún haldin í níunda skipti á þessu ári, í fyrsta sinn með þátttöku Íslands. Árlega sækir ráðstefnuna mikill fjöldi ráðamanna og voru þátttakendur frá 115 löndum að þessu sinni.

Hlynur Guðjónsson sendiherra Íslands í Kanada og norrænir kollegar hans luku ferð sinni til Saskatchewan og Manitoba sem greint var frá í síðsta föstudagspósti með áhugaverðri heimsókn til Churchill, bæjar í norður Manitoba sem liggur við flóa sem er ljóðelskum Íslendingum að góðu kunnur.

Johnson Hall í Gimli verður vettvangur tónleika í boði aðalræðisskrifstofu Íslands í Winnipeg þann 5. mars næstkomandi. Þar stígur á stokk lagahöfundurinn, píanóleikarinn og söngkonan Sigurdís sem gert hefur garðinn frægan undanfarið. Meðal annars með flutningi sínum á laginu "I Get Along Without You Very Well" sem hefur verið streymt yfir 100 þúsund sinnum á Spotify. 

Ari Eldjárn kemur fram í Osló og Bergen um miðjan mánuðinn

og Skálmöld í Stokkhólmi.

Starfsfólk sendiráðs Íslands í Osló hvetur fólk til að kíkja í heimsókn í sendiráðið og endurnýja vegabréfin fyrir ferðalög um páskana. Til að mæta eftirspurn hefur mörgum tímum verið bætt við á næstu vikum.

Íslenskum jazz var gefinn byr undir báða vængi á japönskum ljósvakamiðlum með dyggri aðstoð starfsmanns sendiráðs Íslands í Tókýó.

Íslenskri tungu sömuleiðis í nýrri bók sem ber titilinn "Wild Words". Þar er merkingu íslenskra orða, einkum um náttúru og veðufar (ásamt orða úr öðrum tungumálum) gerð skil í myndum og máli.

Vegna samvinnu japanska og íslenska viðskiptaráðsins verða vinnuheimsóknir ungs fólks nú auðveldari í framkvæmd.

Konudagurinn var síðasta sunnudag. Sendiráð Íslands í Póllandi minntist af því tilefni nokkurra magnaðra íslenskra kvenna.Þekkið þið nöfn þeirra?

Fullveldi var til umfjöllunar á Safni sjálfstæðis í Varsjá. Starfsmaður sendiráðs Íslands í Póllandi, Emiliana Konopka fræddi gesti um leið Íslands til fullveldis.

Þórir Ibsen sendiherra heimsótti Kvennasamband Kína. Hann ræddi samstarfssamning ríkjanna við Huang Shu, varaframkvæmdastjóra sambandsins og mögulegt samstarfsverkefni í tilefni af því að senn eru 30 ár liðin frá kvennaráðstefnu SÞ í Peking 1995. Þá ræddu þau einnig Vigdísarverðlaunin fyri valdeflingu kvenna.

Þórir átti jafnframt viðal við sjónvarpsstöðina CGTN um tvíhliða samskipti Íslands og Kína og endurkomu kínverskra ferðamanna til Íslands.

Sendiherra Íslands í Washington D.C. Bergdís Ellertsdóttir tók á móti hópi ungra kvenna sem eru þátttakendur í Women Leaders in Energy and Climate Fellowship Progam á vegum Atlantic Council Golbal Energy Center og átti samtal við þær um orku- og jafnréttismál.

Bergdís heimsótti jafnframt Princeton háskóla í vikunni þar sem hún hitti námsmenn, kennara og forsvarsmenn háskólans og fékk leiðsögn um háskólasvæðið. Þar stýrði hún hringborðsumræðum um orku- og loftslagsmál og norðurslóða- og öryggismál ásamt því að eiga samtöl við minni nemendahópa. 

Staðgengill sendiherra Íslands í Washington, Davíð Logi Sigurðsson var viðstaddur sérstaka sýningu í bandaríska utanríkisráðuneytinu í vikunni á kvikmyndinni 20 Days in Mariupol sem tilnefnd er til Óskarsverðlauna sem besta heimildarmyndin. Heimildafréttamaðurinn Mstuslav Chernov var viðstaddur sýninguna ásamt mörgum háttsettum embættismönnum úr utanríkisráðuneytinu. 

Við ljúkum þessum föstudagspósti á fréttum af íslensku verkefni á vegum SOS Barnaþorpanna á Íslandi gegn kynferðislegri misnotkun á börnum í Tógó. Verkefnið hef­ur náð til 257 stúlkna sem eru þolendur kynferðisbrota, skilað fjölgun á slíkum málum á borði lögreglu og eflt fræðslu til kennara, nemenda og almennings.

Nánar má lesa um verkefnið í Heimsljósi, fréttaveitu okkar um þróunar- og mannúðarmál.

Þá er ekkert eftir annað en að óska góðrar helgar!

Upplýsingadeild

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum