Hoppa yfir valmynd
21. desember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Gott að eldast – aðgerðaáætlun komin í samráðsgátt

Gott að eldast – drög að aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk – hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Markmiðið með áætluninni er að ná að flétta saman þeirri þjónustu sem snýr að eldra fólki, hvort sem um ræðir heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu – með það að leiðarljósi að það eigi að vera gott að eldast á Íslandi. Grunnhugmyndin er að þjónustan við eldra fólk sé veitt þegar hennar er þörf, á forsendum fólksins sjálfs og á réttu þjónustustigi. 

Aðgerðaáætluninni er skipt í fimm þætti: Samþættingu þjónustu, virkni, upplýsingu, þróun og heimili. Meginþungi aðgerða liggur í þróunarverkefnum þar sem samþætting og nýsköpun auk prófana munu nýtast til ákvarðanatöku um framtíðarskipulag þjónustu við elda fólk.

Þar að auki verður ráðist í aðgerðir sem hverfast um sveigjanleika í þjónustu, heilbrigða öldrun með alhliða heilsueflingu, og betri aðgang að ráðgjöf og upplýsingum.

Heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk er eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar líkt og fram kemur í stjórnarsáttmála. Verkefnastjórn sem skipuð var síðastliðið sumar hefur unnið að mótun aðgerðaáætlunarinnar í samvinnu við haghafa. Mörg hundruð manns fylgdust síðan með opnum kynningarfundi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Willum Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra, sem fram fór nýverið um aðgerðaáætlunina. Nafn verkefnisins, Gott að eldast, var þar jafnframt kynnt. Í umræðum á fundinum kom fram mikil ánægja með aðgerðirnar sem og þá áherslu sem stjórnvöld hafa nú sett á málaflokkinn.

Aðgerðaáætlunin er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda fram til 23. janúar 2023. Að loknu samráðsferli verður hún lögð fram sem tillaga til þingsályktunar á vorþingi 2023.

  • Gott að eldast: Úr kynningarbæklingi um verkefnið. - mynd
  • Gott að eldast: Úr kynningarbæklingi um verkefnið. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum