Hoppa yfir valmynd
23. október 2014 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að átta reglugerðum um flugleiðsögu til umsagnar

Innanríkisráðuneytið er nú með til umsagnar drög að átta reglugerðum vegna innleiðingar á svokölluðum SES II pakka sem varðar samræmt evrópskt loftrými og tekinn hefur verið upp í EES-samninginn með þeim aðlögunum sem af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar leiðir. Reglugerðirnar varða allar hin ýmsu svið flugleiðsögu og atriði sem tengjast henni svo sem frammistöðukerfi, gjaldtöku og fleira.

Með gildistöku SES II pakkans verður sett upp stjórnunar- og eftirlitskerfi sem setur markmið um hagræðingu fyrir einstök flugstjórnarsvæði. Meðal annars eru sett nánari skilyrði um þátttöku í starfrænum loftrýmisumdæmum (functional airspace blocks, FAB). Íslensk stjórnvöld hafa fengið viðurkennt að fyrirkomulag það sem í gildi er hér á landi feli í sér ígildi starfræns loftrýmisumdæmis og því er ekki þörf á að mynda starfrænt loftrýmisumdæmi með öðrum ríkjum á EES-svæðinu.

Umsagnir um drögin óskast sendar á netfangið [email protected] eigi síðar en 8. nóvember næstkomandi.

Hér á eftir fara drög að umræddum reglugerðum í tengslum við ofangreinda innleiðingu.

Reglugerð um breytingar á reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu

Tilgangurinn með reglugerðinni er innleiðing reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1070/2009 frá 21. október 2009 um breytingu á reglugerðum (EB) nr. 549/2004, (EB) nr. 550/2004, (EB) nr. 551/2004 og (EB) nr. 552/2004 til að bæta frammistöðu og sjálfbærni evrópska flugkerfisins.

Markmið reglugerðar (ESB) nr. 1070/2009 er að breyta ESB reglugerðum um samevrópska loftrýmið til að bæta núverandi öryggisstaðla í flugumferð og bæta heildarskilvirkni í rekstrarstjórnun flugumferðar (ATM) og flugleiðsöguþjónustu (ANS) fyrir almenna flugumferð í Evrópu. Í þeim tilgangi er nauðsynlegt að samræma og samhæfa flugleiðsöguþjónustu og koma á svokölluðum starfrænum loftrýmisumdæmum (FAB) milli aðildarríkja. Krafan um FAB var áður í loftrýmisreglugerðinni (EB) nr. 551/2004 en hefur verið færð yfir í þjónustureglugerðina (EB) nr. 550/2004 og kröfur um FAB þar með orðnar gildandi fyrir Ísland og enn fremur ítarlegri með þessari breytingu.

Reglugerð um frammistöðukerfi fyrir flugleiðsöguþjónustu og starfsemi neta

Reglugerðin felur í sér innleiðingu á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 691/2010 frá 29. júlí 2010 um frammistöðukerfi fyrir flugleiðsöguþjónustu og starfsemi neta og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2096/2005 um sameiginlegar kröfur vegna veitingar þjónustu á sviði flugleiðsögu, framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1216/2011 frá 24. nóvember 2011 um breytingu á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 691/2010 um frammistöðukerfi fyrir flugleiðsöguþjónustu og starfsemi neta og reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 677/2011 frá 7. júlí 2011 um nákvæmar reglur fyrir innleiðingu á netaðgerðum rekstrarstjórnunar flugumferðar og um breytingar á reglugerð nr. 691/2010.

Reglugerð um öryggiseftirlit með rekstrarstjórnun flugumferðar og flugleiðsöguþjónustu

Reglugerðin felur í sér innleiðingu á framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1034/2011 frá 17. október 2011 um öryggiseftirlit með rekstrarstjórnun flugumferðar og flugleiðsöguþjónustu og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 691/2010.

Reglugerð um breytingar á reglugerð um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu

Reglugerðin felur í sér innleiðingu á framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr.1035/2011 frá 17. október 2011 um sameiginlegar kröfur vegna veitingar flugleiðsöguþjónustu og um breytingu á reglugerðum (EB) nr. 482/2008 og (ESB) nr. 691/2010.

Reglugerð um breytingar á reglugerð nr. 770/2010 um flugreglur   

Tilgangurinn með reglugerðinni er innleiðing reglugerðar (ESB) nr. 923/2012 frá 26. september 2012 um sameiginlegar flugreglur og rekstrarákvæði varðandi þjónustu og verklagsreglur fyrir flugleiðsögu og um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) nr. 1035/2011 og reglugerðum (EB) nr. 1265/2007, (EB) nr. 1794/2006, (EB) nr. 730/2006, (EB) nr. 1033/2006 og (ESB) nr. 255/2010.

Rétt þykir að nota tækifærið og uppfæra reglugerð nr. 770/2010 til samræmis við breytingar sem gerðar hafa verið á ICAO viðauka 2 sem innleiddur var með reglugerð nr. 770/2010. Er hér annars vegar    um að ræða breytingu 44 frá 25. febrúar 2013 (Amendment 44 to the International Standards, Rules of the Air) og hins vegar breytingu 43 frá 7. mars 2012. Þar sem ágreiningur stendur yfir hjá ESB um innleiðingu breytingar 43 og þar sem íslensk stjórnvöld eru ekki fyllilega búin undir framkvæmd hennar sem stendur hefur Samgöngustofa ákveðið að bíða með efnislega innleiðingu hennar þar til fyrir liggur nánar um afstöðu ESB til hennar. Tilvísun til breytingar 43 er því sleppt í innleiðingarákvæðum reglugerðardraganna, þó nokkrar minniháttar breytingar séu gerðar á reglugerðinni til samræmis við     hana.

Markmið reglugerðar (ESB) nr. 923/2012 er að samræma innleiðingu og framkvæmd aðildarríkja ESB á ICAO viðauka 2 og tilteknum ákvæðum í viðauka 11, og að setja samræmdar flugreglur og rekstrarákvæði vegna þjónustu og verklags í flugleiðsögu. Þó er settur fyrirvari varðandi skyldur og réttindi ríkja yfir úthafinu (e. the high seas), sbr. 12. grein Chicago sáttmálans. Gildissvið reglugerðarinnar er hið sama og gildissvið reglugerðar (EB) nr. 551/2004, þ.e. EUR og AFI svæði ICAO og gildir hún því ekki í loftrými Íslands, þ.e. á NAT svæðinu.

Reglugerð um kröfur um afköst og rekstrarsamhæfi kögunar í samevrópska loftrýminu

Reglugerðin felur í sér innleiðingu á framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1207/2011 frá 22. nóvember 2011 um kröfur um afköst og rekstrarsamhæfi kögunar í samevrópska loftrýminu.

Reglugerð um sameiginlegt gjaldtökukerfi fyrir flugleiðsöguþjónustu

Reglugerðin felur í sér innleiðingu á framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 391/2013 frá 3. maí 2013 um sameiginlegt gjaldtökukerfi fyrir flugleiðsöguþjónustu.

Reglugerð um skilgreiningu sameiginlegra verkefna, um ákvörðun stjórnunarhátta og um tilgreiningu hvata sem styðja við framkvæmd evrópsku mynsturáætlunarinnar um rekstrarstjórnun flugumferðar

Reglugerðin felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) nr. 409/2013 frá 3. maí 2013 um skilgreiningu sameiginlegra verkefna, um ákvörðun stjórnunarhátta og um tilgreiningu hvata sem styðja við framkvæmd evrópsku mynsturáætlunarinnar um rekstrarstjórnun flugumferðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira