Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Áslaug Arna kynnti sér árangursmiðaða stefnumörkun í Singapúr

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ásamt Sim Ann, ráðherra uppbyggingar og innviða og sérstökum utanríkisráðherra Singapúr. - mynd

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fundaði með fjórum ráðherrum í Singapúr í nýafstaðinni ferð sinni til landsins ásamt íslenskri sendinefnd. Markmið ferðarinnar var meðal annars að kynnast áherslum singapúrskra stjórnvalda á sviði rannsókna og nýsköpunar og að auka tengsla landanna á því sviði. 

Fundum Áslaugar Örnu með singapúrsku ráðherrunum var ætlað að kynna þær leiðir sem stjórnvöld þar í landi hafa farið til að ná þeim mikla árangri á sviði rannsókna, þróunar og háskóla sem Singapúr hefur náð á undanförnum árum. Þá eru stjórnvöld í Singapúr einnig mjög áhugasöm um Norræna módelið um velferðarríki með ríkan hagvöxt, sjálfbæra orku og leiðir í átt að auknu jafnrétti. Ráðherrar beggja ríkja áttu því innihaldsríka fundi þar sem báðir aðilar bæði miðluðu visku sinni og samfélagslausnum og samtímis lærðu af hinum.

Langtímastefnumörkun stjórnvalda leggur línurnar fyrir samfélagið í heild

Singapúr er þekkt fyrir langtímastefnumörkun í svokölluðum Hvítbókum. Til að mynda var nýsköpunarstefna landsins mótuð fyrir um áratug síðan og blómstrar nú nýsköpun í landinu sem aldrei fyrr. Umgjörð stefnumótunar stjórnvalda í Singapúr þegar kemur að rannsóknum, nýsköpun og uppbyggingu fyrirtækja hefur meðal annars leitt af sér sérstakt ráð sem tileinkað er þeim málefnum og kallast RIE. Starfsemi RIE er að sögn ráðherranna kjarni í uppbyggingu hins hugvitsdrifna samfélags og hagkerfis sem Singapúr er í dag. Starfsemi RIE skiptist í fjögur málefnasvið sem eru á marga vegu keimlík áherslum hins íslenska háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis:

  1. Framleiðsla, viðskipti og samgöngur: Markmið stjórnvalda er að Singapúr sé alþjóðleg miðstöð viðskipta og nýsköpunar á sviði framleiðslu og samgangna.

  1. Snjallar lausnir og sjálfbærni í borgarskipulagi: Markmið um þróun borgarskipulags framtíðarinnar með áherslu á sjálfbærni og lífvænlegt samfélag. 

  1. Heilsa og færni: Markmið um nýsköpun í heilbrigðistækni og -þjónustu, bæði í þágu einstaklinga og samfélags. 

  1. Stafræn væðing og upplýsingasamfélag: Markmið um öfluga stafræna væðingu í samfélaginu og umgjörð á því sviði. 

Málefnasviðin fjögur og undirstöður þeirra voru gegnumgangandi í öllum kynningum ráðamanna í Singapúr og ljóst að áherslur stjórnvalda eru skýrar og þeim fylgt eftir í hvívetna í öllum háskólum, stofnunum og fyrirtækjum í landinu. Þannig var mikill samhljómur milli ráðherranna sem fundað var með um að Singapúr væri lítil eyja, ekki svo rík af náttúruauðlindum en þeim mun ríkari af hugviti og þekkingu enda landið komið hvað lengst þjóða í að skapa þekkingarsamfélag og því margt sem læra má af þeirra vegferð á því sviði. 

Öll skólastig samfellt kerfi í upbbyggingu þekkingarsamfélags

Á fundi með Chan Chun Sing, menntamálaráðherra Singapúr, ræddu þau Áslaug Arna m.a. um áherslu á alþjóðlega hugsun nemenda en það er skoðun Sing að samkeppni háskóla fari ekki fram innanlands heldur fyrst og fremst á alþjóðlegum vettvangi. Sem liður í uppbyggingu þekkingarsamfélags er litið á öll skólastig sem samfellt kerfi til uppbyggingar þekkingar og færni og til að undirbúa einstaklinga fyrir áskoranir og tækifæri framtíðarinnar með nútímalegum kennsluaðferðum. Þá er mikil áhersla lögð á símenntun (e. Life-long learning) og að sífellt sé hægt að bæta við sig þekkingu og færni í námi og starfi. Í samfloti við stefnur stjórnvalda er kennsla stefnumiðuð og sérstök áhersla lögð á tæknigreinar og aðrar greinar þar sem samfélagið kallar á aukna þekkingu. 

Alþjóðlegir sérfræðingar mikilvægir litlum þjóðum

Dr. Tan See Leng, ráðherra viðskipta og iðnaðar í Singapúr, ræddi við Áslaugu Örnu um yfirfærslu þekkingar frá vísindum til hagnýtingar. Í því skyni var rætt um RNA rannsóknir í þeim tilgangi að þróa bóluefni gegn krabbameini en rannsóknaáherslur færðust, líkt og annars staðar, að mestu leyti yfir á Covid rannsóknir í heimsfaraldri. RNA rannsóknum hefur þó verið haldið áfram af fullum krafti í samstarfi við A* Star sem er er sérstök stofnun fyrir vísindi, tækni og rannsóknir í Singapúr sem heyrir undir ráðuneyti Leng. Mannauður heyrir einnig undir ráðuneytið og áttu Leng og Áslaug Arna gott samtal um mikilvægi þess fyrir litla þjóð að laða að erlenda þekkingu og mannauð. „Be a good home away from home,“ er sýn Leng en meðal þess sem singapúrsk stjórnvöld leggja áherslu á þegar kemur að því að laða að alþjóðlega sérfræðinga er að samþykktarferli fyrir umsóknir gangi hratt fyrir sig og að flestar séu afgreiddar innan 10 daga. 

Fjölmörg tækifæri til samstarfs í menntun, nýsköpun og rannsóknum

Auk þess að funda með ráðherrum og kynnast hinum ýmsu háskóla-, rannsókna- og nýsköpunarstofnunum í Singapúr tók Áslaug Arna þátt í pallborðsumræðum á She Loves Tech ráðstefnunni sem er stærsta tækniráðstefna kvenna í Asíu og haldin var í Singapúr á meðan á heimsókn sendinefndar stóð. Ásamt Áslaugu Örnu í pallborðsumræðum var Sim Ann, ráðherra uppbyggingar og innviða og sérstakur utanríkisráðherra, og snerust umræður þar um STEAM greinar og hlut kvenna í tækni. Í kjölfar ráðstefnunnar áttu ráðherrarnir tveir innihaldsríkan fund um skýr áherslumál og langtímastefnu í nýsköpunarmálum. Þá var farið yfir ýmis mál sem Ísland og Singapúr eiga sameiginlegt, svo sem áherslu á menntun, sjálfbærni og nýsköpun og ljóst að þar eru mikil tækifæri til frekara samstarfs landanna.

Áslaug Arna hitti einnig Josephine Teo, ráðherra samskipta- og upplýsingamála, netöryggis og snjallvæðingar. Þar var rætt um tækifæri í stafrænum lausnum en verkefnið Digital Singapore hefur náð miklum árangri og situr Singapúr í efsta sæti lista yfir snjallvæddustu borgir heims. Þá er landið einnig í fremstu röð þegar kemur að gervigreind og geimvísindum sem bæði heyrir einnig undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið. 

Heimsókn íslensku sendinefndarinnar vakti athygli í Singapúr en ráðherra talaði við Channel News Asia um nýsköpun og sjálfbærni á Íslandi og ræddi einnig við blaðamann The Straits Times um heimsóknina og markmið hennar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum