Hoppa yfir valmynd
30. september 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 30. september 2022

Heil og sæl.

Við heilsum ykkur héðan af Rauðarárstígnum á föstudegi eftir annasama daga þar sem starfsfólk ráðuneytisins flutti á milli húsa og hæða hér í Reykjavík og fékk auk þess fréttir af framtíðarhúsnæði og færum ykkur það helsta sem var á dagskrá í vikunni.

Ein af helstu fréttum vikunnar voru skemmdarverk sem unnin voru á gasleiðslum í Eystrasalti í vikunni. Spellvirkin voru meginefni fjarfundar varnarmálaráðherra Norðurlandanna sem fram fór í dag á vettvangi norræna varnarsamstarfsins (NORDEFCO). Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók þátt í fundinum. Í vikunni ræddi hún málið við RÚV

„Þetta er vissulega grafalvarlegt mál. Við fylgjumst grannt með. Við erum í samskiptum bæði við utanríkisráðuneyti Norðurlanda,“ sagði ráðherra en hún tjáði sig einnig um málið á Twitter.

Á þeim vettangi sagðist hún einnig fordæma ólögmætar „kosningar“ íbúa á fjórum herteknum svæðum í Úkraínu sem rússneskir ráðamenn stóðu að en Vladimir Pútín Rússlandsforseti undirritaði í dag formlega tilskipun um innlimum héraðanna Donetsk, Lúhansk, Kerson og Saporisjía.

Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins afhjúpaði á miðvikudag minnisvarða um samskipti Íslands og Eistlands í eistneska utanríkisráðuneytinu. Minnisvarðinn var settur upp í tilefni af því að þrír áratugir eru liðnir frá því að Ísland varð fyrst allra ríkja til að viðurkenna endurreisn sjálfstæðis Eistlands.

Hvað sendiskrifstofur okkar varðar hefjum við leik í New York, nánar tiltekið á aðalræðisskrifstofu Íslands þar í borg. Nýju hlaðvarpi aðalræðisskrifstofunnar í samvinnu við Amerísk-íslenska viðskiptaráðið, var hleypt af stokkunum í gær og ber það heitið Icelandic voices/American accent. Þar ræða Íslendingar sem hafa gert það gott vestanhafs við Helga Steinar Gunnlaugsson, um ævi sína og störf á léttum nótum. Hér er á ferðinni stórskemmtilegt framtak aðalræðisskrifstofunnar og við hvetjum ykkur öll til að hlusta.

Harald Aspelund sendiherra í Finnlandi afhenti í vikunni Egils Levits forseta Lettlands trúnaðarbréf sitt við hátíðlega athöfn í Riga. Á fundi eftir afhendinguna voru traust samskipti þjóðanna rædd og þakkaði forsetinn Íslandi fyrir að viðurkenna sjálfstæðið fyrst allra. Hann sagði að þakklætið væri ennþá ofarlega í huga almennings, þremur áratugum síðar. Nánar hér.

Í Brussel sótti Kristján Andri Stefánsson sendiherra ráðstefnu um heimskautasvæðin, 2022 Polar Symposium sem haldin var af Egmont Institute

Í Kaupmannahöfn tók sendiráðið á móti Rótarýklúbbi Amager síðasta þriðjudag. Helga Hauksdóttir, sendiherra og Katrín Ósk Ásgeirsdóttir, starfsnemi kynntu fyrir þeim starfsemi, sögu og þjónustu sendiráðsins.

Í Nýju Delí bárust skemmtilegar fréttir af sendiráðsstarfsmanninum Priyanka Gupta. Hún krafðist þess að börn þar í landi gætu borið nafn móður sinnar í vegabréfi og á öðrum opinberum pappríum. Barátta hennar skilaði góðum árangri eins og lesa má nánar um hér í stuttum mola frá sendiráðinu sem vísar á ítarlegri blaðagrein.

Starfsfólk aðalræðisskrifstofu Íslands í Nuuk heimsóttu Gujo Thorsteinsson og Kofoeds-skólann í vikunni og fékk að kynnast því magnaða starfi sem unnið er með heimilislausum og félagslega einangruðum í Nuuk.

Í Osló fékk sendiráðið heimsókn frá allsherjar- og menntanefnd Alþingis.

Á dögunum fór fram hin árlega Íslandshátíð (fr. la Fête des Islandais) í Gravelines í norðurhluta Frakklands. Unnur Orradóttir sendiherra í París sótti hátíðina í ár ásamt fulltrúum sveitarfélagsins Fjarðabyggðar. Tengsl þessa svæðis í Frakklandi við Fáskrúðsfjörð eiga sér langar rætur en fjörðurinn var einn helsti viðkomustaðir franskra sjónmanna á Íslandsmiðum á árum áður.

Í Svþjóð bauð sendiráðið í Stokkhólmi til móttöku í íslenska básnum á bókamessunni í Gautaborg sem fram fór 22.-25. september.

Sextándi fundur samstarfsnefndar um Hoyvíkursamninginn fór fram í Þórshöfn 29. september. Á dagskrá fundarins voru ýmis mál, einkum hvað varðar almenn milliríkjaviðskipti með landbúnaðarvörur, en ekki hafa verið neinir hnökrar á innleiðingu samningsins á síðustu árum.

Í Þýskalandi tóku sendiherra og kjörræðismaður Íslands í Frankfurt þátt í sameiginlegum fundum fulltrúa NB8-ríkjanna með ráðuneytisstjóra fyrir Evrópumál hjá sambandslandinu Hessen og borgarstjóra Frankfurt. Þá tóku þeir þátt í ráðstefnu NB8 Forum um orkuöryggi og hlýnun jarðar sem skipulögð var af kjörræðismönnum NB8-ríkjanna í Frankfurt.

 

Þá fundaði María Erla Marelsdóttir sendiherra með yfirborgarstjóra Oldenburg. Á fundinum voru samskipti Íslands og sambandslandsins Neðra-Saxlands (þ. Niedersachsen) til umræðu ásamt menningarhátíð tileinkaðri Íslandi sem haldin er í Oldenburg. Setning hennar fór fram í gær og ávarpaði sendiherra meðal annars gesti.

Sendiráð okkar í Washington gerði svo ráðstefnunni Our Climate Future – U.S. – Iceland Clean Energy Summit góð skil á Facebook-síðu sinni en hún fór fram í síðustu viku.

Nefndarstörf í Sameinuðu þjóðunum eru nú komin á fullan skrið eftir líflega ráðherraviku allsherjarþingsins.

Frá Montreal í Kanada bárust þau tíðindi að Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefði hitt samgönguráðherra Bandaríkjanna, Pete Buttigieg, ásamt Hlyni Guðjónssyni sendiherra Íslands í Ottawa í tengslum við þing Alþjóðaflugmálastofnunarinnar í Montreal.

Þar í landi er menningarhátíðin Nordic Bridges auðvitað í fullum gangi.

Ragnhildur Arnljótsdóttir sendiherra stýrði á dögunum fundi um framfylgd dóma og ákvarðana Mannréttindadómstóls Evrópu á vettvangi Evrópuráðsins.

Í Kína var haldið upp á vestnorræna daginn. Fulltrúar sendiráðs Íslands, Heimastjórnar Grænlands og Landsstjórnar Færeyja buðu til móttöku í sendiráði Íslands.

Við minnum svo að endingu á fréttaveitu okkar Heimsljós.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum