Hoppa yfir valmynd
30. september 2022 Utanríkisráðuneytið

Sameiginleg yfirlýsing varnarmálaráðherra Norðurlanda

Sameiginleg yfirlýsing varnarmálaráðherra Norðurlanda - myndJohannes Jansson/norden.org

Skemmdir á Nord Stream gasleiðslunum voru meginefni fjarfundar varnarmálaráðherra Norðurlandanna sem fram fór í dag á vettvangi norræna varnarsamstarfsins (NORDEFCO). Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók þátt í fundinum. 

Ráðherrarnir gáfu frá sér sameiginlega yfirlýsingu að fundi loknum. Í henni kemur fram að ríkin telji nú allt benda til þess að um skemmdarverk hafi verið að ræða. Ekki sé hægt að útiloka að ætlunin hafi verið að ráðast á orkuinnviði Evrópu og grafa frekar undan stöðugleika á svæðinu. Lekinn úr gasleiðslunum valdi umhverfisspjöllum og hættu fyrir siglingar á svæðinu.

Einnig kemur fram að ríkin séu reiðubúin til að styðja við Danmörku og Svíþjóð við rannsókn málsins og muni viðhafa reglulegt samráð eftir því sem málinu vindur fram.

Í yfirlýsingunni er jafnframt undirstrikaður stuðningur Norðurlandanna við Úkraínu, þau muni ekki viðurkenna niðurstöður ólöglegra kosninga eða innlimana.

„Þetta er litið mjög alvarlegum augum og allt bendir til þess að um viljaverk hafi verið að ræða. Málið varðar alþjóðasamfélagið allt og við verðum áfram í samskiptum við okkar helstu vina- og bandalagsríkið um viðbrögð vegna þessa,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum