Skimun fyrir ofbeldi hjá börnum – skýrsla um ferlið og framtíðarverkefni
Innleiðing skimunar fyrir ofbeldi í grunnskólum hefst í haust sem reynsluverkefni. Til framtíðar er markmiðið að innleiða slíka skimun í öllum grunnskólum landsins. Í meðfylgjandi skýrslu eru raktar helstu forsendur að baki ákvörðuninni, m.a. tölfræði um ofbeldi gagnvart börnum ásamt annarri greiningarvinnu og upplýsingum um stöðu þessara mála hjá grannþjóðum. Þar koma einnig fram tillögur um framtíðarferli skimana í grunnskólum hér á landi og tengd verkefni sem ráðist verður í samhliða innleiðingunni.
Skýrslan er unnin af vinnuhópi sem skipaður var í byrjun árs og falið að móta: a) samræmt verklag á landsvísu vegna skimunar fyrir ofbeldi meðal barna í grunnskóla og b) skýrar boðleiðir fyrir tilvísanir í úrvinnslu og meðferð vegna afleiðinga ofbeldis. Í vinnuhópnum áttu sæti hjúkrunarfræðingar sem sinna heilsuvernd skólabarna frá öllum heilbrigðisstofnunum landsins. Þegar nálgaðist verklok vinnuhópsins var efnt til vinnustofu með fulltrúum sérfræðinga ráðuneyta, stofnana og samtaka sem koma að málefnum barna í tengslum við skimunarverkefnið. Með þessum móti var lagður traustur grunnur að framvindu verkefnisins, samstarfi og virkri þátttöku þeirra sem að því þurfa að koma þannig að sem bestur árangur náist.
Fyrirbyggjandi aðgerðir
Eins og fram kemur í skýrslunni leggur vinnuhópurinn áherslu á að samhliða skimun fyrir ofbeldi sé mikilvægt að fara í rót vandans með áherslu á að fyrirbyggja ofbeldi. Því þurfi að meta áhættu og líkur á ofbeldi strax í mæðra-, ung- og smábarnavernd og tryggja aðgang að viðeigandi úrræðum.
Í frétt heilbrigðisráðuneytisins dags. 13. júní sl. var sagt frá ákvörðun heilbrigðisráðherra um að innleiða skimun fyrir ofbeldi í grunnskólum landsins. Eins og þar kemur einnig fram verður sett á fót móttaka á Landspítala fyrir börn sem þolendur ofbeldis og enn fremur sérstök miðstöð þar sem í boði verður geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn sem sætt hafa ofbeldi og þurfa á slíkri þjónustu að halda. Minningarsjóður Bryndísar Klöru mun leggja til fjármagn til að kaupa eða standsetja hentugt húsnæði fyrir miðstöðina en þjónustan verður skipulögð og rekin af hinu opinbera.
Ítarefni: