Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2019 Utanríkisráðuneytið

Mannréttindaráðið samþykkir ályktun Íslands um launajafnrétti

Mannréttindaráð SÞ í Genf - myndUN Photo/Violaine Martin

Ályktun Íslands og fleiri ríkja um jöfn laun til handa konum og körlum var samþykkt einróma þegar hún kom til atkvæða í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf. Auk Íslands stóðu alls sjö ríki að ályktuninni: Ástralía, Kanada, Nýja Sjáland, Panama, Suður-Afríka, Sviss og Þýskaland. Hátt í sextíu ríki, að meðtöldum framangreindum ríkjum, skráðu sig hins vegar sem meðflytjendur að ályktuninni sem sýnir breiðan stuðning við málefnið.

Um var að ræða nýja ályktun, sem lögð var til að frumkvæði Íslands en öll löndin sem stóðu að ályktunni eru einnig hluti af alþjóðlegum samtökum ríkja um að tryggja jöfn laun (Equal Pay International Coalition). Þetta er önnur ályktunin sem Ísland leggur fram í mannréttindaráðinu sem hlýtur brautargengi en í gær var tímamótaályktun um mannréttindaástand á Filippseyjum samþykkt.

41. fundarlotu mannréttindaráðsins er nú lokið. Þetta er í þriðja sinn sem Ísland tekur þátt í störfum ráðsins sem aðildarríki þess eftir að hafa verið kosið í ráðið í sérstökum aukakosningum í New York 13. júlí á síðasta ári. Er þessi fundarlota að mörgu leyti söguleg því sem fyrr segir lagði Ísland að þessu sinni fram tvær ályktanir, sem báðar voru samþykktar. 

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir Ísland hafa sýnt það í þessari fundarlotu mannréttindaráðsins, eins og hinum fyrri, að það á fullt erindi á þessum vettvangi. „Við lögðum upp með það að vera virk og láta að okkur kveða. Það höfum við sannarlega gert, ekki aðeins núna heldur einnig í fyrri fundarlotunum tveimur. Til dæmis fórum við fyrir hópi ríkja í gagnrýni á mannréttindaástand í Sádí-Arabíu í mars, svo eftir var tekið, enda var það í fyrsta skipti sem málefni Sádí-Arabíu voru tekin upp með þessum hætti, “ sagði hann. „Ég er sérlega ánægður með að við skyldum að þessu sinni geta lagt liðsinni nokkrum málum sem teljast meðal okkar forgangsmála. Þar vísa ég til stuðnings við mikilvægar ályktanir á sviði jafnréttismála og málefna hinsegin fólks. Viðbrögð baráttufólks fyrir mannréttindum á Filippseyjum við ályktun okkar um ástandið gefa til kynna að við getum verið stolt af okkar framgöngu.“

Ráðið afgreiddi 26 ályktanir í þessari nýafstöðnu lotu. Ályktun Íslands um Filippseyjar ber þar einna hæst en jafnframt samþykkti ráðið ályktun um framlengingu umboðs sérstaks sérfræðings um málefni hinsegin fólks. Beitti Ísland sér ötullega í því máli í fundarlotunni, enda eitt af áherslumálum Íslands. Var ályktun þar að lútandi samþykkt með 27 atkvæðum en sjö voru á móti og tólf sátu hjá. Victor Madrigal-Borloz, sérlegur sérfræðingur ráðsins, hefur þekkst boð stjórnvalda um að heimsækja Ísland í byrjun september.

Mannréttindaráðið samþykkti einnig að þessu sinni nokkrar mikilvægar ályktanir um jafnréttismál, m.a. ályktun Kanada um ofbeldi gegn konum. Þar sem Kanada er ekki kjörinn fulltrúi í mannréttindaráðinu tók Ísland að sér, fyrir hönd Kanadamanna, að bera ályktunina upp og verjast breytingartillögum þegar greidd voru atkvæði um hana í morgun.

Enn fremur má nefna, að 22 ríki, þ.á m. Ísland, ritaði forseta mannréttindaráðsins sérstakt bréf þar sem lýst var áhyggjum af ástandi mannréttindamála í Xinjiang-héraði í Kína.

Allar ræður Íslands úr 41. fundarlotu mannréttindaráðsins eru aðgengilegar á vef stjórnarráðsins, sem og allar ræður sem Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin fluttu sameiginlega.

Mannréttindaráðið birtir yfirlit um niðurstöðu atkvæðagreiðslna á vefsíðu sinni. 42. fundarlota mannréttindaráðsins fer fram í september og verður sú síðasta sem Ísland tekur þátt í sem aðildarríki ráðsins að þessu sinni.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum