Hoppa yfir valmynd
23. september 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur á mánudegi, 26. september

Heil og sæl.

Það er nóg um að vera í utanríkisþjónustunni eins og jafnan á þessum tíma árs. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra var stödd vestanhafs og tók þátt í 77. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. 

Þórdís Kolbrún ávarpaði allsherjarþingið á laugardagskvöld en leiðarstefið í ræðu hennar var sameiginleg ábyrgð þjóða heims á þeim gildum sem alþjóðakerfið hvílir á. Innrás Rússa í Úkraínu, umhverfis- og loftslagsmál og mannréttindi, meðal annars út frá máli ungrar konu sem lést í varðhaldi Íran, voru á meðal helstu umfjöllunarefna ræðunnar. 

Í upphafi ávarpsins áréttaði hún að mikilvægi allsherjarþingsins og að þar stæðu öll ríki heims jöfn. „Hvort sem við erum fulltrúar risaveldis eða eins af þeim rúmlega sjötíu aðildarríkjum sem hafa, líkt og Ísland, innan við eina milljón íbúa þá eigum við öll jafn mörg sæti við borðið, hvert okkar hefur eitt atkvæði og við megum öll láta rödd okkar heyrast úr þessum ræðustól,“ sagði ráðherra í ræðunni.

Síðast mætti utanríkisráðherra Íslands í eigin persónu á allsherjarþingið árið 2019 en heimsfaraldurinn torveldaði öll slík ferðalög eins alþjóð veit.

„Það er hollt að minnast þess í upphafi allsherjarþingsins að Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar á sínum tíma beinlínis í þeim tilgangi til að koma í veg fyrir stríð þegar þjóðir heims voru að rísa upp úr öskustó hryllilegrar heimsstyrjaldar. Þessir tímar sem við lifum nú eru prófsteinn á hvort Sameinuðu þjóðirnar, og aðrar stofnanir hins alþjóðlega kerfis, geti viðhaldið vægi sínu og risið undir tilgangi sínum nú þegar á reynir,“ sagði utanríkisráðherra m.a. í fréttatilkynningu í upphafi ráðherraviku þingsins.

Þórdís Kolbrún átti einnig tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Singapúr, Austur-Tímor, Síerra Leóne, Georgíu, Svartfjallalands, Portúgals, Úganda, Malaví, Kýpur og Rúanda, og með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Andorra og jafnframt átti hún fund með Philippe Lazzarini, aðalframkvæmdastjóra Palestínuflóttamannaaðstoð SÞ - UNRWA.

Utanríkisráðherra tók sömuleiðis þátt í sérstökum fundi ungra utanríkisráðherra sem Bilawal Bhutto Zardari, utanríkisráðherra Pakistans stóð fyrir. Þar voru þær áskoranir sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir ræddar út frá sjónarhóli yngri kynslóða.

Þá tók Þórdís Kolbrún ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra þátt í ráðstefnu í Washington DC um loftslagsmál og sjálfbæra orkunýtingu ásamt lykilaðilum á þessu sviði frá Bandaríkjunum og Íslandi. Ráðstefnan bar yfirskriftina Our Climate Future – U.S. Iceland Energy Summit 

Utanríkisráðherra átti þar einnig fund með þingkonunni Chellie Pingree frá Maine, en hún lagði fyrr á þessu ári fram svokallað Íslandsfrumvarp (Iceland Act) í fulltrúadeild þingsins.

Í New York tók Þórdís Kolbrún þátt í fundi Grænhópsins svonefnda, sem er óformlegur samstarfshópur sex ríkja á sviði umhverfismála: Grænhöfðaeyja, Kosta Ríka, Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Singapúr, Slóveníu og Íslands. Þar sótti sömuleiðis fund óformlegs ráðherrahóps til stuðnings Alþjóðlega sakamáladómstólsins (ICC) þar sem Karim Khan, saksóknari ICC, kynnti stöðu og horfur hjá dómstólnum.

Auk þessara funda hefur Þórdís Kolbrún sótt móttökur og aðra viðburði í tengslum við allsherjarþingið. Má þar sérstaklega nefna kvöldverð með utanríkisráðherrum bandalags- og samstarfsríkja í Evrópu og Norður-Ameríku sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna bauð til. Þar voru stríðið í Úkraínu í brennidepli og ástand og horfur í alþjóðamálum. Þá sótti hún móttöku sem Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, efndi til í vikunni í American Museum of Natural History.

Þá tjáði Þórdís Kolbrún sig um alvarlegar yfirlýsingar Rússlandsforseta frá miðri síðustu viku um herkvaðningu í Rússlandi, m.a. við Fréttablaðið og RÚV.

„Það sem kom fram í máli Pútíns er í raun það sem maður hafði búist við. En í þessu felst vissulega stigmögnun ástands sem þegar var verulega alvarlegt,“ sagði utanríkisráðherra við Fréttablaðið.

„Það er ekki ljóst hvaða áhrif yfirlýsing um aukna herkvaðningu mun í raun og veru hafa. En það sem liggur fyrir er að hún mun ná til 300 þúsund manns og sýnir að rússneski herinn er í miklum vandræðum í Úkraínu og það er vissulega hryllileg tilhugsun fyrir fólk í Rússlandi að geta átt von á því að vera nauðbeygt til að taka þátt í þessu hörmulega feigðarflani sem að Pútín hefur att þjóð sinni út í, sagði Þórdís Kolbrún enn fremur.

Í síðustu viku sögðum við frá fundi herráðsforingja Atlantshafsbandalagsins í Tallinn þar sem efling sameiginlegra varna og nýr veruleiki í öryggis- og varnarmálum í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu voru meginefni. Bryndís Kjartansdóttir, skrifstofustjóri öryggis- og varnarmálaskrifstofu, tók þátt í fundinum fyrir Íslands hönd.

Þá að sendiskrifstofunum. Eflaust er við hæfi að hefja leik í New York þar sem fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum stendur auðvitað í ströngu.

Í Frakklandi stóð sendiráð Íslands í París og fastanefnd gagnvart OECD, í samstarfi við Efnahags- og framfarastofnunina (OECD) fyrir viðburði í tilefni alþjóðlega jafnlaunadagsins. Umfjöllunarefnið að þessu sinni var foreldraorlof með sérstakri áherslu á mikilvægi feðraorlofs til þess að stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Sjá nánar í fréttatilkynningu sendiráðsins.

Við sögðum einnig frá skemmtilegu framtaki sendiherra Íslands í Helsinki, Haralds Aspelund, og eiginkonu hans Ásthildar Jónsdóttur, sem ætla á næstu árum að að ferðast um umdæmislönd sendiráðsins – á hjólum! Tilgangurinn er að vekja athygli á sjálfbærri ferðamennsku og upplifa svæðin hægt í anda „slow-tourism“.

Í Brussel flutti Kristján Andri Stefánsson sendiherra erindi á námskeiði um EES-samstarfið. Þar ræddi hann um áskoranir og helstu áherslumál að því tilefni að Ísland tók við formennsku í fastanefnd EFTA fyrr í sumar 

Kynning á Reykjavíkurleikunum var fyrirferðamikil í starfi sendiráðanna á Norðurlöndunum í síðustu viku en leikarnir fara fram 24. janúar - 5. febrúar á næsta ári.


Á þriðjudag heimsótti sendiherra Austurríkis, Alice Irvin, ásamt Austurrískri þingnefnd sendiráð okkar í Kaupmannahöfn.


Í Nuuk heimsótti Geir Oddsson aðalræðismaður Íslands á Grænlandi Vestnorden ferðamessuna.

Í Osló hefur verið verið nóg um að vera. Á dögunum fékk Högni Kristjánsson sendiherra ýmsa góða gesti á sinn fund, þar á meðal sendiherra Brasilíu, Enio Cordeiro, Steinunni Þórðardóttur, formann Norsk íslenska viðskiptaráðsins og Sigtrygg Baldursson framkvæmdastjóra ÚTÓN.

Fulltrúar hverfisskipulags Reykjavíkurborgar voru svo mættir til Oslóar á dögunum. Af því tilefni buðu sendiherrahjónin Hogni Kristjansson og Ásgerður Ingibjörg Magnúsdóttir heim í embættisbústaðinn til samtals um lífrænt, sjálfbært og heilsueflandi nærumhverfi og byggingar

Í Kanada er haldið upp á 75 ára stjórnmálasambandsafmæli Íslands og Kanada með ýmsum hætti og á dögunum færði Hlynur Guðjónsson sendiherra háskólabókasafni Nunavut Arctic College veglega bókagjöf fyrir hönd sendiráðsins og utanríkisráðuneytisins.

Í Strassborg stýrði Ragnhildur Arnljótsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu í Strassborg, þriggja daga fundi Mannréttindanefndar Evrópuráðsins sem ber ábyrgð á framkvæmd dóma Mannréttindadómstóls Evrópu.

Stefán Haukur Jóhannesson hitti svo fyrir nemendur frá Indónesíu úr Jarðhitaskóla GRÓ.

Þórir Ibsen sendiherra í Kína fundaði með fulltrúum íslensks atvinnulífs í Kína um viðskiptaáætlun sendiráðsins fyrir næstu mánuði. 

Sendiráð okkar í Kampala vekur athygli á því góða starfi sem unnið hefur verið í fiskisamfélögum í Buikwe-héraði. Íslenska sendiráðið styður samfélög með þátttöku í verkefnum sem tryggja öruggan aðgang að vatni og bæta líf fólks.

Sendiráð Íslands í Malaví hélt upp á alþjóðlegan dag friðar í síðustu viku.

Við minnum svo venju samkvæmt á fréttaveitu okkar Heimsljós

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum