Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 24. nóvember 2023

Heil og sæl.

Við hefjum leik á tveggja daga varnarmálaráðherrafundi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja sem lauk í Stokkhólmi í gær en þar var þróun öryggismála, aukinn varnarviðbúnaður og stuðningur við Úkraínu í brennidepli. 

Fyrri daginn sótti Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra fund norrænna varnarmálaráðherra þar sem rætt var um ört vaxandi samstarf ríkjanna í öryggis- og varnarmálum sem styrkjast mun enn frekar með inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í Atlantshafsbandalagið. Þá átti Bjarni sömuleiðis tvíhliða fund með Pål Jonson varnarmálaráðherra Svíþjóðar sem fer með formennsku í norræna varnarsamstarfinu (NORDEFCO) í ár en Danir taka við keflinu í næsta mánuði. 

„Stóraukið samstarf Norðurlandanna í varnarmálum síðustu misseri er mikið fagnaðarefni, enda deilum við bæði áherslum og sameiginlegum hagsmunum á svæðinu. Aðild Finnlands og von bráðar Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu styrkir stöðu bandalagsins og eflir öryggi íbúa Norðurlandanna enn frekar. Á fundi mínum með Pål Jonson ítrekaði ég ótvíræðan stuðning Íslands við aðild Svíþjóðar, sem ég bind vonir við að verði að veruleika mjög fljótlega,“ sagði utanríkisráðherra.

Síðari daginn funduðu varnarmálaráðherrar Eystrasaltsríkjanna og Norðurlandanna þar sem sjónum var beint að öryggismálum í Norður-Evrópu og á Eystrasaltinu.

Ráðherra var annars á ferð og flugi í vikunni og hóf hana í Brussel þar sem samstaða með Úkraínu, ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs og staðan í viðræðum um næsta tímabil Uppbyggingarsjóðs EES voru í brennidepli á fundum í tengslum við fund EES-ráðsins.

Bjarni átti m.a. tvíhliða fund með Maros Sefcovic, varaforseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) en sótti jafnframt fund ásamt Dominique Hasler, utanríkisráðherra Liechtenstein, og Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, með ráðgjafanefnd EFTA og þingmannanefnd EFTA. 


Í dag var svo færanlega neyðarsjúkrahúsið til umfjöllunar í frétt á vef Stjórnarráðsins. Það er komið til Úkraínu og hefur verið tekið í gagnið.

„Það er okkur sérstakt ánægjuefni að geta stutt við vini okkar í Úkraínu með þessum beina hætti. Samstarfið við Eista og Þjóðverja í þessu verkefni hefur verið til fyrirmyndar og það gleður okkur að vita að sjúkrahúsið kemur að góðum notum við að bjarga lífum og lina þjáningar þeirra sem særast í réttmætri varnarbaráttu þjóðarinnar gagnvart rússneska innrásarliðinu,“ sagði Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. 


Við settum sömuleiðis í loftið upplýsingasíðu um viðbrögð íslenskra stjórnvalda og mannúðaraðstoð vegna átakanna sem brutust út í kjölfar hryðjuverkaárásar Hamas á Ísrael 7. október 2023. „Fjögurra daga vopnahlé á Gaza og frelsun 50 gísla er fagnaðarefni, en hvergi nærri nóg,“ sagði ráðherra m.a. í færslu á X í dag.

Þá fór fram alþjóðleg ráðstefna Íslands um plastmengun á norðurslóðum sem utanríkisráðuneytið stóð fyrir í samvinnu við matvælaráðuneytið og umhverfis-, orku og loftlagsráðuneytið. Ráðstefnuna sóttu m.a. 120 sérfræðingar frá 18 löndum sem gerðu grein fyrir rannsóknum sínum á umfangi vandans.

„Það er viðleitni okkar, með því að halda þessa ráðstefnu, að auka vitund almennings um þetta mikilvæga og alvarlega viðfangsefni og koma á samtali milli þeirra sem rannsaka vandann og þeirra sem gegna mikilvægu hlutverki í að stemma stigu við honum,“ sagði utanríkisráðherra m.a. í opnunarávarpi ráðstefnunnar í gær.

Og þá að sendiskrifstofunum sem margar hverjar vöktu athygli á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember sl. 

Þar á meðal okkar fólk í Osló.

Í Finnlandi opnuðu Sendiherrahjónin Harald Aspelund og Ásthildur Jónsdóttir listsýningu Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur, Verso, í sendiherrabústaðnum í Helsinki. 

Þá tók Harald þátt í pallborðsumræðum norrænna sendiherra sem skipulagður var fyrir Finna sem stefna á frama í diplómasíu. 

Jafnframt hélt sendiráðið móttöku í samstarfi við sendiráð Kanada í Helsinki þar sem árangsríkri vinnu við að kynna Ísland og Kanada sem álitlega áfangastaði fyrir ferðamenn var fagnað.

Sextán daga átak gegn kynbundnu ofbeldi hefst á morgun og sendiráð okkar í Kaupmannahöfn er nú þegar baðað roðagylltri lýsingu. Markmið átaksins er að hvetja til opinnar umræðu og vitundarvakningar gagnvart kynbundnu ofbeldi. Ofbeldi gegn konum og stúlkum er eitt umfangsmesta mannréttindabrotið í heiminum.

Fyrr í vikunni heimsótti svo Árni Þór Sigurðsson sendiherra svo Borgundarhólm þar sem átti fundi  með Jakob Trøst borgarstjóra og fleiri fulltrúum bæjarstjórnarinnar, heimsótti framhalds- og háskólasetur og fundaði með fulltrúum Baltic Energy Island og orkuveitu eyjarinnar. 

Í Stokkhólmi tók Ragnar Kjartansson myndlistamaður við Eugen-menningarorðunni af konungi Svíþjóðar við hátíðlega athöfn í konungshöllinni. Sendiherra Íslands, Bryndís Kjartansdóttir, var viðstödd athöfnina og bauð í kjölfarið til kvöldverðar til heiðurs Ragnari í embættisbústaðnum þar sem þeim mikla heiðri sem honum er sýndur með orðunni var fagnað.

Í London hýsti sendiráðið fund Bresk-Íslenska Viðskiptaráðsins þar sem farið var yfir verkefni næsta árs. Ráðið eflir og viðheldur viðskiptatengslum milli Bretlands og Íslands, ásamt því að efla tengsl á sviðum menntunar, menningar, viðskipta og stjórnmála.

Í París bauð sendiráðið til morgunverðar í tilefni af útgáfu Gallimard á bók Nínu Björk Jónsdóttur, forstöðumanns GRÓ, og Eddu Magnús, Vivre l’Islande. 

Í Varsjá tók Hannes Heimisson sendiherra á móti fulltrúm frá Uppbyggingarsjóði EES. 

Í Bandaríkjunum ræddi Bergdís Ellertsdóttir sendiherra í Washington við nemendur við Columbia-háskólann um Ísland. 

Argentína, Brasilía, Chile og Mexíkó eru í umdæmi sendiráðs okkar í Washington og fyrr í vikunni fór fram góður fundur sendiráðsins með ræðismönnum Íslands í þessum löndum.

Í Kanada hélt Hlynur Guðjónsson sendiherra ásamt norrænum sendiherrum í heimsókn til Montréal. 

Í Tókýó sótti Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra m.a. ljósmyndasýningu Tatsuo Yamada.

Á Indlandi var undirritaður samningur við yfirvöld í indverska fylkinu Himachal Pradesh um ýmis nýtingarréttindi í verkefni íslenska orkufyrirtækisins Geotropy um að nota jarðhita, til að kæla ávaxtaframleiðslu, og styrkja þannig efnahag og fæðuöryggi í héraðinu. Samningurinn var undirritaður af Tómasi Hanssyni stjórnarformanni Geotropy og Sudesh Mokhta forstjóra landbúnaðarstofnunarinnar í Himachal Pradesh, að viðstöddum Sukhvinder Singh forsætisráðherra fylkisins og Guðna Bragasyni sendiherra í Nýju-Delhí. 


Í Kína opnaði Þórir Ibsen sendiherra sjávarútvegssýningu í Shenzhen og tók þátt í pallborðsumræðum

Þá sótti hann sömuleiðis skrifstofur Össurar í Shenzen.

Í Kampala var bætt hreinlætisaðstaða í sjö grunnskólum í Namayingo-héraði formlega opnuð.


Fleira var það ekki í bili!

Góða helgi!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum