Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 29. apríl 2022

Heil og sæl.

Við heilsum ykkur hér frá Rauðarárstígnum á þessum ágæta föstudegi og færum ykkur það helsta úr vikunni sem er að líða.

Við byrjum í New York þar sem þátttaka Íslands og stuðningur við starf Sameinuðu þjóðanna auk stríðsins í Úkraínu voru til umræðu á fundum Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra með stjórnendum stofnunarinnar í vikunni.

Þórdís Kolbrún ræddi við Aminu J. Mohammed, aðstoðarframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og Abdulla Shahid, forseta allsherjarþingsins um mikilvægi þess að standa vörð um alþjóðasamstarf í ljósi innrásar Rússlands í Úkraínu og mæta afleiðingum hennar bæði fyrir Úkraínu og önnur svæði í heiminum, með skilvirkri neyðar- og mannúðaraðstoð. Þá fundaði hún með Emine Dzhaparova, varautanríkisráðherra Úkraínu um átökin í landinu. Þórdís Kolbrún kom á framfæri upplýsingum um yfirgnæfandi stuðning íslensku þjóðarinnar við málstað Úkraínu, fordæmingu á framferði Rússa og eindregnum vilja til þess að styðja við úkraínsku þjóðina með ráðum og dáð.

Á fundum sínum tilkynnti ráðherra einnig að Ísland muni auka framlög sín til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), UN Women og Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) á þessu ári. Stofnanirnar eru allar áherslustofnanir í þróunarsamvinnu Íslands.


Í byrjun vikunnar undirritaði Þórdís Kolbrún nýjan samning við Hnattræna jafnréttissjóðinn. Undirritunin fór fram á fundi ráðherra með Uzra Zeya, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna sem ber ábyrgð á málefnum mannréttinda og lýðræðis, og Jessicu Stern, sérlegs ráðgjafa Bandaríkjaforseta í málefnum hinsegin fólks.

„Sjóðurinn gegnir lykilhlutverki í að efla réttindi hinsegin fólks, sem víða um heim stendur enn frammi fyrir kúgun, fangelsi og jafnvel dauðarefsingum. Ég notaði tækifærið og hrósaði forsvarskonum sjóðsins fyrir skjót viðbrögð við neyðarástandinu í Úkraínu og Afganistan þar sem sjóðurinn hefur styrkt borgaraleg félagasamtök á vettvangi. Í átökum sem þessum er nauðsynlegt að styðja sérstaklega við jaðarsetta og berskjaldaða hópa,“ sagði utanríkisráðherra.

Á miðvikudag var sagt frá framlagaráðstefnu sem fram fór í Genf þar sem íslensk stjórnvöld tilkynntu um að þau myndu veita 80 milljónum króna til mannúðaraðstoðar í Eþíópíu á þessu ári.

Á miðvikudag hlaut Ísland jafnframt gullvottun frá Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (United Nations Development Programme, UNDP) fyrir vinnu á sviði jafnréttismála og þróunarsamvinnu. Ísland er fyrsta framlagsríkið sem undirgengst slíka vottun.

Í gær greindum við svo frá árlegu samráði Íslands og Bandaríkjanna um öryggis- og varnarmál sem fram fór í vikunni í Reykjavík. Í sameiginlegri yfirlýsingu Íslands og Bandaríkjanna í tilefni fundarins kemur meðal annars fram að ríkin hafi rætt öryggis- og varnarmál á Norður-Atlantshafi og samvinnu á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og á grundvelli tvíhliða varnar- og öryggissamstarfs.

Í gær fór fram ráðstefna um netógnir á átakatímum sem utanríkisráðuneytið stóð fyrir í Grósku. Netöryggi og netvarnir lykilinnviða í breyttu öryggisumhverfi voru í brennidepli.

„Ísland er eitt af stofnríkjum Atlantshafsbandalaginu og þar tel ég blasa við að við völdum rétt lið. Atlantshafsbandalagsaðildin, ásamt varnarsamningi okkar við Bandaríkin, eru hornsteinar í öryggis- og varnarstefnu okkar,“ sagði ráðherra m.a. í opnunarávarpi sínu.

Þá að sendiskrifstofum okkar.

Jörundur Valtýsson fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum tók vel á móti utanríkisráðherra í fyrstu heimsókn Þórdísar Kolbrúnar til New York sem utanríkisráðherra

Þar hefur verið nóg um að vera upp á síðkastið líkt og sjá má á Twitter-síðu fastanefndarinnar, en þar á meðal var niðurstöðuskjal um fjármögnun þróunar formlega samþykkt. Ísland og Grenada leiddu samningaviðræðurnar. Utanríkisráðherra hélt ræðu á ráðherrafundi fyrr í vikunni í tengslum við þetta og áréttaði afstöðu Íslands.

Sömuleiðis samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í vikunni sögulega ályktun um neitunarvald. Sé neitunarvaldi beitt í öryggisráðinu er viðkomandi ríki skylt að gera grein fyrir ákvörðuninni í allsherjarþinginu. Eykst þannig gegnsæi og aðhald við beitingu neitunvalds. Ísland var í hópi meðflutningsríkja og sameinuðust Norðurlöndin um ræðu

Í Vín hélt Eva Dröfn Hassell Guðmundsdóttirjómfrúrræðu sína í fastaráði ÖSE. Í ræðunni er vikið sérstaklega að áhrifum stríðsins í Úkraínu á börn og ungmenni.

Í Brussel sat Kristján Andri Stefánsson sendiherra fund Vsevolod Chentsov sendiherra Úkraínu gagnvart Evrópusambandinu með Ingibjörgu Isaksen alþingismanni og öðrum formönnum landsdeilda sameiginlegrar þingmannanefndar EES.


Sameiginlega EES-nefndin fundaði svo í dag í eigin persónu í fyrsta sinn síðan heimsfaraldurinn hófst.

Sendiskrifstofa okkar í Malaví vakti í vikunni athygli á skólamáltíðarverkefni Íslands í samstarfi við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna

Sendiráð okkar í Kanada birti skemmtilega færslu á dögunum þar sem ungur nemandi lýsti yfir eindregnum áhuga sínum á Íslandi.

Fulltrúar íslenska fyrirtækisins Laki Power voru svo staddir í Winnipeg fyrr í mánuðinum í viðskiptaerindum og stilltu sér upp með ræðismanni Íslands í Gimli, Tammy Axelsson, og Lesley Robertson frá aðalræðisskrifstofunni í Winnipeg. 


Í Osló átti Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra fund með Masud Gharahkhani forseta Stórþings Noregs á skrifstofu hans.

Þá var hún einnig stödd í Tromsø í norður-Noregi og átti fundi með ýmsum aðilum, þ.á.m. Grete Wilsgaard ræðismanni Íslands í Tromsø.

Í Stokkhólmi opnaði Hannes Heimisson sendiherra sýninguna The Liptsticks eftir Egil Sæbjörnsson, með formlegum hætti í Andys Gallery í gær. 

Í Færeyjum var Flaggdagur á mánudag. „Fáninn eða Merkið, eins og hann er einnig kallaður, varð viðurkenndur sem þjóðarfáni Færeyja 25. apríl 1940“ segir í færslu aðalræðisskrifstofu okkar.

Í Washington fór fram ráðstefna fyrir kjörræðismenn Íslands í umdæmi sendiráðsins. Utanríkisráðherra fundaði í vikunni með ráðamönnum í Washingtonborg og hjá Alþjóðabankanum en gaf sér einnig tíma til að hitta ræðismennina og þakka þeim vel unnin störf í þágu Íslands.

Í Washington ræddu einnig Bergdís Ellertsdóttir sendiherra og norrænir kollegar hennar um öryggi á norðurslóðum.

 
Í London hitti Sturla Sigurjónsson sendiherra hóp þingmanna úr öllum flokkum og ræddi um ýmis mál, svo sem málefni Atlantshafsbandalagsins og innrás Rússa í Úkraínu.


Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra í Tókýó hitti á dögunum forseta Sophia University í Japan.



Unnur Orradóttir sendiherra Íslands í París brá sér til umdæmisríkis sendiráðsins og hitti m.a. ræðismann Íslands í Barselóna, Astrid Helgadóttur.


María Erla Marelsdóttir sendiherra í Þýskalandi hitti ásamt norrænum kollegum sínum varaforseta þýska þingsins, Wolfgang Kubicki.


Í Bejing sótti William Freyr Huntingdon-Williams, staðgengill sendihera, fyrirtækið Innolink China, í nýjum höfuðstöðvum þess í Beijing. Stofnandi þess er Halldór Berg Harðarson, en um ráðgjafafyrirtæki er að ræða sem sérhæfir sig í markaðsaðstoð fyrir evrópskt fyrirtæki sem hyggjast sækja á kínverskan markað.

Fleira var það ekki í bili.

Við minnum að endingu á Heimsljós!

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum