Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. febrúar 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Ræður og greinar Kristjáns Þórs Júlíussonar

Menntadagur atvinnulífsins

Góðir áheyrendur,                                                  

„Á íslensku má alltaf finna svar…“ segir í kvæði eftir Þórarinn Eldjárn, en í nútímanum er þetta ekki lengur rétt; þegar við tölum íslensku við símann eða hin tækin okkar nú um stundir er yfirleitt svarað á ensku – og fátt um efnisleg svör.

Íslenskt ritmál hefur lítið breyst frá því ritun hófst, sem við getum vissulega að einhverju leyti þakkað einangrun okkar hér nyrst í Atlantshafi ,en fyrst og fremst hinni ríku bókmenntasögu okkar. Í Skáldskaparmálum beinir Snorri Sturluson orðum sínum til ungra skálda og veitir þessa ráðgjöf: „Þeim er girnast at nema mál skáldskapar, ok heyja sér orðafjölda með fornum heitum – þá skili hann þessa bók til fróðleiks ok skemmtunar

Í dag, 7 til 800 árum eftir daga Snorra leita ung skáld víðar fanga en í Skáldskaparmálum og viss umbreyting verður gjarnan á íslenskri tungu þar sem orðið heldur – en inntakið breytist. Íslenskt mál er þráðurinn í sögu okkar og tengir hugsanir frá elstu tíð til nútímans, en jafnframt endurnýjar málið sig sífellt og sömu orðin geta endurómað í ólíku samhengi. Gott dæmi um þetta er orðið sími; upphaflega merkingin var þráður, en svo þróaðist þjóðfélagið og merking orðsins hefur tekur breytingum í takt við það – við tóku handvirkur sími, sjálfvirkur sími, farsími og nú snjallsími og farið að tala um nýja tegund strokufanga – eða þá sem hugfangnir strjúka snjallsímana í gríð og erg.

Það verður ekki horft fram hjá því að íslenskan á undir högg að sækja í heimi vaxandi hnattvæðingar. Sótt er að henni úr öllum áttum og það er ekkert sjálfsagt mál að íslenska lifi af í heimi þar sem enska sækir sífellt meira á og mörg tungumál eru í útrýmingarhættu. Hin u.þ.b. 80 tungumál Evrópu eru meðal mikilvægustu menningarverðmæta álfunnar, og þó tungumál eins og enska, franska, þýska og spænska muni halda stöðu sinni á hinu stafræna markaðstorgi - gætu mörg evrópsk tungumál – þar á meðal íslenska – orðið gagnslaus í netvæddu samfélagi og orðið fórnarlömb „stafræns dauða“.

Í Íslenskri málstefnu sem mennta- og menningarmálaráðherra lagði fram og samþykkt var einróma á Alþingi árið 2009 var í fyrsta sinn mörkuð opinber stefna í málefnum íslenskrar tungu og þar voru lögð fram þau meginmarkmið um íslensku í tölvuheiminum að

 „íslensk tunga verði nothæf – og notuð –  á öllum þeim sviðum innan tölvu- og upplýsingatækninnar sem varða daglegt líf alls almennings“.

Í málstefnunni er bent á þá staðreynd að tungumál tækninnar sé enska og verði það einnig hér á landi nema gripið verði til viðeigandi aðgerða.

Íslenskan hefur því miður dregist aftur úr á mörgum sviðum upplýsingatækninnar á síðustu árum og nú er staðan sú að mikið af hugbúnaði er eingöngu notaður á ensku eða öðrum erlendum tungumálum, hvort sem litið er til starfsemi stjórnvaldi, til háskólasamfélagsins eða til almennra borgara. Þetta er áhyggjuefni.

Eigi íslenska að vera lífvænleg þjóðtunga í „þróuðum heimi“ verður hún að geta staðið undir kröfum upplýsingatækninnar. Svo einfalt er það.

Við skulum ekki vera svartsýn, en þetta er ótvírætt umfangsmikið viðfangsefni, sem þjóðin þarf að taka sameiginlega á, og verður ekki leyst til framtíðar með áhlaupi, heldur markvissri vinnu allra sem að því koma. Það er skýr vilji íslenskra stjórnvalda að svo verði, og efling íslenskrar máltækni verður því að vera grunnþáttur í því að árangur náist.

Ríkisstjórn Íslands ákvað sl. haust að leggja áherslu á íslenska máltækni með sérstöku fjárframlagi til kortlagningar á tækni fyrir máltækni, til að vinna að stefnumörkun og vali á tæknilegum útfærslum fyrir íslensku, meta stöðu íslenskra gagnasfna og loks til að gera nákvæma fjárhags- og verkáætlun fyrir 5 ára markáætlun á sviði máltækni fyrir íslensku.

Markmið þessarar vinnu er að bregðast við því mikla verkefni sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir til að tryggja að íslenskan verði nothæf á öllum sviðum samfélagsins og að tryggja þróun og uppbyggingu íslenskrar máltækni til framtíðar.

Stýrihópur um íslenska máltækni sem skipaður var í október sl. hefur á undanförnum mánuðum fengið til liðs við sig helstu sérfræðinga landins til að móta verkáætlun fyrir slíka markáætlun. Afrakstur þessa starfs mun líta dagsins ljós á þessu ári og ætlunin er að þar verði lagður grunnur að vinnu næstu fimm ára til að mæta þeim áskorunum sem við blasa.

Stjórnvöld eru með þessari áætlun búin að skuldbinda sig til að vinna að uppbyggingu á þessu sviði og munu leiða saman  opinbera aðila og einkaaðila í samræmdri vinnu að settu marki.  Það er hins vegar bjargföst trú mín að forsendan fyrir því að þetta gangi allt saman upp sé  að fræðasamfélagið, atvinnulífið, stjórnvöld og almenningur taki höndum saman.

Íslensk máltækni ætti á næstu árum að vera eitt af forgangsverkefnum þjóðarinnar á sviði vísinda og tækni og er raunar nauðsynlegt að svo verði til að við getum náð að styrkja stöðu okkar. Því mætti hugsa sér að beina verkþáttum í þessu ferli inn í samkeppnissjóði sem heyra undir Vísinda- og tækniráð m.a. til að standa straum af kostnaði en ekki síður til að tengja sem flesta þessu brýna og mikilvæga verki.

Það mun ráða úrslitum um stöðu tungumálsins okkar í framtíðinni hversu vel við öll náum að hlúa að henni tungu á næstu árum. Íslendingar hafa einsett sér að geta talað og ritað um öll sín viðfangsefni á móðurmáli sínu, enda krefst staða þjóðtungu þess að unnt sé að nota hana á öllum sviðum, en ekki bara á sumum; í máltækni er því brýnt að byggja upp nauðsynlega færni til þess – og vélarnar og tækin verða líka að halda í við þróunina.

Það hefur löngum verið sagt að tungan sé grunnurinn að tilvist íslenskrar þjóðar, að sjálfsmynd okkar og sérstöðu.Við sem tölum íslensku þurfum því sífellt að vera á varðbergi, hugsa um stöðu hennar í samfélaginu og ræða sem víðast. Því verkefni lýkur aldrei. Nýir tímar færa okkur ný viðfangsefni.. Ábyrgð okkar sem fámennrar þjóðar með tungumál sem fáir tala er  umtalsverð og við finnum enn meir en áður fyrir henni nú þegar heimurinn er að skreppa saman með tilstilli upplýsingatækninnar.

Góðir gestir,

Heimspekingurinn og gagnrýnandinn George Steiner sagði eitt sinn að hvert tungumál væri heimur út af fyrir sig. Íslensk þjóð nýtur þeirrar gæfu að búa í hinum íslenska heimi, sem okkur ber  að varðveita og hlúa að – því án slíkrar aðgætni mun hann hverfa. Líklega verðum við ekki alltaf sammála um aðferðir og áherslur við þá varðveislu, en mestu varðar að við séum sammála um að vinna öll að því markmiði að tryggja að íslenska verði áfram notuð um allt sem við hugsum og tökum okkur fyrir hendur, alls staðar í íslensku samfélagi. Þannig tryggjum við best framtíð íslenskrar tungu, og hins íslenska heims.

Að lokum óska ég ykkur góðs gengis í því starfi og samtali sem á sér stað hér á menntadegi atvinnulífsins og þakka Samtökum atvinnulífsins sérstaklega fyrir að vera í framvarðarsveit í þessum mikilvæga málaflokki.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta