Hoppa yfir valmynd

Sögulegt yfirlit

„Stofnun menntamálaráðuneytisins á rætur að rekja til ársins 1944. Þegar Ólafur Thors myndaði 2. ráðuneytið sitt 21. október 1944 fór menntamálaráðherra stjórnarinnar, Brynjólfur Bjarnason, þess fljótlega á leit, að hann fengi sérstakan starfsmann til þess að vinna að afgreiðslu menntamála, er hann fór með, en þau voru þá afgreidd í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Alllöngu eftir að þessari hugmynd var fyrst hreyft ákváðu forsætisráðherra og menntamálaráðherra, að sá starfsmaður, sem 1939 hafði verið ritari og 1941 fulltrúi hjá forsætisráðherra skyldi einnig starfa fyrir menntamálaráðherra, en málaflokkurinn tilheyrði eftir sem áður dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

Stefán Jóh. Stefánsson myndaði stjórn sína 4. febrúar 1947. Þá um sumarið var atvinnu- og samgöngumálaráðuneytinu skipt í tvö ráðuneyti og um leið ákváðu forsætisráðherra og menntamálaráðherra, sem þá var Eysteinn Jónsson, að koma því fyrirkomulagi, sem ríkt hafði um afgreiðslu mála fyrir forsætisráðherra og menntamálaráðherra, á fastari grundvöll en verið hafði. Var þá ákveðið að forsætis- og menntamálaráðuneyti skyldu framvegis starfa undir sama ráðuneytisstjóra og var þeirri skipan formlega komið á 1. júní 1947.

Í fjárlögum fyrir árið 1948 var síðan í fyrsta sinn veitt fé til forsætis- og menntamálaráðuneytisins. Þessi skipan hélst í 23 ár eða til 1. janúar 1970, er forsætis- og menntamálaráðuneytinu var skipt í tvö ráðuneyti samkvæmt heimild í lögum nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands."

Úr Ríkishandbók Íslands, 1988
Birgir Thorlacius ritstýrði

Menntamálaráðuneytið var formlega stofnað 1. júní 1947 þegar ákveðið var að forsætis- og menntamálaráðuneytið skyldu framvegis starfa undir sama ráðuneytisstjóra. Þetta hélst óbreytt til 1. janúar 1970, en þá var þeim skipt í tvö ráðuneyti. Heiti ráðuneytisins var með lögum breytt í mennta- og menningarmálaráðuneyti 1. október 2009.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum