Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. mars 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKristján Þór Júlíusson

Vígsla nýs verknámshúss við Fjölbrautaskóla Suðurlands

Ágæta samkoma,
það er mér mikil ánægja að koma hér og vígja þetta glæsilega verknámshús, Hamar, sem nú er risinn á grunni gamla Hamars sem þjónaði skólanum frá stofnun hans en þótti vera kominn að fótum fram undir það síðasta.
Í ytri úttekt ráðuneytisins á starfsemi Fjölbrautaskóla Suðurlands sem fram fór vorið 2015 segir eftirfarandi í samantekt:

„Fjölbrautaskóli Suðurlands hefur upptökusvæði frá Kirkjubæjarklaustri í austri að Þorlákshöfn í vestri auk uppsveita Suðurlands. Yfir 90% nemenda koma af svæðinu. Góð aðsókn er að skólanum og nýtur hann velvildar og virðingar í umhverfi sínu. Húsnæði til bóklegrar kennslu og íþróttakennslu er gott og rúmar vel þá starfsemi sem þar fer fram og þann nemendafjölda sem í skólanum er. Framundan er nýbygging verknámshúss.“
…og nú er húsið tilbúið til notkunar um tveimur árum síðar.

Tilkoma þessa húsnæðis rímar sannarlega vel við áherslur þær og markmið sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur sett fram um eflingu starfsnáms í framhaldsskólunum. Hér verður lagt lóð á þá vogarstöng og aðstaða til kennslu verklegra greina við skólann breytist mjög til batnaðar. Tækifærum nemenda á Suðurlandi til starfsnáms fjölgar verulega þar sem skólinn getur nú boðið heildstætt nám í greinum þar sem áður var eingöngu aðstaða til að bjóða grunnnám, svo sem í vélvirkjun og rafvirkjun. Þá mun fjölga þeim greinum sem skólinn býður í starfsnámi og má þar nefna grunnnám í háriðnum, auk þess sem aukin áhersla verður á tölvuteikningu og tölvuhönnun. Þá er að sögn skólameistara komin aðstaða til að bjóða grunnskólanemendum að stunda verklegar valgreinar hér og þar með kynna þeim nemendahópi þá kosti sem bjóðast í starfsnámi sem getur, ef vel tekst til, leitt til aukinnar aðsóknar í hinar ýmsu verknámsgreinar.

Fjölbrautaskóli Suðurlands er gott dæmi um þá fjölbreytni sem nú ríkir í framhaldsskólum og hefur skólinn sannarlega staðið við þau ákvæði laga og námskrár sem lúta að menntun fyrir alla.
Námsframboð skólans sýnir, svo ekki verður um villst, að allir sem innritast eiga að finna nám við hæfi og þar að auki hefur skólinn um árabil vakið athygli fyrir kennslu og námsráðgjöf á Litla Hrauni og öðrum fangelsum. Svo aftur sé vitnað í úttektina þar sem segir:

Skólinn tekur alvarlega ákvæði laga um fræðsluskyldu með áherslu á að mæta ólíkum þörfum nemenda með fjölbreyttu námstilboði og framhaldsskólafræðslu fyrir fanga á Litla-Hrauni og í Fangelsinu Sogni.

Skólinn hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir fjölbreytt menntunarstarf og nemendur hans bera einnig hróður skólans víða. Það er til dæmis lítill vafi á að mikils vænst af þeim næst komandi föstudag í átta liða úrslitum Gettu betur í sjónvarpinu þar sem þeir etja kappi við minn gamla skóla MA.

Þess er einnig skemmst að minnast að nemendur FSU fengu sérstaka viðurkenningu í Boxinu, framkvæmdakeppni framhaldsskólanna fyrir vel unnið verk og góðan liðsanda og samvinnu. Það er líklega sérstakt gleðiefni fyrir ykkur sem berið ábyrgð á menntun og þroska nemenda að fá slíka viðurkenningu, því góður liðsandi verður ekki til af sjálfu sér. Það er nú orðið almennt viðhorf að á flestum vinnustöðum, ekki síður en í íþróttaliðum, sé góður liðsandi lykillinn að árangri og heilbrigðri menningu. Okkur er öllum í fersku minni frammistaða íslenska knattspyrnulandsliðsins á EM sl. sumar sem var afar skýrt dæmi um lið sem vann saman, þar sem einstaklingarnir léku fyrir liðið sem varð um leið sterkara en vænta mátti. Eins er með vinnustaði, hvort sem um skóla eða aðrar stofnanir er að ræða, bæði heildin og einstaklingarnir eflast við góðan liðsanda.

Það má í raun segja að sú viðurkenning sem nemendur skólans fengu fyrir liðsanda og góða samvinnu sé um leið vísbending um að hér í skólanum ykkar sé góður liðsandi og heilbrigð vinnustaðamenning.

Eins og fyrrnefnd úttekt leiddi í ljós nýtur skólinn virðingar í umhverfi sínu og það leynir sér ekki að hann leggur sig fram um að vera í góðu sambandi við sitt nærumhverfi. Það birtist til dæmis í Starfamessu Suðurlands sem stendur hér yfir og hefur það að markmiði að kynna fyrir grunn- og framhaldsskólanemendum þau störf sem um 30 sunnlensk fyrirtæki þurfa fyrir starfsemi sína.

Að sögn skólameistara er hið nýja verknámshús ágætlega fallið til að efla tengsl við samfélagið, m.a. með möguleikum á FAB LAB kennslu fyrir nemendur jafnt sem almenning.

Ágætu tilheyrendur
Það er stór dagur í dag, tilkoma nýs verknámshúss skapar aukin tækifæri til að bæta enn frekar skólastarfið, ný sóknarfæri verða til í starfsnámi og skólinn getur sinnt samfélagslegum skyldum sínum meir en áður.
Að því sögðu óska ég Fjölbrautaskóla Suðurlands til hamingju með þessa glæsilegu byggingu. Megi hún nýtast skólanum til eflingar á sínu góða starfi!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum