Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. mars 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Ræður og greinar Kristjáns Þórs Júlíussonar

Ársfundur Kennarasambands Íslands

Ég þakka gott boð um þátttöku í ársfundi Kennarasambands Íslands. Það er mikilvægt fyrir mig sem nýjan mennta– og menningarmálaráðherra að fá tækifæri til að ávarpa forystusveit Kennarasambandsins og taka þátt í umræðu um þau málefni sem snúa að kennarastéttinni um þessar mundir.

Kennarastéttin er kjölfesta í öllu skólastarfi. Hæfni og störf kennara skipta sköpum um gæði skólastarfsins,menntun og farsæld nemenda, með góðu samstarfi heimila og skóla.

Kennarar eru kjarni skólastarfsins. Til að halda uppi árangursríku skólastarfi þarf vel menntaða kennara með sterka vitund um fag sitt og hlutverk og án kennara verður ekki skóli.

Fyrr í þessum mánuði voru kynntar niðurstöður úttektar Evrópumiðstöðvar um menntun án aðgreiningar á Íslandi.

Úttektin nær til leik-, grunn-, og framhaldsskólastiga, þar sem kannað var hvernig til hefur tekist við innleiðingu hugmyndafræðinnar um menntun án aðgreiningar hér á landi.

Aldrei hefur áður verið gerð jafn heildstæð úttekt sameiginlega fyrir þessi þrjú skólastig.

Markmið úttektarinnar var að styðja við ákvarðanatöku um innleiðingu og framkvæmd stefnunnar um menntun án aðgreiningar með sannreyndri þekkingu, stuðla að víðtæku sjálfsmati innan menntakerfisins auk þess að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.

Ég vil ekki láta staðar numið við útkomu skýrslunnar heldur nota niðurstöður hennar sem vettvang og tækifæri til að halda áfram.

Að því sögðu ákváðu sömu aðilar og undirrituðu viljayfirlýsingu í nóvember 2015  um að vinna saman að undirbúningi og framkvæmd úttektarinnar að undirrita samstarfsyfirlýsingu um að fylgja niðurstöðunum eftir með það að markmiði að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.

Ég vil nota tækifærið til að þakka Kennarasambandinu sinn hlut í undirbúningi og framkvæmd þessa mikilvæga verkefnis og vænti góðrar samvinnu áfram um úrvinnslu skýrslunnar, mat á niðurstöðum og þær aðgerðir til úrbóta sem ráðist verður í.

Stýrihópur verður skipaður á næstunni fyrir þetta verkefni, með fulltrúum þeirra sem skrifuðu undir samstarfsyfirlýsinguna, og er gert ráð fyrir að aðgerðaáætlun liggi fyrir í drögum í sumar.

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um framkvæmd samræmdra könnunarprófa og breytingar á reglugerð um innritun nýnema í framhaldsskóla.

Í því sambandi er mikilvægt að átta sig á að það er verið að gera miklar breytingar á kerfinu með því að innleiða rafræn próf og svo er jafnframt verið að vinna að því að gera þau einstaklingsmiðuð.  Þegar það kemst til framkvæmda munu samræmdu könnunarprófin gefa betri mynd af stöðu nemandans en áður.

Með því að færa samræmdu könnunarprófin í 9. bekk gefst færi á því að taka mið af niðurstöðunum við skipulagningu námsins í 10. bekk.

Niðurstöður prófanna verða þannig betra tæki fyrir nemandann, aðstandendur hans og kennarann til að ákveða hvernig megi bæta árangur nemandans ef svo ber við eða til að athuga hvort frammistaðan gefi honum ástæðu til að hlaupa yfir 10. bekk.

Ég hef ákveðið að kalla saman fulltrúa alla helstu aðila skólastarfs í grunnskólum til að fara yfir framkvæmd samræmdu könnunarprófanna. Ekki eru uppi neinar fyrirætlanir af hálfu ráðuneytisins um að leggja niður eða breyta tilgangi samræmdra könnunarprófa í grunnskólum.

Samræmdu prófin eru, að mínu mati, komin til að vera. Nú er verið að þróa þau svo þau þjóni betur hlutverki sínu og mæta þannig gagnrýni á innihald, form og framkvæmd þeirra.

Niðurstöður prófanna veita miklar upplýsingar og greinandi gögn um hvern nemenda og einnig skóla.

Stóra spurningin hlýtur að vera sú hvernig hægt er að nýta þessi gögn til að efla skólastarf og styðja við nám nemenda.

Formleg starfsmenntun kennara skilar ekki fullnuma kennurum til starfa.

Eins og hjá flest öllum starfsstéttum þurfa nýliðar að vaxa, dafna og þroskast í starfi.

Fræðimenn hafa bent á að það taki yfirleitt nokkur ár að öðlast þá reynslu og öryggi til að geta talist fagmaður í kennslu; það er að hafa hæfni til að skipuleggja skólastarf á faglegan hátt og taka ábyrgð á námi og framförum nemenda.

Einkum þarf að treysta á faglega forystu reyndra kennara, sem þekkja best skyldur starfsins, menningu skólasamfélagsins og aðstæður í skólanum, samsetningu nemendahópsins og nánasta starfsumhverfis hans og foreldrasamfélagsins.

Starfsþróun kennara þarf að vera af ýmsu tagi. Það er auðséð að nýliðar í kennslu þurfa tækifæri til að vinna úr reynslu sinni, mennta sig frekar á starfssviðum sem hugur þeirra stendur til og síðast en ekki síst að fá stuðning og leiðsögn reyndari kennara og skólastjórnenda.

Hitt er svo ef til vill enn mikilvægara að kennarar með nokkra reynslu og kennarar með mikla reynslu fái tækifæri til að ígrunda starf sitt og starfsaðstæður, víkka sjóndeildarhring sinn og þróa sig í starfi.

Starfsþróun kennara á að gera þeim kleift að fylgjast með breytingum í starfsumhverfi, nýjum kröfum samfélagsins og nýjungum í fræðum og starfi. Í stuttu máli sagt: Að gera þeim auðveldara að bæta sig í starfi. Okkar stóra viðfangsefni er að stilla betur saman starfsþróun kennara og skólastjórnenda viðskólaþróun, nýbreytni og þróun í námi og kennslu.

 Ráðuneytið hefur nú um árabil unnið í samstarfi við Kennarasambandið, Samtök sveitarfélaga og háskólana, sem mennta kennara, að því skilgreina og skýra betur faglegan og fjárhagslegan grundvöll starfsmenntunar kennara, grunnmenntunar og framhaldsnáms.

Fagráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda lét ráðherra í té ítarlega skýrslu og tillögur fyrir réttu ári, í mars 2016. Þar er kynnt ný framtíðarsýn um starfsþróun kennara  og á grundvelli þeirrar skýrslu skipaði ráðherra sl. haust 20 manna samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda til að fylgja eftir tillögum fagráðsins.

Starfstími samstarfsráðsins er 3 ár. Því er m.a. ætlað

 

  • að vera vettvangur fyrir samstarf og samráð aðila um starfsþróun kennara, skólastjórnenda og annarra fagstétta leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og tónlistarskóla.
  • Að hafa yfirsýn yfir þróun og stefnumótun í starfsþróun, afla upplýsinga um hana, leiða umræðu og miðla til skólasamfélagsins.
  • Að vera menntayfirvöldum og öðrum aðilum til ráðgjafar um málefni er varða starfsþróun.

 

Ljóst er að verkefni samstarfsráðsins er mikilvægt og starf þess getur skipt sköpum um þróun menntakerfisins. 

Það er því mín niðurstaða að málefnið sé brýnt og skýrsla fagráðsins frá 2016 er góður grunnur að stefnumörkun um kennaramenntun og starfsþróun kennara.

Ég vil því styðja við verkefni samstarfsráðsins og efla það samstarf sem þróast hefur milli ráðuneytisins, kennarasamtakanna, sveitafélaganna og háskólanna kringum starfsþróun kennara og skólastjórnenda.

Ég mun því styðja fjárhagslega og faglega við verkefni sem samstarfsráðið þarf að ráðast í á næstu misserum, skv. fyrirliggjandi aðgerðaráætlun, en legg jafnframt áherslu á að framlög allra hagsmunaaðila eru líka mikilvæg til að tryggja sem best framgang verkefnisins.

Ég hef þegar falið starfsmönnum ráðuneytisins að skipa þessum málum í rétt horf.

 Ágætu gestir.

Fleiri ætla ég ekki að hafa orð mín að þessu sinni. Ég þakka ykkur aftur fyrir að bjóða mér að vera með ykkur í dag. Það er mikilvægt fyrir mig, ekki síst á fyrstu mánuðum í embætti. Ég bind vonir við gott samstarf við ykkur í framtíðinni. 

Gangi ykkur vel í störfum ykkar og njótið dagsins.

 

 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum