Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. apríl 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Ræður og greinar Kristjáns Þórs Júlíussonar

135 ára afmæli Þjóðskjalasafns Íslands

Það dreymir alla stjórnmálamenn um að geta leyst sín viðfangsefni með jafn einföldum hætti og Hilmar Finsen landshöfðingi gerði fyrir 135 árum. Engin seinleg lagasetning með tilheyrandi samráðsferli og langdregnum umræðum á þing, enginn undirbúningur fjárveitinga eða fjárlagaferli, engin opinber stjórnsýslulega kórrétt skipunarbréf eða virðulegar vígsluathafnir, heldur einföld auglýsing. En eins og þeir vita sem lesið hafa umrædda auglýsingu þá er fróðlegt að sjá að hún fjallar í raun um eitt helsta vandamála skjalasafna enn í dag, þ.e. um geymslumál, því þar var svo fyrir mælt, að skjalasöfn landshöfðingja, stiftsyfirvalda, amtmanns yfir Suður- og Vesturamti, biskups, landfógeta og hins umboðslega endurskoðanda skyldu geymd hvert í sínu herbergi á kirkjulofti Dómkirkjunnar í Reykjavík. Þessi tíð einfaldleikans er því miður löngu horfin.

Þessi dularfulli staður, kirkjuloft Dómkirkjunnar í Reykjavík, hefur reynst söguleg undirstaða menningarlífs landsins. Þetta þrönga húsnæði hafði áður hýst stiftsbókasafnið, fyrsta tilverustig Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, svo og forngripasafnið, hina upphaflegu mynd Þjóðminjasafnsins, auk þess sem Hið íslenska bókmenntafélag átti þar lengi húsaskjól. Því má segja að undir súðum dómkirkjunnar hafi verið lagður grunnurinn að nokkrum merkustu menningarstofnunum sem við Íslendingar státum okkur af í dag.

Nú er langt um liðið frá því Hilmar Finsen gaf út auglýsinguna um landsskjalasafnið 3. apríl 1882, en í grundvallaratriðum er hlutverk safnsins óbreytt. Í 1. gr. núgildandi laga um opinber skjalasögn segir: „Markmið laga þessara er að tryggja myndun, vörslu og örugga meðferð opinberra skjala með réttindi borgaranna, hag stjórnsýslunnar og varðveislu sögu íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi.“ Af þessu er ljóst, að safnið geymir ekki aðeins sögulegan vitnisburð, heldur einnig gögn sem geta haft mikla þýðingu í samtímanum varðandi réttindi og skyldur stjórnvalda jafnt sem þegna landsins, og sem geta þannig verið lifandi þáttur í daglegu lífi Íslendinga.

Það er líklegt að fyrsti landsskjalavörðurinn, Jón Þorkelsson magister, mundi undrast þær gífurlegu breytingar sem hafa orðið á safninu á marga vegu. Hann mundi furða sig á þeirri fjölbreytni gagna, sem er að finna í safninu í kílómetravís af skjalaöskjum frá um 1000 aðilum – ráðuneytum, ríkisstofnunum, embættum og fyrirtækjum og félögum sem njóta opinberra styrkja. Meðal gagna eru ekki aðeins skjöl unnin á pappír, heldur einnig uppdrættir, ljósmyndir, filmur, örglærur, hljóðupptökur, gataspjöld, segulbönd, geisladiskar og önnur hliðstæð gögn og loks stafræn gögn, sem eiga eftir að verða framtíðarform varðveislu gagna í öllum skjalasöfnum. Gildi þessara gagna fyrir „réttindi borgaranna, hag stjórnsýslunnar og varðveislu sögu íslensku þjóðarinnar“ eru ótvíræð og óumdeild og ber að varðveita við bestu aðstæður.

Það eru aðrir til þess hæfari en ég að rekja sögu afmælisbarnsins og greina frá helst verkefnum þess. Frá því að ég tók við embætti mennta- og menningarmálaráðherra 11. janúar hef ég verið önnum kafinn við að kynnast þeim málaflokkum, stofnunum og sjóðum sem undir ráðuneytið heyra. Þjóðskjalasafn Íslands var önnur stofnunin sem ég heimsótti, og vil ég ítreka þakkir fyrir þær góðu viðtökur og kynningu sem ég fékk þá á málefnum safnsins. Það var gott veganesti inn í frekari umræður um málefni safnsins.

Á tyllidögum sem þessum reyna menn oft að stíga á stokk og strengja heit. Stjórnmálamönnum er það ekki holl iðja, en þrátt fyrir það vil ég ítreka tvennt sem ég nefndi í heimsókn minni hingað í lok janúar sl.:

- Ég hef engan hug á að nýta þá heimild sem er að finna í fjárlögum þessa árs til að selja húsnæði Þjóðskjalasafnsins.

- Ég mun leitast við að stuðla að því eftir megni að framkvæmdaáætlun um endurbætur og uppbyggingu í þágu Þjóðskjalasafnsins nái fram að ganga.

Að lokum óska ég Þjóðskjalasafni Íslands og starfsfólki þess alls velfarnaðar í störum sínum og megi safnið halda áfram að dafna í framtíðinni.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum